Helgarpósturinn - 19.12.1985, Blaðsíða 36

Helgarpósturinn - 19.12.1985, Blaðsíða 36
„Lífshrollvekja“ segir Sigurður Pálsson um jólaleikrit sjónvarpsins, Bleikar slaufur, eftir Steinunni Sigurðardóttur. Jólaleikrit sjónvarpsins í ár verð- ur Bleikar slaufur eftir Steinunni Sigurðardóttur. Áður hefur verið sýnt eftir hana í sjónvarpinu verkið Líkamlegt samband í Norðurbœn- um. Sigurður Pálsson leikstýrir, að- alhlutverkin í höndum Eddu Björg- vinsdóttur, Guðlaugar Maríu Bjarnadóttur, Eggerts Porleifssonar og Haralds G. Haralds. Auk þeirra sýna sig fjölmargir á skerminum, í stórum og smáum hlutverkum, þ.. á m. heilu barnaskararnir því ein aðalpersónan er stöðugt ólétt, og slangur af fjölmiölungum fœr að ryðja í sig snittum. I þeim þakkláta hópi er einn af núverandi blaða- mönnum HP og nokkrir fyrrver- andi. HP gerði tilraun til að hlera þau Steinunni og Sigurð út á hvað verkið gengi en þau vörðust frétta og voru mjög dularfull. ,,Eg vil segja sem minnst," sagði Steinunn. ,,En ég er klár á því að sitt sýnist hverjum um hvað ég er að fara. Ég vona það að minnsta kosti!" Steinunn kvað verkið gjörólíkt Líkamlegu sambandi í Norðurbœn- um. Það leikrit hefði fyrst og fremst verið lýsing á ástandi en engin sér- stök áhersla verið lögð á söguþráð. I Bleikum slaufum væri aftur á móti alveg hörkuatburðarás. Þar fyrir ut- an væri verkið stutt og laggott, að- eins 45 mínútur, sem er mjög óvenjulegt af íslensku sjónvarpsleik- riti að vera. Verkið rokgengi, allt byggt upp á stuttum atriðum. ,,I leikritinu leika tvær af okkar helstu kómísku kanónum, Edda Björgvinsdóttir og Eggert Þorleifs- son,“ sagði Steinunn. ,,Það hlutverk sem Eggert leikur er gjörólíkt öllu því sem ég hef áður séð til hans. Eggert og Guðlaug María leika þarna hlutverk sem ég held að hljóti að vera það allra erfiðasta fyrir leik- ara: fólk sem á ytra borðinu er óskaplega venjulegt, þótt það hafi kannski dálítið óvenjulega afstöðu. Maðurinn sem Eggert leikur virðist vera laus við nevrósur, hvað þá ann- að! Það er afskaplega þakklátt að leika aumingja eða kryppling, en svona venjulegt fólk eins og þau leika held ég að séu alveg síðustu sortir af hlutverkum. Verkið er skrýtið að því leyti að þar er svo ofboðslegur barnaskari. Steinunn og Sigurður. Eftir því sem líður á myndina verður skermurinn troðnari af börnum." Sigurður Pálsson kvað Bleikar slaufur vera fremur lífsglatt verk, þó væri ef tH vill nær að segja að í því væri ákveðin lífshrollvekja, lífshroll- inum stefnt gegn dauðahrollinum. „Mótorinn sem trekkir fjaðrirnar upp er m.a. peningar. Mjög dregur til tíðinda og ég er ekki frá því að ýmislegt komi á óvart,“ sagði Sig- urður afar leyndardómsfullur. JS KVIKMYNDIR Beint í hjartastad Stjörnubíó: Silverado. ★★★ Bandarísk. Árgerð 1985. Framleiðandi og leikstjóri: Lawrence Kasdan. Handrit: Lawrence og Mark Kasdan. Kvikmyndun: John Bailey. Tónlist: Bruce Broughton. Aðalhlutverk: Kevin Kline, Scott Glenn, Kevin Costner, Danny Glover, John Gleese, Linda Hunt, Brian Dennehy, Rosanna Arquette, Jeff Goldblum. Vestrinn virðist vera í miklum uppgangi eftir brokkgengan lífsferil síðustu áratuga. Það er ánægjuleg þróun því vestramyndir eru meðal elstu hefða í kvikmyndasögunni og margar af perlum kvikmynda gegnum tíðina einmitt vestrar. Sá vandaði leikstjóri Lawrence Kasdan (Body Heat, The Big Chill) býður nú bíógest- um upp á stórbrotinn vestra sem sækir hefðir í tvær áttir; hinn rómantíska hetjuvestra fimmta og sjötta áratugarins með tilheyrandi skrauttónlist (í anda Hawks og Ford) og hinn kómíska vestra andhetjanna (eins og t.d. Butch Cassidy og Sundance Kid). Þessi blanda tekst ágætlega; myndin verður bæði spennandi og fyndin. Mikið stjörnulið ólíkra leikara kemur saman í þessari mynd. (Hver hefði t.d. trúað því að Kevin Kline, Scott Glenn, John Gleese og Linda Hunt myndu passa saman í sömu mynd?) Atburðarásin er einnig hefðbundin; saga óstýrilátra bræðra sem hreinsa ti! í valdaspilltum bæ, Silverado, sem stjórnað er af óðalseiganda og bófaflokki hans. Þarna eru sem sagt góðu og vondu kúrekarnir á ferð og einnig allar þær aukapersónur sem góður vestri býður upp á. Kasdan segir þessa sögu af lipurð og hraða en það er einna helst um miðbik myndarinnar að hann flækir þræðina enda persónurnar orðnar æði margar og tengsl þeirra á milli flókin og nokkuð óskýr. En leikstjórinn leysir úr þeirri fiækju í lokin með útilokunaraðferðinni. Bang, bang, mynd sem hittir í hjartastað. ' —1M Eins og viö var að búast Bíóhöllin; Grallararnir (Goonies): ★★ Bandarísk. Árgerð 1985. Framleiðandi: Steven Spielberg. Leikstjóri: Richard Donner. Handrit: Chris Columbus, eftir sögu Steven Spielberg. Tónlist: Dave Grusin. Aðalleikarar: Sean Astin, Josh Brolin, Jeff Cohen, Corey Feld- man og margir fleiri. Spielberg má fara að vara sig. Uppskriftin er að sönnu snjöll, en það er jafn Ijóst að mönnum leiðist sama kryddblandan til lengdar. Goonies er í engu öðruvísi en áhorfandinn gat búist við. Hæfilega klikkað ævintýri hendist áfram. Leikararnir hafa varla við því. Núna er lagt af stað niður í aldagömul göng, sem geyma margt. Saklausir krakkar fara fyrst. Þar á eftir illa þenkjandi pakk. Spenna. Þessi mynd líður fyrst og fremst fyrir of mikinn yfirgang. Svaka gamni er þjappað á allt of stuttan tíma til að gaman sé af því. .. Sagan er jafnframt í það vitlausasta á köfl- um. Höfundar hafa ekki kunnað sér hóf. Leikstjórinn gleymir því hæga, til að vega upp hraðann. Hinu verður samt ekki litið framhjá, að tæknivinnslan er, eins og alltaf, framúrskar- andi. En það ku þurfa meira. Tildæmis sjarma. Einkum og sér í lagi vegna þess að hér eru það börn sem sitja og horfa á lætin. Þau gera kröfur. Meiri en marga grunar. -SER. >» I tímans rás... Laugarásbió: Back to the future. (Aftur til framtíðar) ★★★ Bandarísk. Árgerð 1985. Framleiðendur: Bob Gale og Neil Canton á vegum Steven Spielberg. Leikstjórn: Robert Zemeskis. Handrit: Robert Zemeskis og Bob Gale. Aðalhlutverk: Michael J. Fox, Christopher Lloyd, Lea Thompson, Crispin Glover o.fl. Kannast einhver lesenda við kvikmyndina Escape to Nowhere frá árinu 1959? Nei, það var kannski ekki von. Hér er nefnilega um að ræða frumraun 12 ára snáða á kvik- myndasviðinu. Fyrstu kvikmynd sína af fullri lengd (Firelight, 1969) gerði hann hinsvegar ekki fyrr en hann var orðinn 16 ára gamall! Þegar síðan þessi „Mozart" nútíma banda- rískrar kvikmyndagerðar gerði sér lítið fyrir og sló út sölumet ,,Gone With the Wind" og „Sound of Music" á einu bretti, með 120 milljón dollara ágóða af mynd sinni „Jaws" (1975), þá er óhætt að fullyrða að framtíð hans í kvikmyndabransanum hafi endanlega verið borgið. Og enn malar draumaverksmiðja Spiel- bergs gull. Að þessu sinni hefur hann fengið til liðs við sig Robert Zemeskis (m.a. Ro- mancing the Stone) og ekki virðist útlit fyrir annað en að sú samvinna komi til með að ''gefa af sér einn og annan silfurdal í aðra hönd, eins og velflest annað, er þessi ævin- týralegi meistari nútíma afþreyingamynda- gerðar lætur frá sér fara. Back to the Future fjallar um unglinginn Marthy (Michael J. Fox) og kynni hans af hin- um snarpgáfaða en jafnframt fram úr hófi stórfurðulega. Dr. Emmet Brown (Christo- pher Lloyd). Doktor þessum hefur af mikilli þrautseigju og eljusemi tekist að hanna fá- dæma tækjabúnað, sem er þeim ágætu kost- um búinn að geta flutt viðkomandi að því er virðist óhindrað fram og aftur í bæði tíma og rúmi. Við komum inn í söguna kvöld nokk- urt þegar doktorinn hefur ákveðið að prufu- keyra þennan kostagrip og biður hann Marthy um að aðstoða sig við undirbúning jómfrúferðarinnar. Það tekst þó ekki betur til en svo, að það er Marthy sem fyrir slysni fer þessa ferð í stað kumpána síns. Hann enda- sendist m.ö.o. ein 30 ár aftur í tímann, eða til þess tíma er hann í raun er ekki fæddur í þennan heim. Og ekki nóg með það: honum hefur að auki láðst að taka með sér nóg elds- neyti til að komast til baka. Það hiýtur því að verða hans fyrsta verk að leita uppi dr. Brown, sem nú er að sjálfsögðu 30 árum yngri og á eins og gefur að skilja ósköp bágt með að trúa þeim tröllasögum, er honum eru færðar yfir landamæri rúms og tíma, af ókomnum afrekum hans sjálfs og annarra mikilmenna framtíðarinnar: Hver hefði s.s. trúað því 1955, að Ronald Reagan ætti eftir að verða kjörinn forseti Bandaríkja Norður- Ameríku? Drengnum tekst þó um síðir að sannfæra dr. Brown um mikilvægi þess, að hann kom- ist aftur til framtíðarinnar, en áður en yfir lýkur hefur gengið á ýmsu í samskiptum hans við aðra íbúa bæjarfélagsins. Hann kynnist m.a. ungu fólki, sem síðar á eftir að verða foreldrar hans, og ekki nóg með það, heldur verður móðir hans svo yfir sig ást- fangin af honum að til stórra vandræða horf- ir. Hér er um að ræða fyrsta flokks afþreying- armynd og sem slík er hún í alla staði ágæt- lega vel úr garði gerð. Hugmyndin er bráð- snjöll og handritið prýðilega vel unnið. Það er því lítið mál fyrir leikara á borð við Christopher Lloyd að skila hlutverki sínu sómasamlega, enda fer hann á kostum í hlut- verki dr. Browns. Sömu sögu er að segja um bæði kvikmyndatöku og hljóðvinnslu mynd- arinnar. Hvort tveggja er í anda Spiel- bergs. . . einfaldlega óaðfinnanlegt. Ó.A. Píslarsaga viktoríansks homma Regnboginn: Another Country (Annað föð- urland). •kirk Bresk. Árgerð 1984. Framleiðandi: Alan Marshall. Leikstjórn: Marek Kanierska. Handrit: Julian Mitchell. Tónlist: Michael Storey. Aðalhlutverk: Rubert Everett, Colin Firth, Michael Jerr, Robert Addie o.fl. Kvikmyndin Another Country, sem byggð er á samnefndu leikriti Julian Mitchels hefur víðast hvar vakið töluverða athygli og hlaut hún m.a. á sínum tíma sérstök verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir listrænt handbragð. Myndin hefst í Moskvu árið 1983. Þar býr Guy Bennet, upphaflega breskur ríkisborg- ari, en núorðið staddur í útlegð þar í borg vegna meintra njósna sinna fyrir sovésk stjórnvöld. Bennet, sem orðinn er tiltölulega aldurhniginn býr í heldur óhrjálegum vistar- verum í höfuðborg stórveldisins. Þegar sag- an hefst er stödd hjá honum vesturlensk blaðakona og fyrir henni rekur hann tildrög þess að hann á sínum tíma gerðist föður- landssvikari. Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég á þessum síðum grein um eina af kvikmyndum Júgó- slavans Dusan Makavejevs og gat þess þar m.a. hvaða þýðingu sálfræðikenningar Aust- urríkismannsins Wilhelm Reichs hefðu haft fyrir kvikmyndir hans: „Kenningar Reichs byggjast í stuttu máli á því, að hann álítur að pólitík sé ekkert annað en framlenging á hvatalífi mannskepnunnar og að það sé sam- band á milli kynferðislegrar bælingar og pólitískrar undirokunar." Hvort sem Julian Mitchel hafði kenningar Reichs í huga eður ei, þegar hann skrifaði verk sitt, þá er ekki úr vegi að hafa þær til hliðsjónar við nánari greiningu myndarinn- ar. Þær geta alltént skýrt margt bæði í fram- komu og eðli Guy Bennets, sem að öðrum kosti er hætt við að skolist til, ellegar fari að öðru leyti fyrir ofan garð og neðan hjá áhorf- endum myndarinnar. Saga sú, er Bennet rekur fyrir blaðkon- unni, gerist árið 1930 á háviktoríönskum heimavistarskóla, þar sem hann sjálfur, ásamt öðrum yfirstéttarungmennum og til- vonandi máttarstofnum þjóðfélagsins, er' önnum kafinn við að búa sig undir lífsbarátt- una. Innan skólaveggjanna ríkir sami stirð- busaháttur varðandi stéttaskiptingu og tign- argráður og síðar meir mun mæta ungmenn- unum, þá er þeir halda út í þjóðfélagið að lokinni skólagöngu. Æðsti draumur hins unga Bennets er að fá einhverntíma í framtíðinni að gegna stöðu sendiherra Bretaveldjs í París. En litlar líkur eru á að sá draumur nái að rætast, nema að hann nái tilskyldum metorðum innan valda- kerfis stofnunarinnar áður en skólagöngu hans lýkur. Og það er einmitt hér sem ofan- greindar kenningar Wilhelm Reichs koma inn í myndina; Bennet er hómósexúell. . .! Þegar hann var fjórtán ára gamall hafði faðir hans einu sinni sem oftar... eins og lög gera ráð fyrir haft samlag við móður hans. Hon- um tókst hinsvegar ekki betur til en svo í það skiptið, að hann fékk hjartaáfall í miðjum klíðum, og lést á staðnum, með þeim afleið- ingum að móðir Bennets mátti sig hvergi hræra og varð hún því að leita aðstoðar son- ar síns við að komast, úr klípunni. Af ofangreindu má vera ljóst að frama- möguleikar Bennets eru harla litlir og staða hans því í raun álíka vonlaus og staða sálu- sorgara hans og herbergisfélaga Tommy Judd. Hann er yfirlýstur kommúnisti, og er að auki svo óforskammaður að fara á engan hátt leynt með skoðanir sínar í þeim efnum. Another Country er bæði efnislega og tæknilega framúrskarandi vel gerð kvik- mynd og ekki kemur að sök að bæði Rubert Everett og Colin Firth, og í raun leikhópur- inn í heild, fara svo afburða vel með hlutverk sín, að unun er á að líta. Hitt er svo annað mál, að sumum þykir myndin e.t.v. heldur Iangdregin á köflum og kannski ekki að ósekju, en á hinn bóginn vegur að mínu mati stórgóð kvikmyndataka og með afburðum fagmannlega unnin sviðsetning fyllilega upp þá vankanta, sem að öðru leyti kunna að vera á gerð myndarinnar. 36 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.