Morgunblaðið - 28.09.2001, Blaðsíða 11
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 28. SEPTEMBER 2001 11
Kínaklúbbur Unnar og
Veitingahúsið Shanghæ
halda sameiginlega upp á
þjóðhátíðardag Kína þann 1. okt.
Mánudaginn 1. október kl. 19.00 hefst
þjóðhátíðargleðskapurinn á Shanghæ, Laugavegi 28,
með borðhaldi að hætti Kínverja, fjögurra rétta
veislumáltíð.
Síðan tekur við skemmtidagskrá undir stjórn
Unnar Guðjónsdóttur, formanns Kínaklúbbsins,
sem einnig mun kynna næstu hópferðir til Kína,
en þær verða farnar í maí og september á næsta ári.
Allir eru velkomnir á þetta skemmtikvöld.
Verðið er kr. 2.000. á mann, en
borðapantanir eru hjá Shanghæ
í s. 551 6513 og 552 3535
Kínaklúbbur Unnar, Njálsgötu 33, 101 Reykjavík, s. 551 2596
BENT Scheving Thorsteinsson
skrifaði á blaðamannafundi á
þriðjudag undir skipulagsskrá
styrktarsjóðs Margaret og Bents
Scheving Thorsteinssonar og af-
henti Páli Skúlasyni, rektor Há-
skóla Íslands, stofnfé sjóðsins,
hlutafé að verðgildi um 11 milljónir
króna.
Markmiðs sjóðsins er að standa
fyrir rannsóknum á einelti og
kanna lagalegar og siðferðilegar
leiðir til að fyrirbyggja einelti og
bæta fyrir afleiðingar þess.
Fundinn sátu Margaret Ritter
Ross Wolfe, Bent Scheving Thor-
steinsson, Páll Skúlason, rektor
Háskóla Íslands, Páll Sigurðsson,
forseti lagadeildar, og Ólafur Þ.
Harðarson, forseti félagsvís-
indadeildar.
Páll Skúlason sagði þetta vera
háskólanum mikið fagnaðarefni.
Þá gat hann þess að þetta væri
þriðji sjóðurinn sem Bent Scheving
stofnar við Háskóla Íslands til að
sinna mikilvægum efnum. Tveir
hinir fyrri voru verðlaunasjóður í
minningu Óskars Þórðarsonar
barnalæknis sem styrkir rann-
sóknir á sviði barnalækninga, og
hins vegar verðlaunasjóður Berg-
þóru og Þorsteins Scheving Thor-
steinssonar til styrktar rann-
sóknum á sviði lyfjafræði.
Páll situr, sem rektor Háskólans,
í stjórn sjóðsins en ásamt honum
verða tveir fulltrúar sem forsetar
lagadeildar og félagsvísindadeildar
tilnefna.
Páll ásamt forsetum lagadeildar
og félagsvísindadeildar þakkaði á
fundinum höfðinglegt framlag til
rannsóknar og lýsti ánægju sinni
með það. Komst Ólafur Þ. m.a. svo
að orði að augljóst væri, ekki síst
vegna þess hve sjóðurinn væri
myndarlegur, að að honum yrði
verulegt gagn við rannsóknir.
Hann sagði einelti gífurlega alvar-
legt vandamál og að það stoðaði í
raun lítið að vinna gegn einelti án
þess í raun að átta sig eitthvað á því
hvaða orsakir lægju þarna að baki,
hann hugsaði því gott til glóð-
arinnar. Páll Sigurðsson tók undir
orð Ólafs og bætti við að einelti
væri áhugavert viðfangsefni.
Markmiðið að reyna að eyða
einelti í þjóðfélaginu
„Vissulega hefur það lög-
fræðilega hlið, það snertir bæði
refsirétt og vinnurétt,“ sagði hann
og bætti við að hann vænti þess að í
framtíðinni myndu áhugasamir og
góðir nemendur sjá ástæðu til að
gera þetta að rannsóknarefni í rit-
gerðum sínum. Hann kvaðst hafa
kannað lítillega hvað hefði verið
skrifað hingað til og fann eina rit-
gerð um kynferðislega áreitni, sem
er ein tegund eineltisins, hér væri
því um nánast óplægðan akur að
ræða.
Bent Scheving komst m.a. þannig
að orði að einelti væri eitt af þess-
um formum ofsókna sem óskaplega
erfitt væri að verjast. „Tilefni þess
að við fórum í það að stofna þennan
sjóð var að okkur fannst vanta
rannsóknir, vanta möguleika til að
ná utan um þetta efni og við vildum
reyna að koma í veg fyrir að þetta
endurtæki sig og jafnvel að eyða
því úr þjóðfélaginu,“ segir Bent.
Í ræðu sinni sagði hann að sjóð-
urinn yrði í vörslu Háskóla Íslands
og ávaxtaður á sem hagkvæmastan
hátt á hverjum tíma. Hann sagði
gengi hlutabréfa óstöðugt og lagði
því til að peningarnir yrðu ávaxtað-
ir með öðrum og öruggari hætti.
Í skipulagsskrá fyrir styrktar-
sjóðinn kemur fram að úthluta
megi úr sjóðnum árlega eða sjaldn-
ar. Ekki má úthluta hærri upphæð
en ¾ af ávöxtun hans. Hugmyndina
með þessu segir Bent vera þá að
sjóðurinn vaxi.
Í fréttatilkynningu frá Páli
Skúlasyni kemur fram að samtals
nema gjafir Bents til Háskóla Ís-
lands á síðastliðnu ári rúmlega 30
milljónum króna.
Afhenti HÍ 11 milljónir
Morgunblaðið/Kristinn
Margaret Ritter Ross Wolfe, Bent Scheving Thorsteinsson og Páll Skúlason við undirritunina.
Styrktarsjóður Margaret og Bents Sch. Thorsteinssonar
SPILLING á Íslandi er með því
minnsta sem þekkist í Evrópu að því
er fram kemur í skýrslu úttektar-
nefndar GRECO, ríkjahóps Evrópu-
ráðsins um aðgerðir gegn spillingu,
sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi á
þriðjudag. Í skýrslunni, sem gerð var
í kjölfar heimsóknar úttektarnefndar-
innar hingað til lands 2. til 4. maí sl.
kemur fram að íslenska þjóðfélagið er
gegnsætt og að litlar líkur séu á því að
spilling geti þrifist við þær aðstæður.
„Enda þótt engar sérhæfðar stofn-
anir gegn spillingu hafi verið settar á
fót sinnir hópur stofnana störfum sem
miðast að því að fyrirbyggja og tak-
marka spillingu. Meðal þeirra eru
embætti ríkissaksóknara, lögreglan,
umboðsmaður Alþingis, Samkeppnis-
stofnun, Ríkisendurskoðun, Fjár-
málaeftirlit og Ríkiskaup ásamt
stofnunum utan hins opinbera og fjöl-
miðlar,“ segir í skýrslunni.
Þá er í skýrslunni greint frá því við-
horfi íslenskra stjórnvalda að spilling
sé ekki meiriháttar vandamál í þjóð-
félaginu en þau séu þrátt fyrir það
meðvituð um að hætta á spillingu sé
alltaf fyrir hendi.
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráð-
herra sagði í samtali við Morgunblað-
ið að niðurstöður skýrslunnar hlytu
að vera mjög jákvæðar fyrir Ísland.
Hún benti jafnframt á að í henni
kæmu fram þrenn tilmæli úttektar-
nefndarinnar til íslenskra stjórnvalda
og að þau tilmæli yrðu skoðuð frekar í
ráðuneytinu.
Drög verði lögð að
stefnu gegn spillingu
Í fyrsta lagi er í skýrslunni lagt til
að lögð verði drög að stefnu gegn
spillingu og varið til þess nauðsynlegu
fé þannig að innan ramma hennar
verði unnt að nýta betur möguleika
stofnana til að koma í veg fyrir og tak-
marka spillingu. Þær stofnanir eru
m.a.: Umboðsmaður Alþingis, Sam-
keppnisstofnun, Ríkisendurskoðun,
Fjármálaeftirlitið, Verslunarráð Ís-
lands, Samtök atvinnulífsins, fjöl-
miðlar og aðrir.
Í öðru lagi er í skýrslunni lagt til að
efnahagsbrotadeild ríkislögreglu-
stjóra verði séð fyrir nauðsynlegri
þjálfun til að unnt verði að sækja
meira á í forvörnum, rannsóknum og
saksókn spillingarmála. Deildin gæti
þannig orðið sérhæfðara tæki til lög-
gæslu á sviði spillingarmála.
Í þriðja lagi er lagt til að leidd verði
í lög ákvæði sem tryggja að upplýs-
ingar, sem opinberir starfsmenn fái í
starfi sínu um spillingarmál eða grun
um slíkt verði tilkynntar þeim stjórn-
völdum sem rannsókn annast.
Smæð þjóðarinnar
verður að liði
Niðurstöður úttektarnefndarinnar
byggjast m.a. á viðtölum við ýmsa að-
ila hér á landi en þegar hún var hér í
byrjun maí ræddi hún m.a. við full-
trúa frá dómsmálaráðuneytinu, emb-
ætti ríkissaksóknara, ríkislögreglu-
stjóra, Ríkisendurskoðun, Alþingi,
umboðsmanni Alþingis, Blaðamanna-
félagi Íslands, ríkisféhirði, Samtökum
atvinnurekenda, Fjármálaeftirlitinu
og Verslunarráði Íslands.
Skýrsla nefndarinnar var síðan
tekin fyrir á fundi fulltrúa GRECO í
Strassborg dagana 10. til 14. septem-
ber sl. og mætti þá íslensk sendinefnd
til andsvara um efni skýrslunnar með
fulltrúum dómsmálaráðuneytis, við-
skiptaráðuneytis og ríkissaksóknara.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að
smæð íslensku þjóðarinnar geti ann-
ars vegar orðið að liði við að hamla
gegn launung og halda samfélaginu
opnu en hins vegar geti hún valdið því
að hagsmunaandstæður komi upp og
geri spillingarvanda verri viðureignar
en ella væri.
Skortur á reglum um
fjáröflun stjórnmálaflokka
„Í þessu samhengi olli það nefnd-
inni einkum áhyggjum að ekki eru til
reglur um fjáröflun stjórnmálaflokka.
Fulltrúar fjölmiðla sem nefndarmenn
hittu að máli voru einnig þessarar
skoðunar. Svo virðist sem fyrri til-
raunir til að setja reglur á þessu sviði
hafi mistekist. Nefndin getur þess að
æskilegt sé að þetta efni verði aftur
sett á málaskrá Alþingis.“
Þá segir m.a. í niðurstöðu skýrsl-
unnar: „Þó að spilling sé ekki talin
vandamál [hér á landi] er talin stafa
hugsanleg hætta eða framtíðarhætta
af spillingu. Aðild að viðeigandi þjóð-
réttarsamningum er meðal viðbragða
við þeirri hættu. Íslenskum yfirvöld-
um er ljós þörfin fyrir frekari fyrir-
byggjandi aðgerðir. Krafan hlýtur að
vera að Íslendingar sofni ekki á verð-
inum, að tekin sé upp virkari afstaða,
að lokað sé fyrir tækifæri til spilling-
ar, að nýttir séu möguleikar þeirra
stofnana sem þegar eru fyrir hendi.“ Í
ljósi þessara athugasemdi beindi
nefndin þeim þremur tilmælum til Ís-
lands sem á undan voru upp talin.
Spilling hér með
því minnsta sem
gerist í Evrópu