Morgunblaðið - 18.12.1992, Side 38
38
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 18. DESEMBER 1992
Útgefandi
Framkvæmdastjóri
Ritstjórar
Fulltrúar ritstjóra
Fréttastjórar
Ritstjórnarfulltrúi
Árvakur h.f., Reykjavík
Haraldur Sveinsson.
Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson.
Þorbjörn Guðmundsson,
Björn Jóhannsson,
Árni Jörgensen.
Freysteinn Jóhannsson,
Magnús Finnsson,
Sigtryggur Sigtryggsson,
Ágúst Ingi Jónsson.
Björn Vignir Sigurpálsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 691100. Auglýsingar: Aðal-
stræti 6, sími 691111. Afgreiðsla: Kringlan 1, sími 691122. Áskriftar-
gjald 1200 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 110 kr. eintakið.
Verðlag og alþjóð-
legur samanburður
Umfjöllun um mikinn mun á
verðlagi ýmissa vara hér á
landi og erlendis hefur vakið at-
hygli og ýtt undir opinberar
umræður um verðlagsmál. Sam-
anburður sem Morgunblaðið
gerði á verði fatnaðar hér heima
og í Newcastle, þar sem margir
íslendingar hafa kosið að stunda
innkaup, leiddi í ljós, að vörurnar
í Newcastle voru á heildina litið
til muna ódýrari, þótt í kjölfarið
hafi fylgt ábendingar um að hér
á íslandi væri líka hægt að fá
ódýran fatnað. Einnig hefur vak-
ið athygli alþjóðleg verðkönnun
brezks neytendakönnunarfyrir-
tækis, Intemational Information
Services, á verðlagi i þrettán
löndum. Innkaupakarfa, sem fyr-
irtækið valdi vörur í, reyndist
mun dýrari á íslandi en í þeim
ríkjum öðrum , sem könnunin
náði til. Af 22 algengum neyzlu-
vörum í innkaugakörfunni voru
tíu dýrastar á Islandi. Ástæða
er til að benda á, að frambærileg-
ar skýringar hafa komið fram á
háu verði á nokkrum vöruteg-
undum, en það breytir engu um
heildarniðurstöðuna frá sjónar-
hóli neytandans hér. Könnun
þessi hefur víðar vakið athygli
en hér á landi og hafa niðurstöð-
ur hennar birzt í ýmsum virtustu
blöðum og tímaritum erlendis.
Eðlilegt er að neytendur spyiji
hvað valdi þeim gífurlega verð-
mun sem sýnt hefur verið fram
á. Ýmsar skýringar hafa verið
nefndar til sögunnar. Kaupmenn
benda á, að opinberar álögur séu
svo háar hér, að jafnist ekki á
við það sem gerist í nágranna-
löndunum. Mikið er til í þessu.
Til að mynda er virðisaukaskatt-
ur hár hér á landi og matvörur
og aðrar nauðsynjar ekki undan-
þegnar honum eða í lægra skatt-
þrepi, eins og til dæmis háttar
til með mat og barnaföt í Bret-
landi og víðar. Einnig hefur ver-
ið bent á að vörugjöld, til dæmis
á sælgæti og gosdrykki, eru
miklu hærri hér en í þeim lönd-
um, sem við berum okkur helzt
saman við. Hins vegar eru tollar
og aðflutningsgjöld hverfandi
miðað við það, sem áður var.
Aðrar ákvarðanir stjórnvalda,
til dæmis varðandi gífurlega há
opinber gjöld á tóbak, áfengi og
benzín, hækka auðvitað almennt
verðlag hér á landi. Landbúnað-
arstefnan hefur einnig viðhaldið
hæsta verði landbúnaðarafurða,
sem þekkist.
Fulltrúar kaupmanna nefna til
sögunnar skýringar sem tengjast
aðstæðum hér á landi, til dæmis
að kostnaður við að flytja ýmsar
vörur til landsins sé hærri en
annars staðar. Þetta er sjálfsagt
rétt í ýmsum tilfellum en dugar
ekki sem skýring í öðrum. Smæð
markaðarins er önnur útskýring,
sem stundum er nefnd, og vafa-
laust er það rétt að ekki er hægt
að gera jafnhagstæð innkaup
fyrir lítinn markað og stóran.
Þó hefur að undanförnu verið
sýnt fram á dæmi þess að ís-
lenzkir innflytjendur nái sömu
kjörum og verzlunin í stærri
löndum nýtur og slíkt hlýtur að
vera verzluninni hér kappsmál.
Það er ekki hægt að skella
skuldinni eingöngu á hið opin-
bera og aðstæður hér á landi.
Því hefur verið haldið fram, að
álagning sé í mörgum tilvikum
of há, en jafnframt má telja lík-
legt að hún fari lækkandi. Neyt-
endasamtökin og Verðlagsstofn-
un hafa bent á að samkeppni sé
ábótavant hér á landi. Verðdreif-
ing sé lítil og samtrygging oft
ríkjandi um verðlagningu á
ákveðnum vörum. í sumum til-
vikum er talið að of margir millil-
iðir séu á leið vörunnar frá fram-
leiðanda til neytanda, jafnvel að
danskir milliliðir hagnist enn á
íslandsviðskiptum! Loks er nefnd
athyglisverð skýring, til dæmis
af hálfu International Informati-
on Services; að mörg fyrirtæki
verðleggi vöru sína fremur eftir
því sem þau telji að markaðurinn
beri en eftir kostnaði við fram-
leiðslu, flutning og dreifingu.
Slíkt á íslenzka verzlunin auðvit-
að ekki að sætta sig við, heldur
krefjast sömu kjara og aðrir
njóta.
Umræðurnar um verðmun hér
á landi og erlendis eru af hinu
góða, hvernig sem á málið er lit-
ið, en þær verða auðvitað að
byggjast á sanngjörnum saman-
burði. Þær sýna að neytendur
eru vakandi fyrir því að viðun-
andi kjör séu boðin og að hér
fáist jafnvönduð vara og erlend-
is, á sambærilegu verði. Það er
óumflýjanleg staðreynd að ísland
er hluti af stærra markaðssvæði.
Það er ódýrara að ferðast til út-
landa en áður og upplýsingar um
verðlag í öðrum löndum eru að-
gengilegri. Svo lengi sem verðlag
hér á landi er hærra en í ná-
grannalöndum okkar, er sama
hvaða útskýringar eru gefnar á
muninum; neytendur munu ekki
sætta sig við hann og beina við-
skiptum sínum út fyrir landstein-
ana ef svo ber undir. Það er verk-
efni stjórnvalda, innflytjenda og
smásala að finna leiðir til þess
að jafna þennan verðmun. ís-
lenzkir neytendur munu ekki
sætta sig við annað.
ÚA kaupir meirihluta í þýzku útgerðarfyrirtæki
Er skref í átt til nánara #
samstarfs í sjávarútvegi
- segir Wolfgang von Geldern, stjórn-
arformaður Deutsche Fischwirtschaft
VILJAYFIRLÝSING Útgerðarfélags Akureyringa uni að kaupa meiri-
hluta í Mecklenburger Hochseefischerei í Rostock í Þýzkalandi er
fyrsta skrefið i átt til nánara samstarfs Þjóðverja og íslendinga í sjáv-
arútvegsmálum, segir dr. Wolfgang von Geldern, fyrrverandi sjávarút-
vegsráðherra Þýzkalands og sljórnarformaður Deutsche Fischwirtsc-
haft. Deutsche Fischwirtschaft er móðurfyrirtæki Mecklenburger
Hochseefischerei, sem áður hét Rostocker Fischfang Rederei, og er í
eigu Treuhandanstalt, eignarhaldsfélagsins sem sér um að einkavæða
gömul austur-þýzk ríkisfyrirtæki. Von Geldern hefur mjög beitt sér
fyrir því að samningar næðust við íslenzka aðila um kaup á fyrirtækinu.
„Ég er mjög bjartsýnn og býst
við að okkur muni takast að ljúka
kaupsamningi fyrir 12. marz, en
það takmark höfum við sett okk-
ur,“ sagði von Geldern í samtali
við Morgunblaðið í gær.
Von Geldern vildi ekki svara
spurningum um hugsanlegt kaup-
verð hlutar ÚA í Mecklenburger
Hochseefischerei eða um fjárhags-
stöðu fyrirtækisins. Hann sagði hins
vegar að þýzkir aðilar hefðu marg-
víslegan hag af því að íslendingar
keyptu sig inn í fyrirtækið. í fyrsta
lagi tryggði það framtíð fyrirtækis-
ins og atvinnu starfsfólks þess að
einkafyrirtæki yfirtæki það, í stað
þess að fyrirtækið yrði lagt niður eða
opinbert fé sett í reksturinn. „í öðru
lagi vildum við, vegna stjórnmála-
og atvinnusjónarmiða, tryggja að
úthafsútgerð yrði áfram rekin frá
Austur-Þýzkalandi, en ekki aðeins
frá Cuxhaven í vesturhlutanum,"
sagði Von Geldern. „í þriðja lagi tel
ég afar gagnlegt að hafa stigið fyrsta
skrefið í átt til nánara samstarfs
Islendinga og Þjóðveija í sjávarút-
vegsmálum. Ég tel að slíkt sam-
starf geti skilað báðum þjóðum já-
kvæðum árangri." Áðspurður
Meðeigendur ÚA verða Rostock-
höfn með 10%, Rostockborg með 5%
og landstjórnin í Mecklenburg-
Vorpommern, sem eiga mun 25%.
Gert er ráð fyrir að Mecklenburger
Hochseefíscherei hafi áfram höfuð-
stöðvar í Rostock og verði skráð sem
þýzkt fyrirtæki. Hins vegar er gert
ráð fyrir að nokkrir af stjórnendum
þess verði íslenzkir. Skip fyrirtækis-
hvort hann teldi líkur á að verk-
smiðjutogarar Mecklenburger Hoc-
hseefischerei myndu landa afla sín-
um á íslandi, sagði von Geldern
það ekki ákveðið að svo yrði, en
að því væri stefnt. „Við vonum að
svo geti orðið og ég held að Útgerð-
arfélag Akureyringa vonist til að
einhveijum af átta togurum fyrir-
tækisins verði leyft að koma í ís-
lenzkar hafnir, landa afla sínum
þar og halda áfram veiðum. Fiskur-
inn yrði þá fluttur út frá íslandi,
til Þýzkalands eða annarra landa.
Þetta er óleyst mál. Mér skilst að
nýju lögin um landanir erlendra
skipa á Islandi kveði á um að leyfi-
legt sé að opna hafnirnar, en slíkt
ins, sem eru átta talsins, munu einn-
ig sækja umtalsverða þjónustu til
íslenzkra hafna. Gunnar Ragnars,
framkvæmdastjóri ÚA, sagði í sam-
tali við Morgunblaðið að eitt skilyrði
þess að af kaupunum gæti orðið,
væri að íslenzk stjórnvöld veittu fyr-
irtækinu leyfi til að athafna sig hér
á landi. Hann sagði að til greina
kæmi að togarar þess lönduðu ein-
Dr. Wolfgang von Geldern.
sé ekki nauðsynlegt. Við vonum
auðvitað að slíkt verði leyft fyrir
skip fyrirtækisins, enda verða þau
í íslenzkri eigu að meirihluta,"
sagði von Geldern.
hveijum afla hér, en hagkvæmni
yrði einkum látin ráða því hvar skip-
in hefðu sín umsvif. „Það er gert ráð
fyrir að það geti orðið hér á Akur-
eyri eins og hvar sem er annars stað-
ar,“ sagði Gunnar.
ÚA hefur undanfarna mánuði
fylgzt vandlega með rekstri RFFR
og reynslu af útgerð togara þess.
Gerðar hafa verið rekstraráætlanir
og frammistaða skipanna athuguð.
„Áætlanir okkar byggjast á að arður
verði af rekstrinum,“ sagði Gunnar.
Hann sagði að ÚA tæki ekki veru-
lega áhættu með kaupunum. „Þetta
verður sérstakt hlutafélag og við
munum ekki bera Ijárhagslega
ábyrgð á því umfram okkar eignar-
hluta,“ sagði Gunnar.
Nafnverð hlutarins 96 millj. kr.
ÞÝZKA útgerðarfyrirtækið Rostocker Fischfang Rederei (RFFR), sem
Útgerðarfélag Akureyringa hyggst kaupa meirihluta í, skiptir um
nafn með nýjum eigendum og kallast Mecklenburger Hochseefische-
rei. Nafnverð hlutabréfa í hinu nýja félagi verður fjórar milljónir
þýzkra marka, eða 160 milljónir íslenzkra króna. Samkvæmt viljayfir-
lýsingu þeirri, sem undirrituð var í Berlín fyrr í vikunni, kaupir ÚA
60% í fyrirtækinu og er nafnverð hlutarins því 96 milljónir íslenzkra
króna. Ekki hefur verið gefið upp hvert líklegt kaupverð er eða hvern-
ig eigna- og fjárhagsstöðu fyrirtækisins er háttað.
Aukaatriði og aðalatriði um
jafngildar veiðiheimildir
eftirHalldór
*
Asgrímsson
Þegar blaðamaður heldur því fram
að það sé í meira lagi hæpið sem
stjórnmálamaður segir er eðlilegt að
spurt sé, hvað liggur að baki. Áður
en slík fullyrðing er sett fram tel ég
að viðkomandi blaðamaður eigi að
ræða við stjórnmálamanninn, draga í
efa niðurstöður hans og gefa honum
tækifæri til útskýringa. Þetta gerði
Agnes Bragadóttir ekki áður en hún
taldi sig geta lagt slíkan dóm á um-
mæli mín. Að mínu mati leitaði hún
heldur ekki eftir nægilegum upplýs-
ingum. Hún byggði um of á fullyrðing-
um utanríkisráðuneytisins í málinu.
Allt kann þetta að eiga sér skýringar,
en það var af þessum ástæðum sem
ég sagði að hún hefði ekki gætt hlut-
leysis. Með skrifum sínum kastaði hún
rýrð á mín vinnubrögð og því bið ég
hana að líta í eigin barm. En þetta
er þrátt fyrir allt ekki aðalatriði máls-
ins heldur hvernig við eigum að meta
þann samning sem hefur verið gerður
og hvort hanan er okkur hagstæður.
Ég stend við þá fullyrðingu að hann
sé Islendingum óhagstæður og gefi
EB mun meira en okkur.
Fáum mun minna en EB
Ég get fallist á þá skoðun sem
kemur fram í fyrirsögn Agnesar
Bragadóttur, að verðmæti veiðiheim-
ilda fyrir íslenska þjóðarbúið skipti
öllu máli. Um það getum við verið
sammála og ég tel að þar eigi ekki
síst að leggja til grundvallar mat Þjóð-
hagsstofnunar á verðmæti alls landaðs
afla á árinu 1991. Þar kemur fram
að ef þorskur er metinn á 1 þá er
verðmæti karfa 0,7 og loðnu 0,04.
Þessi mælikvarði er hins vegar ekki
algildur fremur en aðrir og því verður
að líta til annarra atriða málsins.
Það er hins vegar ekki aukaatriði
hversu mikil verðmæti EB getur gert
sér úr sínum veiðiheimildum. í öllum
samningum er aðalatriðið að báðir
aðilar hafi hag af. Það er enginn vafi
á því, að Efnahagsbandalagið hefur
mikinn hag af þessum skiptum. Karfa-
heimildir sem þeir fá eru mikils virði,
en þeir hafa aðeins í litlum mæli get-
að nýtt þá loðnu sem þeir hafa keypt
af Grænlendingum. Það sem við fáum
eru 30 þús. tonn af loðnu, sem eru
vissulega nokkurs virði, en það sem
við látum á móti er okkur þjóðhags-
lega mun meira virði. Efnahagslegur
ávinningur EB af þessum samningi
hefði því getað orðið góður þótt þeir
hefðu fengið mun minna í stað þeirra
loðnuheimilda sem við fáum frá þeim.
Hagur mótaðilans.
I samningum hljótum við að líta til
þess hvers virði þessar heimildir eru
fyrir þá. Á sama hátt og allir sem
stunda viðskipti reyna að gera sér
grein fyrir hag mótaðilans af viðskipt-
unum. Sannleikurinn er sá, að EB var
ávallt að blanda inn í málið þeim hag
sem við fengjum af frekari markaðs-
aðgangi. Ég tel að þeir hafi náð því
fram, að fá mun meira í sinn hlut í
skiptum á veiðiheimildum og á það
get ég ekki fallist. Það er aðalatriði
málsins og við þær fullyrðingar mínar
stend ég og ég tel það virðingarvert
hjá Agnesi Bragadóttir að koma veru-
lega til móts við þetta sjónarmið í
skrifum sínum þann 17. desember.
Var ekki sjávarútvegsráðherra
íjúní1991
Ég vil upplýsa blaðamanninn um
það, að engar formlegar viðræður fóru
fram í minni tíð um þessi skipti. Það
Halldór Ásgrímsson
„Aðalatriði málsins er
það, að Islendingar eiga
að fara fram á veruleg-
ar lagfæringar á þessum
samningi. Það er svig-
rúm til þess þar sem
samningurinn um Evr-
ópskt efnahagssvæði
tekur ekki gildi um nk.
áramót.“
var aðeins um óformlegar viðræður
að ræða 7. mars 1989 milli sjávarút-
vegsráðherra Islands og Manuel Mar-
in, framkvæmdastjóra EB. Fundur
embættismanna íslands og EB 29.
mars 1990 varð ekki árangursríkur.
Skriður komst á þessa samninga eftir
að ég fór úr ríkisstjórn og það var í
tíð núverandi ríkisstjórnar, að tilkynnt
var að niðurstaða væri fengin og í
hlut EB kæmi 3 þús. karfaígildi, þar
af 70% langhali. Ég hélt uppi gagn-
rýni á málsmeðferðina og málið í heild
frá upphafi. Um það vitna ummæli
mín í blöðum og á Alþingi.
Ég varaði einnig við þeim málflutn-
ingi að líta á langhalastofninn sem
verðlausan stofn. Ég hafði efasemdir
frá upphafi um að slíkur samningur
yrði að veruleika, en taldi það ásætt-
anlegt ef þetta yrði niðurstaðan. Það
var mitt mat að mikil óvissa fylgdi
langhalaveiðunum með sama hætti og
óvissa fylgir loðnuveiðunum. Karfa-
veiðarnar eru hins vegar tiltölulega
öruggar.
Verðum að fá betri samning
Ég tel ekki ástæðu til að eiga frek-
ari orðastað við Agnesi Bragadóttur
um þetta mál. Ég þakka Morgunblað-
inu drengileg viðbrögð við beiðni
minni um að birta svar þegar ég fór
fram á það. Aðalatriði málsins er það,
að íslendingar eiga að fara fram á
verulegar lagfæringar á þessum
samningi. Það er svigrúm til þess þar
sem samningurinn um Evrópskt efna-
hagssvæði tekur ekki gildi um nk.
áramót. Það gefst því tækifæri til að
endurskoða samninginn og krefjast
þess að hann verði gerður á jafnréttis-
grundvelli og aðeins verði skipt á jafn-
gildum veiðiheimildum sem séu hag-
kvæmar fyrir báða aðila.
Höfundur er alþingismaður
og varaformaður
Framsóknarflokksins.
SOeí H38M3B3U .81 HUDAaUT8Ö3 nWiDBTZM QIQAJaVlUDÍIOM
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGURri87DESEMBER~l992
a 8
39
Fyrsta umræða um fjárhagsáætlun Reykjavikur 1993 fór fram í gærkvöldi
I fyrsta sinn í áratugi
lækka tekjur milli ára
TEKJUR borgarsjóðs Reykjavíkur á árinu sem nú er að líða verða
rúmlega hálfum milljarði króna lægri en gert var ráð fyrir og út-
gjöld til rekstrar 766,9 milljónum króna hærri en fyrstu fjárhagsáætl-
unartölur gáfu til kynna. Þetta kom fram í ræðu Markúsar Arnar
Antonssonar borgarstjóra við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun borg-
arinnar 1993, sem fram fór á borgarstjórnarfundi í gær. í ræðu
borgarstjóra kom einnig fram, að á næsta ári væri gert fyrir að
tekjur borgarinnar yrðu 12.185 milljónir króna og væri það lækkun
um 142 milljónir frá áætlaðri útkomu 1992. Sagði hann að áreiðan-
lega þyrfti að leita meira en 50 ár aftur í tímann til að finna dæmi
þess að tekjur borgarinnar lækkuðu milli ára.
Útkoma ársins 1992
í ræðu borgarstjóra kom fram,
að engin tekjuflokkur borgarinnar
skilaði á þessu ári innborgun um-
fram það sem áætlað hafi verið og
flestir væru undir áætlun. Útsvar
skilaði t.d. um 100 milljónum lægri
upphæð en gert hefði verið ráð fyr-
ir í fjárhagsáætlun og aðstöðugjöld
yrðu líklega 240 milljónum undir
áætlun.
í máli borgarstjóra kom einnig
fram, að aukafjárveitingar borgar-
innar á árinu væru orðnar samtals
um 410 milljónir króna og í útkomu-
spá ársins væri reiknað með því að
rekstrargjöld færu 766,9 milljónum
króna fram úr fyrstu fjárhagsáætl-
unartölum. Þá væri gert ráð fyrir
að til eignabreytinga yrði á árinu
varið 4.093,8 milljónum í stað
3.844,7 milljóna króna, sem gert
var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
Mismunur á tekjum
borgarinnar og annarra
sveitarfélaga
Borgarstjóri vék að áhrifum
breyttrar verka- og tekjuskiptingar
ríkis og sveitarfélaga og benti á,
að skatttekjur kauptúnahreppa
væru orðnar hærri á hvern íbúa en
skatttekjur kaupstaða og borgar-
innar. Frá því tekjustofnalögin tóku
gildi hefðu skatttekjur minni hreppa
hækkað um 41,9%, tekjur hjá
kauptúnum hefðu hækkað um
50,5%, hjá kaupstöðum um 20,6%
en hjá Reykjavík um 5,9%.
Hann fjallaði einnig um afnám
aðstöðugjaldsins, sem verið hefði
einn veigamesti tekjustofn sveitar-
félaga. Enginn vissi í dag hvað
tæki við af aðstöðugjaldinu en fé-
lagsmálaráðherra gæti nú ásamt
ýmsum sveitarstjórnarmönnum vítt
og breitt um landið glaðst yfir því
að svo kynni að fara, að Reykjavík-
urborg gæti ekki lengur hlíft borg-
arbúum við hækkun á útsvari. í
hnotskurn hefði það gerst, að fjár-
hagslegt sjálfsforræði sveitarfélaga
hefði verið stórlega skert og skatt-
byrði fyrirtækja hefði verið velt
yfir á einstaklinga. Það hlyti að
vera sanngjörn og eðlileg krafa, að
í framtíðinni yrði sveitarfélögum
tryggðar tekjur af atvinnurekstri,
hveiju í sinni byggð, og ekki slitið
á öll skattaleg tengsl milli atvinnu-
rekstrarins og sveitarfélaganna.
Borgarstjóri gagnrýndi fram-
komu ríkisvaldsins í samskiptum
við sveitarfélögin á fleiri sviðum.
Meðal annars hefðu ýmsar ráðstaf-
anir þess, svo sem breytingar á
innheimtu virðisaukaskatts, í för
með sér aukin útgjöld sveitarfélag-
anna. Sagði hann ástæðu til að
árétta, að hugmyndir, sem nú lægju
fyrir um breytta sveitarstjórnar-
skipan í landinu, næðu örugglega
ekki fram að ganga, ef ekki ríkti
traust og trúnaður milli aðila og
menn mættu treysta því samningar
og lög um samráð þeirra á milli
væru virt.
Tekjur lækka milli ára
Samkvæmt ræðu borgarstjóra er
gert ráð fyrir að tekjur borgarinnar
á árinu 1993 verði 12.185 milljónir
króna. Það væri lækkun frá áætl-
aðri útkomu ársins 1992 um 142
milljónir og þyrfti áreiðanlega að
leita meira en 50 ár aftur í tímann
til að finna dæmi um það að tekjur
borgarsjóðs lækkuðu milli ára. Áð-
altekjustofninn, útsvör, myndi skila
6.260 milljónum og væri þar miðað
við óbreytt hlutfall af staðgreiðslu-
stofni, eða 6,7%. Benti borgarstjóri
á að borgin hefði haldið sama út-
svarshlutfalli frá 1988 er stað-
greiðslu skatta var komið á, en á
sama tíma hefði ríkið hækkað hlut-
fall tekjuskatts í staðgreiðslu um
5,8 prósentustig, auk þess sem taka
ætti upp sérstakan hátekjuskatt.
Tekjuskattsbyrðin hefði aukist um
rúm 20% á þessum tíma.
Fram kom að fasteignaskattar
myndu samkvæmt áætlun skila
2.045 milljónum króna á árinu 1993
og væri þar gert ráð fyrir 3,5%
hækkun á mati íbúðarhúsnæðis og
lóða samkvæmt ákvörðun Fast-
eignamats ríkisins. Álagningarhlut-
fallið yrði hins vegar óbreytt. Áætl-
að væri að greiðsla frá ríkinu vegna
niðurfellingar aðstöðugjalds myndi
nema 2 milljörðum og 195 milljón-
um króna á árinu og væri þá miðað
við að sveitarfélögum yrði, hveiju
um sig, greidd fjárhæð sem næmi
78% af álagningartölu ársins.
Útgjöld aukast um 3,9%
Borgarstjóri gerði einnig grein
fyrir áætluðum útgjöldum borgar-
innar á næsta ári. Þar kom fram,
Markús Örn Antonsson, borgar-
stjóri.
að gert væri ráð fyrir 3,9% hækkun
rekstrargjalda miðað við áætlaða
útkomu þessa árs. Útgjaldaforsend-
ur íjárhagsáætlunarinnar miðuðust
við að laun og launatengd gjöld
hækkuðu um 3% og önnur útgjöld
að óbreyttum umsvifum um 2,5 til
3%. Ekki væri búið að reikna með
áhrifum gengisfellingarinnar 23.
nóvember, auk þess sem gera þyrfti
ráð fyrir auknum kostnaði í kjölfar
breytinga á álagningu virðisauka-
skatts. Því mætti búast við breyt-
ingum á frumvarpi til fjárhagsáætl-
unar fyrir síðari umræðu í borgar-
stjóm.
Borgarstjóri sagði að allur undir-
búningur fjárhagsáætlunarinnar
hefði mótast af vilja til þess að
halda óbreyttum framkvæmdaum-
svifum til þess að draga úr þeim
samdráttaráhrifum, sem nú gætti í
atvinnulífi Reykvíkinga. Samanlögð
framlög til framkvæmda verði ná-
lægt 6.150 milljónum króna á þessu
ári að meðtöldum aukafjárveiting-
um en verði á næsta ári, samkvæmt
fjárhagsáætluninni 5.900 milljónir
króna. Þar við bætist framlög til
verklegra framkvæmda og viðhalds
á vegum fyrirtækja borgarinnar,
sem nemi samanlagt um 3 milljörð-
um króna á tímabilinu 1991 til
1993.
Borgarstjóri sagði, að þrátt fyrir
að tekjur borgarinnar yrðu minni á
þessu ári en reiknað hefði verið
með, hefði borgarstjórn og borgar-
ráð einhuga haldið til streitu öllum
framkvæmdaáformum og sam-
þykkt sérstakar fjárveitingar, sam-
tals að fjárhæð 370 milljónir króna,
til úrbóta í atvinnumálum. Ekki
yrði með nokkurri sanngirni sagt
annað en að borgin hefði lagt sitt
af mörkum til örvunar atvinnulífinu
og þess yrði einnig freistað á næsta
ári, þrátt fyrir þrengri stöðu.
Einstakir rekstrarliðir
í máli sínu gerði borgarstjóri
grein fyrir útgjöldum til einstakra
liða í rekstri borgarinnar. Þar kom
meðal annars fram, að til menning-
armála yrði varið 485,7 milljónum
króna, kostnaður við skólamál yrði
1.525,1 milljón króna, til æsku-
lýðs-, tómstunda- og íþróttamála
yrði varið 764,8 milljónum, til dag-
vistarmála 1.082,8 milljónum, til
félagsmála 1.625,3 milljónum, til
gatna- og holræsaframkvæmda
2.243 milljónum, til hreinlætismála
507,5 milljónum og til umhverfís-
mála 369,1 milljón.
Við þessar upphæðir bætast fjár-
veitingar til framkvæmda. Að sögn
borgarstjóra er meðal annars fyrir-
hugað að ljúka viðbyggingu við
Hlíðaskóla og hefja framkvæmdir
við annan áfanga Húsaskóla, auk
þess sem bygging skóla í Rima-
hverfi væri í undirbúningi. Þá yrði
áfram unnið að endurbótum á lóð-
um grunnskóla. Til framkvæmda á
sviði íþrótta- og æskulýðsmála yrði
varið 370 milljónum eða 100 millj-
ónum hærri upphæð en á yfirstand-
andi ári. Munaði þar mestu um
framkvæmdir við sundlaug í Árbæj-
arhverfí, en til þess verkefnis yrði
varið 235 milljónum. Til umhverfis-
og útivistarverkefna yrði varið 205
milljónum, þar af um 95 milljónum
til a ljúka við fyrsta áfanga Fjöl-
skyldugarðs í Laugardal. Til bygg-
ingar leikskóla og framkvæmda á
gæsluvöllum yrði varið um 300
milljónum og hefði ekki áður svo
hárri upphæð verið varið til fram-
kvæmda á því sviði. Þá yrði varið
til framkvæmda í þágu aldraðra 617
milljónum.
í lok ræðu sinnar sagði borgar-
stjóri, að fjárhagsáætlunin bæri það
með sér, að meirihluti borgarstjóm-
ar ætlaði sér að bregðast við mjög
óvenjulegum aðstæðum í efnahags-
og atvinnulífinu á þann hátt, að
borgin bregðist kröftuglega við at-
vinnuleysi og fylgikvillum þess.
Sjálfstæðismenn hefðu beitt sér
fyrir festu og öryggi í stjórn borgar-
innar, sem tryggt hefði borginni
traustan ijárhag og getu til stórra
verka. Að þessu byggi borgin nú
þegar harðnaði á dalnum. Hann vék
að verkaskiptingu ríkis og sveitar-
félaga og sagði, að eðlilegt væri
að færa verkefni í meira mæli til
sveitarfélaganna. Ef einhveijar
sveitarstjórnir vildu skorast undan
samstarfi á þessu sviði, ætti borgin
að beita sér fyrir því að þau sveitar-
félög, sem til þess hefðu styrki og^
áhuga, tækju við auknum verkefn-
um.
Landsvirkjun hækkar afslátt
af rafmagni til húshitununar
STJÓRN Landsvirkjunar hefur ákveðið að hækka afslátt af verði
rafmagns til hitunar íbúðarhúsnæði um 6 aura. Með því gengur til
baka um helmingur rafmagnsverðshækkunarinnar um áramót. Af-
slátturinn kostar Landsvirkjun um 16,5 milljónir kr. á ári.
Rafmagnsverð hækkar um 4%
um áramót. Að sögn Þorsteins
Hilmarssonar upplýsingafulltrúa
Landsvirkjunar leiðir það til um 11
aura hækkunar á hveija kílówatt-
stund til húshitunar. Til þess að
milda áhrif hækkunarinnar ákvað
stjórn Landsvirkjunar að hækka
afslátt sinn af húshitunartaxta úr
20 aurum í 26 aura á kWst. Að
sögn Þorsteins er afslátturinn ein-
göngu veittur á þeim svæðum sem
dýrast er að kynda, það er á svæði
Orkubús Vestfjarða og Rafmagns-
veitna ríkisins.
Afsláttur Landsvirkjunar vegna
hitunar íbúðarhúsnæðis var áætl-
aður 55 milljónir kr. á ári en hækk-
ar upp í 71,5 milljónir við hækkun
afsláttarins. Miðað við 30 þúsund
kW ársnotkun gæti hækkun raf-
magnsverðsins kostað fjölskyldu
utan hitaveitusvæðanna um 3.300
kr. á ári en með því að auka afslátt-
inn tekur Landsvirkjun á sig 1.800
krónur þannig að kostnaðarauki
fjölskyldunnar gæti þá verið ’um
1.500 kr. á ári.