Morgunblaðið - 12.04.2002, Side 10

Morgunblaðið - 12.04.2002, Side 10
FRÉTTIR 10 FÖSTUDAGUR 12. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ ÞINGMENN gagnrýndu þaðað ekki væru veittar nægj-anlegar upplýsingar umfjárhagslega stöðu Ís- lenskrar erfðagreiningar ehf. í fyrstu umræðu um frumvarp ríkisstjórnar- innar sem heimilar fjármálaráðherra að ábyrgjast útgáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar Íslenskrar erfðagreiningar ehf. á lyfjaþróunar- fyrirtæki sem stefnt er að því að reist verði á Íslandi. Fyrsta umræðan um frumvarpið hófst skömmu fyrir mið- nætti á miðvikudagskvöld og stóð fram á fjórða tímann um nóttina. Fyrr um daginn hafði forseti þings- ins, Halldór Blöndal, leitað afbrigða, eins og það er kallað til að koma mál- inu á dagskrá þingsins því of skammt var liðið frá útbýtingu þess, þ.e. ekki voru liðnar tvær nætur eins og gert er ráð fyrir í þingsköpum. Afbrigði frá þingsköpum fékkst samþykkt með 53 samhljóða atkvæðum. Þing- menn stjórnarandstöðunnar gagn- rýndu reyndar í upphafi umræðunn- ar að þingmálið skyldi rætt svo seint um kvöld og ennfremur tóku nokkrir þeirra fram að þeir hefðu vilja lengri frest til að kynna sér málið áður en það yrði tekið til umræðu. Í umræð- unum sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, að þingmenn flokksins myndu ekki bregða fæti fyrir afgreiðslu frum- varpsins, miðað við þær upplýsingar sem lægju fyrir núna, en í máli þing- manna Vinstrihreyfingarinnar –græns framboðs, kom fram að þeir teldu of litlar upplýsingar liggja fyrir og því væri erfitt fyrir þá að taka af- stöðu að svo komnu máli. Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, lýsti hins veg- ar andstöðu við frumvarpið en eng- inn þingmaður Framsóknarflokksins tók til máls í umræðunni. Geir H. Haarde fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu og skýrði frá því að með frumvarpinu væri lagt til að fjármálaráðherra verði heimilt, í þeim tilgangi að stuðla að upbygg- ingu hátækniiðnaðar á sviði lyfjaþró- unar hér á landi, að veita einfalda ábyrgð vegna útgáfu móðurfélags Ís- lenskrar erfðagreiningar ehf., de- CODE Genetics Inc., á skuldabréf- um að fjárhæð allt að 200 milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 20 milljörðum íslenskra kr., til fjár- mögnunar nýrrar starfsemi Ís- lenskrar erfðagreiningar ehf. á sviði lyfjaþróunar. Í lok fyrstu greinar frumvarpsins segir: „Fjármálaráð- herra veitir ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gild.“ Í máli fjármálaráðherra kom fram að kostnaður ríkissjóðs af þess- ari ábyrgð verði heimildin nýtt væri óviss. „Í eðli sínu er lyfjaþróun áhættusöm starfsemi og Íslensk erfðagreining starfar á hátæknisviði þar sem breytingar geta verið mjög örar. Hins vegar er gert ráð fyrir umbreytingu skuldabréfanna í hluta- bréf í deCODE Genetics ef gengi bréfa þess fer yfir ákveðin mörk og mun gildistími ríkisábyrgðarinnar þá styttast að sama skapi þar sem skuldabréfin teljast uppgreidd ef þau breytast í hlutafé og ríkisábyrgð þar með niðurfallin. Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvernig gjaldtöku fyrir ábyrgðina verður háttað.“ Geir sagði að með því að veita ein- falda ábyrgð á skuldabréfunum gengi ríkissjóður í bakábyrgð fyrir deCODE Genetics Inc. „Ef skulda- bréfin gjaldfalla verður að ganga að eignum félagsins áður en ábyrgð rík- issjóðs verður virk. Ávinningur fyr- irtækisins af ábyrgðinni er fyrst og fremst auðveldari aðgangur að lánsfé og lægri vaxtakostnaður. Væntur kostnaður ríkissjóðs er fólg- inn í þeirri áhættu sem felst í ábyrgð- inni verði heimildin nýtt.“ Kom enn- fremur fram í máli ráðherra að málið hefði verið tekið strax á dagskrá til þess að hægt yrði að vísa því til efna- hags- og viðskiptanefndar þingsins áður en svokallaðir nefndardagar þingsins tækju við, en enginn þing- fundur verður á Alþingi fyrr en í næstu viku. Ekki stefna ríkisstjórnarinnar Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, tók fram að hann væri mikill áhugamaður um þá starfsemi sem Íslensk erfðagreining hefði með höndum. „Ég verð hins vegar að játa að ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum og eyrum þegar það kom á daginn hér í morg- un [miðvikudagsmorgun] að ríkis- stjórnin myndi stefna að þessu.“ Sverrir sagði að það hefði ekki verið stefna ríkisstjórnarinnar að veita slíka ábyrgð eins og hér væri rætt um að gera. Hann gagnrýndi enn- fremur, eins og margir aðrir þing- menn sem til máls tóku, skort á upp- lýsingum um Íslenska erfða- greiningu í frumvarpinu eða með athugasemdum þess. Þingmenn þyrftu m.ö.o. að fá mun nákvæmari upplýsingar um fyrirtækið en fram kæmi í frumvarpinu.. Að endingu sagði Sverrir: „Það kann að vera að ég sé viðkvæmari en aðrir menn en þetta mál vekur mér hroll. Þótt ég sé allur af vilja gerður að reyna að líta á það með jákvæðu hugarfari þá er fjarri því að ég fái fest hendur á nein þau rök sem að neinu leyti geta mælt með því að þessi leið sé farin.“ Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, tók fram í upp- hafi máls síns að mikill styr hefði staðið um Íslenska erfðagreiningu frá því fyrirtækið hefði verið sett á laggirnar. „Og þetta mál er klárlega umdeilanlegt,“ sagði hann. „Það er klárt að því fylgir nokkur áhætta en það er líka jafnljóst að í því geta falist mikilvæg sóknarfæri fyrir framtíð ís- lensks atvinnulífs, mikilvæg sóknar- færi fyrir litla þjóð sem geldur oft landfræðilegrar einangrunar sinn- ar.“ Síðan sagði Össur: „Auðvitað er það svo að þetta mál þarf að skoða vel og brjóta til mergjar en ég vil segja það alveg skýrt að á þessu stigi er málið þannig vaxið að Samfylkingin mun ekki bregða fæti fyrir afgreiðslu þess.“ Össur fór í ræðu sinni yfir þá áhættu sem hann teldi að ríkið væri að taka með umræddri ábyrgð. Benti hann á að með nýju lyfjaþróunarfyr- irtæki væri verið að skapa um 300 ný störf. „Og ef að líkum lætur er líklegt að það skapist önnur sex til níu hundruð störf í tengslum við fyrir- tækið.“ Sagði Össur því að það mætti gefa sér að um þúsund manns fengju störf vegna fyrirtækisins. Og væri hver þessara manna að meðaltali með þingmannalaun mætti ætla að launavelta í samfélaginu í kringum þau næmi árlega um 5 milljörðum króna. „Ríkið fær strax þriðjung þess í sínar tekjur,“ sagði hann og bætti við að umrætt fyrirtæki þyrfti ekki að starfa í mörg ár til þess að ís- lenska ríkið fengi stóran hluta af þeim 20 milljörðum sem um ræddi. „Þetta skulu menn líka hugsa um þegar talað er um áhættuna.“ Vekur óhug Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, gagnrýndi eins og sam- flokksmenn hans sérstaklega þá meðferð sem málið hefði fengið á þingi, þ.e. hann taldi m.a. að málið væri of seint fram komið þar sem stefnt væri að þingfrestun eftir tvær vikur. „Það sem veldur óneitanlega áhyggjum er hvernig þetta mál ber að. Það er greinilegt að hæstvirtur forsætisráðherra, Davíð Oddsson, hefur gengið til samninga utan þingsins; hann hefur heitið þessu fyr- irtæki fyrirgreiðslu og síðan gerist það að þingflokkum ríksstjórnarinn- ar er stillt upp við vegg, þar sem þeim er nánasta gert að fara að vilja hæstvirts forsætisráðherra og ríkis- stjórnarinnar í þessu máli. Það vekur óhug.“ Ögmundur tók einnig fram að þingmenn VG hefðu miklar efasemd- ir um frumvarpið. Hann minnti þó á að málið færi að lokinni fyrstu um- ræðu til efnahags- og viðskipta- nefndar þingsins en þar yrði látið reyna á vilja stjórnarinnar til þess að fjalla um málið á málefnalegan hátt. Jóhanna Sigurðardóttir, þingmað- ur Samfylkingarinar, sagði að um- rætt mál snerist ekki um það hvort þingmenn væru á móti þekkingar- iðnaði, Íslenskri erfðagreiningu eða hátækniiðnaði hér á landi. „Málið snýst um hvort aðkoma ríkisvaldsins að þessu máli sé eðlileg og hvort sér- tækar aðgerðir fyrir einkafyrirtæki séu réttlætanlegar,“ sagði hún og bætti því við að í sínum huga væri það spurning hvort stjórnvöld gætu leyft sér fyrir hönd skattgreiðenda „að taka þá miklu áhættu sem felst í að veita þessa ríkisábyrgð,“ eins og hún orðaði það. „Og á því hef ég allan fyrirvara,“ sagði hún. „Það er alveg ljóst að skattgreiðendur geta tapað gífurlegu fé með þeirri ríkisábyrgð sem hér á að veita.“ Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksksins, tók fram í upphafi ræðu sinnar að hann væri eindreginn andstæðingur frum- varpsins. Minnti hann á að fyrir tíu árum hefði verið tilkynnt að ríkið myndi hverfa frá sértækum aðgerð- um eins og þessum og taldi hann því að um stefnubreytingu væri að ræða. Sagði hann að áhættan ykist með því að veita einu fyrirtæki ábyrgð eins og gera ætti með frumvarpinu en áhættan dreifðist hins vegar ef ábyrgðin væru ætluð mörgum fyrir- tækjum. Steingrímur J. Sigfússon, formað- ur VG, sagði að gögnin sem sett væru fram í málinu væru ekki ýkja mikil. „Og þingskjalið sjálft er ekki mikið. Það er tíu blaðsíður á 20 milljarða með stóru letri. Það eru tveir millj- arðar á blaðsíðu hér í þessu litla þing- skjali sem málið snýst um,“ sagði hann. Bætti hann því við að þar með væri ekki auðvelt að glöggva sig á því hvað væri í húfi. Sagðist hann þó hafa trú á því að efnahags- og viðskipta- nefnd myndi fara rækilega ofan í saumana á málinu og kalla m.a. eftir bókhaldslegum gögnum frá Íslenskri erfðagreiningu. Að öðrum kosti væri algjörlega „glórulaust“ að veita um- rædda ábyrgð. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmað- ur VG, sagði m.a. að hún væri alls ekki örugg um það hvernig hún ætti að „fóta sig áfram í málinu“, eins og hún orðaði það. „Og finnst mér það mjög miður hversu hér er ýtt eftir þessu máli.“ Árni Steinar Jóhanns- son, þingmaður VG, sagðist ekki andvígur því að veita ríkisábyrgð eins og þá sem hér væri til umræðu, en hann yrði þó að staldra við og sjá hvernig málið þróaðist. Einar Oddur Kristjánsson, þing- maður Sjálfstæðisflokksins, sagði eins og Pétur H. Blöndal að umrætt þingmál væri stefnubreyting miðað við það að fyrir um tíu árum hefði því verið lýst yfir að tími sértækra að- gerða væri liðinn. Kvaðst hann þó geta verið tilbúinn til þess að fylgja þeirri stefnu. Það þýddi hins vegar að hin nýja stefna þyrfti að vera skýr. Þingmenn í óþægi- legri aðstöðu Jón Bjarnason, þingmaður VG, kvartaði eins og margir aðrir þing- menn yfir því hve litlar upplýsingar fylgdu frumvarpinu um t.d. rekstur Íslenskrar erfðagreiningar. „Í frum- varpinu kemur hvergi fram í raun hver greiðslugeta eða fjárhagsleg staða fyrirtækisins er,“ sagði hann. „Það er því eiginlega ekki hægt að svo stöddu að taka afstöðu til þessa máls.“ Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það setja þingmenn í nokkurn vanda að þurfa að ræða fyrirtæki á borð við Íslenska erfðagreiningu, fyrirtæki sem væri skráð á Nasdaq-markaði. Velti hann því m.a. fyrir sér hver staða ÍE yrði ef Alþingi myndi ekki samþykkja að veita umrædda ríkisábyrgð. „Hér eru því íslenskir alþingismenn settir í mjög erfiða stöðu. Þeir þurfa að fjalla um fyrirtæki sem þeir hafa ekki tæmandi þekkingu á. Umræðan getur haft veruleg áhrif á orðstír fyr- irtækisins og ef að það frumvarp sem hér um ræðir nær ekki fram að ganga þá eru það mjög sérstök skila- boð út á markaðinn.“ Lúðvík tók einnig fram að til að geta tekið ákvörðun um það hvort veita eigi ÍE ríkisábyrgð þyrftu þing- menn að hafa meiri þekkingu á fyr- irtækinu en raun bæri vitni. Kallaði hann því eins og aðrir eftir frekari upplýsingum t.d. eftir ársreikning- um og nánari upplýsingum úr bók- haldi fyrirtækisins. „Það er stór ákvörðun að taka ákvörðun um það að binda almenning upp á 20 millj- arða,“ sagði hann, „og mér þykir sjálfum mjög óþægilegt að standa í þessum sporum án þess í raun og veru að hafa mikla þekkingu á því sem ég á að taka afstöðu til.“ Svanfríður Jónasdóttir, þingmað- ur Samfylkingarinnar, tók undir það með Lúðvík að litlar upplýsingar fylgdu frumvarpinu. Síðan sagði hún: „En mér finnst eðlilegt að þegar tækifæri sem þetta bjóðast að menn horfi til þess jákvætt – að menn leiti þeirra leiða sem færar eru til þess að það sé mögulegt að fá erlenda fjár- festingu inn í landið sem leiðir af sér störf og verkefni sem byggjast á þekkingu, sem byggjast á mannauði og sem geta leitt til meiri fjölbreytni í okkar atvinnulífi.“ Eins og fyrr sagði lauk umræðunni á fjórða tímanum í fyrrinótt en morg- uninn eftir, í gær, fór fram atkvæða- greiðsla um það hvort vísa ætti frum- varpinu til annarrar umræðu og til efnahags- og viðskiptanefndar. Var það samþykkt með 42 atkvæðum gegn einu atkvæði Péturs H. Blön- dal. Tveir greiddu ekki atkvæði, þeir Sverrir Hermannsson og Guðjón A. Kristjánsson, þingmenn Frjálslynda flokksins. Fyrstu umræðu um frumvarp um ríkisábyrgð til handa Íslenskri erfðagreiningu lokið Þingmenn kalla eft- ir frekari upplýsing- um um fyrirtækið Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson Geir H. Haarde fjármálaráðherra fylgdi frumvarpinu úr hlaði. Fyrsta umræða um frumvarp til laga sem heimilar fjármálaráðherra að ábyrgjast út- gáfu skuldabréfa vegna fjármögnunar nýrr- ar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf. fór fram á Alþingi í fyrrinótt. Arna Schram gerir hér grein fyrir umræðunum.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.