Morgunblaðið - 14.01.2001, Blaðsíða 37
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14. JANÚAR 2001 37
eigandi á tímabili. Um 1980 lá leið
Leifs í Iðnskólann í Reykjavík þar
sem hann var stundakennari í fjög-
ur ár. Til Sjónvarpsins réðst hann
svo árið 1985 og starfaði þar í 15 ár,
fram að flutningum í Efstaleiti.
Leifur var einstaklega hógvær
maður og mikið ljúfmenni. Hann
var oft að mála landslagsmyndir
eða abstraktmyndir inni á málara-
sal Sjónvarpsins þegar færi gafst á
milli tarna í málarastarfinu. Þar
spruttu fram mörg snilldarverkin.
Þótt Leifur hafi sjálfur jafnan gert
lítið úr listrænu inntaki verka sinna
og lagt áherslu á handverkið sýndi
hann ungum listaskólapírum einsog
undirrituðum að oft er meira virði
að hafa tæknina á hreinu en að elt-
ast við ímyndaðan frumleika. Fyrir
tæpum tíu árum, þegar verið var að
undirbúa tökur á leikriti þar sem
voru nokkur atriði sem áttu að ger-
ast á vinnustofu listmálara á
kreppuárunum, munaði Leif ekkert
um að snara út nokkrum málverk-
um í þeim anda á einni dagsstund.
Hann málaði einnig risastór bak-
tjöld af fjallahringnum umhverfis
Reykjavík sem upphaflega voru
notuð í sjónvarpsmynd um Jörund
hundadagakonung, en hafa verið
notuð oft síðan vegna þess hve vel
þau eru unnin.
Leifur var afar fær vatnslitamál-
ari og í fagi sínu var hann einn besti
áferðamálari landsins við óðrun og
viðar- eða marmaraeftirlíkingar.
Hann sótti námskeið veturinn
1953–54 í áferðamálun og mörg
önnur síðar og var óspar á að miðla
öðrum af reynslu sinni. Hann var
auk þess mjög vandvirkur og fum-
laus er kom að silkiþrykki og virtist
alltaf hafa svo lítið fyrir hlutunum
og njóta þess að stunda sína iðn,
sem var samkvæmt framansögðu
e.t.v. nær skilgreiningu nítjándu
aldar á listrænu handverki en tutt-
ugustu aldar á iðngreinum. Vera
má að hann hafi verið einn af síð-
ustu móhíkönum hins listræna
handverks, en þó má segja að síð-
ustu ár sé slíka oftar að finna í leik-
myndagerð eða sambærilegu hand-
verki utan hinna hefðbundnu
iðngreina. Leifur naut starfs síns í
leikmyndadeild Sjónvarpsins og
hann tók jafnan þátt í myndlistar-
sýningum starfsmanna, þótt mig
gruni að hann hafi aldrei leitt hug-
ann að einkasýningu. Á síðustu sýn-
ingunni sl. vor sýndi hann m.a.
silkiþrykkt veggteppi sem hann
vann ásamt konu sinni, Margréti
Loftsdóttur. Fyrir hönd leikmynda-
deildar Sjónvarpsins vil ég votta
henni dýpstu samúð um leið og
Leifi eru þökkuð mikil og góð störf
fyrir leikmyndadeild Sjónvarpsins.
Fyrir hönd leikmyndadeildar
Sjónvarpsins,
Ólafur J. Engilbertsson.
Mánudaginn 15 janúar verður til
moldar borinn vinur okkar og
félagi, Leifur Ólafsson málari.
Leifur hóf nám í málaraiðn hjá
Lárusi Eggertssyni árið 1949, en
lauk náminu hjá Vilhelm Håkans-
son árin 1950 til 1953. Hann lauk
prófi frá Iðnskólanum í Reykjavík
og sveinsprófi þaðan 1953. Í Mál-
arafélagið gekk Leifur hinn 11.
október 1953 og var kosinn ritari
árið 1958 til 1963. Hann átti sæti í 1.
maínefnd frá 1957. Þá var hann kos-
inn í fræðslunefnd Málarafélags
Reykjavíkur árin 1963 til 1967. Árið
1964 var hann gerður að varafor-
manni félagsins og hefur átt sæti í
prófnefnd málara frá árinu 1972.
Meistarabréf í iðn sinni fékk hann
árið 1975. Hann kenndi við málara-
skólann í nokkur ár. Leifur Ólafs-
son vann um langt árabil við skilta-
málun, fyrst hjá Máln-
ingarverksmiðjunni Hörpu hf. og
síðar hjá Ósvaldi og Daníel, Braut-
arholti 18, og tók við rekstri skilta-
stofunnar ásamt Helga Daníelssyni
1974. Eftir að hafa selt skiltastof-
una starfaði hann að iðn sinni á
smíðaverkstæði ríkissjónvarpins
við málun og skreytingar. Leifur
Ólafsson var mikil mannkostamað-
ur og vandaður í hvívetna. Fagmað-
ur var hann með stórum staf og full-
yrða má og er ekki ofsagt, að hann
var með þeim fremstu í meðferð
myndforms og lita. Verk Leifs um
borg og bæ segja það sem segja
þarf um vandaða vinnu og færni
með hug og hönd. Eins og títt er
með einstaklinga, sem skara fram
úr á einhverju sviði, var Leifur hlé-
drægur og lítillátur og lét lítið fara
fyrir sér, en þegar hann gekk til
verka gerði hann það rösklega, af
miklum ákafa og var ekki ánægður
fyrr en hann hafði lokið verkinu,
enda má segja að flest öll verkefni
hafi verið ögrun við sköpunargáf-
una, sem hann mætti með einurð og
festu.
Málarafélag Reykjavíkur er
þakklátt Leifi Ólafssyni málara fyr-
ir þátttöku hans í stjórn og nefnd-
um félagsins og sendir þakklæti og
samúðarkveðjur til ástvina hans.
Fyrir hönd Málarafélags Reykja-
víkur,
Atli Hraunfjörð, ritari.
Bróðir minn, Leifur Ólafsson
málari, er látinn. Hann lést á líkn-
ardeild Landspítalans 6. janúar sl.
Andlát hans kom fjölskyldu hans og
öðrum nánum skyldmennum ekki
að óvörum, þar sem hann hafði und-
anfarna mánuði barist vonlausri
baráttu við illkynja og ólæknandi
sjúkdóm; hann hlaut að lúta í lægra
haldi og það fyrr en síðar. Að vísu
bauðst honum meðferð, sem er
bæði erfið og breytir litlu um end-
anleg úrslit, en hann ákvað af mik-
illi hugprýði að hafna henni og
dveljast heima með hjálp eiginkonu
og barna og bakstuðningi líknar-
deildar. Þannig hlotnuðust honum
margar vikur af sæmilegri líðan og
nær venjulegum lifnaðarháttum.
Þessi tími var honum og fjölskyldu
hans mikilvægur.
Leifur Ólafsson fæddist í
Reykjavík 29. janúar 1931, fimmta
barn hjónanna Brandísar Árnadótt-
ur og Ólafs Bjarnleifssonar, verka-
manns. Hann var einn af sjö bræðr-
um en af þeim eru nú aðeins þrír á
lífi. Hann fæddist beint inn í krepp-
una og eins og mörg önnur kreppu-
börn var hann sendur út á land til
langrar dvalar hjá skyldum og
óskyldum. Hann var þó orðinn átta
ára, þegar hann fór sína fyrstu ferð;
það var vorið 1939, að við feðgar
þrír, pabbi, Leifur og sá, er þetta
ritar, fórum með Laxfossi vestur til
dvalar í Reykhólasveit (en Laxfoss
var, eins og flestum fullorðnum er
kunnugt, annars í ferðum milli
Reykjavíkur, Akraness og Borgar-
ness). Pabbi og Leifur fóru að
Reykhólum en ég að næsta bæ,
Miðhúsum.
Eftir eins árs dvöl þar vestra var
Leifur sendur í dvöl að Bæ í Hrúta-
firði. Enda þótt þjóðfélagið væri á
þessum tíma um það bil að umbylt-
ast, á margan hátt til góðs, kom
fjölskyldan hrakin undan margra
ára kreppufári að viðbættri mikilli
ómegð. Þá tók góð kona, Gerður
Sigurðardóttir kennari frá Sleitu-
stöðum í Skagafirði, yngsta bróður
okkar, Guðjón Þóri, í fóstur. Þau
fóru landveg norður, að ég hygg
vorið 1940, og fylgdist Leifur með
þeim að Reykjum austan Hrúta-
fjarðar. Þaðan var hann fluttur á
bát vestur yfir fjörðinn, settur þar á
land og bent í hvaða átt hann skyldi
ganga. En á þeim bæ bjó hann við
gott atlæti. Nýlega sagði hann mér,
að þar á bænum hefði verið kona,
sem veitti honum tilsögn í teikn-
ingu. Það kom snemma fram hversu
drátthagur drengurinn var. Ein
bernskuminning mín er einmitt
tengd þessum hæfileika hans. Mig
minnir, að hann hafi verið um sex
eða sjö ára, þegar ágætar teikning-
ar hans urðu til þess, að við hófum
útgáfu á teiknimyndasögu á um-
búðapappír: Leifur teiknaði en ég
samdi texta um spænska landvinn-
ingamenn, sem brutust í gegnum
frumskóga Suður-Ameríku.
Þessi menningarviðleitni varð
eitthvað endaslepp og eru engin
gögn til um hana í dag. En þegar
Leifur kom heim unglingur úr sinni
Ódysseifsferð fór hann fljótlega að
mála myndir. Ég varð ákaflega
hrifinn af þeim, gerðist þegar list-
gagnrýnandi og spáði honum frægð
og frama. En bæði var það, að ég
var ekki spámannlega vaxinn og
eins hitt að Leifur var heldur ekki
gæddur þessari „bohem“-lund, sem
oft virðist nauðsynlegt fyrir list-
sköpun. En málari varð hann og á
þeim vettvangi var auðsætt list-
rænt handbragð hans.
Lífshlaup Leifs varð síðan með
hefðbundnum hætti. Hann fann
starfsvettvang sinn í málaraiðninni
og þar kom, að hann stofnaði eigið
heimili. Hann kvæntist Margréti
Loftsdóttur, góðri og traustri konu,
ættaðri af Akranesi.
Í ættfræðigrúski mínu þóttist ég
komast að því, að þau hjón væru
skyld fram í ættum, bæði komin af
gömlum Kjalnesingaættum; þetta á
ég þó eftir að athuga nánar, en ég
veit þó, að móðir Bjarnleifs skóara
og langamma Leifs, María, var
dóttir Þorkels nokkurs, bónda á
Kjalarnesi, líklega sama manns og
Loftur, faðir Margrétar, gat verið
kominn af.
Þau Margrét áttu þrjú góð og
mannvænleg börn; dæturnar Ólöfu
og Ingibjörgu, sem báðar eru
hjúkrunarfræðingar, og soninn
Loft, sem rekur auglýsingastofu.
Stundum gerist það með systk-
inum, að leiðir hætta að liggja sam-
an af margvíslegum ástæðum og
fólkið fjarlægist þá hvert annað.
Þetta minningarbrot ber keim af
slíku ferli. Nú þegar þessi bróðir
minn er látinn, harma ég, að ég
skuli ekki hafa lagt meira af mörk-
um til að halda við og rækta hið
sanna bróðurþel frá uppvaxtarár-
unum.
Leifur var maður hógvær, orðvar
og íhugull og vel liðinn af þeim, sem
hann umgekkst. Eins og svo mörg
kreppubörn var hann gæddur ríkri
réttlætistilfinningu og hann var, að
ég hygg alla ævi, félagshyggjumað-
ur í viðhorfum sínum.
Vegna fráfalls Leifs Ólafssonar
vottum við hjónin í Laufskógum 19
Maddí, Lóló, Ingibjörgu og Lofti,
sem og öllum barnabörnunum inni-
lega samúð okkar.
Þórhallur B. Ólafsson.
Leifur Ólafsson er horfinn yfir
móðuna miklu. Með honum er horf-
inn af sjónarsviðinu fjölhæfur iðn-
aðarmaður.
Fundum okkar Leifs Ólafssonar
bar fyrst saman á vordögum 1953
þegar saman kom hópur málara-
nema í Iðnskólanum í Reykjavík til
þess að þreyta sveinspróf. Þetta
voru frískir og kraftmiklir strákar.
Einn í hópnum lét þó lítið fyrir sér
fara og hélt sig til hlés í hópnum og
honum var veitt lítil athygli í byrj-
un. Annað kom þó á daginn eftir að
piltarnir voru farnir að takast á við
prófverkefnin. Þá fóru augu allra að
beinast að því sem þessi hægláti
piltur var að gera. Þessi verðandi
málarasveinn var Leifur Ólafsson.
Leifur hóf nám í málaraiðn hjá Lár-
usi Eggertssyni málarameistara
1949, en eftir fráfall hans lauk Leif-
ur náminu hjá Vilhelm Håkonsson
1953. Ótvíræðir málarahæfileikar
komu fljótt fram hjá Leifi. Hann
átti öðrum fremur auðvelt með að
tileinka sér hinar margbreytilegu
vinnuaðferðir sem málaraiðnin hef-
ur uppá að bjóða og hann nýtti sér
alla tíð þá möguleika sem buðust til
að auka kunnáttu sína.
Þegar fyrsti erlendi fagkennar-
inn kom hingað til lands 1954 til að
kenna nýja tækni við að mála tré og
marmaralíki lét kennarinn Birger
Persson svo um mælt um Leif
Ólafsson að hæfileikar hans fyndust
aðeins meðal þúsunda.
Jafn snemma og Leifur hafði lok-
ið sveinsprófi gerðist hann félagi í
Málarafélagi Reykjavíkur og var
þar strax í upphafi virkur í starfi.
Hann var ritari félagsins 1958 til
1963, varaformaður 1964. Hann lét
sig fræðslumál málarastéttarinnar
miklu skipta.
Leifur starfaði lengi að fræðslu-
málum Málarafélagsins og átti sæti
í prófnefnd málara á árunum frá
1972 til 1980 en þá gerðist hann
leiðbeinandi við málaradeild Iðn-
skólans í Reykjavík.
Leifur öðlaðist meistararéttindi í
iðn sinni 1973 en kaus aldrei að
kalla sig þeirri nafnbót, en var engu
síður í augum þeirra sem þekktu til
verka hans hinn eini sanni meistari.
Fyrstu árin eftir að Leifur lauk
málaranáminu starfaði hann á al-
mennum vinnumarkaði málara en
hóf síðar störf hjá Málningarverk-
smiðjunni Hörpu h.f., og sinnti þar
ýmsum störfum sem lutu að iðninni.
Hann hannaði vörumerki og málaði
auglýsingar. Síðar fór hann að
starfa hjá Skiltagerð Ósvaldar og
Daníels í Brautarholti 18. Á þeim
árum var í uppsiglingu mikil bylt-
ing í allri skiltagerð og naut Leifur
sín vel í þeirri uppbyggingu. 1973
tók Leifur við rekstri skiltastofunn-
ar ásamt Helga Daníelssyni málara.
Nokkrum árum síðar kaus Helgi að
draga sig út úr rekstrinum og seldu
þeir þá skiltastofuna. Má segja að
frá sama tíma hafi skiltamálun fall-
ið út úr starfssviði málara.
Leifur hóf þá störf sem leik-
myndamálari hjá Ríkissjónvarpinu
og starfaði þar svo lengi sem lög og
heilsa leyfðu.
Leifur Ólafsson var iðnaðarmað-
ur sem hafði metnað fyrir starfi
sínu. Þótt hann væri hlédrægur að
eðlisfari naut hann þess engu síður
að vera fremstur á meðal jafningja.
Ég tel mér hafa verið það mikið
lán að hafa átt þess kost um langan
tíma að vera samstarfsmaður Leifs
Ólafssonar bæði hjá sama vinnu-
veitandanum og að félagsmálum
málara.
Að leiðarlokum skal honum
þökkuð samfylgdin. Konu hans
Margréti Loftsdóttur og börnum
þeirra sendum við Ásta innilegustu
samúðarkveðjur.
Kristján Guðlaugsson.
Um leið og ég kveð tengdaföður
minn Leif Ólafsson og þakka fyrir
tuttugu og fimm ára samfylgd lang-
ar mig að minnast hans. Það var
mikið reiðarslag er hann greindist
með illkynja ólæknandi sjúkdóm
síðastliðið sumar. Hann tók þessum
tíðindum með jafnaðargeði og hug-
arró. Það var erfitt en aðdáunar-
vert að fylgjast með dugnaði og
þrautseigju hans í baráttunni við
sjúkdóm sinn.
Á kveðjustund sem þessari kem-
ur margt upp í hugann. Samveru-
stundir með fjölskyldunni í afmæl-
um, ferðalögum og
fjölskylduboðum þar sem tengda-
pabbi lét sig sjaldan vanta. Hann
gerði sér sérstakt far um að rækta
samband sitt við börn og barna-
börn. Þá minnist ég fjölmargra
gönguferða okkar hjóna með
tengdapabba en hann var mikill
náttúruunnandi og ljósmyndari og
bar með sér myndavélar og þrífót í
leit að myndefni. Á mínu heimili var
pensli ekki dýft í málningardós fyrr
en búið var að ræða við málarann
um undirbúning, efnis- og litaval.
Þá voru þau ófá skiptin sem hann
hjálpaði okkur hjónunum við máln-
ingarvinnu á heimili okkar.
Tengdapabbi var ekki aðeins mjög
góður handverksmaður heldur
einnig góður listmálari. Skrautmál-
aðir veggir og oðruð húsgögn eru
ásamt myndum eftir hann þeir hlut-
ir sem eru í mestum metum á heim-
ili okkar.
Það er sárt að kveðja þá sem
manni þykir vænst um en þakka vil
ég hlýhug í minn garð og góðar
minningar.
Atli Bragason.
Elsku amma, það
var alltaf svo gott að
koma til þín, þú tókst
alltaf svo vel á móti öll-
um og mér leið svo vel
hjá þér. Þú eldaðir allt-
af svo góðan mat og það var alltaf
kók með, alveg sama hvað var í mat-
inn. Þegar maður kom til þín þurfti
maður ekki að hafa neitt fyrir stafni,
það var bara svo gott að liggja uppi í
sófa og hlusta á klukkuna þína og
hafa þig við hliðina á mér að leysa
krossgátur eða lesa dönsk blöð.
Þegar ég keyrði þig heim um
helgar sagðir þú svo oft: „Ætlar þú
að fara eitthvað í kvöld? Maður er
nú bara einu sinni ungur!“ og brost-
ir svo alltaf. Þú hafðir alltaf svo mik-
inn áhuga á því sem maður var að
gera, hvort sem það voru skóli eða
íþróttir, enda varst þú svo mikil
íþróttamanneskja.
Ég minnist þín sem duglegrar, já-
kvæðrar og skemmtilegrar konu.
Ég er mjög þakklát fyrir að hafa átt
þig svona lengi.
ANNA BJERREGA-
ARD ÖGMUNDSSON
✝ Anna Bjerrega-ard Ögmundsson
fæddist í Jelling í
Danmörku 18. apríl
1913. Hún lést á
Landspítalanum í
Fossvogi 6. janúar
síðastliðinn og fór
útför hennar fram
11. janúar.
Guð blessi þig,
amma.
Þín Anna
Elsku Anna, það er
eitthvað svo tómlegt
núna, þú sem ert búin
að vera svo stór þáttur
í lífi okkar.
Þú varst alltaf tilbú-
in að aðstoða okkur.
Það var ótrúlegt að sjá
breytingu á þér eftir
að þú komst á eftir-
laun. Sund alla daga og
oftast spilað eftir hádegi.
Lífsgleðin var mikil og ekki var
verið að kveinka sér ef eitthvað var
að. Ferðalög fórst þú mörg á þess-
um árum bæði innanlands og utan
meðan heilsan leyfði. Allra síðustu
árin urðu þér erfið.
Alltaf var sama, litið á björtu hlið-
arnar og haldið áfram. Þú vildir ekki
að mikið væri fyrir þér haft og ekki
hefðir þú verið ánægð með lofræðu
um þig svo að best er að hætta núna.
Takk fyrir allt.
Þinn tengdasonur,
Hörður Kristinsson.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug
þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf
sem gleymist eigi
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sig.)
Þessar ljóðlínur lýsa vel hugsun-
um mínum þegar ég minnist kynna
minna af Önnu vinkonu minni í yfir
50 ár. Við systkinin tökum undir
þetta.
Við kynntumst fyrst sem vinnu-
félagar eftir seinni heimsstyrjöldina
þegar ég fluttist hingað til Íslands.
Anna hafði þá búið og unnið hér í
um eitt ár.
Þetta átti að vera stuttur stans,
kannski ár eða svo, en árin urðu yfir
50. Við tókum báðar ástfóstri við
land og þjóð, þótt ekki værum við
alltaf aufúsugestir fyrst í stað, út-
lendingarnir. Við giftumst báðar ís-
lenskum mönnum og fórum hvor í
sína áttina en vináttan á milli okkar
og fleiri vinkvenna og starfsfélaga
sem kynntumst á fyrstu árum okkar
á Íslandi hélst í öll þessi ár.
Síðan komum við börnin til sög-
unnar og Anna var eins og önnur
móðir okkar og Rut sem systir. Við
eigum margra ánægjustunda að
minnast og áttum við fjölskyldan
með henni og Rut margar ánægju-
stundir sem munu varðveitast í
minningunni.
Við viljum biðja góðan guð að
styrkja Rut, Hörð, Kristin, Önnu og
Arnar á þessum erfiða tíma.
Hvíl í friði elsku Anna.
Þínir vinir,
Regína, Rósmarý, Hilmar
og Björn Bergmann
og fjölskyldur.