Morgunblaðið - 11.12.2001, Síða 24
24 C ÞRIÐJUDAGUR 11. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐHeimiliFasteignir
ÞARNA stóð áður Hólavallaskóli
sem tók til starfa árið 1786. Fyrsta
veturinn voru tuttugu og níu nem-
endur í skólanum og var svefnhýsi
þeirra í risi aðalbyggingarinnar.
Rúmstæði voru níu fyrir þrjátíu pilta
og var enginn ofn á loftinu.
Þá bjó Höyer, þýskur skósmiður,
á Melshúsum sem stóðu rétt við hið
nýja skólahús; og
var hann ráðinn
skólabryti og sá
um ræstingu í skól-
ans. Kona hans sá
aftur á móti um
matseldina og var
matstofa í Mels-
húsum.
Skólahald gekk
illa, var það bæði
vegna fjárskorts
og þess að hið nýja
hús var afar illa
byggt, kalt og hrip-
lekt. Skólinn á
Hólavöllum var
lagður niður vorið
1804 en var síðan
endurreistur á
Bessastöðum
haustið 1805.
Í skólahúsinu
hélt Alþingi síð-
ustu fundi sína 1799 og 1800 áður en
það var lagt niður tímabundið.
Landsyfirréttur var um tíma í húsi
Hólavallaskóla en hrökklaðist þaðan
í febrúarmánuði 1807 vegna kulda og
trekks. Skólahúsið var rifið skömmu
síðar.
Árið 1803 var reist „stjörnuskoð-
unarhús“ efst í Hólavallalóðinni. Sá
sem það gerði var Hans Wettsen,
danskur liðsforingi og landmælinga-
maður. Tukthúslimir voru aðallega
látnir vinna verkið. Árið 1830 var
turninn rifinn og reist þar vindmylla
sem Knudtzon kaupmaður lét gera.
Nýtt timburhús reist 1903
Árið 1903 reisti dr. Jón Þorkels-
son þjóðskjalavörður sér reisulegt
timburhús, sem enn stendur á þeim
slóðum sem Hóla-
vallaskóli stóð áð-
ur, á lóð sem hann
kaupir úr Mels-
húsatúni 17. febr-
úar 1903. Þegar
húsin við Suður-
götu fengu númer
var húsið fyrst
númer 18 en síðar
varð það númer 20
við götuna.
Í fyrstu virðingu
sem gerð var á
húsinu segir að
það sé 16 x 14 álnir
að grunnfleti, auk
inn- og uppgöngu-
skúrs 4 x 4 álnir að
grunnfleti. Húsið
er einlyft, með
porti, kvisti, risi,
og kjallara. Það er
byggt af bindingi
með steinsteypu í binding. Klætt ut-
an með pappa og járni á rimlum og
með járnþaki á 5/4" borðasúð.
Niðri í húsinu eru þrjú íbúðarher-
bergi, eldhús, búr, tveir gangar og
tveir fastir skápar. Allir útveggir og
skilveggir í húsinu eru strálagðir og
kalkdregnir og einnig öll loft. Hæðin
er ýmist veggfóðruð eða máluð. Þar
eru þrír ofnar og ein eldavél.
Uppi eru sex íbúðarherbergi,
gangur og geymsluherbergi sem allt
er strálagt og kalkdregið á loftum og
veggjum. Allt málað. Þar eru fjórir
ofnar. Á skammbitum eru gólfborð.
Þar uppi er þurrkloft og tvö
geymslurými. Milligólf er í öllum
bitalögum og öll þaksúðin er stoppuð
með sagspónum.
Kjallari er undir öllu húsinu með
steinsteypugólfi og steinsteypu-
veggjum. Í honum eru þvottahús og
fimm geymsluklefar. Í þvottahúsinu
er vatnspottur og í einu geymslu-
rýminu eru vatnsgeymir, vatns-
leiðslupípur og vatnsdæla. Afrennsl-
ispípur liggja frá húsinu undir
gólfinu.
Á húsinu eru tveir reykháfar, ann-
ar tvöfaldur. Við vesturhlið hússins
er inn og uppgönguskúr með kjall-
ara undir. Hann er byggður eins og
húsið með kalkdregnu lofti og veggj-
um. Í honum er salerni og einn fast-
ur skápur.
Talið er fullvíst að Jón Þorkelsson
hafi flutt húsið inn tilhöggvið frá
Noregi, þó að þess sé ekki getið í
virðingu. Lengi vel var rúmt um hús-
ið og á gömlum myndum og mál-
verkum af Reykjavík frá þeim tíma
ber mikið á húsinu þar sem það
gnæfir yfir fáeina lágreistar bygg-
ingar í nágrenninu.
Skólabær var næsta hús við Hóla-
velli. Það hús stendur enn en tals-
vert breytt. Árið 1930 var reist stein-
hús á lóð Skólabæjarins sem er í eigu
Háskólans eins og gamla húsið. Er
það nú Suðurgata 26.
Einn mesti lærdómsmaður
sinnar tíðar
Dr. Jón Þorkelsson fæddist 16.
apríl 1859 á Ásum í Skaftártungum,
sonur séra Þorkels Eyjólfssonar er
síðar sat á Borg á Mýrum og konu
hans, Ragnheiðar Pálsdóttur. Faðir
Ragnheiðar var Páll Pálsson, pró-
fastur í Hörgsdal, en hann var kom-
inn af prestum og sýslumönnum í
karllegg allt aftur til 1577. Móðir
séra Þorkels var Guðrún Jónsdóttir,
dóttir þjóðskáldsins séra Jóns Þor-
lákssonar á Bægisá.
Jón ólst upp í fóstri hjá Eiríki
Jónssyni hreppstjóra í Hlíð í Skaft-
ártungum og konu hans Sigríði
Sveinsdóttur. Jón gekk menntaveg-
inn og er talið að fótamein sem hann
fékk fyrir fermingu, sem olli því að
hann gekk haltur alla ævi, hafi orðið
til þess að hann settist á skólabekk.
Mun bróðir hans, Eyjólfur úrsmiður,
hafa veitt honum talsverðan stuðn-
ing.
Jón fór í Lærða skólann og lauk
þaðan prófi árið 1882. Sama ár fór
hann til Kaupmannahafnar og hóf að
lesa norræna málfræði. Á fyrsta
námsári sínu þar tók hann til við að
afrita íslenskar heimildir í Árna
Magnússonar safni. Hann tók próf í
heimspeki 1883. Vorið 1886 tók Jón
Þorkelsson meistarapróf í norrænu.
Hann gaf út mikið af kvæðum og
öðrum fróðleik auk þess að rita þátt
um Björn Jónsson, annálaritara frá
Skarðsá. En útgáfa Fornbréfasafns-
ins er talin vera þýðingamest af öll-
um hans ritstörfum. Dr. Jón Þor-
kelsson sat á fjórum þingum og var
skrifstofustjóri Alþingis.
Ásamt nokkrum öðrum mönnum
gekkst hann fyrir stofnun Sögu-
félagsins. Hann veitti Landsskjala-
safninu forstöðu frá því að það var
stofnað árið 1899 þar til hann lést 10.
febrúar 1924.
Dr. Jón var tvíkvæntur. Fyrri
kona hans var Karólína Jónsdóttir
og eignuðust þau þrjú börn. Síðari
kona hans var Sigríður Finnboga-
dóttir frá Presthúsum í Mýrdal og
eignuðust þau eina dóttur.
Dr. Jón seldi húsið Eggerti Jóns-
syni sem síðan selur það Holger
Wiehe árið 1917. Næsti eigandi að
Hólavöllum var Páll Ólafsson frá
Hjarðarholti. Páll stundaði verslun-
arstörf en flutti síðan til Færeyja
með fjölskyldu sína.
Eigendaskipti árið 1924
Árið 1924 selur hann Pétri Magn-
ússyni og konu hans Ingibjörgu
Guðmundsdóttur Hólavelli. Þegar
þau kaupa húsið stóð hesthús á lóð-
armörkum, norðan íbúðarhússins.
Heyhlöðu lét Pétur byggja við hest-
húsið.
Pétur Magnússon fæddist á Gils-
bakka í Borgarfirði 10. janúar 1888.
Foreldrar hans voru Magnús Andr-
ésson, prófastur og alþingismaður á
Gilsbakka, og kona hans Sigríður
Pétursdóttir Sívertsen, verslunar-
manns á Eyrarbakka. Pétur varð yf-
irréttar-málaflutningsmaður árið
1915 og hæstaréttarlögmaður frá
1922.
Jafnframt starfaði hann við
Landsbanka Íslands og var einnig
meðstjórnandi í Búnaðarbankanum.
Varð viðskipta-, landbúnaðar- og
fjármálaráðherra frá 1944 til 1947.
Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík
og um skeið forseti bæjarstjórnar.
Pétur Magnússon sat á Alþingi frá
1930 til æviloka en hann lést 26. júní
1948. Kona Péturs var Ingibjörg
Guðmundsdóttir, fædd 6. júní 1895.
Hún var dóttir hjónanna Helgu
Bjarnadóttur sem var hálfsystir
Torfa skólastjóra í Ólafsdal og Guð-
mundar Viborg Jónatanssonar gull-
smiðs.
Pétur og Ingibjörg eignuðust átta
börn, sex syni og tvær dætur, sem öll
náðu fullorðinsaldri. Ingibjörg var
góðum gáfum gædd og listfeng.
Meðal annars mótaði hún ýmsa hluti
úr leir og var með þeim fyrstu hér-
lendis sem máluðu á postulín. Ingi-
björg Guðmundsdóttir lést 14. jan-
úar 1966.
Reist á útsýnishæð
Ásgeir Pétursson sýslumaður,
einn af bræðrunum frá Hólavöllum,
hefur tekið saman óprentuð minn-
ingabrot frá æskuárum sínum í hús-
inu. þar segir hann meðal annars:
„Húsið stóð á stórri eignarlóð og átti
bæði land að Suðurgötu og því sem
síðar var Garðastræti. Það er skráð
Suðurgata 20. Lóðin var suðaustur-
hluti Hólavallahólsins, sem síðar var
lækkaður og fluttur á brott, er Hóla-
vallagata var lögð. Húsið stóð því á
hæð sem gnæfði hátt yfir hallandi
landið niður yfir Suðurgötu og að
Tjörninni. Útsýnið var því afar gott.“
Ásgeir lýsir útsýninu frá Hólavöll-
um þannig: „Úr kvistgluggum á
framhlið hússins sást yfir Tjörnina
og meginhluta bæjarins. Skálafell,
Hengill, Lönguhlíðarfjöll og Bláfjöll
voru ramminn að austan. Úr suður-
gluggunum sást yfir Vatnsmýrina,
allar götur í Skerjafjörð. Keilir blasti
við með sína heillandi pýramídalög-
un. Svæðið niður að Suðurgötu var
þá opið og óbyggt. Húsin númer 18
og 22 voru þá enn ekki byggð.“
Ásgeir minnist þess að áður en
hitaveitan var lögð að á köldum vetr-
ardögum þegar veður var kyrrt, lá
reykurinn eins og þykkt brúnt ský
yfir kvosinni. Þar við bættist reyk-
urinn frá gufuskipum í höfninni.
Þegar litið var út um kvistgluggana
Höfuðbólið og fræðasetrið
Hólavellir, Suðurgötu 20
Húsið var gert upp í sinni upprunalegu mynd. Allt tré-
skraut hússins var endurnýjað og öllum gluggum
komið í upprunalegt horf, með krosspóstum og
römmum um hverja rúðu. Freyja Jónsdóttir fjallar
hér um húsið Suðurgata 20, sem upphaflega var reist
af dr. Jóni Þorkelssyni þjóðskjalaverði.
Morgunblaðið/Golli
Húsið var upphaflega byggt 1903. Talið er fullvíst, að Jón Þorkelsson hafi flutt það inn tilhöggvið frá Noregi. Húsið stendur í stórum og vel hirtum garði og á einum
stað má sjá upphækkun, sem gæti verið leifar af rústum Hólavallaskóla.
Morgunblaðið/Golli
Utan á húsinu er skrautlisti, gerður eins og listinn sem fyrir var, sem nemur of-
anvert við glugga hæðarinnar og setur mikinn svip á húsið.
Dr. Jón Þorkelsson þjóð-
skjalavörður.