Lesbók Morgunblaðsins - 21.12.1992, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 21.12.1992, Blaðsíða 7
Á Danmerkurárunum: Gunnar og Fransiska með soninn Gunnar. artikel index, sem er efnisgreining bókasafn- anna á innihaldi danskra tímarita. Það ágæta verk nær aftur til ársins 1916, allt sem er eldra en það verður maður að elta uppi sjálf- ur með því að taka hvert tímaritshefti í eigin hönd og fletta. Þá hafa bókasöfnin einnig Avis kronik index, en því miður hefst sú grein- ing með árinu 1940. Allt dagblaðaefni sem er eldra en það verður því að leita á þann hátt að sitja sjálfur með dagblöðin og fletta. Og það getur ært óstöðugan, það lætur nærri að vera um 40 dagblöð sem um er að ræða, tímabilið er 1909-1940, og hafi nú hvert dag- blað komið út að jafnaði 320 daga á ári, verða það alls 396.800 eintök. Ætli mér fyrir- gefist ekki þótt ég næði ekki að efnistaka þau öll á þeim mánuði sem mér var skammtað- ur fyrir sumarþing Félags áhugafólks um bókmenntir til að rannsaka stöðu Gunnars Gunnarssonar í danskri bókmenntasögu. Tímarit áranna 1909-1916 eru mun færri, líklega ekki fleiri en 15, en einnig það að fletta hverju einasta eintaki þeirra í 7 ár er mikið verk fyrir seinvirkan mann á skömmum tíma. Það sem ég hafði fram að færa var því fyrst og fremst það sem ég gat grafið fram með hjálp ævisögulegra uppsláttarrita, við lestur góðra greina fræðimanna sem fjallað hafa um Gunnar Gunnarsson og svo danski tímaritaindexinn eftir 1916 og dagblaða- indexinn eftir 1940. Alltaf leggst manni þó til eitthvert ráð. Á bókmenntaþinginu kom Jón Viðar Jónsson leikhúsfræðingur að máli við mig og var svo vinsamlegur að benda mér á að forlag Gunn- ars Gunnarssonar ' í Danmörku, Gyldendal, ætti sér úrklippusafn með ritdómum um verk Gunnars. Þessu hafði ég alls ekki gert mér grein fyrir. Ég hringdi því í Gyldendalforlag- ið er ég var aftur kominn heim til mín og fékk samband við skjala-vörð þess sem sagði mér velkomið að líta við og skoða það sem hjá sér leyndist. Við komum okkur saman um tíma sem báðum hentaði og svo trítlaði ég spenntur einn morgun snemma niður í kjallara á stórhýsinu Klarebodene númer 3, skammt frá gamla háskólanum í Kaupmanna- höfn og hitti þar fyrir skjalavörðinn, elskuleg- an eldri mann sem hafði fundið fyrir mig borð og stól og fullan pappakassa með númer- uðum umslögum, troðnum af blaðaúrklippum með efni varðandi Gunnar Gunnarsson, eftir hann og um. Og auk þess hafði hann sótt handa mér stóran kaffifant og vildi yfírleitt allt fyrir mig gera. „Já, Gunnar Gunnars- son,“ sagði hann, „sú var tíð að öll fermingar- börn í Danmörku fengu Gunnar Gunnarsson í skinnbandi. Það er langt síðan það var!“ ★ Mér er ekki grunlaust um að til séu nokkr- ar skýringarsagnir eða mýtur á reiki á ís- landi um þögn danskrar bókmenntasögu um Gunnar Gunnarsson. Og ég held að það kasti engum skugga á minningu þess heiðursmanns þótt ég staldri örlítið við nokkrar þeirra í upphafi. Og það gæti verið fróðlegt að sjá hvemig þær ríma við fáanlegar heimildir um þátttöku Gunnars og stöðu í danskri menning- arstarfsemi á árunum 1909-1939. Þá skýringu hef ég heyrt, að sökum mikils og opinbers stuðnings Gunnars Gunnarssonar við nasismann hafi hann verið exkommúníker- aður úr danskri bókmenntasögu. Ég mun víkja síðar meir að þessari frumlegu kenn- ingu, en slæ því þó fram hér og nú að hún eigi sér heldur haldlítil rök, sem best koma í ljós við lestur ritverka Gunnars. Mér er reyndar ekki grunlaust um að þessi kenning eigi sér rætur í þeirri bókmenntaumræðu sem fram fór á árunum eftir síðari heimsstyijöld, þ.e. í bytjun kaida stríðsins, þar sem hver sá rithöfundur sem ekki aðhylltist róttækar stjórnmálaskoðanir var af róttækum mennta- mönnum álitinn annaðhvort auli eða ill- menni, nema hvort tveggja væri. Þeir tímar eru sem betur fer liðnir og það ætti að vera einhver möguleiki á að velta þögninni um Gunnar Gunnarsson í dönskum bókmennta- söguskrifum fyrir sér af minni tilfinninga- semi. Þá hef ég einnig heyrt þá kenningu að rit Gunnars Gunnarssonar hafi þótt svo ómerki- leg og verið lesin af svo fáum, að enginn bókmenntasöguhöfundur hafi viljað leggja fræðimannsheiður sinn að veði með því að eyða á hann bleki og pappír. Það er ekki mitt hlutverk hér og nú að sanna þetta eða afsanna, en fjarskalega skýtur þetta nú samt skökku við þau skrif sem ég hef verið að tina saman undangengna mánuði. Loks er svo hin hefðbundna paranoiða söguskoðun margra íslendinga, sem með réttu má flokka undir það sem meistari Þór- bergur kallaði heimspeki eymdarinnar, að Danir séu svo óskaplega vondir við aumingja litlu, saklausu íslendingana sem allir vita að eru bæði fáir, fátækir og smáir, að þeir geti af tuddaskap sínum ekki unnt þeim þess að vera taldir menn með mönnum eða rithöfund- ar með dönskum rithöfundum. Einnig þessa kenningu leyfi ég mér að draga í efa, en áður en ég kem að því vil ég víkja að stöðu Gunnars Gunnarssonar í dönsk- um bókmenntaskrifum, öðrum en þeim bók- menntasögum sem ég þegar hef getið. Þau skrif eru fyrst og fremst einstakar bækur og greinar í blöðum og tímaritum sem bók- menntaskríbentar sendu frá sér við útkomu bóka hans og við önnur tækifæri. Og það er hreint ekki svo lítið. ★ Það elsta sem ég hef fundið skrifað um Gunnar Gunnarsson í dönsku riti fann ég við lestur greinar Sveins Skorra Höskuldssonar í tímaritinu Gardar 1977 (8) um fyrsta ár Gunnars í Danmörku. Þar er vitnað til Af- holdsdagbladet Reform 10. maí 1910, en í þar stendur „að hinn ungi, íslenski rithöfund- ur, herra Gunnah Gunnarsson, sem er félagi í I.O.G.T. og hefur dvalist um skeið hér á landi, ætlar að dvelja hér líka næsta vetur og fara í fyrirlestraferð, halda erindi og sýna skuggamyndir frá Islandi.“ Þessi litla frétt segir svo sem ekki mikið, enda ritverk Gunnars Gunnarssonar ekki mikil að vöxtum árið 1910, en það sem er eftirtektarvert er þjóðemisgreining höfundar, „hinn ungi íslenski rithöfundur", sem ég mun víkja að síðar. Arin 1910-1912 voru ströng fyrir „hinn unga íslenska rithöfund", en þó má með ólík- indum telja hvað hann sló fljótt í gegn. Um- sagnir danskra dagblaða um fyrsta bindi Sögu Borgarættarinnar em hreint ótrúlega margar, það mundi æra óstöðugan að telja allt upp sem um það var sagt, bæði jákvætt og neikvætt, en staðreynd er að öll helstu dagblöð Danmerkur á þeim tíma birtu ritdóma um verkið. En það er fyrst og fremst með útkomu Gests eineygða, 1913, sem skriður kemst á sölu þess og umfjöllun ritdómara fer að bera þess vott að nýtt stórskáld sé komið fram á ritvöllinn. í ritgerðasafni eftir heim- spekinginn og bókmenntamanninn Harald Nielsen sem hann nefnir VejogSti, æstetiske afhandlinger, og kom út í Kaupmannahöfn árið 1916, heitir ein ritgerðin Borgslægtens Historie og er skrifuð árið 1915. Ritgerðin hefst á almennri umijöllun um stór skáldsögu- verk í mörgum bindum, sem Nielsen segir vera „en Skik, der er bleven ret almindelig i de senere Aar“. Og hann heldur áfram (bls. 151-158): „Best hefur Pontoppidan tekist til með þess háttar seríuskáldsögur í „Lykke- per“, maður fann að loknum lestri að sagan var djúpstæð og yfirveguð heild og auk þess ná einstakir þættir hennar að lifa sjálfstæðu lífi ár eftir ár. Veikleiki slíks skáldsöguforms kemur greinilegar í Ijós í öðru stórvirki nú- tímabókmenntanna, Pelle Erobreren eftir Andersen Nexe. Hér eru hin einstöku atriði, stór og smá, framúrskarandi í sjálfu sér, en heildin er veik og vaklandi [...] Svipað er að segja um seríufrásögn íslenska rithöfund- arins Gunnars Gunnarssonar, sem nú er kom- in út í tveimur bindum; einnig hér eru ein- stöku atriði sterkari en heildin.“ Síðan rekur Nielsen efni Sögu Borgarætt- arinnar, rökstyður fullyrðingu sína með dæm- um og kemst að þeirri niðurstöðu að „höf- undi láti vel að lýsa örlögþrungnum atburð- um, þótt saklaus sveitasæla standi auðsjáan- lega hug hans næst.“ Harald Nielsen bendir síðan á hvað Gunnar Gunnarsson hafi lært og þegið af Selmu Lag- erlöf. Og hann lýkur ritgerðinni með þessum orðum: „Það er hinn ósvikni og innilegi andi þeirra orða [Gests eineygða] sem ber bókina uppi og gefur henni gildi, þó svo að Iist henn- ar sé hvorki djúpstæð né brestalaus." ★ Á árunum í kringum 1920 var Gunnar Gunnarsson orðinn þekktur af öllu bókelsku fólki í Danmörku, 10. útgáfa Sögu Borgarætt- arinnar kom út árið 1921. Ströndin eða Li- vets Strand kom út hjá Gyldendal 1915 og tvö smásagnasöfn árið 1916-18. Skáldsagan Vargur í véum kom árið 1916, Dreng- urinn 1917, Fóstbræður 1918. Þetta er gífurlega mikil framleiðsla og sala bókanna og endurút- gáfa sýna best hveijar viðtökumar voru. Blaðadómar þessara ára fýlla fimm þykk umslög í kassanum góða á skjalasafni Gylden- dals. Árið 1924 kom út ritgerðasafn á bók eftir Peder Hesselaa, bókina nefndi hann einfald- lega Essays. Á blaðsíðum 9-49 er ritgerð sem heitir Gunnar Gunnarsson. Hún hefát á ævi- sögubroti, ef til vill dálítið rómantísku, um barnið sem sat lömb á daginn eða gekk að öðrum daglegum störfum en vakti á laun um nætur og las bækur og kenndi sjálfu sér dönsku. Síðan er rithöfundarferill Gunnars rakinn frá Vorljóðum 1907 til áranna um 1920. Það er afdráttarlaus aðdáandi Gunnars Gunnarssonar sem hér stýrir penna, það er talað um „poetiskt genialitet" og j,en Teknik, der virker saa overbevisende, at man griber sig selv i at sige: Det er Livets tunge Virkel- ighed, du læser om“.‘ í flestum blaðadómum frá fyrri tíð er Gunnars getið sem „íslensks rithöfundar", en í ritgerð Hesselaa er lítil sem engin áhersla lögð á þjóðemi hans. og loka- dómurinn um Gunnar Gunnarsson er þessi: „Hann er hinn heiðskíri, engilsaxneski vits- munamaður með fullt vald á tilfmningum sín- um. Engu að síður rúmar hin djúpa sál hans innilega og milda hjartahlýju gem hefur fært honum ást og aðdáun fjöldans.“ Árið 1925 kom út í Kaupmannahöfn bók eftir Kjeld Elfelt sem heitir Den lykkelige Flugt (Essays om modeme Digtere). Á blaðs- íðum 48-60 er kafli sem heitir Islands Litter- atur i Danmark. Þar fjallar hann um Jónas Guðlaugsson, Jóhann Siguijónsson, Guðmund Kamban og loks um Gunnar Gunnarsson. Aðdáun hans er ósvikin og niðurstaða hans afdráttarlaus: „Og hann [Gunnar Gunnars- son] veldur hinu epíska formi af þeirri list að það gerir enginn danskur rithöfundur bet- ur.“ Sami höfundur, Kjeld Elfelt, sendir svo aðra bók á markað árið eftir, eða 1926, hún heitir Litteraturen i dag og eins og nafnið bendir til fjallar hún um danskar samtímabók- menntir. Á blaðsíðu 56-58 fjallar hann um Leik að stráum og Skip heiðrikjunnar og bendir sérstaklega á sálrænt innsæi höfundar og frjálst ímyndunarafl hans. Sama ár kom svo út eftir Otto Gelsted bók sem heitir Gunnar Gunnarsson. Höfundur hennar var um langt árabil með fyrirferð- armestu mönnum í dönsku menningarlífi, hann var heimspekingur og ljóðskáld en skrif- aði jafnframt mikið um bókmenntir og átti til að vera harður í dómum og rökræðum. Á kreppuárunum fór honum eins og mörgum öðrum menntamanni víða um heim, að hann aðhylltist róttækar stjórnmálaskoðanir og sá þar helst von um viðnám gegn vaxandi fas- isma. Bók Ottos Gelsteds um Gunnar Gunnarsson er ekki stór í sniðum, aðeins 84 blaðsíður. í henni er úttekt á helstu ritverkum Gunnars Gunnarssonar á síðustu 15 árum, þ.e. Sögu Borgarættarinnar, sem höfundur kallar „fol- kelig romantik", Ströndinni, Vargi í véum og Sælir eru einfaldir, sem hann kallar „livs- anskuelsesromaner" og einnig Fóstbræðrum í sérstökum kafla sem hann nefnir Historisk Perspektif. Þá fjallar hann einnig um ieikrit Gunnars óg smásögur, og loks um Leik að stráum og Skip heiðríkjunnar. Þá er sérstak- uf kafli um „ófaraminnið" (Katastrofemoti- vet, þ.e. örlögþrungnir atburðir hlaðast upp uns ósköpin bresta á, prestar kasta trúnni, konur sturlast, karlar fá hjartaslag o.s.frv.) sem er mjög áberandi í ritum Gunnars og svo lokakafli um Norðurlandapólitík hans, en á þessum árum og alveg fram að því að hann flutti til íslands var Gunnar ákafur talsmaður fyrir sameiginlegu ríki allra Norðurlanda. Gunnar hélt fjölmörg erindi um þetta áhuga- mál sitt og skrifaði um það greinar, m.a. heila bók, Det nordiske Rige, sem kom út hjá Gyldendal 1927. í bók sinni um Gunnar Gunnarsson segir Otto Gelsted í fullri hreinskilni það sem hon- um finnst kostur og löstur á ritum hans. Hrifning Gelsteds á Sögu Borgarættarinnar er t.d. takmörkuð og hér gagnrýnir hann einn- ig dönsku Gunnars, en það er ekki algengt og hlýtur að hafa verið sárt að sitja undir, svo mjög sem Gunnar Gunnarsson hafði lagt á sig til að öðlast listræn tök á dönsku. Síðar í bókinni víkur Otto Gelsted aftur að dönsku málfari Gunnars. Það er í umfjölluninni um smásöguna Den glade Gaard, sem hann seg- ir annars ágæta sögu, en tilraunir höfundar til stuðlunar á dönsku máli eru Otto Gelsted lítt að skapi (bls. 45): „Sorglegur misskilning- ur! í krafti tungumálaruglings (sproglig For- vildelse) ætlar Gunnar Gunnarsson að gera fornnorræna stuðlasetningu að burðarási í dönskum nútímaprósa. Sú mikla fyrirhöfn sem Gunnar Gunnarsson hefur lagt á sig til að læra að skrifa á tungumáli sem ekki er hans eigið móðurmál er ella ekki áberandi í skrifum hans. Hér skagar allt í einu framand- legt orðalag eins og klettadrangur fáránleik- ans upp iir þeirri sléttu og felldu dönsku sem hann er annars vanur að skrifa.“ Ég ætla að staldra aðeins við þessa athuga- semd. Ég veit ekki hversu margir þeirra sem þessi orð mín sjá hafa reynt að setja fram meitlaða hugsun í skrifuðum texta á erlendu tungumáli. Yfirleitt hefur fólk tilhneigingu til að gera lítið úr þeim vanda sem það er, hvaða ástæður sem nú liggja fyrir því. En það er nokkuð samdóma álit þeirra sem hafa rannsakað mun þess sem fólk segir og skrif- ar á móðurmáli sínu og þvi sem það segir og skrifar á tillærðu tungumáli, að hann sé verulegur. í Nýjum menntamálum, 3. tbl. 1991, er grein eftir Heimi Pálsson sem hann LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 21. DESEMBER 1992 7

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.