Morgunblaðið - 02.06.1983, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 2. JÚNÍ 1983
39
Minning:
Georg Ásmunds-
son Miðhúsum
Þann 6. maí sl. lést bændahöfð-
inginn og öðlingsdrengurinn
Georg Ásmundsson, Miðhúsum í
Breiðavíkurhreppi, 91 árs að aldri.
Með straumi tímans hverfur
óðum 19. aldar kynslóðin. Líf og
störf þessarar kynslóðar verða að
minningum, sem gefa þeim er eft-
ir koma varðaðan veg til viðmið-
unar inn í framtíðina, nærast af
þeim sjóði sem það lét eftir sig, þó
ekki verði hann mældur né veginn
í ytri skilningi okkar efnisheims.
Breiðavíkurhreppur sér nú á
bak sínum elsta syni, sem skilur
eftir sig langt og giftudrjúgt
ævistarf. Allan sinn aldur ól hann
í þessari fögru sveit sem vitnar
um þrautseigju, elju og nægju-
semi, er skóp honum gæfuveg á
langri ævi.
Hann var fæddur að Knerri í
Breiðuvíkurhreppi, þann 8. sept.
1891, elstur barna þeirra Ingi-
bjargar Jónsdóttur og Ásmundar
Sveinssonar er þar bjuggu. Tvö
átti hann yngri systkini, þau Sig-
urð, sem enn er á lífi, og Guðnýju,
sem er látin. Á þessum árum var
víða þröngt í búi, sem leiddi af sér
að sambúð þeirra Ásmundar og
Ingibjargar varð ekki löng.
Hreppsyfirvöld sundruðu heimil-
inu, að þeirra tíðar hætti, af
hræðslu við að til framfærslu-
ábyrgðar hreppsins kynni að
koma. Ingibjörg flutti þá til
Ólafsvíkur og giftist þar manni er
Árni hét. Þau eignuðust tvo syni,
Ottó, sem látinn er fyrir fáum ár-
um, og Sveinbjörn sem býr í
Reykjavík. Georg var þá komið í
fóstur til hjónanna Guðrúnar
Magnúsdóttur og Sigurðar Skafta-
sonar, er þá bjuggu í Miðhúsum.
Þessi sæmdarhjón tóku hann að
sér sem sinn einkason. Fóstursyst-
ur átti hann, Laufeyju Einarsdótt-
ur, er síðar giftist Finnboga Lár-
ussyni kaupmanni á Búðum. Þeg-
ar Georg er 13 ára gamall deyr
fóstri hans og við lát hans verður
Georg fyrirvinna heimilisins. Að
axla slíka ábyrgð sínir kjark og
viljastyrk hans best. Aldrei brást
hann skyldum sínum. Hann stóðst
fyllilega þessar eldraunir æskuár-
anna, þær urðu hans skóli sem
nægði til að standast þau próf lífs-
ins sem framundan voru.
Árið 1920 giftist hann Láru
Guðmundsdóttur, Stóra-Kambi í
sömu sveit, annáluð sæmdarkona
sem stóð eins og klettur við hlið
manns síns á rúmlega hálfrar ald-
ar farsælli sambúðarleið. Sjálf-
sagt mun oft hafa verið erfitt á
ytri vísu, lítil efni sniðu á þessum
árum alþýðufólki oft þröngan
stakk, en hið innra skein sól ætíð í
hádegisstað. Þau unnu saman í
eindrægni og kærleika við að
spinna sinn lífsþráð, er reyndist
þeim það haldreipi er dugði, hvað
sem á gekk.
Fimm fyrstu búskaparárin
bjuggu þau á Stóra-Kambi, en
fluttust þaðan að Miðhúsum og
bjuggu þar myndarbúi allt til árs-
ins 1973, er Lára lést. Þau eignuð-
ust níu börn sem öll eru á lífi, sex
dætur og þrjá syni. Þau eru: Guð-
mundur, giftur Jóhönnu Sæ-
mundsdóttur, búsett á Álftanesi,
Gunnhildur, gift Júlíusi Pálssyni,
búsett í Hafnarfirði, Ása, sem nú
býr í Miðhúsum, ásamt Guðmundi
syni sínum og konu hans, Sigríður,
ekkja Alberts Egilssonar er fórst
með m/s Eddu árið 1953, búsett í
Hafnarfirði, Þorbjörg, gift Odd-
geiri Jónssyni, búsett í Hafnar-
firði, Sveinn, giftur Elínu Jóns-
dóttur, búsett í Hafnarfirði, Pál-
ína, gift Jóni Arngrímssyni, bú-
sett í ólafsvík, Guðrún, gift Emil
Arasyni, búsett í Hafnarfirði,
Reimar giftur Heru Helgadóttur,
búsett í Hafnarfirði. Auk þess ólu
þau upp fjögur barnabörn sín, þau
Guðmund Alfreðsson og Viktoríu
systur hans, Sigurð Thorarensen
og Maggý Emilsdóttur. Fjöldi
barna og ungmenna átti ýmist
stutta eða langa dvöl á heimili
þeirra og naut sem þeirra eigin
börn umhyggju og leiðsagnar.
Niðjar þeirra Láru og Georgs eru
nú taldir vera 75 að tölu.
Georg var í blóma lífsins mynd-
arlegur að vallarsýn, bjartur yfir-
litum og sviphreinn. Þótt erfið
lífskjör gæfu ekki alltaf ástæðu til
gáska og gleði, var grunnt á gam-
anseminni, glettni í auga og hóf-
lega framsettum gamanyrðum.
Hann var að eðlisfari hlédrægur,
gerði lítið af því að trana sér fram.
Hann var þó skoðanafastur og lét
ógjarnan hlut sinn, þegar honum
fannst réttu máli hallað.
Ýmis trúnaðarstörf voru honum
falin í sveit sinni, m.a. var hann
fjallkóngur í áratugi og sat í
skólanefnd og safnaðarnefnd
Búðakirkju í fjölda ára. Hvar-
vetna vann hann störf sín af sam-
viskusemi.
Eftir að Lára kona hans fellur
frá, tekur Guðmundur dótturson-
ur hans við búinu ásamt konu
sinni. Naut hann þar síðustu árin
umhyggju og ást'úðar barna sinna
og barnabarna. Á engan tel ég þó
hallað þó 1 því sambandi megi
nefna Ásu dóttur hans, sem reynst
hefur honum og heimilinu ein
styrkasta stoðin. Georg bar vel
aldur sinn, sem aldrei tókst að
gera hann að gamalmenni. Hann
hafði í stuttan tíma legið á Land-
spitalanum og var nýkominn það-
an er hann lést á heimili Sveins
sonar síns í Hafnarfirði þann 6.
maí sl.
Ég sem þessar línur rita á í
huga mínum ógleymanlegar minn-
ingar um þennan mæta mann. Hér
verða þær hvorki reifaðar né upp
taldar, slíkt hlýtur að vera hverj-
um og einum séreign. Þess skal þó
getið að upphaf þeirra minninga
er frá bernsku minni, þegar Georg
var útróðrarmaður á Hellnum hjá
föður mínum. Það var jafnan mik-
ið tilhlökkunarefni þegar von var
á honum Geggja í Miðhúsum.
Fyrir utan allt góðgætið sem hann
átti í fórum sínum og miðlaði
okkur systkinunum af, var það
gleðin og birtan sem hann ætíð
bar með sér í bæinn. Æ síðan hef-
ur einhver ljómi stafað frá þessum
manni í minni vitund.
Þökk sé þessum heiðursmanni
fyrir það góða ræktunarstarf sem
hann vann, hvort sem það var
unnið á akri æskunnar eða móður
jarðar, sem nú hefur tekið hann í
mjúka arma sína.
Blessuð sé minning Georgs
Ásmundssonar.
Kristinn Kristjánsson
Aðalfundur Sölustofnunar lagmetis:
Utflutningsverðmæti
jókst um 145% árið 1982
„REIKNINGAR Sölustofnunar lag-
metis fvrir síðastliðió ár eru þeir
hagstæðustu, sem hingað til hafa
verið lagðir fyrir aðalfund stofnunar-
innar. Hefur útflutningur á vegum
hennar aukizt verulega undanfarin
ár og á síðasta ári var hann 37%
meiri en 1981. FOB-verðmæti út-
fluttrar vöru jókst á sama tíma um
145%,“ segir meðal annars í frétt frá
Sölustofnun lagmetis um aðalfund
stofnunarinnar, sem haldinn var 25.
maí síðastliðinn.
í fréttinni segir ennfremur, að
stærstan þátt í aukningunni eigi
niðursoðin rækja, sem rutt hafi
sér mjög til rúms á mörkuðum í
Vestur-Évrópu síðustu tvö ár og
rækja sé nú framleidd í fjórum
verksmiðjum hér á landi. Kavíar
hafi einnig selzt talsvert betur en
áður, einkun til Frakklands, en
þar hafi verið við ramman reip að
draga, þar sem danskir keppinaut-
ar hafi lengi verið sterkir á þeim
markaði.
Á síðasta ári var lagmeti flutt
út frá 14 verksmiðjum og aðrar
helztu vörutegundir en rækja og
kavíar voru gaffalbitar og reykt
síldarflök. Helztu markaðslönd
voru Vestur-Þýzkaland, Sovétrík-
in, Bandaríkin og Frakkland.
Þá segir í frétt stofnunarinnar,
að lagmetisiðnaðurinn eigi með
ýmsu móti í vök að verjast, eins og
aðrar iðngreinar, af völdum sí-
hækkandi verðs á hráefni og kaup-
gjaldshækkana. Þó sé framleið-
endum einna mestur fjötur um fót
hinn mikli skortur á fjármagni til
endurnýjunar og viðhalds verk-
smiðjanna, því enginn geti staðizt
hina hörðu samkeppni á erlendum
mörkuðum án þess að fylgja kröf-
um nútímans um nýja tækni og
hagræðingu. Þá valdi það einnig
hvað mestum fjárhagsvanda, að
til framleiðslu ýmissa lagmetis-
tegunda verði framleiðendur að
kaupa hráefnið mörgum mánuð-
um áður en varan sé unnin og seld.
Því sé brýn nauðsyn að veita lán
til þessarar fjárfestingar umfram
hin venjulegu afurðalán.
Á aðalfundinum voru eftirtaldir
kosnir í stjórn S.L.: Rafn A. Sig-
urðsson, formaður, Þorsteinn
Jónsson, varaformaður, Kristján
Jónsson, Böðvar Sveinbjarnarson
og Einar Sigurjónsson.
+
Þökkum auösýnda samúð og vinarhug við fráfall eiginmanns mins,
tengdafööur og afa,
BJÖRNS KRISTJÁNSSONAR,
Eskifiröi.
Fyrir hönd ættingja hins látna,
Sigurveig Jónsdóttir.
Eyjólfur Kristinn
Brynjólfsson — Kveðja
Fæddur 8. desember 1967
Dáinn 23. maí 1983
Lítil mannvera lífi heilsar með
spurn í augum. Hið nýja umhverfi
er ótryggt ýmislega. Éf allt fer að
ætluðu getur sagan varað til elli-
ára. En slíku er ekki alltaf að
heilsa. Vorfrostin eru viðsjál og
gróðurinn viðkvæmur. Stofninn
veikbyggður og þolir takmarkað.
Því fer stundum sem fer. Kallið að
handan kemur að morgni dagsins.
Það hefur í raun lengi vofað yfir.
Og nú í maí var ævi eins gengin á
enda. Líf sem blakti á skari lauk
göngu.
Tjaldið féll gagnvart dvölinni í
þessum heimi. Ungur drengur
kveður og hverfur á vit hins
ókunna. Sól hnigin að viði en ef til
vill til að rísa í nýjum vettvangi, í
nýjum ljóma, þar sem
— upphiminn fejjri en auga sér
mól öllum oss fadminn breiðir.
(E.Ben.)
Þessi ganga, sem nú er að baki,
var erfið. Vonin um að sigra veik-
indi var lágfleyg. Þekking til úr-
lausnar var ekki fyrir hendi. Deg-
inum lauk því fyrr en ella. Æviár-
in fáu voru því aðeins svipur hjá
sjón miðað við það, sem venjulegt
getur talist:
Harmadu þreytlan þig á nótt og degi
í þögn og kyrrd svo hrvggðin sigra megi.
(J.Hallgr.)
Eyjólfur Kristinn Brynjólfsson
hefur lokið sínu lífsskeiði. Þessi
fáu ár voru enginn dans á rósum,
heldur látlaust stríð við ofurefli
veikindanna. Nú er því lokið. Vera
má að hér hafi reynsla áunnist, er
síðar kemur að notum.
Þessi ungi sveinn er hér kvadd-
ur síðustu kveðju. Við færum
þakkir fyrir þá birtu, er honum
fylgdi. Við skiljum sorg foreldr-
anna og systra og vottum þeim
okkar dýpstu samúð.
Ævin í skugga veikindanna er
nú öll. En ferð hafin inn á ný lönd.
Við vonum að þar verði heilsan
betri. Orkan meiri. Möguleikarnir
stærri.
Við kveðjum Eyjólf með sér-
stökum klökkva. Þökkum kynnin
og árnum honum jafnframt farar-
heilla og farsældar á framtíðar-
brautum.
..Lýkur leið sumra
á lífsmorgni.
Hniga af trega
höfug tárin.
Náó guós
nú og alltaf
frió sælan
öllum færir.** (EP)
Páll Eiríksson
+
Faðir okkar,
GUOMUNDUR GÍSLASON,
fré Grund, Slykkiahólmi,
verður jarösunginn frá Háteigskirkju föstudaginn 3. júní kl. 15.00.
Börn hins látna.
Þökkum af alhug auðsýnda samúð og vináttu við andlát og útför
eiginmanns mins, fööur okkar, tengdaföður og afa,
GUNNARS KR. MARKÚSSONAR,
Stigahlfö 34.
Sérstakar þakkir færum viö starfsfólki og stjórn Völundar og ætt-
ingjum og vinum.
Ólína Hinriksdóttir,
Sigurlína J. Gunnarsdóttir,
Lára G. Gunnarsdói’ir,
Vigdís Gunnarsdóttir, Sigurður Sigurösson,
Markús Gunnarsson
og barnabörn.