Helgarpósturinn - 19.12.1985, Blaðsíða 35

Helgarpósturinn - 19.12.1985, Blaðsíða 35
ur. Úr hinni pólitísku veröld getur Jónas sagt frá mörgu og misjöfnu. Kemur í þeirri um- fjöllun glöggt fram aö öfundin er ævinlega nærri ef einhver gerir eitthvað vel og er þá grunnt hjá mörgum á lítilmennskunni og smásálarhætti — og vel að merkja — slíkt fer ekki eftir flokksböndum. Fróðlegar eru frá- sagnir hans af þátttöku í að útbreiða málstað íslands í þorskastríðinu 1972-3, þegar hann fór oftar en einu sinni til Bretlands til að tala á fundum og taka þátt í sjónvarpsþáttum sem mikla athygli vöktu. En Jónas er líka rithöfundur, höfundur frá- söguþátta, viðtalsbóka og síðast en ekki síst höfundur leikrita og söngtexta. Mér finnst hann vera furðu fáorður um þennan þátt í starfi sínu. Fyrir því má svo sem finna þau rök að löngu eftir að allir eru búnir að gleyma að Jónas hafi setið á þingi mun fólk syngja vísur hans úr Jörundi og fleiri leikritum auk ann- arra vísna sem hann hefur ort við írsk og ensk lög, svo ekki sé gleymt textunum við lög Jóns Múla sem sumir eru svo mikil þjóðar- eign að enginn man hver orti (t.d. Einu sinni á ágústkvöldi og Úti er alltaf að snjóa...). Og það er líka víst að leiklistarlíf á Islandi verður orðið helaumt þegar ekki er einhverstaðar verið að sýna eitthvert leikverka Jónasar. Því má svo sem segja að óþarfi sé að fjasa um slíkt. Hinsvegar verður honum leikstarfsem- in tilefni til að segja frá skemmtilegu fólki sem hann hefur kynnst í kringum hana. Það er sama hvernig er undið og snúið, fyrst og síðast er Jónas Arnason skemmtileg- ur sögumaður, sem kann þá list að segja sögu með þeirri hæfilegu blöndu af gamansemi og alvöru sem einkennir alla góða sagna- menn. I þessu samhengi er afrek skrásetjar- ans ekki hvað síst, því það er hægara sagt en gert að endurlífga góða frásögn á pappír, til þess þarf fleira en segulband, ritvél og blöð. G. Ást. Lífiö er leikur Eðvard Ingólfsson: Sextán ára í sambúð Æskan 1985. Þessi saga er sjálfstætt framhald Fimmtán ára á föstu, metsölubókar frá í fyrra, enda er söguþráður hennar rifjaður upp í megin- atriðum á fyrstu blöðum þessarar bókar. í fyrra var skilið við þau Árna og Lísu á kross- götum: hún var orðin ófrísk og þau Árni voru búin að fá íbúð. Og nú semsé flytja þau inn í kjallaraíbúð inni í Efstasundi og fara að búa. Sextán ára í sambúð og barn í vændum. Persónur eru að mestu hinar sömu og síðast, Árni og Lísa, vinirnir Jonni og Sigga, Dóra tildurrófa, systir hennar Lísu, móðir hennar, og pabbinn, flugmaðurinn, auk Gunnars, bróður hennar og loks Einar kaupmaður. Nú kemur til sögunnar Maríanna, búðarstelpa hjá Einari, æsandi og svöl, en bezta skinn; hún gegnir því hlutverki að gera Lísu af- brýðisama og sýnir hverri staðfestu Árni býr yfir, þegar freistingarnar steðja að honum. Þessi saga byrjar að haustlagi og lýkur í marz árið eftir þegar barnið er borið í heim- inn. Sitthvað drífur á dagana. Árni vinnur í búðinni hjá Einari, Lísa er í MH og gengur allvel þótt hún sé ólétt. Taugaveiklunin ber móður hennar ofurliði og hún reynir að svipta sig lífi, en bjargast naumlega og fær bót á veikindum sínum, að nokkru leyti að minnsta kosti. Vinirnir koma í heimsókn, unglingarnir fara á böll og vinsældalisti Rás- arinnar glymur í eyrum. Unga fólkið á sínar erfiðu stundir í sambúðinni, en Árni og Lísa leysa sín vandamál af stakri prýði, barnið fæðist og framtíðin blasir við. í fyrra sagði ég eitthvað á þá lund um Fimmtán ára á föstu, að mér fyndust lausn- irnar einum of auðveldar. Þar voru alvarleg vandamál á ferðinni, sem fengu skjóta og góða úrlausn. Þessu er líkan veg háttað í þessari sögu. Árni og Lísa eru naumast eins og unglingar yfirleitt. Ábyrgðartilfinning þeirra er miklum mun meiri en almennt tíðk- ast, og hvaða heimili lifir á tekjum eins verzl- unarmanns þótt húsaleiga sé ofurmáta sann- gjörn? Nú má víst segja, að unglingasögur eigi ekki að vera samsafn einhverra óleysan- legra vandamála, einn allsherjar táradalur. En það þarf að finna einhvern milliveg. Hér er sambúðin beinlínis heillandi, eftirsóknar- verð sextán ára unglingum. Maríanna er einhvers konar mótvægi við þau Árna og Lísu. Hún er bráðfalleg stúlka eins og Lísa, lífsreynd, miðað við aldur og hefur látið eyða fóstri vegna þess að heimilis- aðstæður hennar voru bágbornar. En hún breytist í sögunni, róast og stefnir út í lífið undir nýjum seglum bjartsýni pg breyttra lífsskoðana, kannski fyrir áhrif Árna. Eðvarði Ingólfssyni er mikið niðri fyrir og hann flytur unglingum ákveðinn boðskap: trú, bindindi, heiðarleika og ábyrgð. Og hann getur líka prýðilega sagt sögu. Það er ekki svo lítið. Á hinn bóginn held ég, að pers- ónur hans séu of einhliða til þess að boðskap- urinn komist til skila. Árni og Lísa aðhafast ekkert í sögunni, sem ekki er til fyrirmyridar. Þau bregðast við öllum vandamálum eins og fólk, sem margt hefur reynt. Ákvarðanir þeirra eru fumlausar og réttar. Vinir þeirra Jonni og Sigga eru í einhvers konar haltu- mér-slepptu-mér-sambandi en eru að öðru leyti nauðalík Árna og Lísu. Víst væri gott í henni veröld, ef allir brygðust við á líkan máta. En kannski er það vegna alls þessa, sem bækur Eðvarðs falla unglingum svo vel í geð: vandamálin leysast, gufa upp eins og dögg fyrir sólu og fá farsæla lausn. Og þó hygg ég, að lesendur séu einkum 12—14 ára. Mér finnst eitt aðfinnsluvert við sögur Eðvarðs: þær eru um of skrifaðar fyrir líð- andi stund. Popptónlist dagsins bergmálar á síðum bókarinnar, unglingar á morgun og hinn fussa við því öllu. En það er kannski tímanna tákn, að hver kynslóð semji bækur bara handa sér. Mér finnst Eðvarð skrifa um of fullorðins- legan stíl fyrir unglinga. Hann er föðurlegur, og fyrir vikið verður gáski krakkanna hálf- innantómur. Þeir tala vandað mál, sem sízt ber að lasta, en mér finnst þeir sums staðar of ráðsettir. Málvillu fann ég aðeins eina: menn fá leiða á einhverju, ekki leið. Frá hendi forlagsins er vel að þessari bók staðið. Hún er traustlega bundin, letur skýrt og prentvillu fann ég aðeins eina. Ævi mynd- höggvara Elín Pálmadóttir: Gerður. Ævisaga myndhöggvara. 234 bls. Almenna bókafélagið 1985. Mósaikmyndin utan á Tollstöðinni við Hafnarstræti er álíka óaðskiljanlegur hluti svipmóts Reykjavíkur og sólarlagið, hvort heldur sem er við Keili á þessum árstíma eða í Flóanum á sumartíð. Eða kannski eins og Esjan. Eg hugsa að mönnum yrði álíka við ef myndin hyrfi einn góðan veðurdag eins og ef sólarlagið eða Esjan hyrfi. En það er nú einu sinni svo undarlegt með skynjun okkar að stundum tökum við meira eftir því sem ekki er til staðar en því sem er í kringum okkur, og sumu sem er í kringum okkur veit- um við ekki athygli fyrr en það er horfið. Ekki veit ég hvort íslendingar eru verr upp aldir en aðrar þjóðir á sviði sjónmennta, þó oft sé slíku haldið fram, en hinn er víst að þeir eru og undarlega sinnulitlir um um- hverfi sitt. Þess vegna vekur það frekar furðu manns en aðdáun að til skuli hafa verið menn sem hafa haft rænu á því að láta skreyta byggingar, einkum ef þær eru í eigu opinberra aðila. Myndin á tollstöðvar- veggnum verður ævinlegt minnismerki um slíka menn (og öðrum til háðungar) um leið og hún ber vitni um óvenjulegan og stórbrot- inn listamann. Þó ekki væri nema fyrir þessa einu mynd þá væri full ástæða til að skrifa ævisögu þess listamanns og hafa ævisögur verið færðar í letur af minna tilefni. Ég held að almenningur á íslandi sé frem- ur fáfróður um ævi og listferil Gerðar Heiga- dóttur. Ástæðan er fyrst og fremst sú að hún vann næstum allt sitt ævistarf á erlendri grund, þó hér séu nokkur verk eftir hana á opinberum stöðum, en auk Tollstöðvar- myndarinnar eru þekktustu verk hennar hér steindir gluggar í nokkrum kirkjum, svo sem í Kópavogskirkju, Skálholtskirkju og í Saur- bæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Auk þess eru mörg verk eftir hana varðveitt í Lista- safni Kópavogs, en það er að stofni til minn- ingargjöf frá ættingjum Gerðar. En þessar myndir segja ekki nema hálfa söguna. Á sjötta áratugnum var hún í hópi framsæknustu myndlistarmanna í Evrópu og vakti mikla athygli með brautryðjendastarfi á sviði höggmyndalistar. Reyndar sakna ég þess að listfræðilega þættinum í ævistarfi Gerðar séu ekki gerð sérstök skil í ævisög- unni því fyrir aula í myndlistarsögu nútímans eins og mig þarf að útskýra svolítið mikið. Vonandi að ráðin verði bót á því sem fyrst. Reyndar fer að verða full þörf á að halda áfram með ritun íslenskrar myndlistarsögu þar sem Björn Th. hætti í öðru bindi íslenskr- ar myndlistar, þannig að hægt sé að fletta upp á einum stað sögu myndlistar hér á landi síðustu fjörutíu ár eða svo. Séður úr svolítilli fjarlægð þá er æviferill Gerðar um margt svipaður æviferli margra listamanna sem náð hafa langt, barátta upp á líf og dauða til þess að fá að stunda list sína. Þegar við bætist að hún er kona gerir það bar- áttuna ekki auðveldari. En það er einnig margt sem er sérstætt við ævi Gerðar. Það er sérkenni á þessari ævisögu að höf- undurinn var vinkona listamannsins og hún fer ekkert dult með það. Einnig hefur höf- undur aðgang að einkabréfum sem Gerður ritaði föður sínum, en milli þeirra var ein- stakt trúnaðarsamband, og einnig hefur hún aðgang að bréfum sem Gerði voru skrifuð. Þetta allt gerir frásögn Elínar persónulega og nákomna. Hún bregður upp mjög Ijósri mynd með hæfni langþjálfaðs blaðamanns af manneskju sem hún nauða þekkir og þyk- ir auk þess vænt um. En hún hefur einnig leitað fanga hjá fólki sem umgekkst Gerði í útlöndum, bæði fyrr og síðar. Lesandi hefur það því á tilfinningunni að flest hafi verið sagt á þessa bók um ævi Gerðar sem máli kann að skipta og að höfundur hafi þar gætt fullrar hreinskilni. Framan af er rakinn ferill hennar við nám bæði hér heima og erlendis. Barátta hennar og fjölskyldunnar við að standa straum af kostnaði við námið. Síðan er fjallað um störf hennar og einkalíf, en þegar á líður er meira rakinn ferill þeirra viðfangsefna sem hún er að fást við. Er þar að finna marga undarlega sögu um samskipti við landa hennar sem sýna stundum undarlegt listrænt rænuleysi þeirra. G.Ást. Minnisverð minningabók Inga Huld Hákonardóttir og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir: LÍFSSAGA BARÁTTUKONU. Vaka - Helgafell 1985. Það er orðinn dávænn hópur fólks ár hvert sem bókaútgefendur heiðra með útgáfu á endurminningum þess, og Aðalheiður Bjarn- freðsdóttir er óumdeilanlega vel að þeim heiðri komin; hún er í hópi þess samtíðar- fólks sem þjóðin hefur ekki komist hjá að taka eftir og finna að hún sker sig úr, er eng- inn hversdagsmaður þótt mótuð sé í ströng- um skóla hversdagslífsins. Inga Huld Hákonardóttir er sagnfræðing- ur að mennt (og hefur sem slíkur lagt sig eftir kvennasögu sérstaklega), margreyndur blaðamaður (með ,,portrettviðtöl“ að sér- grein á því sviði) og hefur ritað viðtalsbók áður, en þá samsetta, þ.e. við marga viðmæl- endur. Hún má því heita byrjandi á sviði minningaritunar af þessari gerð, en hið besta undir búin, enda stenst handverk hennar samanburð við verk viðurkenndra minn- ingaritara. Raunar getur ritdómari ekki, frekar en annar lesandi, skipt með neinni vissu milli heimildarmanns og skrásetjara heiðrinum af góðri minningabók. Það er svo misjafnt hve náið er hægt að fylgja frásagnarhætti heim- ildarmanns svo að vel fari á, og misjafnt hve sjálfráður skrásetjari verður um val og til- reiðslu efnis. Það getur verið að Aðalheiður sé auðveldur sögumaður. Hins vegar er hér í bókinni valin mjög erfið efnismeðferð að því leyti hve miklu af skoðunum og útlegg- ingum, jafnvel nærri því ræðuhöldum um daginn og veginn, er ofið inn i hinar beinu minningar. Það tekst mætavel og hlýtur að vera vitnisburður um mikla íþrótt skrásetj- arans, er samkvæmt eftirmála vinnur þar öðrum þræði úr blaðaskrifum Aðalheiðar sjálfrar og blaðaviðtölum við hana. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir hefur verið í sviðsljósi í réttan áratug, síðan hún kom fram sem ræðumaður á kvennafrídaginn. Frá þeim degi er farið að segja rétt í miðri bók, þannig að hún gerist að hálfu á kvennaára- tugnum, og er það öldungis óvenjulegt að minningabók sé svo mikil samtímasaga. Raunar svo mikil samtímasaga að síðari helmingur hennar er að miklu leyti umræða um óleyst málefni samtímans (kvennahreyf- ingarinnar, verkalýðshreyfingarinnar, fé- lagslegrar samhjálpar o.s.frv.), studd lifandi upprifjun frá kjarasamningum, ASÍ-þingum, hversdagsstarfi verkalýðsleiðtoga o.s.frv. Þetta er meginefni bókarinnar. Fyrri helm- inginn, sem er minningarakning af miklu venjulegra tæi, ber að meta í ljósi þess hve vel hann undirbyggir framhaldið, og hann gerir það mætavel. Ferill Aðalheiðar sem óþekktrar alþýðukonu í rösk 50 ár er prýði- legt söguefni. Hann er umskiptaríkur; hún hefur víða búið, margt starfað, margar svipt- ingar reynt í einkalífi; ein af 20 börnum sár- fátækra sveitahjóna; verkakona í Vest- mannaeyjum, húsmóðir; berklasjúklingur á Vífilsstöðum; fátæk erfiðiskona í Reykjavík, bæði gift og fráskilin; húsmóðir í sveit og aft- ur Reykjavík. Og þó er þetta saga sem gefur kost á næsta samfelldum grunntóni: fátækt, erfiði og örðugleikum alþýðufólks. Þetta verður því mikil stéttarsaga. En alls ekki neinn vellulegur harmagrátur; þvert á móti rís Aðalheiður hvarvetna yfir atburðarásina sem sú óbugandi hressleikakona; lesandinn fær af henni þau kynni sem til þarf að undir- byggja viðhorf hennar og boðskap í seinni helmingnum bókarinnar. Boðskapur Aðalheiðar er ekki alltaf pott- þéttur eða þaulhugsaður. Ég tek dæmi af bls. 203: „Sama pexið. Það er alltaf spurt: ,,Af hverju fœr hann meira en ég?“ í staðinn fyrir: „Afhverju borga atvinnurekendur okkur öil- um svona lítið?““ Gott og vel, þetta er sjónar- mið. En bókstaflega í næsta orði er Aðalheið- ur hætt að hugsa um hlut launþega sem heildar og sjálf farin að „pexá' um skipting- una milli þeirra innbyrðis: „Launamisréttið er blettur á samfélaginu og fer vaxandi. Þeir sem hafa besta aðstöðu berjast bara fyrir sig. . .“ En þetta er bara að- ferð Aðalheiðar. Hún hefur vit og þekkingu til að sjá báðar hliðar á vandasömum mál- um, en það á ekki við hana að tvístíga yfir þeim með neinu „hinsvegar" og „þráttfyrir- þaði“, heldur leggur hún fullan þunga í bæði sjónarmiðin. Þunginn er ævinlega mikill í skoðunum hennar, oft stutt í réttláta reiði, en það er heldur aldrei um að villast hlýleikann og hjartagæskuna. Þess vegna getur útgef- andi með vissum rétti tekið svo risastórt upp í sig á kápunni að bókin sé „mannbætandi lestur". H.S.K. HELGARPÓSTURINN 35

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.