Morgunblaðið - 15.07.2001, Qupperneq 18
LISTIR
18 SUNNUDAGUR 15. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
ÞAÐ er bjart yfir þessariungu konu, einhver alvegsérstök heiðríkja; hún erhispurslaus í tilsvörum,
næstum kaldhæðin, og gerir ekki
mikið úr þeim árangri sem hún hefur
náð á ýmsum sviðum tónlistarinnar.
Hún kveðst hafa gutlað á píanó, sarg-
að á fiðlu, dútlað sér í söng og dúllað
sér við orgelið, en þeir sem til þekkja
vita að þau sagnorð sem hún notar til
að lýsa því sem hún gerir í tónlistinni
eru ekki sannleikanum samkvæm.
Árangur hennar er líka til vitnis um
það.
„Ég er fædd og uppalin í Kópavogi,
og bjó þar þangað til í gær. Ég byrj-
aði að læra á píanó sex ára og lauk
áttunda stigi fyrir tveimur árum. Ég
lærði líka á fiðlu, en þoldi aldrei fiðl-
una – hún var ekki mitt hljóðfæri. Ég
gerði svosem engar sérstakar
skammir af mér þegar ég var krakki,
og fór í MR eftir barnaskólann. Ég
ætlaði alltaf að fara í læknisfræði, en
svo gerðist það alveg óvart vorið eftir
að ég kláraði áttunda stigið í píanóinu
að – þá átti ég eitt ár eftir í MR – að
ég vissi ekkert hvað ég átti að gera
við píanóið, ég var orðin hundleið á
því og fór að læra á orgel, alveg óvart.
Ég er búin að vera föst í því síðan. Svo
var ég alltaf og er í kór í Langholts-
kirkju, byrjaði í Gradualekórnum rétt
eftir að hann var stofnaður, 1991 eða
92 og hef sungið þar með einum fjór-
um kórum. Ég byrjaði að leysa Jón
Stefánsson organista af í messum; í
fyrsta skipti þegar ég var fjórtán ára,
en það tengdist ekkert því að ég færi
að læra á orgel. Svo var ég undirleik-
ari með Gradualekórnum í mjög
mörg ár, eða frá því ég var fimmtán
ára. Svo byrjaði ég að læra að syngja
fyrir tveimur árum og skemmti mér
hið besta við það.“
En hvernig hefur öllu þessu tónlist-
arnámi verið háttað, hvar byrjaðirðu?
Ég byrjaði að læra á píanó í Tón-
listarskóla Kópavogs, þar sem Árni
Harðarson var lengst af kennari
minn. Ég kláraði sjötta stig. Eftir það
var ég í Englandi í hálfan vetur, en
fór svo í Tónlistarskólann í Reykja-
vík, þar sem Halldór Haraldsson var
kennari minn. Síðasta veturinn var ég
að gutla á píanóið hjá Miklosi
Dalmay.
Þú hefur þá haldið áfram að læra á
píanó, þótt þú værir byrjuð að læra á
orgel?
Ég og píanóið – þetta var eins og
farsælt hjónaband sem komnir voru
brestir í, og ég fór að halda framhjá.
Annars er þetta mjög dularfullt, því
ég hef aldrei verið neitt fyrir það að
æfa mig og æfði mig eiginlega aldrei
neitt á píanóið. Ég var fljót að ná hlut-
unum og þetta gekk alveg þannig. En
þegar ég álpaðist til að fara að læra á
orgelið, komst ég að því að það er
ekkert hægt að læra á það án þess að
æfa sig. Ég sat og var að spila eitt-
hvað, og svo kemur allt í einu nóta í
fótpedalinn, og þá frýs allt, [hér kem-
ur skelfilegt hljóð, sem táknar ör-
væntingu píanistans sem þarf nú allt í
einu að fara að spila með fótunum
líka]. Þá sá ég að ég þurfti að fara að
æfa mig. En það er nú reyndar ansi
gott aðhald í því að maður þarf alltaf
að mæta eitthvert annað til að æfa sig
á orgelið, og þegar maður er mættur,
þá munar mann ekkert um að æfa sig
í tvo tíma. Ég er nú svosum komin
upp í sjö tíma núna – eins og ekkert
sé. En píanóið leystist smám saman
upp og dó svo bara.
Það var aldrei planið hjá mér að
halda áfram í tónlistinni. Þegar ég
kláraði MR í hitteðfyrra skráði ég
mig í læknisfræðina, með hálfum
huga þó; skárra að vera skráður en
ekki skráður ef eitthvað skyldi koma
uppá.“
En hvar kom fiðlan inn í þetta,
hvernig stóð á því að þú fórst að læra
á hana?
„Sko, ég er bara ekki alveg viss.
Vinkona mín var að læra á fiðlu og
mig langaði að prófa þetta. Mér
fannst alveg ágætt að spila á fiðluna
en þoldi bara ekki að æfa mig; eitt-
hvert leiðinda sarg í þessu hjá mér.
Ég kláraði fjórða stigið og var langt
komin á því fimmta þegar ég hætti.
Annars var margt gott sem kom út úr
þessu, til dæmis er fiðluleikur fínasta
þjálfun fyrir tóneyrað, og ég eignaðist
líka fína vinkonu í þessu fiðleríi sem
var svo með mér í MR. Síðasta vet-
urinn minn í þessu var búið að stofna
hljómsveit í skólanum, og ég náði því
að spila í Vivaldi konsert með hljóm-
sveitinni.“
En hvað með sönginn?
„Ég held að það hafi aldrei heyrst
neitt í mér alla mína hundstíð í þess-
um barnakórum. Ég var fyrst í kór
hjá Friðrik S. Kristinssyni í Digra-
nesskóla. Það er nú fjarlæg fortíð –
sem ég man lítið eftir. Það heyrðist
heldur aldrei neitt í mér í Graduale-
kórnum. En svo gerðist það eftir að
ég hætti þar – við vorum fjórar jafn-
öldrur í MR sem allar höfðum verið í
kórnum – að pabbi einnar okkar var
harður á því að við yrðum að taka þátt
í söngkeppni MR. Við sögðum auðvit-
að nei, nei, nei, nei – en létum svo
gabbast í þetta. Úr varð kvartettinn
Djúsí, sem varð fimm ára fyrir stuttu.
Við vorum náttúrlega alltaf syngjandi
eftir þetta, og ég var farin að treysta
því að ég gæti eitthvað, þótt ég hefði
aldrei sungið ein opinberlega áður.
Ég veit ekki hvort það var þetta sem
varð til þess að mig langaði að fara að
læra meira. Ég byrjaði að gutla að-
eins í einkatímum í hitteðfyrra og
byrjaði svo í Söngskólanum í Reykja-
vík í fyrravetur, þar sem ég lauk
sjötta stigi hjá Ólöfu Kolbrúnu Harð-
ardóttur. En Djúsí vann í keppninni í
MR og varð svo í þriðja sæti í Söng-
keppni framhaldsskólanna. Við
syngjum auðvitað djúsí og safaríka
tónlist; byrjuðum á barbershop-
kvartett, Good Night Sweetheart, en
erum svo líka með lög frá Pointer
Sisters og Manhattan Transfer og
fleira og fleira. Við erum reyndar að
taka upp disk núna – hann átti að
klárast í gær, en það tókst ekki.“
En hvernig stóð á því, að þú, Kópa-
vogsbúinn hættir í kór í Digranesinu
og fórst að syngja með Gradualekór
Langholtskirkju?
„Ja, það var nú eiginlega mjög dul-
arfullt. Ég kom ekkert nálægt því, ég
var svo lítil og vitlaust. Að undirlagi
Friðriks (S. Kristinssonar), var þetta
samsæri milli hans, mömmu og Jóns
(Stefánssonar). Við mamma vissum
varla hvar Langholtskirkja var og
vorum heillengi að komast á fyrstu
kóræfinguna. Ég tók aldrei inntöku-
próf í kórinn því Jón tekur alla inn
sem geta spilað á fiðlu. En ég gerði
eiginlega ótrúlega mikið með því að
mæta í þennan kór, því langflestir
vinir mínir eru úr þessu kórastarfi,
bæði úr Gradualekórnum og Lang-
holtskórnum, og þar hef ég langmest
komið fram opinberlega bæði sem
undirleikari og í alls konar öðru ves-
eni, orgelstyrktartónleikum, við að
glamra á píanó, að syngja með Djúsí
og spila í messum. Jón er alveg frá-
bærlega skemmtilegur og gaman að
vera í kór hjá honum. Ég held ég sé
búin að fara í sex kórferðir með kór-
unum í Langholtskirkju á rúmu ári,
fjórar með Langholtskórnum, eina
með Gradualekórnum og eina með
Graduale nobili, þannig að það er al-
veg feikinóg að gera.“
Finnst þér það hafa verið mikil-
vægt fyrir þig að taka þátt í kórstarf-
inu?
„Já, ég get ekki sagt annað. Þarna
á ég mínar bestu vinkonur, og sumar
hafa líka verið með mér í skóla –
kannski í öðrum árgangi þó – en ég
hefði þá sennilega ekki kynnst þeim
ef við hefðum ekki verið saman í
kórnum. Ég byrjaði í Gradualekórn-
um, og fór svo seinna að syngja með
Kór Langholtskirkju. Ég söng með
Graduale nobili eftir að hann byrjaði
og í fyrra söng ég líka með Kamm-
erkór Langholtskirkju, þannig að
þetta hefur verið heilmikið.
Ég hef þó ekki sungið með kór
eldri félaga, og heldur ekki með
Krúttakórnum.“
Þú talar um þetta svolítið í hálf-
kæringi, og notar orð eins og að dútla,
glamra og gutla, en svo reynistu vera
frábær og fjölhæf ung tónlistarkona.
„Það hlýtur að hafa komið alveg
óvart, kannski erfðabreytingar eða
eitthvað svoleiðis. Pabbi hefur alltaf
gutlað á píanó. Hann hefur spilað
sömu fjögur lögin frá því ég man eftir
mér. Alveg ágætis lög þó. Föður-
amma mín hefur alltaf spilað á píanó.
Hún kenndi okkur systkinunum svo-
lítið, og það gerði pabbi reyndar líka.
Bæði systkini mín lærðu líka á píanó
alveg þangað til þau komu í mennta-
skóla og gekk alveg ágætlega, en mér
gekk bara betur. Þessu var svona
misskipt milli okkar systkinanna. Svo
er ekki nokkur von til þess að ég geti
lært mannkynssögu, meðan bróðir
minn er eins og alfræðibók. Hann
hætti í píanóinu þegar ég fór framúr
honum. Í móðurættinni minni er grín-
ast með það að þar séu tveir sem haldi
lagi. Ég hlýt þá að vera annar þeirra.
Þar er ekkert tónlistarfólk. En systir
pabba, Ágústa Hauksdóttir er píanó-
kennari.“
En er ekki komið að því að þú segir
mér meira frá orgelnáminu?
„Jú, þetta var nú svolítið spes. Það
var þannig að sumarið 1998 var ég á
ferð í Þýskalandi, en það var mjög
dularfullt að ég fékk ferðina í vinning
í þýskuþraut. Við vorum tvær sem
fórum saman. Ég hafði liggur við
aldrei hvorki heyrt né séð kirkjuorgel
áður. Við vorum í litlum fallegum bæ,
Kassel, þar sem var alveg brjálaður
organisti með hárið allt út í loftið,
Herr Richter hét hann. Hann var að
sýna okkur orgelið í kirkjunni sinni,
og mér fannst það alveg rosalega flott
og hugsaði bara: vá, kannski væri nú
gaman að fara að læra á orgel. Hann
spilaði fyrir okkur nokkur verk sem
mig hefur alltaf langað til að æfa. Svo
gerðist ekkert meira fyrr en um
haustið, þegar ég sit á skólasetning-
unni í Tónlistarskólanum og hugsaði:
æ, mig langar ekki að læra á píanó
lengur. Þá var það hjónaband sem
sagt alveg komið í tætlur. Skólinn var
líka byrjaður. Ég hringdi svo í Jón
(Stefánsson) og sagði: Hvað á ég að
gera, mig langar svo að læra á orgel.
Talaðu við Hörð (Áskelsson) sagði
Jón, og ég hringi í Hörð. Hann var þá
að byrja í ársleyfi og sagði mér að
hringja í Tónskóla þjóðkirkjunnar.
Ég hringdi þangað og talaði við Hauk
Guðlaugsson. Hann var hinn besti en
sagði: Ertu nú ekki svolítið sein fyrir?
Jú, sagði ég, mig langar bara svo að
læra á orgel. Svo gaf ég honum upp
kennitöluna mína, og þá kom í ljós að
ég átti sama afmælisdag og konan
hans, og þá sagði hann bara: Já,
komdu bara strax.
Ég var fyrsta veturinn hjá Árna
Arinbjarnarsyni í Grensáskirkju, sat
og æfði mig á orgel alla daga og lauk
sjötta stigi eftir fyrsta veturinn.
Sambandið við píanóið gekk hreint
ekki vel. Alltaf þegar ég var að æfa
mig á píanóið hugsaði ég: Æ, ég ætti
nú frekar að vera að æfa mig á org-
elið, og svo öfugt auðvitað. Ég kláraði
áttunda stigið á píanóið, og það var al-
veg nauðsynlegur tæknilegur grunn-
ur fyrir orgelið. Annan veturinn fór
ég svo til Harðar í Hallgrímskirkju,
lauk sjöunda stiginu og svo áttunda
núna í vor.“
Mér er sagt að það hafi verið hæsta
lokapróf sem tekið hefur verið í org-
elleik við Tónskóla þjóðkirkjunnar.
„Já, og það skemmtilega er að með
því sló ég met kærastans míns,
Ágústs Inga Ágústssonar um 0,1.
Þetta var mjög spes. Það var nú
þannig séð ekki ætlunin endilega að
slá hann út, en ég hlýt að hafa bara
spilað svona fjandi vel í prófinu.“
Nú eru píanó og orgel hvort sitt
hljóðfærið og hreint ekki lík, þótt
bæði séu hljómborðshljóðfæri.
Hvernig tókst þér að aðlaga þig að
orgelinu, sem er með mörg hljóm-
borð, fótspil og alla þessa takka til að
velja ólíkar raddir og ólíkan
hljómblæ?
„Já, þetta var erfitt, en það eina
sem virkar er bara að æfa sig hægt til
að ná því að samhæfa sig. Þetta er
hræðilegt fyrst; bara eins og það að
opna svellinn til að hækka og lækka,
ég bara sá fram á að ég myndi aldrei
geta þetta. En svo opnast smám sam-
an þriðja rásin í höfðinu á manni fyrir
fótpedalinn, þannig að hendur og fæt-
ur geta náð sjálfstæði, en það er samt
talsvert erfiðara að þurfa að lesa af
þremur nótnastrengjum í orgelinu en
tveimur í píanóinu. Maður þarf sem
sagt meira að æfa hlutina, og minna
hægt að redda sér með því að lesa
nóturnar beint af blaðinu. Ég nefni nú
ekki fiðluna, þar sem maður er bara
með eina rödd. Hins vegar er hægt að
spila falskt á fiðlu, en það er mjög erf-
itt á orgelið. Svo eru þetta endalausar
puttaflækjur fyrst þegar maður er að
byrja á orgelið, en það er nú orðið í
lagi núna. En það er svosem hægt að
spila ömurlega illa á orgel þótt maður
spili allar nóturnar réttar. Maður
þarf að vanda sig.“
Hvernig gekk þér í skóla?
„Mér gekk alltaf vel, eiginlega of
vel. Þeir voru orðnir leiðir á mér þeg-
ar ég var í níunda bekk. Ég hefði get-
að tekið samræmdu prófin ári fyrr, en
ég var bara svo lítil og vitlaus að það
hefði ekki gengið. En það varð úr að
ég fór í hálfan vetur í klausturskóla í
Englandi. Það var alveg ágætt. Ég
lærði mikla ensku, og námið tók svo-
lítið á, og ég var til dæmis að læra
hluti í líffræði sem komu ekki fyrr en í
fjórða eða fimmta bekk í MR. En ég
náði því þó að verða hæst í bekknum.
Ég var náttúrlega stirð í enskunni
fyrst, og var ekki einu sinni með orða-
bók með mér, en svo kom þetta bara
og ég gat farið að skrifa ritgerðir á
ensku. Það hjálpaði mér mikið þegar
ég kom í MR.“
Varstu þá eitt af þessum góðu
börnum sem eru í öllu og brillera hvar
sem niður ber?
„Ég hef alltaf verið svona létt-of-
virk. Þetta var nú slæmt á tímabili; til
dæmis þegar ég var í píanói, fiðlu og
dansi, það var alveg kostulegt, þá
dröslaðist ég með fiðluna á bakinu í
danstíma og sveitt beint þaðan í tón-
listarskólann. Síðasti veturinn í MR
var líka erfiður, þegar ég var bæði í
píanótímum, orgeltímum og söngtím-
um með skólanáminu. Ég var nú
reyndar líka í júdó. Bjarni Friðriks-
son var með kynningu í skólanum og
það varð uppi þvílík múgsefjun að all-
ar stelpurnar fóru í júdó; ein átti nú
eftir að verða Íslandsmeistari, en ég
hætti. Það furðulega er að ég er nú
samt alltaf á nálum yfir því að vera
ekki að gera neitt.“
„Maður þarf
að vanda sig“
Hún heitir Lára Bryndís Eggertsdóttir, er 21 árs, hefur búið í
Kópavoginum þar til í gær og fékk í vor hæstu einkunn sem gefin
hefur verið á lokaprófi í orgelleik í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Hún
sagði Bergþóru Jónsdóttur frá námi sínu og hvernig hún hefur
„dúllað sér, dútlað, gutlað og sargað“ þar til áfanganum var náð.
Morgunblaðið/Jim Smart
Lára Bryndís Eggertsdóttir við orgelið í Hallgrímskirkju.
begga@mbl.is
’ Það var aldreiplanið hjá mér að
halda áfram í tónlist-
inni. Þegar ég klár-
aði MR í hitteðfyrra
skráði ég mig í lækn-
isfræðina, með hálf-
um huga þó; skárra
að vera skráður en
ekki skráður ef eitt-
hvað skyldi koma
uppá. ‘