Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1963, Síða 92
KRISTJÁN ELDJÁRN
FORNKRISTNAR GRAFIR Á JARÐBRÚ
í SVARFAÐARDAL
Það kemur æ betur í ljós, hve geysialgeng bænhús hafa verið hér
á landi á miðöldum. Á hverju ári berast Þjóðminjasafninu tilkynn-
ingar um beinafundi heima við bæi, og yfirleitt staðfesta ritaðar
heimildir, að á þeim bæjum hafa verið bænhús. Augljóst er, að hin
almenna regla hefur verið sú, að grafreitur væri með bænhúsi.
Sennilega hafa grafreitir í fyrstu kristni verið til muna fleiri en
fram kemur í heimildum. Til þess benda beinafundir á bæjum, sem
hvergi eru í heimildum nefndir sem bænhússtaðir, þó ekki sé annað
sýnna en hin fundnu bein séu áreiðanlega úr kristnum grafreit. Hér
verður skýrt frá einu slíku dæmi.
Haustið 1934 varð Jón bóndi Jónsson á Jarðbrú í Svarfaðardal
þess var, er hann ætlaði að grafa kartöflur í hólrana norðan við bæ-
inn, að þar voru í jörðu beinagrindur, þótt enginn hefði áður til
þess vitað, að slíkt kynni að leynast þar. Sá hann tvær beinagrindur
í þetta sinn, en annars var lítið hróflað við beinum þessum. Beina-
grindur þessar eru þær, sem merktar eru sem II og III á uppdrætt-
inum, sem fylgir þessu greinarkorni. Um beinafund þennan hef ég
getið lítillega í Árbók 1941—1942, bls. 27.
Matthías Þórðarson kom að Jarðbrú 1937 og leit á staðinn, en
gerði enga rannsókn.
Vorið 1951 var öllum hólrananum bylt með jarðýtu í því skyni að
undirbúa byggingu fjóss og mykjuhúss. Komu þá enn í ljós tvær
grafir. Ég kom á staðinn 6. júní, reyndi að gera mér sem bezta grein
fyrir því, sem þegar var úr stað fært, og rannsaka það, sem enn
var óhreyft. Eftirfarandi skýrslu gerði ég um það, sem ég varð
áskynja.
Jarðbrú er næsti bær fyrir sunnan kirkjustaðinn Tjörn og skammt
á milli bæja. Norðan við bæinn á Jarðbrú er alldjúp laut (nú að veru-