Morgunblaðið - 05.10.2012, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 05.10.2012, Blaðsíða 14
14 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. OKTÓBER 2012 Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Áform eru um að endurbyggja veiðikofann í Hrunakrók, sem er á efsta veiðisvæði Stóru- Laxár í Hreppum. Þarna gæti orðið minja- eða sögusafn til minningar um veiðimennina sem þarna áttu sitt annað lögheimili fyrir áratugum. Húsið er aðeins níu fermetrar og yrði sennilega minnsta minjasafn landsins. Esther Guðjónsdóttir, bóndi í Sólheimum og formaður veiðifélagsins, segir að búið hafi verið í Hrunakrók fram yfir aldamótin 1900. Veiðihúsið þar eigi sér skemmtilega sögu allt frá því að það var notað sem varð- skýli í seinna stríðinu og síðan sem veiðikofi þar sem margir þjóðkunnir menn hafi dvalið mörg sumur. Þeirra þekktastur sé eflaust Guðmundur Einarsson frá Miðdal. Endurbyggður í upprunalegri mynd Esther segir að stjórn veiðifélagsins sé að skoða málið, bæði kostnað og hvernig best verði að verkinu staðið, en leigutakinn sé einnig áhugasamur um endurgerðina. Senni- lega verði kofinn sóttur og endurbyggður á verkstæði og reynt verði að hafa hann í upprunalegri mynd. Hægt sé að nýta timbr- ið úr kofanum að hluta, en hins vegar sé bárujárn og gólf ónýtt. Lax-á er með Stóru-Laxá á leigu og segir Árni Baldursson, eigandi fyrirtækisins, að vonandi verði hugmyndin að veruleika í samvinnu veiðifélagsins og leigutaka. Ekki sé um mikinn kostnað að ræða og giskar á 1-2 milljónir króna. „Þetta er trúlega eitt minnsta veiðihús landsins, en á sér stórskemmtilega sögu,“ segir Árni. Viljum fanga þessa gömlu sögu „Þarna voru miklar kempur við veiðar og veiðifélagið Flugan var nátengt þessu húsi. Menn fóru þá gangandi eða ríðandi fram Laxárdalinn og dvöldu oft marga daga í veiðihúsinu og veiddu margan stórlaxinn. Okkur langar að gera þarna minnsta sögusafn á Íslandi og ætlum að safna saman gömlum myndum, veiðibókum og ýmsu því sem hefur verið skrifað um staðinn. Þarna gætu veiðimenn á efsta veiðisvæðinu kastað sér í hádegishléi, fengið sér bita og yljað sér við hitann frá kabyssunni. Húsið yrði opið yfir sumarið og það er bílfært langleið- ina í Hrunakrók. Við efumst ekki um að gengið yrði vel um það. Að mínu mati þyrfti mjög eindreginn brotavilja til að skemma húsið á þessum fallega, afskekkta stað. Við viljum fanga þessa gömlu sögu og koma henni á framfæri á þessum einstaka stað. Þessi saga er skemmtileg og stór- merkileg fyrir okkur veiðimenn,“ segir Árni. Ljósmynd/Esther Guðjónsdóttir Komið til ára sinna Veiðihúsið hefur staðið í Hrunakrók í um 70 ár. Ljósmynd/Esther Guðjónsdóttir Afdrep Veiðimenn sváfu í kojunum og yljuðu sér við hita frá kabyssunni. Minnsta minjasafnið í veiðikofa  Hugmyndir um að endurbyggja veiðikofann í Hrunakrók við Stóru-Laxá  Sögusafni yrði komið fyrir á níu fermetrum  Margir veiðimenn áttu þarna sitt annað lögheimili um miðja síðustu öld Guðmundur Daníelsson rithöfundur fjallar um uppár Árnessýslu í riti sínu Vötn og veiði. Í samtali við Friðrik Þorsteinsson er greint frá byggingu kofans við Hrunakrók upp úr 1940. Þar kemur fram að flekahús hafi verið keypt af setuliðinu. „Við fluttum flekahúsið í sundurlausum pörtum upp að Kaldbak í Hrunamanna- hreppi, því að svo átti að heita að þangað væri bílfært. Síðan var ekki hægt að komast lengra með það um sumarið, svo að við fengum þá til þess, karlana þarna austur frá, að flytja það áfram um veturinn. Einhvern veginn drösluðu þeir því inn eftir, ég veit ekki hvernig, en þeir komu því inn eftir að minnsta kosti. Sumarið eftir reistum við húsið og gengum alveg frá því að utan og settum í það gamla skipskabyssu, sem ég náði einhvers staðar í,“ segir Friðrik m.a. í samtali við Guðmund Daníelsson. Timbur í kojur og innréttingu var flutt síðar á hestum í Hrunakrók. „Drösluðu því inn eftir“ HÚSIÐ VAR FLUTT Í HRUNAKRÓK Í ÁFÖNGUM Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt efnir til alþjóðlegrar ráð- stefnu um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar á morgun, laugardag. Ráðstefnan fer fram í Öskju, stofu N-132, í Háskóla Íslands og hefst klukkan 13.00. Dagskráin er fjölbreytt og stendur til 18.30. Rakel Ólsen útgerðarmaður flyt- ur setningarávarp. Fyrirlesarar og umsegjendur verða Árni Mathie- sen, forstöðumaður fiskveiðideildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, dr. Gunnar Haraldsson, sérfræðingur hjá OECD, Michael Arbuckle, sérfræð- ingur hjá Alþjóðabankanum, dr. Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði í Háskóla Íslands, og dr. Ragnar Árnason, prófessor í auð- lindahagfræði í Háskóla Íslands. Sérfræðingar koma víða að Þá flytja erindi dr. Rögnvaldur Hannesson, prófessor í fiski- hagfræði í Viðskipaháskólanum í Björgvin, dr. Ásgeir Jónsson hag- fræðingur, dr. Birgir Þór Runólfs- son, dósent í hagfræði í Háskóla Ís- lands, Helgi Áss Grétarsson, dósent í lögfræði í Háskóla Íslands, og Michael De Alessi, rannsókn- arfélagi hjá stofnuninni Reason Fo- undation, Kaliforníu. Loks mun Brian Carney, ritstjóri leiðarasíðu Wall Street Journal (WSJ) Europe, reifa niðurstöður. Ætlunin er að gefa erindin á ráðstefnunni út í bók undir ensku heiti ráðstefnunnar, „Fisheries: Sustainable and Prof- itable“. Guðrún Lárusdóttur útgerðar- maður lýkur ráðstefnunni með stuttu ávarpi. Fyrri hluti ráðstefn- unnar er undir yfirskriftinni „Fræðileg greining“ og er fund- arstjóri þá Ásta Möller. Síðari hlut- inn er undir yfirskriftinni „Hagnýt úrlausnarefni“ og er fundarstjóri þá dr. Stefanía Óskarsdóttir. Morgunblaðið/Ómar Loðnuveiði úti af Stafnesi Fjöldi sérfræðinga sækir ráðstefnuna. Alþjóðleg ráðstefna um sjálfbærar veiðar  Ritstjóri hjá WSJ í pallborði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.