Skírnir - 01.01.1913, Blaðsíða 2
2
Egill Skallagrímsson.
— Svo bjuggu nornirnar Egil austan,
til orðanna snjallan, til dáðanna traustan.
Hans heit voru djúp og dygg þeirra efnd.
Hann var drengurinn sami í trygðum og hefndr
jafnbúinn að vígum, blóti og sumli,
með bitrasta hjörinn og þyngstu svörin.
— Ef nöfn vorra garpa og greppa eru nefnd
brenna geislar hátt af hans kumli.
Með heilanum Egill hataði og unni.
Hans hróður spratt inst af þankanna brunni.
Hans gleði á kraftsins kveikjum brann.
Hans kend byrgðist inni í vinanna rann.
Af þótta og viti hann réð sínu ráði,
réttsýnn á dáðir þess, er hann fjáði.
Til verðleiks og gildis hann virti hvern mann
— en vó jafnt að því, er hann smáði.
Hrygðin lá Agli harðla á munni.
Hægt sló hans negg, en tók undir frá grunni.
Og bæri hann þunga sefans sorg
varð sálin ei margmál, né bar sig á torg.
Þó sprengdi fjötrinn hinn breiði barmur
við bana hans sona, við helför hans vonar,
og hljóm sló af strengjunum bóndinn á Borg,
svo hans böl varð vor eiginn harmur.
Hann heiðraði og unni veldi verðsins
sem vöðva síns arms, sem biti sverðsins,
sem stríðsmerki lifsins, er benti og bauð
og batt saman efnin kvik og dauð.
í gullbjarma sá hans glögga hyggja
að gifta hins stærra er frelsi hins smærra,
að þúsunda líf þarf í eins manns auð
eins og aldir þarf gimstein að byggja.