Morgunblaðið - 10.06.1982, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 10.06.1982, Blaðsíða 34
34 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 10. JÚNÍ1982 Minning: —1 fl3 jt __ Renata Brynja Kristjánsdóttir Fædd 31. október 1938 Dáin 3. júní 1982 í dag hefur foldin skartað með björtu skini sólar og fögru blóma- skrúði. Arstíminn er vonarskeið alls, sem ltfsandann dregur, vetur er liðinn og vorið með sína harð- indakafla, en sumarið tekið við með blíðu sína og yndisleik. En þá berst mér sú fregn, að hinn 3. þessa mánaðar hafi andast hér í borg Renata Kristjánsdóttir. Renata fæddist á Akureyri 31. október 1938, dóttir hjónanna Úr- súlu og Kristjáns Guðmundsson- ar. Lífshlaup hennar verður að teljast skammt, en það var háð á litríkan hátt, svo að þeir, sem um- hverfis stóðu, fundu þjóta um sig gust orkumikillar konu. Ekki verður rakinn í þessari grein lífsferill Renötu, enda verða vafalítið mér færari menn til þess. En þegar félagar og vinir Ijúka vegferð sinni hér á jörðu leita fram í huga þeirra, sem eftir lifa, minningar um samvistir og sam- starf, og kynni okkar Renötu voru með þeim hætti, að þau höfðu mikil áhrif á lífshlaup mitt og hennar um skeið. A hausti 1972 hóf ég nám í sagnfræði við Háskóla íslands. Ástæður mínar voru þær, að ég komst ekki hjálparlaust milli tveggja húsa eða um byggingar Háskólans, hafði verið blindur um 6 ára skeið og ekki haft mig til þess að leita eftir endurhæfingu eða kennslu. Þangað til hafði nám mitt og reyndar mestöll tilveran byggst á nánu samstarfi við tví- burabróður minn sem og aðra þá, sem mér stóðu næstir ásamt nokkrum skólabræðrum. Það hlýt- ur því að vera augljóst, að það var harla undarlegur náungi, sem þar settist á skólabekk, en heiminn hafði ég nær eingöngu séð með augum minna nánustu og átti því erfitt með að samlagast öðrum skólasystkinum. Dag nokkurn settist við hlið mér kona nokkur, sem ég heyrði, að menn kölluðu Renötu. Hún sagði mér, að ég hefði litið sig hornauga og þrjóskan og fyrirlitn- ingin, sem skein úr svip mínum, hefði staðfest þá ákvörðun sína að skipta ekki um sæti. En brátt kom að því, að ég þurfti að biðjast að- stoðar hennar við að útfylla eitthvert eyðublað hjá Birni Þorsteinssyni, prófessor, en ísinn var samt ekki brotinn. Síðan var það dag nokkurn þremur vikum fyrir jól að kennsla var felld niður eftir fyrsta tíma og varð ég þá að bíða þess nokkra stund, að ég yrði sóttur. Þá kemur til mín þessi Renata og hefur mál á því, að hún hafi þekkt einn bræðra minna, sem stundað hafði nám við Menntaskólann á Akur- eyri nokkrum árum áður. Leiddi af þessu Iangar samræður, sem enduðu á þann sögulega hátt, að Renata býðst til þess að lesa allt efni, sem þurfi að hafa til prófs á fyrsta stigi í sagnfræði inn á seg- ulband með þvi skilyrði, að ég fari í próf þá í janúar nk. eða eftir 4—5 vikur. Boð þetta kom mér í svo opna skjöldu, að ég bað um nokk- urra daga umhugsunarfrest, sem hún veitti, en að honum loknum þá ég boðið og samlestur hófst. Störf- uðum við Renata síðan saman að námi um nokkurt skeið, en eftir að ieiðir skildu hélt hún áfram um nokkurn tíma að lesa erlendar námsbækur á segulband og mun hafa lesið um 300 klukkustunda efni inn á segulbönd, sem svarar til um 6.000 bls. Þarf ekki að sök- um að spyrja, að þetta reið bagga- muninn og ég gat haldið allgóðum hraða við námið og kynnt mér ýmsar heimildir, sem ella hefðu farið forgörðum. Stend ég því ekki í meiri þakkarskuld við aðra utan fjölskyldu minnar en Renötu Kristjánsdóttur. Eftir að leiðir- skildu frétti ég öðru hvoru um hagi hennar og augljóst var, að líf hennar var ekki einn óslitinn glitþráður. Hún átti við langvinn veikindi að stríða auk þess sem annars konar erfiðleikar steðjuðu að. En þótt Reykjavík sé ekki víðlend borg eru samt lögmál stórborga þau, að kunningjar hitt- ast sjaldan þótt skammt sé á milli þeirra. Mönnum er ofinn misjafn ör- lagavefur, en flest mörkum við einhver spor, sem sjást að vegferð okkar lokinni. Nafnið Renata merkir þá, sem hefur endurfæðst. Renata hefur nú fæðst á ný inn í náttlausa voraldarveröld, og í huga þeirra, sem hana þekktu, endurfæðist hún í þeirri mynd, sem við varðveitum af henni. Megi sú mynd verða börnum hennar og fjölskyldu til styrktar og svölunar á raunastundu og til eflingar og atgervis í framtíðinni. Arnþór Helgason Það var drungi í lofti og spurt hvort sumarið ætlaði þá aldrei að koma. I hugum mannanna er sumarið lífgjafi — tíminn þegar grösin lifna og náttúran leysist úr læðingi. Og 3. júní kom sumarið. Það birti yfir bænum og fólkinu og allt var orðið nýtt. Um lágnættið þann dag kom sumar eftir langan vetur í lífi ungrar konu, og sú sumarkoma var lausn þótt með öðru móti væri en hjá okkur sem gengum út í sól- ina. Renata Kristjánsdóttir var farin til nýrra heimkynna, — þangað sem leiðir okkar allra liggja. Det er svært at være menneske, sagði Hamsun. í því andvarpi er sársauki en líka skilningur á því að við hljótum að horfast í augu við það sem við fáum ekki breytt. Þann skilning átti Renata í ríkum mæli og ekki aðeins þegar komið var að leiðarlokum sjálfrar henn- ar, heldur hafði hún til að bera samúð og umburðarlyndi mann- þekkjarans. Þeir áunnu eiginleik- ar hygg ég að hafi komið henni að mestu haldi þegar syrti að. Hún fæddist á Akureyri 31. október 1938, dóttir hjónanna Úr- súlu, F. Piernay, sem er þýzkrar ættar, og Kristjáns P. Guð- mundssonar forstjóra. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólan- um á Akureyri og lagði síðar stund á mála- og sögunám í Há- skóla Islands. Árum saman starf- aði hún í Ferðaskrifstofu ríkisins við að skipuleggja landkynningu og móttöku útlendinga, enda var hún mikill náttúruunnandi og fróðari um landkosti en almennt er. En hún var ekki aðeins áhuga- söm um gróandann í ríki náttúr- unnar heldur hafði hún ríka þörf fyrir að hlúa að verðmætum and- ans. Hún hafði yndi af að fræða og kenna, líka þegar hún sat sjálf á skólabekk, og dæmi um þá alúð sem hún lagði í það að rækta nefni ég tvö: Þegar hún var við sagn- fræðinám hafði hún frumkvæði að því að lesa inn á hljóðbönd náms- efnið fyrir blindan skólafélaga. Hitt dæmið er persónulegt og eft- irmæli eru persónuleg: Hún var konan sem hugsaði um blómin mín þegar ég var erlendis sumar- langt og blómin voru ekki einungis fallegri þegar ég kom en þegar ég fór — þeim hafði fjölgað. Þótt Renata væri löngum úti- vinnandi var heimilið og fjölskyld- an sá vettvangur sem stóð hjarta hennar næst. Ung að árum gekk hún að eiga Halldór Blöndal og átti með honum tvær dætur. Þau slitu samvistum eftir sjö ára hjónaband. Annar maður hennar var Friðgeir Guðmundsson og fæddist þeim sonur, en einnig í það skipti sannaðist að allt hefur sinn tíma. Síðar giftist hún Magn- úsi Jónssyni. Um þær mundir sem þau hófu búskap hafði Renata tek- ið þann sjúkdóm sem nú hefur lagt hana að velli eftir átta ára viðureign. Enn þótti skapanornun- um ekki nóg að gert, því að árið 1979 lézt Magnús af hjartaslagi og varð öllum harmdauði sem hann þekktu. Skil skins og skúra voru skarp- ari í lífi Renötu en flestra ann- arra. Hún var ör í lund, gáfuð, gagnmenntuð og haldin þeirri lífslyst sem gerir góðar stundir betri og erfiðari stundir þungbær- ari. Manneskja með slíka skap- höfn lifir sælar stundir og sárar, sem „þorri manna þekkir ekki og getur ekki heldur þekkt, sökum eðlis, eða uppeldis, eða hvors tveggja", eins og Konráð Gíslason tók til orða um Jónas Hallgríms- son. Renata Kristjánsdóttir var fá- gætlega falleg kona og glæsileg í framgöngu. Sporin sem hún skilur eftir sig eru fögur og sú mynd sem lifa mun er geislandi björt. Það er mér og öðrum vinkonum hennar mikils virði að hafa fengið að njóta samfylgdar hennar þótt skamma hríð væri. Börnum henn- ar, Haraldi, Kristjönu og Ragn- hildi, foreldrum hennar, Úrsúlu og Kristjáni, og systkinum hennar votta ég samúð og virðingu og bið blessunar. Áslaug Ragnars í dag verður Renata Kristjáns- dóttir til moldar borin, vinkona mín kær frá unglingsárunum og jafnaldri. Lát hennar kom vinum hennar ekki á óvart, hún hafði ár- um saman átt við banvænan sjúkdóm að stríða. Hún vissi fyrir löngu sjálf hvert stefndi og tók örlögum sínum með reisn og æðruleysi. Renata giftist tveim nánum vin- um mínum, Halldóri Blöndal al- þingismanni og síðar Magnúsi Jónssyni kvikmyndaleikstjóra með meiru, en hann lést fyrir nokkrum árum. Það var því eðli- legt að lejðir okkar lægju saman af og til. Eg man greinilega þegar ég sá hana fyrst. Það var á hlýjum vordegi á Laugavegi 11, sem var samkomustaður ungmenna í þá tíð. Hún minnti mig á Mjallhvít: hárið svart, hörundið hvítt og var- irnar rauðar. Ég þóttist sjaldan hafa séð jafn fallega stúlku. Renata var fædd og uppalin á Akureyri, bjó þar eða hér syðra á víxl. Hún var heimsborgari í hugs- un og framgöngu, greind hennar óstýrilát og skörp. Hún var allra manna skemmtilegust og hress- ust, samræðusnillingur, bráðfynd- in, fjölfróð og víðlesin. Hún lagði stund á tungumál og sögu í Há- skólanum og var alæta á bók- menntir. Síðasta samtalið sem ég átti við Renötu snerist um Hem- ingway. Hún var, eins og einhvers staðar stendur hjá Hamsun, „liv- ets berusede barn“. Það er mér og öðrum vinum dýrmætt að hafa notið vináttu hennar og viðkynningar í blíðu og stríðu. Megi hún hvíla í friði. Ég votta foreldrum hennar, Úrsúlu og Kristjáni, samúð mína, svo og börnum hennar, Ragnhildi, Stellu og Halla. f|ejmjr svejnsson Ég bjó heima hjá Renötu og Halldóri bróður mínum veturinn, sem ég var í fimmta bekk MA. Halldór var þá erindreki Sjálf- stæðisflokksins, og því starfi fylgdu miklar fundasetur og ferðalög um Norðausturland. Ren- ata var þá ófrísk að Kristjönu, og ég var oft heima að tala við hana. Menntaskólastrákar hvarfla til og frá með áhugamál sín, en Ren- ata átti fjarska gott með að lifa sig inn í það, sem hugann glapti það og það sinni, og kryddaði það gjarna með sögum frá sínum skólaárum. Þá hafði hún umgeng- ist inntellígensíuna og var að inn- prenta mér sömu sjónarmið. Hún hafði mjög einlæga ást á bók- menntum og sögu, og stundum las Halldór fyrir hana kvæði á kvöld- in. Það þótti henni gaman. Þessi menningaráhugi fylgdi henni alla ævi. Bróðir minn og Renata slitu samvistum. En þau gerðu það í vinsemd og með þeim hætti, að þau kynni, sem höfðu skapazt milli hennar og hennar fjölskyldu og okkar, rofnuðu ekki, og sú vin- átta er mikil. Mér þótti alltaf gott að heim- sækja Renötu eftir þennan vetur. Hún hafði alltaf tíma og það var í rauninni sama, hvaða vandamál vafðist fyrir mér, dægurmál eða einkamál. Síðan skeggræddum við um sögu eða skáld eins og í gamla daga eða um stjórnmál. Þegar hún veiktist tók hún því /neð slíkum viljastyrk, að ég gleymi því aldrei. Vitanlega hefur hún átt sínar sorgarstundir. En það var eins og hún ætti alltaf nóg til að miðla öðrum af þreki sínu. Það var skömmu áður en hún dó, að ég heimsótti hana á Land- spítalann. Ég mun alltaf muna, hvernig hún talaði við mig þá, dauðsjúk, en þó svo full af lífs- krafti og af hlýju. Guð blessi minningu hennar. Haraldur Blöndal Á hlýjum vordegi er harðri og langri baráttu við ólæknandi sjúkdóm lokið. Renata er dáin. Við þessa fregn reikar hugur minn til baka, meira en tuttugu ár aftur í tímann. Ég hafði oft tekið eftir ungri, glæsilegri menntaskólastúlku, með sítt svart hár, stór tindrandi augu, oftast hlæjandi og full af lífi. Eg vissi að hún hét Renata Kristjánsdóttir. Síðan höguðu atvikin því allt í einu þannig að hún var viðurloða heimili okkar hjóna síðasta hluta menntaskólagöngu sinnar. Þetta voru glaðir og góðir dag- ar. Renata var ekki barn hvers- dagsleikans, lundin var ör og margt hreif hugann. Kunningja- hópurinn var stór og sundurleitur. Besti félaginn var hægláta, ljós- hærða Hanna Gunna, þær voru al- gjörar andstæður, en óaðskiljan- legar. Svo voru það aftur ungu hrifnæmu eldhugarnir, sumir ætl- uðu að verða skáld, aðrir jafnvel að frelsa heiminn á einn eða ann- an hátt, en allt lifði þetta unga fólk lífinu lifandi. Það var margt sem hreif huga Renötu á þessum árum. Latínu- beygingarnar, efnafræðin og öll sú viska sem lærifeður hennar hugð- ust gefa henni í veganesti þurfti sinn tíma, en góður skáldskapur, hvort heldur var í bundnu eða óbundnu máli, og fleygt tungutak var henni þó hugstæðara. Renata hafði einstaklega gott vald á ís- lenskri tungu og unni henni mjög. Það var krapahríð 17. júní 1959 þegar hópurinn fékk hvítu koll- ana. Dagana á undan hafði sólin samt vermt okkur í 20 stiga hita. Slíkt er íslenskt veðurfar. En það ríkti samt vorhugur hjá ungu stúdentunum sem voru að leggja út í alvarlegri viðureign við lífið. Ég er þakklát forsjóninni fyrir að fá að skyggnast inn í heim þessa unga fólks. Renata lifði aðeins rúmlega hálfa venjulega mannsævi. En hún var viðburðarík og litrík. Margt blés á móti, en björtu hlið- arnar voru líka margar og margs naut hún um dagana. Hún eignað- ist þrjú vel gerð og yndisleg börn, slíkt er mikil gæfa. Hún hafði ein- stakan hæfileika til að njóta dá- semda lífsins og náttúrufegurðar, enda naut hún þess að geta ferðast vítt um veröld. Kannski verður mannsævin ekki metin í ára fjölda þegar allt kemur til alls. En ég held að Renata hafi lifað lífinu lifandi til hinstu stundar. Þannig vona ég að bðrnin hennar, sem nú syrgja móður og félaga, foreldrar hennar, vinir mínir, Ur- súla og Kristján, og allir þeir sem sakna hennar, geti minnst hennar. Hólmfríður Jónsdóttir „Knn er liAinn langur vetur, loftin blá ofi jörftin græn. Hefji hver, sera hafid getur, huga Ninn í þökk og bæn.“ Þessi orð úr hinum fagra og áhrifaríka skólasöng Menntaskól- ans á Akureyri koma mér í hug á kveðjustund minnar kæru skóla- systur og fornu vinkonu, Renötu Kristjánsdóttur, sem lögð er til hinztu hvíldar, þegar vetur er að baki og vorhiminninn vonablár hvelfist yfir gróandi jörð. Við vorum 66 stúdentarnir, sem brautskráðumst frá M.A. hinn 17. júní 1959. Þá var hamingjustund. Kærkomnum áfanga var náð í lífi okkar, og framtíðin breiddi faðm- inn móti stúdentunum ungu. Ren- ata setti mikinn svip á hópinn. Hún hafði verið áberandi persónu- leiki í skólalífinu, einkum sakir fegurðar, kvenlegs þokka og glæsi- leika, en einnig var hún stundum nokkuð gustmikil og hafði einurð og þor til að hafa skoðanir og láta þær í ljós. Við kvöddum skólann okkar kæra, sem hafði fóstrað okkur flest í fjóra vetur, og gengum með vor í augum, von og þökk í hjarta á vit hins ókomna. Birta og gleði bjó okkur í barmi, og allar hugs- anir um dauðann voru okkur fjarri. Samt var jörðin ekki græn þennan þjóðhátíðardag, heldur snævi þakin. Kannski var það til að minna okkur stúdentana á orð Jónasar um blómin, sem „fölna á einni hélunótt", minna okkur á það, að Hfið á ekki aðeins sín bros og birtu, hamingju, sælu og sigra, heldur einnig sína skugga, von- brigði, þjáningu og tár, töp og sorgir. En þrátt fyrir hretið, sem setti svip sinn á þennan vordag lífsins, þá bjó okkur fögnuður og hátíð í huga, og víða voru veizlur haldnar til að fagna unnum sigri og merk- um áfanga á ævileið. Vegleg veizla var haldin á Brekkugötu 27 á heimili foreldra Renötu, þeirra frú Úrsúlu og Kristjáns P. Guð- mundssonar, forstjóra. Ég var svo lánsamur að vera boðinn til þess- arar veizlu, sem er mér minnis- stæð enn í dag. Hamingjan og gleðin var sameign okkar allra, sem þarna vorum. Þá minnist ég þess, hversu heimili þeirra hjón- anna var fagurt og yndislegt, og ég sannfærðist um það, sem ég hafði áður vitað, að vinkona mín Renata átti foreldraláni að fagna og var alin upp á fallegu og listrænu menningarheimili. í þessari veizlu var vinur minn, Halldór Blöndal, nú alþingismaður. Hjá þeim Ren- ötu var tvöföld hátíð og mikil hamingjustund. Þau höfðu heit- bundizt og ákveðið að halda hönd í hönd út í lífið. Hinn 16. apríl árið 1960 gengu þau Renata og Halldór í hjóna- band. Næsta árið voru þau á Ak- ureyri, þar sem Halldór stundaði kennslu. En vorið 1961 fluttust þau til Reykjavíkur. Hóf Renata þá störf á skrifstofu, fyrst hjá Sjó- vá, en síðan hjá Krabbameinsfé- lagi Reykjavíkur. Um rúmlega tveggja ára skeið ieigðu þau sér litla en snotra risíbúð við Ljós- vallagötu og þangað lá leið mín og fleiri vina þeirra löngum. Það var á þessum árum, sem ég kynntist Renötu bezt og á af henni þá mynd, sem mér er skýrust í minni. Næstum daglega var ég gestur á heimili þeirra hjóna. Mörg kvöldin var setið í kvistherberginu fram á nótt yfir hennar sterka og góða kaffi og rætt um lífið og tilveruna, um trúmál og stjórnmál, bók- menntir og listir og yfirleitt allt milli himins og jarðar, ekki sízt það, er laut að fegurð og réttlæti í lífinu. Ég var jafnan þiggjandinn í þessum viðræðum og fannst oft sem ég færi vitrari og víðsýnni af fundi hennar og þeirra hjóna. Renata Kristjánsdóttir var stórgáfuð, listræn og vitur kona, með afbrigðum næm og frjó í hugsun og bjó yfir mikilli þekk- ingu á bókmenntum og listum og var óvenju fær og vel að sér í tungumálum. Renata var leitandi og unnandi fegurðarinnar í lífinu. Hún var sjálf mjög falleg kona, ávallt vel klædd, smekkleg og tíguleg í fasi og framkomu. Hún var hreinlynd, hreinskiptin og hispurslaus og

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.