Morgunblaðið - 28.12.1982, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 28.12.1982, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 28. DESEMBER 1982 Ragnheiður Brynjólfsdóttir og Daði Halldórsson. Texti: Hallur Hallsson Myndir: Kristján Einarsson Jólaleikrit Þjóðleikhússins í ár er Jómfrú Ragnheiður eftir Guðmund Kamban. Harmsaga Brynjólfs bisk- ups Sveinssonar og dóttur hans, Ragnheiðar, er íslendingum hugleik- in — rúmar þrjár aldir eru nú liðnar síðan Ragnhildur sór í Skálholts- kirkju eið að skírlífi sínu en ól Daða Halldórssyni sveinbarn 40 vikum síð- ar og enn brennur sú spurning — sór hún rangan eið? Með Skálholti reis Guðmundur Kamban gegn arfsögninni — grunsemdinni um meinsæri, að Ragnheiður hefði framið rangan eið. Návígi tveggja stórbrotinna persóna verður að þungamiðju sögu hans — þeirra Brynjólfs bisk- ups og Ragnheiðar dóttur hans. Biskup er ósveigjanlegur, sann- færður um, að hann einn sé fær um að ráða fram úr vanda líðandi stundar og krefst skilyrðislausrar hlýðni, undirgefni. Ákvarðanir sem hann tekur í góðri trú, sann- færður um réttmæti þeirra, snúast gegn honum og steypa honum og hans nánustu í glötun. Ragnheiður einnig er stórhuga og ósveigjanleg. Hún rís upp gegn föður sínum eftir að hafa verið neydd til þess að sverja eið að skírlífi sínu — verður leiksoppur örlaganna og við þau fær hún ekki ráðið. Skálholt Guðmundar Kambans var fyrst sýnt í konunglega leik- húsinu í Kaupmannahöfn árið 1934, þá fært upp af honum sjálf- um. Níu árum síðar var verkið — þá stytt, sýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur í uppfærslu Lárusar Pálssonar. Verkið naut mikilla vinsælda og gekk lengi. Á 10 ára afmæli Þjóðleikhússins var verkið sett á svið í uppfærslu Baldvins Halldórssonar. Erlingur Pálsson og Kristbjörg Kjeld léku Daða og Ragnheiði en Valur Gíslason Brynjólf biskup. Baldvin Hall- dórsson stjórnaði Skálholti í sjón- varpi árið 1970 og léku þá Sunna Borg og Valur Gíslason feðginin. Leikgerð Guðmundar Kambans í Kaupmannahöfn var í fullri lengd. Hér á landi hefur verið flutt styttri gerð, sem til er frá hans hendi, en þó hefur verkið ávallt tekið breytingum í meðförum hinna ýmsu leikstjóra. Bríet Héðinsdóttir setti Jómfrú Ragnheiði upp á Akureyri í fyrra og þá lék Guðbjörg Thoroddsen Ragnheiði og Marínó Þorsteinsson biskup. Guðbjörg leikur Ragnheiði í Þjóðleikhúsinu og Gunnar Eyj- ólfsson biskup. Guðbjörg er að stíga sín fyrstu skref á fjölum Þjóðleikhússins. Útskrifaðist úr Leiklistarskóla ríkisins 1981 og hóf þá störf hjá Leikfélagi Akureyrar. Lék Uglu í Atómstöð Laxness og Ragnheiði í Jómfrú Ragnheiði. Frumsýningin því stór stund hjá þessari ungu leikkonu, er hún steig á fjalir Þjóðleikhússins en hún tók því með jafnaðargeði. „Ég vinn og vinn — hef ekki haft tíma til þess að hafa áhyggjur af frumsýning- unni,“ segir hún. Blaðamaður ræddi við þau þrjú, Bríeti, Guðbjörgu og Gunnar, fyrir skömmu. Og lá fyrst við að spyrja Bríeti hverju það sætti, að verkið er nefnt Jómfrú Ragnheiður en ekki Skálholt eins og í fyrri leik- gerðum. „í handritum ber verkið yfir- skriftina Jómfrú Ragnheiður eða die Jungfrau auf Skálholt. Mér finnst því ég ekki brjóta gegn Kamban þó ég nefni verkið Jómfrú Ragnheiði — tel það eiga betur við sýninguna. Ég byggi verkið upp í bland á lengri leikgerðinni og þeirri styttri, jafnframt að ég styðst við skáldsöguna — moða úr þessu og reyni að koma mínum skilningi á verkinu til skila. Verk Kambans er sígild harm- saga. Ég skil sögu Ragnheiðar fyrst og fremst sem sögu af von- lausri uppreisn — uppreisn konu í karlaþjóðfélagi en jafnframt upp- reisn æskunnar, sem á sér hug- sjónir, gegn stöðnuðu kerfi — kirkjuvaldinu, feðravaldinu, karla- veldinu. Saga Brynjólfs er sígild harmsaga allra foreldra, sem þykj- ast hafa vit fyrir börnum sínum og líta framhjá vilja þeirra sjálfra til að finna lífi sínu farveg. Sagan gæti því allt eins átt sér stað í dag — í nútímanum. Ragnheiður berst fyrir sjálfsvirðingu sinni; fyrir rétti sínum til þess að ráða eigin lífi — sú barátta stendur enn. Hún gengur til þessarar baráttu með viðhorfi æskunnar, trúir ekki á ógæfuna, að hún láti í minni pok- ann.“ — Nú gerist sagan á 17. öld. Guðbjörg, hvernig finnst þér að setja þig í spor Ragnheiðar? „Mér finnst það auðvelt þó aðrir tímar séu. Barátta Ragnheiðar er sígild en mögnuð að því leyti að hún snýst ekki einungis gegn feðraveldi, heldur um leið gegn ríkjandi gildum og hugsunarhætti í þjóðfélagi, sem faðir hennar stendur sem fulltrúi fyrir. Ragnheiður reis upp, hún synti gegn straumnum. Það hefðu ekki allir gert og með því sýndi hún mikið hugrekki. Jafnframt má benda á, að Ragnheiður hafi verið í betri að- stöðu — betur undir það búin en flestar samtímakonur hennar., Hún var ein best menntaða kona á íslandi, hafði aldrei liðið skort. Hún reis upp gegn veldi karl- manna en hún sást ekki fyrir — hún varð að láta i minni pokann.“ — Hvað er það í sögu Brynjólfs biskups og Ragnheiðar sem höfðar til íslendinga í jafn ríkum mæli og raun ber vitni, Gunnar? „Til þess liggja sjálfsagt margar ástæður — söguáhugi Islendinga er ein. Sögupersónur voru uppi á 17. öld en harmsaga Brynjólfs biskups og fjölskyldu hans hefur verið Islendingum hugstæð. Skál- holt Kambans sýnir á áhrifaríkan hátt hve rógburður getur verið hættulegur. örlagavefur fjöl- skyldu Brynjólfs biskups Sveins- sonar byrjar á kjafthætti og rógi Gunnar Eyjólfsson og Guðbjörg Thoroddsen I hlutverkum sínum sem Brynj- ólfur biskup og Ragnheiður dóttir hans. Guðbjörg Thoroddsen — frumraun hennar I Þjóðleikhúsinu. — verkið varar við slíku og sýnir afleiðingar þess. Brynjólfi biskup er stillt upp við vegg. Einkamál er gert opinbert og hann sér aðeins eina leið út úr ógöngunum — eiðinn, sem er sterkt vopn. Hann lætur Ragnhildi sverja eið að skírlífi sínu en 40 vik- um síðar stendur hann frammi fyrir því að dóttir hans gæti hafa framið rangan eið og þessi grun- semd setur hann í erfiða aðstöðu. Skálholt er gott leikhúsverk — það gefur listamönnum tækifæri til þess að spreyta sig. Verk Shake- spears eru sett upp í Lundúnum á 2—3 ára fresti — áhuginn felst ekki síst í því, að fólk vill sjá hvernig listamenn túlka verk hans. Við eigum ekki sömu leikhúshefð og Englendingar, en í Skálholti eigum við gott verk og því ber ríka nauðsyn til, að hverri kynslóð gef- ist tækifæri til þess að sjá verk á borð við Skálholt." — Þú ert kaþólskur. Finnst þér erfitt að setja þig í spor Brynjólfs biskups? „Alls ekki — Brynjólfur var Maríuunnandi og raunar var mikil Mariudýrkun hér á landi eftir siðaskiptin. Brynjólfur orti kvæði til heilagrar guðsmóður og byggði henni Maríustúku í dómkirkjunni. Hann var einlægur trúmaður. Brynjólfur var stórmenni — en óhamingja hans reið ekki við ein- teyming. Hann var valdamestur manna á íslandi, óvenjulegum gáf- um gæddur og naut mikillar virð- ingar. Brynjólfur biskup var velgerður maður og heiðarlegur en örlögin voru honum andsnúin. Við megum ekki gleyma því, að Brynjólfur átti fimm börn grafin úti í kirkjugarði þegar Ragnheiður sór eiðinn í Skálholtskirkju. Samband þeirra feðgina var náið — kærleikur var mikill með þeim. En Brynjólfur fékk ekki við neitt ráðið. Ragn- heiður lést ári eftir að hafa alið son sinn i Bræðratungu, lést af völdum hvíta dauða — berkla. Þá lést eini eftirlifandi sonur biskups, Halldór Brynjólfsson, skömmu síð- ar ungur maður og dóttursonur biskups, — Þórður Daðason, lést 10 ára gamall, ári eftir að Brynj- ólfur hafði arfleitt drenginn að öllu sínu eftir dauða Halldórs. Brynjólfur lést 1675 — þá hafði hann misst allt, eftir að hafa öð- last svo mikið. Sjaldan eða aldrei hefur átt betur við að Drottinn gaf og Drottinn tók en um Brynjólf biskup. Ekki má dæma Brynjólf of hart. Hann leitaðist við að vera réttlát- ur og sjálfum sér samkvæmur. Óneitanlega fór Ragnheiður illa með föður sinn, þegar hún reis upp gegn honum. Hann trúði einlæg- lega á sakleysi hennar." Guðbjörg: „Ragnheiður sagði: „Því olli gremjan að vera borin rangri og óbærilegri sök.“ Ég skil gremju hennar og reiði — eiðurinn var eins og hver önnur nauðgun og fyrstu viðbrögð hennar voru hefnd eða öllu heldur tilraun til þess að öðlast sjálfsvirðingu á ný.“ „Brynjólfur biskup reis upp úr meðalmennskunni allt í kring um hann. Brynjólfur gerði sér grein fyrir kostum Ragnheiðar og óskaði þess, að hún væri karlmaður. Hann leitaðist við að vera heiðar- legur og strangur. Hann sagði: „Á ég að hlífa mínum nánustu." Hann missti ást dóttur sinnar en hann gerði það sem samvizkan bauð honum. Hann lét eitt yfir alla ganga — líka sína nánustu."

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.