Morgunblaðið - 15.07.2001, Síða 17
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15. JÚLÍ 2001 17
GEISLAPLATA Nínu Margrétar er sú
fyrsta sem inniheldur öll píanóverk Páls Ís-
ólfssonar, það er Þrjú píanóstykki ópus 5,
Glettur, Svipmyndir og Tilbrigði um sönglag
eftir Ísólf Pálsson. Platan gefur góða yfirsýn
yfir þennan ákveðna þátt í höfundarverki
Páls, enda eru verkin samin á mismunandi
skeiði ævi tónskáldsins. Þrjú píanóstykki og
Glettur bera það með sér að vera samin
snemma á tónskáldaferlinum þegar Páll hafði
nýlega lokið námi við Konunglega tónlistar-
skólann í Leipzig, og eru jafnframt þau píanó-
verk hans sem hvað best eru þekkt. Svip-
myndir er á hinn bóginn safn laga frá ólíkum
tímabilum í lífi Páls, sem hann bjó sjálfur til
útgáfu, en kom ekki út fyrr en árið 1994 í kjöl-
far aldarafmælis tónskáldsins. Tilbrigði um
sönglag felur í sér 17 tilbrigði við stef eftir Ís-
ólf, föður Páls, og telur Nína Margrét verkið,
sem er persónulegt og tilfinningaþrungið,
marka hápunktinn í píanótónsmíðum hans.
Síðrómantísk píanótónlist
Um þessar mundir er Nína Margrét að
ljúka við doktorsritgerð um píanótónlist Páls
Ísólfssonar sem hún hefur unnið að undan-
farna vetur við City University of New York.
Hún segir ýmsa þætti hafa valdið því að hún
gerði verk Páls að viðfangsefni ritgerðar
sinnar og ákvað að ráðast í upptökur á þeim.
„Ég hef unnið talsvert í sambandi við íslensk
píanóverk og skrifaði m.a. mastersritgerðina
mína á því sviði,“ segir Nína Margrét, sem
jafnframt hefur lagt mikla áherslu á að flytja
íslenska tónlist í starfi sínu. „Ég komst að því
að píanótónlist Páls er í sérflokki í íslenskri
tónlistarsögu, þar sem hún er samin í stíl
þýskrar síðrómantíkur og á rætur að rekja til
tónhefða 19. aldar. Þar sem flest íslensk pí-
anóverk eru samin undir 20. aldar áhrifum,
fannst mér það spennandi verkefni að kafa
dálítið nánar ofan í þennan rómantíska stíl
sem Páll færði með sér inn í íslenska tónlist-
arsögu. Þá var ekki síst kjörið tækifæri að
taka þennan þátt tónsmíða hans fyrir, þar
sem þau lágu fyrst fyrir í heild sinni árið 1994,
þegar Íslensk tónverkamiðstöð gaf Svip-
myndir út fyrir tilstuðlan Arnar Magnússon-
ar píanóleikara og Þuríðar Pálsdóttur söng-
konu og dóttur tónskáldsins.“
Nína Margrét bætir því við að píanótónlist-
in dragi ekki síður fram nýjar hliðar á Páli Ís-
ólfssyni sem tónskáldi. „Píanóverkin er mjög
vönduð og „píanistísk“ og bera þess merki að
Páll hafi haft mikla þekkingu á píanóinu sem
hljóðfæri. Sama á við um píanóhlutann í söng-
lögunum sem er afskaplega vandaður, og
jafnast fullkomlega á við söngraddirnar.
Þetta var það sem kom mér mest á óvart þeg-
ar ég fór að kynna mér verkin fyrst, enda var
Páll fyrst og fremst einleikari á orgel. Þannig
fólst sérstaða Páls ekki síst í því hversu vel
menntaður hann var á sviði tónlistar og er
greinilegt af verkum hans að hann hefur verið
í miklum tengslum við það sem var að gerast í
heiminum.“
Nína Margréti bætir því við að þessi bálkur
í höfundaverki Páls sé einkar verðugt rann-
sóknarverkefni, ekki síst vegna þess hversu
mikið starf er óunnið við að kanna íslenska
tónlistarsögu. „Mér finnst sérstök ástæða til
að vekja á því athygli að íslenskur tónlistar-
arfur er ekki síður mikilvægur en bók-
mennta- eða myndlistararfurinn.“
Kynning á íslenskri tónlist
Útgáfa Nínu Margrétar á píanóverkum
Páls er sannarlega mikilvægt innlegg í kynn-
ingu á íslenskum tónlistararfi, bæði hér
heima og erlendis. Geislaplötunni er dreift
hér á landi á vegum Japis, en er sem fyrr seg-
ir gefin út af sænska útgáfufyrirtækinu BIS,
en útgáfan naut auk þess stuðnings Tón-
skáldasjóðs Ríkisútvarpsins, Þjóðhátíðar-
sjóðs og The American-Scandinavian Society
í New York. BIS-útgáfan hefur getið sér gott
nafn í hinum alþjóðlega útgáfuheimi og hefur
hlotið verðlaun og viðurkenningar, bæði fyrir
gæði og verkefnaval, þar sem hún hefur þótt
draga athygli að verðugum verkefnum. Fyr-
irtækið hefur nokkuð einbeitt sér að skandin-
avískri tónlist, og hefur m.a. gefið út verk
Jóns Leifs. Nína Margrét segir BIS hafa
staðið einkar vel að útgáfu disksins „Þeir hafa
t.d. lagt mikið í hönnun bæklingsins í kápu, en
þar er texti sem felur í sér umfjöllun um tón-
skáldið og píanóverk hans, auk annarra upp-
lýsinga, prentaður á fjórum tungumálum, þar
á meðal íslensku. Þeir hafa því ekki sparað
kostnaðinn á því sviði og finnst mér það til
fyrirmyndar, því þetta er ekki síst mikilvæg-
ur hluti af útgáfunni, hvað kynningu tónlist-
arinnar á erlendum markaði varðar. Diskur-
inn var tekinn upp í Stokkhólmi á fjórum
dögum og sá þýski tónmeistarinn Martin
Nagorni um hljóðritun og tæknivinnslu. „Við
áttum mjög gott samstarf, sem kom sér vel,
því upptakan reyndi mikið á. Þetta var erfitt,
tónlistin reynir mikið á tækni og úthald. Ég
hugsa að ég hafi verið allt að því viku að jafna
mig á eftir,“ segir Nína Margrét. „Eftir á er
ég mjög fegin að hafa gert þetta og vona að
diskurinn verði til þess að kynna Pál Ísólfsson
sem tónskáld,“ segir Nína Margrét að lokum.
Ljósi varpað á nýjar
hliðar tónskáldsins
Á dögunum kom út hjá hinni virtu BIS-útgáfu í Sví-
þjóð geislaplata með flutningi Nínu Margrétar Gríms-
dóttur píanóleikara á heildarsafni píanóverka Páls Ís-
ólfssonar. Heiða Jóhannsdóttir ræddi við Nínu
Margréti um kynni hennar af tónlist Páls.
Nína Margrét Grímsdóttir
heida@mbl.is