Helgarpósturinn - 23.10.1986, Blaðsíða 17
'sfé&kkk :i *■.-, *f- <
«££«&$ %■ xv »,»>."
■ ilmmlt&éi
af þessu berst talið að franska prófessornum
Regis Boyer sem hefur verið manna ötulastur
við að þýða íslenskar bókmenntir að kynna í
heimalandi sínu.
„Já, hvað felst í því að vera íslandsvinur?" spyr
Gérard svolítið háðskur. „Það er einn íslands-
vinur í hverju landi, en það þarf ekki að þýða að
viðkomandi hafi komið hingað og kynnst slor-
lyktinni. Yfirborðsþekking á landi og þjóð næg-
ir þeim kannski til að brillera í sendiráðsveisl-
um, en það hefur ekkert að gera með næmi
þeirra fyrir viðfangsefninu. Franski fslandsvin-
urinn Regis Boyer er vissulega mjög afkastamik-
ill, en aðalgallar þýðinga hans byggjast ekki á
því að hann kann ekki íslensku, — og reyndar
kann hann ekki íslensku — heldur á því að hann
hefur svipað tilfinninganæmi og mjólkurkýr."
Nú snarþagnar Gérard Lemarquis eins og hann
sé að velta því fyrir sér hvort hann eigi að bíta
sundur á sér tunguna. Bætir svo við sjálfum sér
samkvæmur: „Þegar ég tala illa um landa minn
er ég eiginlega að gera hlut sem er bannaður í
HP-viðtölum. En ég verð nú að reyna að vera
„dálítið" hrokafullur eins og allir aðrir viðmæl-
endur HP'
„ÞETTA REDDAST" OG ÍSLENSK
HÖFÐATÖLUHEIMSMET
Á snaga fyrir ofan matborðið hangir blaða-
mannapassinn skrautlegi sem prýddi brjóst-
kassa innlendra og erlendra fréttamanna dag-
ana sem leiðtogafundurinn stóð yfir. Enda tók
Gérard mjög virkan þátt í honum, bæði sem
blaðamaður Le Monde og AFP og sem gestgjafi
og leiðbeinandi franskra kollega sinna. Gérard
finnst að skipta megi viðbrögðum íslendinga
varðandi undirbúning og framkvæmd leiðtoga-
fundarins í fjögur stig. Fyrst sögðu þeir einfald-
lega: Allt í lagi, komið þið bara! Og brettu upp
ermarnar eins og þeir eru vanir að gera í vertíð-
inni. Viðbúnaðurinn á sumum sviðum hafi jafn-
vel verið full mikill, rétt eins og þegar menn búa
sig undir að taka á móti 150 tonnum af þorski en
fái síðan bara 50. Þetta leiddi síðan til „allt í
kaos-stigsins sem einkenndist af því að menn
þóttust ekki sjá út úr augunum og ýmsir óvissu-
þættir bentu til allsherjar ringulreiðar. Til henn-
ar kom þó aldrei vegna þess að „þetta reddast
einhvern veginn, skiptir ekki máli hvernig" sé
nú einu sinni slagorð íslendinga. Það var semsé
þriðja stigið og það fjórða og síðasta: „Við erum
búnir að bjarga málunum!" Sameiningin leysti
sundrunguna af hólmi og íslendingar búnir að
setja enn eitt metið miðað við höfðatölu. Gérard
segir að eiginlega þyrfti að skrifa nýja Guinnes-
bók þar sem öll met væru reiknuð út frá höfða-
tölu. Með því móti væri áreiðanlega hægt að
reikna islendingum öll heimsmetin!
„Það versta við þetta var hins vegar að lang-
flestir erlendu fréttamennirnir komu hingað á
„allt í kaos-stiginu, en skildu ekki að það var að-
eins liður í ákveðnu íslensku hegðunarmynstri,"
segir Gérard. „Og í fréttaþurrðinni fyrstu dag-
ana skrifuðu þeir mikið um upplausnina sem
þeir þóttust sjá. Þegar svo kom á daginn að öll
skipulagning reyndist frábær, fannst þeim hálf-
asnalegt að komast í mótsögn við það sem þeir
höfðu áður skrifað, auk þess sem umfjöllun um
frábæra aðstöðu og viðurgjörning væri í ósam-
ræmi við svekkjandi niðurstöður sjálfs fundar-
ins.“
Þá segir Gérard að yfirmaður sinn hjá AFP
hafi verið svo upptekinn við fréttahasarinn að
hann hafi ekki einu sinni hitt Hófí. Það hafi verið
algjört kraftaverk þar sem hún hafi þurft að vera
á vappi vestur í Hagaskóla í heila viku. Og hann
hafi ekki séð Höfða og höfnina nema í útsend-
ingu islenska sjónvarpsins.
ALBERT: KLÓKUR, GOÐUR
KJÁNI
Nú víkur talinu að nýfengnum úrslitum í próf-
kjöri Sjálfstæðisflokksins, en Gérard hefur fylgst
vel með íslenskri pólitík starfs síns vegna. Að
hans dómi minna helstu leiðtogarnir á leikend-
ur i ítölskum gamanleik, comedie dell’arte.
Þannig sé t.d. Jóp Baldvin í hlutverki „hins
klóka" sem er búinn að svíkja alla. Svoleiðis
karakterar séu nauðsynlegir til að skapa
spennu. Albert sé aftur á móti stórkostlegur fyr-
ir að hafa sameinað þrenns konar hlutverk:
hann er allt í senn „hinn góði drengur", „kjáninn
sem talar af sér" og „sá klóki". Kvennalistakon-
urnar séu í hlutverki nunnanna sem alltaf gera
lukku í itölskum gamanleik af þessari tegund, en
hann lætur ósagt hverjir séu í hlutverkum „blá-
eygðu bjánanna".
„Ég held að íslendingar séu fyrst og fremst
hræddir við að sterk ríkisafskipti takmarki um
of möguleika einstaklingsins," segir Gérard.
„Maður hefur á tilfinningunni að fólk vilji hafa
stjórnina sem veikasta og aðgerðalausasta. Þá
er lykilatriðið að hafa veikan forsætisráðherra á
borð við Steingrím: hann er dæmigerður klaufi
sem er alltaf að tala af sér. Enda er hann í miklu
uppáhaldi. Hann verður aldrei harðstjóri og
tryggir frelsi einstaklingsins. En vinsælustu póli-
tíkusarnir eru þó þeir sem geta svindlað á vin-
um sínum því draumur allra er að svindla."
Gérard Lemarquis hefur greinilega gaman af
Gérard Lemarquis
kennari og frétta-
ritari Le Monde og
AFP í HP-viðtali
að skýra og skilgreina, varpa fram kenningum.
En stundum segist hann þó hreint ekki vita hvað
hann eigi að halda.
„Þegar þannig stendur á fer ég til meistara
míns Þorgeirs Þorgeirssonar," segir hann.
„Hann er eini maðurinn sem ég þekki sem ekki
lifir í heimi sjálfsblekkingar. Hann er mannvinur
— reyndar — þó að fæstir geri sér grein fyrir því.
Hvernig sem á því stendur eru allir vinir minir
eldra fólk, ég nefni sem dæmi Herdísi Vigfús-
dóttur, Karl Guðmundsson og Aðalheiði Eliníus-
ardóttur."
Gérard hefur mikið starfað að húsfriðunar-
málum í miðborginni og líst miður á þær skipu-
lagsáætlanir sem nú eru efst á baugi hjá borgar-
yfirvöldum. Hann segist líka eiga persónulegra
hagsmuna að gæta: „Meðan ég bý hér á landi vil
ég að bæði ísland og Frakkland standi í stað.
Þess vegna er ég svo reiður út í Davíð, slátrara
borgarinnar, sem ætlar til dæmis að rífa öll hús
við Aðalstræti nema Fógetann. íslendingar vilja
breyta umhverfi sínu, en ég vil það ekki af því að
ég verð að hafa einhver kennileiti til að halda
mér í. Fyrir mér hófst saga landsins daginn sem
ég kom hingað fyrst."
BREYTINGARNAR SL. TÍU ÁR
Að lokum bið ég Gérard Lemarquis að draga
saman í stuttu máli það sem honum þykir hafa
breyst á þeim tíu árum sem hann hefur verið bú-
settur hér. Og ekki breyst. Ekki stendur á svör-
um:
„í Reykjavík eru ekki lengur græn þök eins og
voru og maður sér í gömlum kynningarbækl-
ingum. Síldin er að vísu komin aftur, en selst
ekki. Bjór var ófáanlegur og er það enn. í leik-
húsunum eru sagnfræðileg verk að leysa félags-
leg vandamál af hólmi. Fiskvinnslan stóð höll-
um fæti og gerir enn. Hótel Borg hefur tekið
margar holskeflur varðandi aðsókn. Menn gáfu
öndunum á Tjörninni brauð og gera það enn. Nú
er aldrei uppselt í bíó af því að allir eru komnir
meö vídeó. Bárujárnsklæddum timburhúsum
fækkar en bárujárnsklæddum steinhúsum fjölg-
ar að sama skapi. Áður kenndu íhaldssamir
kennarar róttækum unglingum, en nú kenna
ungir, gráhærðir vinstrisinnaðir kennarar
íhaldssömum unglingum. Reykjavík hefur feng-
ið á sig stórborgarblæ. Brennivínið er ennþá
langhagstæðasti kosturinn. Hommar og lesbíur
komu úr felum og margir aðrir komu líka úr fel-
um í samúðarskyni. Sömuleiðis fjölgaði alkóhól-
istum eins og nashyrningum í leikriti eftir
Ionesco. Veðrið hefur batnað talsvert. Alaska-
öspin er að bylta umhverfi okkar af því að hún
vex svo hratt, hún breiðist jafnvel enn hraðar út
hérlendis en bandarískt sjónvarps- og vídeóefni.
Hallærisplanið er liðið undir lok sem samkomu-
staður unglinga. Fjalakötturinn var rifinn en
Morgunblaðshöllin stendur enn. Tölvufræð-
ingar hafa yfirtekið stöðu bóndans í hjarta fólks-
ins.
Annars reddaðist þetta allt saman eins og
spáð var,“ segir Gérard brosandi. „Heimurinn er
alltaf kaos í dag, en blöðin minna okkur á að lín-
urnar skýrist í næstu viku."