Morgunblaðið - 03.03.2002, Qupperneq 35
grunni náttúrufarskannana sem
fram fóru árið 1996. Stefnt er að því
að halda svæðunum sem mest
óskertum sem náttúrusvæðum og
þau sett undir hverfisvernd í aðal-
skipulagi. Fossvogsdalur, Elliðaár-
dalur, opið svæði frá Grafarvogi að
Hólmsheiði og Úlfarsárdalur frá
Blikastaðakró að Hafravatni eru
stærstu samfelldu útivistarsvæðin
sem tengja saman útmörk borgar-
innar (Græna trefilinn) við strand-
lengju borgarinnar og byggð svæði.
Gert er ráð fyrir að austan vaxta-
marka byggðar verði áfram unnið að
uppbyggingu almenns skógræktar-
og útivistarsvæðis sem nær frá
Esjurótum suður til Hafnarfjarðar.
Í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir
að framlengja Græna trefilinn með-
fram Esjuhlíðum og inn að Blikdal á
Kjalarnesi.
Með uppbyggingu borgarinnar
fylgir óhjákvæmilega einhver rösk-
un á lífríki og vistkerfi náttúrulegra
svæða. Eðlilegt er að hluti svæð-
anna verði manngerður (íþróttavell-
ir, torg, skrúðgarðar o.s.frv.) en
finna þarf jafnvægi á milli uppbygg-
ingar, útivistarþarfa fólks og vernd-
unar náttúrusvæða.
Kjalarnes
Almennt er miðað við að þétt-
býliskjarninn í Grundarhverfi og
fyrirhuguð byggð í framhaldi hverf-
isins taki mið af þeirri þróun sem er
í skipulagi vistvænnar byggðar. Með
vistvænni byggð er m.a. átt við að
horft sé til orkunýtingar, bygging-
arefna og hvernig staðið verði að
sorpmálum og almennra umhverf-
isgæða s.s. myndun skjóls og tengsl
íbúa og umhverfis.
Svæðið meðfram Esjuhlíðum er
skilgreint sem landbúnaðarsvæði en
gert er ráð fyrir að á svæðinu verði
einnig smábýli og íbúðir tengdar
þeim.
Á landnotkunarkorti aðalskipu-
lagsins er tekið frá svæði til síðari
uppbyggingar, eftir 2024, á Álfsnesi
og austan Vesturlandsvegar upp
með Leirvogsá og Kollafjarðará.
Samtals er þetta svæði um 550 ha að
stærð þar sem gert er ráð fyrir
blandaðri byggð íbúða og atvinnu-
starfsemi. Hér er um sjálfstæðan
borgarhluta að ræða þar sem áætlað
er að rísi allt að 12 þús. íbúðir með
um 26 þús. íbúum.
Landbúnaður skipar stóran sess í
atvinnumálum á Kjalarnesi. Nálægð
landbúnaðarsvæðanna og þeirrar af-
urðaframleiðslu sem þar er við þétt-
býlið á höfuðborgarsvæðinu er einn
helsti kostur þeirra.
Umhverfismat
Samkvæmt skipulags- og bygg-
ingarlögum sem tóku gildi árið 1998
þarf nú að vinna umhverfismat fyrir
skipulagsáætlanir. Umhverfismat er
fremur ný aðferðafræði á skipulags-
stigi, sem er ætlað að stuðla að sjálf-
bærri þróun og bæta umfjöllun um
umhverfisáhrif líkt og gert er við
mat á umhverfisáhrifum fyrir til-
teknar framkvæmdir, aðeins frá
öðru sjónarhorni. Markmið þess er
einnig að auka þátttöku almennings
við ákvarðanir og reyna að tryggja
að fjallað sé um umhverfisáhrif fyrr
í ákvörðunarferlinu en áður hefur
verið gert. Aðalskipulagið í Reykja-
vík fer nú í fyrsta sinn í gegnum um-
hverfismat, strax á skipulagsstigi.
Þetta er því í fyrsta sinn sem hug-
myndafræðin um sjálfbæra þróun
birtist með svo skýrum hætti í að-
alskipulagi borgarinnar, en hún er
það leiðarljós sem umhverfismatið
byggist á.
Mikilvægt er að gera greinarmun
á umhverfismati fyrir skipulags-
áætlanir annars vegar og mati á um-
hverfisáhrifum tiltekinnar fram-
kvæmdar hins vegar. Helsti
munurinn er sá að við mat á um-
hverfisáhrifum framkvæmdar er
verið að skoða þau áhrif sem ein til-
tekin framkvæmd hefur á umhverf-
ið. Við umhverfismat á skipulags-
stigi er hins vegar verið að meta
áhrif stefnumiða, markmiða og leiða
í skipulagsáætluninni á umhverfi í
almennari skilningi og draga fram
rökstuðning fyrir þeim ákvörðunum
sem skipulagið byggist á.
Umhverfismatið var unnið af
ráðgjafarfyrirtækinu ALTA fyrir
Borgarskipulag og í samráði við um-
hverfismatsteymi en í því voru
starfsmenn Borgarskipulags ásamt
verkefnisstjóra Staðardagskrár 21
hjá borgarverkfræðingi. Í niðurstöð-
um skýrsluhöfunda segir m.a.: „Öll
markmiðin miða að sjálfbærri þróun
og skila að mestu jákvæðum áhrif-
um á umhverfi, efnahag og fé-
lagslega þætti. Þær leiðir sem farn-
ar eru til að framfylgja mark-
miðunum, uppfylla einnig í öllum
meginatriðum kröfur um sjálfbæra
þróun… Ef miðað er við núgildandi
aðalskipulag er óhætt að segja að sú
aðalskipulagstillaga, sem hér liggur
fyrir, færi Reykjavík nær því að
vera sjálfbær borg. Þar vegur
þyngst áhersla á vaxtarmörk og
þéttingu byggðar, aukinn þéttleika,
skilmálar um gæði byggðar og
áhersla á vistvænar samgöngur.
Engin markmið eða leiðir í aðal-
skipulaginu geta talist andstæð
sjálfbærri þróun, þar sem hvergi er
um að ræða óafturkræf áhrif á höf-
uðstól náttúrulegra auðlinda, efna-
hag eða samfélag.
Af því sem fram hefur komið í
greinum mínum um framtíðarsýn í
skipulagsmálum má glögglega sjá að
mikill metnaður hefur verið lagður í
endurskoðun aðalskipulagsins, þar
er að finna margar nýjar áherslur
og skýra framtíðarsýn sem við get-
um öll verið stolt af.
Höfundur er formaður skipulags- og
byggingarnefndar Reykjavíkur.
SKOÐUN
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 3. MARS 2002 35
Alltaf á þriðjudögum