Bókasafnið


Bókasafnið - 01.03.1991, Blaðsíða 38

Bókasafnið - 01.03.1991, Blaðsíða 38
Hildur G. Eyþórsdóttir deildarstjóri, Landsbókasafni íslands Markaðssetning bókasafna / þjóðfélaginu eru mörg öfl sem keppa um tíma, athygli og áhugamál þegnanna. Bókasöfnin eru þátttakendur í þessari samkeppni og því ætti enginn, allra síst bókaverð- ir, að vera öruggur um að bókasöfn muni alltaf verða til. Þótt þú sem þetta lest lítir á bókasöfn sem sjálfsagðan hluta tilverunnar vegna þess að þau voru það þegar þú varst að alast upp er alls ekki víst að þau verði til staðar þegar barnabarnabörn þín verða komin á legg. Það er enginn vafi á að áfram rnunu bókasöfn búa við aðhald og niðurskurð á fjármagni. Einnig mun útgáfa upplýsingaefnis í margs konar formi aukast jafnt og þétt. Þetta mun valda því að erfiðara verður fyrir bókaverði að velja milli þess sem keypt er til bókasafna og þess sem þau geta ekki eignast. Auk þess sem kostnaður við öflun safn- efnis eykst en sá tími sem notandi hefur til að afla upplýs- inga styttist. Síðast en ekki síst þá munu upplýsingarnar úreldast hraðar. Með öðrum orðum, færri bókaverðir sinna kröfuharðari notendum á styttri tíma með minna upplýsingaefni í höndum. Spurningin er, geta bókaverðir mætt þessum breyting- um með ríkjandi skipulagi og stjórnun án þess að glata hluta af núverandi notendahópi. Ef ekki, hvernig tekst bókavörðum þá að réttlæta fyrir fjárveitingavaldinu og almennum skattborgurum tilvist bókasafna í nútíð og framtíð. Svarið liggur í að mæta breyttum aðstæðum með því að taka upp breytta starfshætti. Þar koma almennar aðferðir markaðsfræðinnar að notum. Stjórnendur bóka- safna þurfa að taka upp þær stjórnunaraðferðir sem not- aðar eru af samkeppnisaðilunum úti í þjóðfélaginu. Ann- ars er tilvist bókasafnsins sem lifandi virkrar stofnunar dauðadæmd. Með því að hrinda markvissri markaðssetn- ingu bókasafna í framkvæmd geta bókaverðir ráðið sjálfir þróuninni. Á annan hátt munu þeir hvorki verða færir um að halda núverandi notendum né stækka notendahóp sinn. Málið snýst ekki nauðsynlega um að fá dýra ráðgjöf hjá markaðsfyrirtæki, jafnvel þótt slíkt væri réttlætanlegt og jafnvel æskilegt fyrir stærstu söfnin í landinu, heldur er átt við að nýta öll tækifæri til þess að minna á bókasöfn, þannig að þau komi upp í huga fólks ómeðvitað og að sjálfu sér þegar heimilisbókasafnið bregst eða þegar stjórnanda fyrirtækis vantar upplýsingar. Hvað merkir orðið markaðssetning? Samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið hefur orð- ið markaðssetning ekki neina eina fasta merkingu í huga fólks. Flestir telja það vera sambland af sölu, auglýsingum og almannatengslum. Aðrir tengja það meira þörfum neytenda, markaðsrannsóknum, vöruþróun, vöruverði og dreifingu. Margir leggja markaðssetningu að jöfnu við sölu og kynningu (Leerburger: 1989). Markaðssetning er einn þáttur stjórnunar og meginhugtakið er að bjóða eitt- hvað í skiptum fyrir annað til að fullnægja þörfum ein- staklings, hóps, stofnunar eða allrar þjóðarinnar. Almenn skilgreining á markaðssetningu Markaðssetning er greining, skipulagning, framkvæmd og eftirlit með vandlega mótaðri áætlun, gerð til þess að koma til leiðar sjálfviljugum verðmætaskiptum við mark- hóp í þeim tilgangi að ná fram markmiðum stofnunarinn- ar. Markaðssetning byggir á að það sem stofnunin býður upp á sé sniðið að þörfum og óskum markhóps og á notkun hæfilegrar verðlagningar, samskipta og dreifingar til að upplýsa, móta og þjóna markaðinum (Kotler: 1982). Það neyðir enginn annan til að nota bókasafn heldur verður bókasafnið að bjóða upp á þannig þjónustu, og setja hana fram á þann hátt og á þeim stað og tíma, að hún sé eftirsóknarverð þannig að fólk vilji eyða tíma, fyrirhöfn og jafnvel peningum í að leita þangað frekar en eitthvað annað. I skilgreiningunni koma fram helstu aðferðir markaðs- fræðinnar og til þess að skilja hana betur varðandi mark- aðssetningu bókasafna er nauðsynlegt að útskýra hana og greina niður í smærri einingar. 1. Greining Til þess að hægt sé að markaðssetja bókasafn þarf að byrja á því að greina hver staða bókasafnsins er og hvernig samsetning notendahópsins sé. Taka þarf ákvörðun um hvernig staðan ætti að vera til þess að vita hvert skuli stefnt. Safna þarf miklu magni upplýsinga til að afla raun- hæfrar þekkingar á því hvernig safnið vinnur og virkar og um styrkleika þess jafnt sem veikleika. Einnig til að sjá hvaða hindranir eru og hvar eygja megi möguleika til nýrra átaka. Ein tegund markaðsfræðinnar er að gera notenda- eða skoðanakannanir, til dæmis um hvernig ímynd safnið hefur meðal starfsfólks og út á við. Taka þarf ákvörðun um það hvernig ímynd skuli stefnt að ef sú ímynd sem við líði er fellur ekki inn í þann ramma sem óskað er eftir. Nýta má þær upplýsingar sem fyrir eru um notendur safnsins en afla þarf ítarlegri upplýsinga um notendur og einnig um þá sem ekki nýta sér safnið. Eins þarf að kanna safnkostinn til samanburðar við það sem er á markaðnum. Einnig þarf að rannsaka hvernig safnkost- urinn nýtist notendum og væntanlegum notendum. Gera þarf úttekt á hvernig því fé er varið sem fyrir hendi er hverju sinni og hvort það er í samræmi við óskir og þarfir notenda. Á grundvelli slíkrar greiningar, sem dæmi eru tekin um hér að ofan, er síðan hægt að hefjast handa við skipulagningu markaðssetningarinnar. 38 BÓKASAFNIÐ

x

Bókasafnið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.