Morgunblaðið - 11.08.2001, Blaðsíða 37
UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. ÁGÚST 2001 37
Í ÁRANNA rás hafa staðið um-
ræður um hinar og þessar úrbætur í
samfélagi okkar mannanna. Víst er
að við búum í tiltölulega flóknu sam-
félagi og höfum sett okkur margvís-
legar reglur til þess að ráða við að
halda nokkurn veginn frið hvert við
annað. Og ef einhverjum verður á að
brjóta reglurnar hefjast margir upp
á afturlappirnar til að benda á það
sem aflaga hefur farið við reglusetn-
inguna eða til að skamma þá sem eiga
að framfylgja reglunum. Allt of sjald-
an beinist athyglin að ábyrgð þess
sem hefur brotið af sér.
Fyllirí og vitleysa því tengd eru
dæmi um þetta. Borgarstjórn
Reykjavíkur stendur frammi fyrir
flóknum vanda vegna þess að í mið-
borgina kemur fólk sem ræður ekki
við sig – það ku vera borgarstjóran-
um að kenna! Mikið hefur verið rætt
um ofbeldi og skrílslæti á Eldborg
um verslunarmannahelgina og móts-
haldari þar er í nauðvörn – þetta var
víst allt honum að kenna! Maður er
tekinn fyrir of hraðan akstur og lög-
reglan sektar hann – þessar löggur
eru klikk! Víst má benda á ábyrgð
þeirra sem eiga að setja reglurnar en
ábyrgðin er og verður hinna, þeirra
sem missa vitið í einskærri hamingju
yfir því að geta í skjóli fjöldans látið
eins og villidýr – nei, þetta er nú ekki
góð samlíking því villidýr komast
ekki í hálfkvisti við Íslendinga sem
eru viti sínu fjær af einskærri lífs-
gleði. Og nú er líka allt svo ódýrt,
jafnvel ókeypis – sem hlýtur að leiða
af sér virðingarleysi manna gagnvart
eignum sínum, sem aftur hlýtur að
leiða til virðingarleysis þeirra gagn-
vart eignum annarra. Hitt er síðan
þessu tengt og öllu verra að beri
maður ekki virðingu fyrir sjálfum sér
getur hann varla borið virðingu fyrir
öðrum mönnum.
Samábyrgðin er og verður okkar
allra. Sú tíð að við Íslendingar gæt-
um talist ein stór og hamingjusöm
fjölskylda virðist liðin. Hér þekkja
ekki allir alla, eins og stundum er í
hávegum haft, og höfðatalan er orðin
afstæð. Við erum bara öll svo ótrú-
lega falleg að jafnvel útlendingar eru
farnir að flykkjast hingað til þess að
berja okkur augum. Annað skiptir
minna máli. Eins og það að hver og
einn finni einhver góð gildi til þess að
rækta í sjálfum sér. Og að foreldrar
finni góð gildi til að rækta með börn-
um sínum, já, og tíma til ræktunar-
starfanna. Þetta er langtímaverkefni
sem íslenska þjóðin verður að sam-
einast um. Margir standa sig auðvit-
að vel en enginn má undan skilinn.
Reglur einar og sér munu ekki
leiða íslensku þjóðina til góðs – það
er blessuð þjóðarsálin sem meira
máli skiptir og bót á henni verður
ekki fundin í ,,blóðugum“ tölvuleikj-
um og sýndarveruleika kvikmynda
eða í erlendum sjónvarpsþáttum þar
sem aðalsöguhetjurnar eru annað
hvort samkynhneigðar eða einbúar –
nema hvort tveggja sé – og allt loft úr
gamanspennunni ef einhverjum yrði
það á að verða ástfanginn í alvörunni
og hjónaband er bannað í ,,Handrita-
gerð hamingjuveitunnar ehf.“. Nei,
þá er betra að ,,elska“ bara sófann og
sjónvarpið, poppkornið og pizzuna.
Svoleiðis dót er nefnilega til friðs.
Þessar löggur
eru klikk
Jóhann Guðni
Reynisson
Hegðun
Allt of sjaldan, segir
Jóhann Guðni Reyn-
isson, beinist athyglin
að ábyrgð þess, sem
hefur brotið af sér.
Höfundur er forstöðumaður upplýs-
inga- og kynningarmála hjá Hafn-
arfjarðarbæ