Morgunblaðið - 29.05.2002, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 29.05.2002, Blaðsíða 22
Morgunblaðið/Kristinn SÍGAUNARNIR síkátu frá Rúmen- íu, Taraf de Haidouks, gerðu víð- reist um Reykjavík í gær. Þeir héldu af stað í tveggja hæða enskum strætó frá Hótel Íslandi sem leið lá upp í Sjóvá-Almennar þar sem þeim var boðið upp á léttar veitingar að þjóðlegum sið, flatkökur og hangi- kjöt, harðfisk og malt með meiru. Þaðan gengu þeir yfir í Kringlu með hljóðfæri sín og enduðu á blóma- torginu í miðju húsinu. Þar léku þeir svo nokkur lög fyrir Kringlugesti. Hljómsveitin er hingað komin í tilefni af Listahátíð í Reykjavík og verða aðrir tónleikar hennar af þrennum á Broadway í kvöld kl. 21. Sígaunar á stjákli LISTIR 22 MIÐVIKUDAGUR 29. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ ÞAKKARGJÖRÐ er mögulegur annar titill á örleikriti Kristínar Óm- arsdóttur en samvinnuverkefni henn- ar og Gunnhildar Hauksdóttur, sem var lokaverk Níu virkra daga, átti það sammerkt með upphafsverkinu að falla næst því að vera gjörningur. Þetta er e.t.v. vegna þess að eintalið er svo áberandi í textanum og að um- gjörð myndlistarmannanna varð ríkjandi í sýningunni. Í raun má segja að verk Rósu Sigrúnar Jónsdóttur hafi snúist upp í gjörning þar sem sýningin fór sínar eigin leiðir með áhorfendur, a.m.k. er það eftirminni- legasta lífsreynsla þessara tveggja vikna, en það er önnur saga. Guðmundur Oddur Magnússon, sýningarstjóri Gjörningaviku Ný- listasafnsins, sem haldin var sl. vor, skilgreindi hugtakið þannig í viðtali við Unnar Jónasson í Mbl. 21. apríl 2001: „Gjörningar eru kannski fyrst og fremst rof á milli myndlistar og leiklistar.“ Höfundarnir hafa samt oftar en ekki verið myndlistarmenn og það er kannski þess vegna sem fyrsta og síðasta verk þessa flokks verða gjörningakennd, þegar framlag myndlistarmannsins verður meira áberandi en leikskáldsins í sýning- unni. Gunnhildur Hauksdóttir hefur ver- ið ótrúlega afkastamikill og fjöl- breytilegur myndlistarmaður á stutt- um ferli. Framkvæmd hins sjónræna þáttar fótabaðs einkennist af þeim krafti og hugmyndaauðgi sem hafa einkennt verk hennar. Haft var sam- band við fjölda þjóðþekkts fólks og um helmingur þess virðist hafa haft vilja og tækifæri til þátttöku. Ingólfs- torg var upptekið af lokahnykk kosn- ingabaráttu hins ríkjandi stjórnmála- afls í borginni svo færa varð sýn- inguna í Fógetagarðinn (þar sem F-listinn átti innan skamms að halda sýningu á sínum mönnum). Þátttak- endum var raðað í hring, sitjandi á stólum með fæturna í stampi fylltum af snarpheitum saltlegi með lárviðar- laufum, ólífuolíu og sítrónum. Síðan fluttu þessar ellefu þekktu raddir (og andlit) texta Kristínar Ómarsdóttur – þakkargjörð vegna alls sem er í formi frásagnar einnar persónu af einum degi í lífi sínu frá morgni til kvölds. Að vísu voru tveir af ellefu þáttum sam- töl, en þeir voru hvor um sig fluttir af einum manni. Viðar Eggertsson átti t.d. auðvelt með að koma því til skila að hann væri að flytja tveggja manna tal en Sigmar B. Hauksson hefur skiljanlega ekki þá þjálfun sem Viðar býr að. Stór hluti ánægjunnar af flutningnum var að sjá þjóðkunna einstaklinga við nýstárlegar aðstæð- ur, sérstaklega það hvað fólk veigraði sér við að stinga berum fótum ofan í brennheita óvissuna. Fólk tók þess- um aðstæðum mjög mismunandi, þeir sem þrífast á athyglinni blómstruðu í sviðsljósinu en aðrir tóku út fyrir að hafa komið sér í þetta klandur. Erf- iðara var að ráða í hugsanaferlið hjá hinum leiklistarmenntuðu, þeir eru vanir að láta ekkert uppi um eigin líð- an á meðan þeir eru að sinna vinnunni. Útvarpshlustendur heima við gátu skemmt sér við að ráða í hverjir áttu raddirnar sem hljómuðu úr viðtækjum þeirra, því þátttakend- urnir voru ekki kynntir til leiks. Þetta var skemmtileg lokasýning á Níu virkum dögum. Texti Kristínar var umfram allt fallegur og hjart- næmur en leikræn átök víðsfjarri. Þetta var ánægjuleg stund en gleymdist fljótt er henni var lokið og gengið var yfir á Ingólfstorg í þann mund sem valkyrjan Ingibjörg Sól- rún var kynnt til leiks. Sú sýning sem þar fór fram fangaði athygli manns alla enda meira í húfi. Setið með fætur í saltpækli LEIKLIST Útvarpsleikhúsið og Listahátíð í Reykjavík Höfundar: Kristín Ómarsdóttir og Gunn- hildur Hauksdóttir. Leikstjóri: Harpa Arn- ardóttir. Tæknimenn: Björn Eysteinsson og Georg Magnússon. Flytjendur: Andrea Jónsdóttir, Arthúr Björgvin Bollason, Ás- dís Auðunsdóttir, Eva María Jónsdóttir, Jón Hallur Stefánsson, Ómar Ragn- arsson, Ragnar Aðalsteinsson, Sigmar B. Hauksson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Viðar Eggertsson og Þórhildur Þorleifs- dóttir. Föstudaginn 24. maí. FÓTABAÐ Sveinn Haraldsson Listahátíð í Reykjavík Dagskráin í dag Miðvikudagur 29. maí Kl. 20.00 Borgarleikhúsið Kronos Nuevo. Á efnisskrá er tónlist frá Mexíkó. Meðal annars verkið Altar de Muertos eftir Gabriela Ortiz. Er það sprottið úr ævafornum menningararfi rómönsku Ameríku og fjallar um helgi- siði tengda dauðanum. Sviðið er lýst upp með kertaljósi og leikið er með mexíkanskar grímur. Kl. 21.00 Broadway Taraf de Haidouks er kunnasta sígaunahljómsveit sögunnar og á þessi hópur fjórtán fátækra, rúmenskra sígauna sér merka sögu. Ýmir, Skógarhlíð Tónleikar Kvennakórs Reykjavíkur verða kl. 20. Kórinn kynnir efnisskrána sem hann flytur í tónleika- og keppnis- ferð sinni til Tékklands í byrjun júní. Auk laga sem flutt verða í keppnis- flokkunum tveimur, þ.e. almennum kvennakórsflokki og þjóðlagaflokki verða flutt létt lög sem kórinn hefur haft á skemmtidagskrá sinni. Stjórnandi kórsins er Sigrún Þor- geirsdóttir en hún hefur stjórnað kórnum frá haustinu 1997. Undirleikari er Þóra Fríða Sæ- mundsdóttir og einsöngvari í ferð kórsins til Tékklands er Eva Hrönn Guðnadóttir. Í DAG  Sjá einnig Staður og stund á mbl.is EÞOS-strengjakvartettinn, sem skipaður er Auði Hafsteinsdóttur, Gretu Guðnadóttur, Guðmundi Hafsteinssyni og Bryndísi Höllu Gylfadóttur, hóf sína hádegistón- leika s.l miðvikudag, á vegum Listahátíðar 2002, í Listasafni Ís- lands, með kafla úr strengjakvart- ett nr. 2, í D-dúr, eftir Borodin, sem hann samdi í Leipzig 1888. Borodin, sem var launsonur Gedianovs prins og samkvæmt venju ættleiddur af einum af þjónum prinsins, Porfiry Boridin, varð víðfrægur efnafræð- ingur og starfaði við efnafræðirann- sóknir víða í Evrópu og voru rit- verk hans birt víða en mjög ungur hafði hann á valdi sínu þýsku, ensku, frönsku og ítölsku. Þessi gáfaði efnafræðingur var einnig gott tónskáld, eða eins og hann sjálfur sagði „sunnudagatónskáld“ og náði með fáum verkum að stað- setja sig meðal bestu tónskálda Rússlands. Eitt af því sem einkenn- ir kammertónlist Borodins er dá- læti hans á sellóinu, en hann var sjálfur frekar slakur sellisti. Allegro moderato þátturinn. sem Eþos-kvartettinn lék úr kvartett nr. 2, er ekki frægasti kafli verksins en það er næturljóðið, sem hefur mátt þola margvíslegar umritanir misgóðra útsetjara. Sellóið átti þarna fallegar tónlínur, sem Bryn- dís Halla lék mjög fallega og af sterkri innlifun. Sömuleiðis lék kvartettinn í heild mjög vel og náði oft sérlega rómantísku flugi. Þrjú verk fyrir strengjakvartett (1914), sem voru næst á efnis- skránni, eru samin um sama leyti og frumgerð Brúðkaupsins (Les noces) og að formi til eins konar rit- æfingar, þ.e. hver kafli er byggður að mestu á einni leiktækni-hug- mynd, sem sumar urðu fyrirmyndir margs þess sem heyra má í síðari verkum hans. Þessar skemmtilegu ritæfingar voru mjög vel leiknar, þar sem leikrænar andstæður kafl- anna voru einstaklega vel mótaðar. Concertino (1920), sem var síð- asta viðfangsefni tónleikanna, teng- ist bæði þremur strengjaverkunum frá 1914 og Blásarasinfóníunni frá 1920 en þessi þrú verk, ásamt Brúðkaupinu, eru uppgjör Strav- inskí við hinn rússneska þjóðlega menningararf.og af sagnfræðingum talin mynda ákveðin landamerki í þróun tónmáls og vinnuaðferða tón- skáldsins. Concertino fékk þetta nafn af ráðandi hlutverki 1. fiðlu. Leikur Eþos-kvartettsins var sér- lega skarpur í hryn og leikandi skemmtilegur og þar fór Auður á kostum, sem og félagar hennar, þannig að þessi litli konsert og reyndar strengjakaflarnir þrír, voru eftirminnilega vel fluttir, mót- aðir af hrynskerpu, nákvæmni í tóntaki og sterkri tilfinningu fyrir sérkennilegu og frumlegu tónmáli snillingsins. Jón Ásgeirsson Hrynskerpa og nákvæmni TÓNLIST Listasafn Íslands Eþos-strengjakvartettinn flutti verk eftir Borodin og Stravinskí. Miðvikudagurinn 22. maí, 2002. KAMMERTÓNLEIKAR CHRIS Dolan flytur fyrirlestur um skoskar nútímabókmenntir og suð- ur-amerískar bókmenntir í stofu 101 í Odda í dag kl. 17. Skotinn Chris Dolan hefur skrifað ljóð, skáldsögur, leikrit, kvikmynda- handrit og sjónvarpsþætti. Einnig er hann mikilvirkur þýðandi úr spænsku og portúgölsku. Sem dæmi um verk eftir Dolan eru skáldsagan Ascension Day (1999), smásagna- safnið Poor Angels (1995), leikritið Sabina og kvikmyndahandritið The Angel’s Share. Á árunum 1993–98 skrifaði hann ásamt öðrum handrit að sápuóperunum The High Road og Machair fyrir skoska sjónvarpið. Sem stendur er hann að vinna að nýrri skáldsögu sem nefnist Redlegs og kvikmyndahandriti sem byggt er á smásögu eftir Robert Louis Stev- enson. Chris Dolan hefur verið til- nefndur til BAFTA-verðlauna fyrir sjónvarpshandrit sín. Hann hefur unnið m.a. Scotland on Sunday-verð- launin fyrir smásögur sínar (1995) og Scottish Screenwriters Award fyrir sjónvarps- og kvikmyndahandrit (1992). Fyrirlesturinn er á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, IRIS (írsk-íslenska vináttufélagið) og breska sendiráðsins. Fyrirlestur um skoskar nútímabókmenntir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.