Morgunblaðið - 12.01.2003, Page 12
12 SUNNUDAGUR 12. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
EKKI vantaði dramatíkina og stóryrðin þegar þingmenn
gerðu grein fyrir atkvæði sínu við atkvæðagreiðsluna um
EES-samninginn. Margir urðu til að spá landi og þjóð hræði-
legum örlögum, yrði samningurinn samþykktur. Alls gerðu
37 þingmenn grein fyrir atkvæði sínu en hér verður aðeins
vitnað í nokkrar ræður.
Páll Pétursson (Framsóknarflokki): „Þetta er vondur samningur,
óhagstæður og hættulegur okkur Íslendingum. Við afsölum
okkur frumburðarrétti okkar Íslendinga til landsins og auð-
linda þess til lands og sjávar. Þessi samningur kemur til með
að færa okkur ósjálfstæði, atvinnuleysi, fátækt og auðnu-
leysi.“
Steingrímur J. Sigfússon (Alþýðubandalagi): „Ég tel samninginn
um Evrópskt efnahagssvæði og allt sem honum fylgir ekki til
hagsbóta fyrir Íslendinga. Ég tel galla samningsins vega
miklu þyngra en kostina. Ég tel það dapurlegt ef það eiga að
verða örlög okkar Íslendinga að afsala hluta af okkar fullveldi
úr landi áður en lýðveldið fagnar hálfrar aldar afmæli sínu.
Ég get ekki og hef aldrei getað skilið þau rök að vænlegsta
aðferðin til að varðveita sjálfstæði sitt sé að fórna hluta þess.“
Eggert Haukdal (Sjálfstæðisflokki): „Hér eru að verða mikil tíma-
mót. Í umræðum um þetta mál hafa verið flutt mörg varn-
aðarorð. En mestu varnaðarorðin voru landvættirnir [svo]
e.t.v. að flytja okkur í gær þegar himinn og jörð skulfu í þann
mund er Alþingi ætlaði að samþykkja EES ... Það blasir við
að EB fái aðgang að landhelginni. Spyrja má: Til hvers var þá
barist fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu ef EB á að móta fisk-
veiðistefnu Íslendinga hér eftir? Og til hvers var barist við
Dani fyrir sjálfstæði og lýðveldi um aldaraðir? Virðulegi for-
seti. Nú fer danskur maður með æðstu völd í ESB svo við er-
um óbeint komin undir þeirra yfirráð á ný.“
Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki): „Það nýtilega í þessum
samningi kaupum við dýru verði. Við gefum 400 millj. Evr-
ópubúa jafnan rétt á við okkur sjálf í eigin landi. Auðlindirnar
til lands og sjávar, jafnt numdar sem ónumdar, eru settar á
annes óvissunnar hvað eignarrétt og nýtingu varðar. Hver
hefði trúað því að ríkisstjórn Íslands skrifaði undir nauðung-
arsamning gagnvart fiskveiðilögsögunni þar sem Evrópu-
bandalagið fær allt fyrir ekkert? Hver hefði trúað því í lok
landhelgisbaráttunnar að örfáum árum síðar ætti það fyrir
þessari þjóð að liggja að opna fyrir fiskveiðiheimildir til rán-
yrkjuþjóðanna á ný? Bretar, Portúgalar, Spánverjar, Belgar
og Þjóðverjar taka nú við fiskveiðilykli úr hendi ríkisstjórn-
arinnar ... Við þurfum nýja menn sem hafa kjark og þor til að
standa á rétti Íslands gagnvart Evrópuríkinu og leiða þennan
samning í annan og betri farveg í fyllingu tímans.“
Kristín Ástgeirsdóttir (Kvennalista): „Síðast en ekki síst skerðast
möguleikar okkar til að þróa það samfélag jafnvægis manns
og náttúru, jöfnuðar, réttlætis og kvenfrelsis sem við kvenna-
listakonur viljum stefna að þar sem við verðum bundin af
óteljandi samþykktum sem ganga í þveröfugar áttir og búast
má við margvíslegum kröfum um aðlögun og samræmingu.“
Kristín Einarsdóttir (Kvennalista): „Það er dimmt yfir þessum
degi í sögu þjóðarinnar.“
„Ósjálfstæði, atvinnuleysi, fátækt og auðnuleysi“
T
ÍU ár eru liðin í dag frá því
að samningurinn um Evr-
ópskt efnahagssvæði var
samþykktur á Alþingi.
Fáum blandast hugur um
að það voru merkileg tíma-
mót, því að um fá mál önnur
hafa staðið jafnharðar deil-
ur frá því Ísland varð full-
valda. Atkvæðagreiðslan á Alþingi 12. janúar
1993 var endapunkturinn á lengstu umræðu
þingsögunnar. Með aðild Íslands að EES voru
mikilvægir hagsmunir tryggðir og landið gerð-
ist þátttakandi í afar nánu og víðtæku alþjóð-
legu samstarfi.
Flokkar skiptu um skoðun
Flestir eru nú sammála um gagnsemi EES-
samningsins, en miklar deilur voru um málið á
hinum pólitíska vettvangi allt frá því að EES-
viðræðurnar hófust vorið 1989 og þar til samn-
ingurinn var samþykktur í ársbyrjun 1993.
Stjórnmálaflokkarnir höfðu ekki áður þurft að
mynda sér skoðun á jafnviðamiklu og flóknu
máli. Sumir þeirra skiptu um skoðun á samn-
ingnum á tímabilinu; þannig stóðu bæði Fram-
sóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið að rík-
isstjórn Steingríms Hermannssonar, sem hóf
samningaviðræðurnar um EES og stefndi að
„fyllstu mögulegri framkvæmd“ fjórfrelsisins,
en snerust gegn samningnum eftir að flokk-
arnir lentu í stjórnarandstöðu. Með sama hætti
snerist Sjálfstæðisflokknum hugur þegar hann
komst í stjórn með Alþýðuflokknum 1991; í
stjórnarandstöðu var hann andvígur EES-við-
ræðunum og vildi tvíhliða viðræður við ESB og
var auk þess á móti samningum við bandalagið
um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum. Í báð-
um málum skiptu sjálfstæðismenn um skoðun
þegar þeir voru komnir með stjórnarforystuna.
Alþýðuflokkurinn var hins vegar í stjórn all-
an tímann sem um ræddi og með Jón Baldvin
Hannibalsson utanríkisráðherra í broddi fylk-
ingar var hann sá flokkur sem ötulast barðist
fyrir samþykkt EES-samningsins. Kvennalist-
inn var allan tímann í stjórnarandstöðu og ætíð
neikvæðastur flokka í garð samningsins.
Halldór og Ingibjörg sátu hjá
Málalokin urðu þau að 12. janúar 1993
greiddu allir þingmenn Alþýðuflokksins at-
kvæði með samningnum og allir þingmenn
Sjálfstæðisflokksins nema þrír, þeir Eyjólfur
Konráð Jónsson, Eggert Haukdal og Ingi
Björn Albertsson.
Alþýðubandalagið, undir forystu Ólafs
Ragnars Grímssonar, var á móti eins og það
lagði sig. Framsóknarflokkurinn tók neikvæða
afstöðu til samningsins og greiddu sjö þing-
menn hans, þar á meðal Steingrímur Her-
mannsson, þáverandi formaður, atkvæði á móti
samningnum. Sex þingmenn, með Halldór Ás-
grímsson varaformann í broddi fylkingar, sátu
hjá. Á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem
haldið var í nóvember 1992, sagði Halldór að
EES-samningurinn væri eina leiðin til að fá
betri aðgang að mörkuðum Evrópu fyrir út-
flutningsafurðir Íslendinga. „Við getum ekki
tryggt fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar nema
við séum tilbúin að ganga til samninga um okk-
ar mikilvægustu hagsmunamál,“ sagði Halldór
á þinginu. Í umræðum á Alþingi 15. desember
sama ár sagði Halldór: „Ég hef verið samþykk-
ur því frá upphafi að ganga þessa götu og tel að
lítið annað hafi veri að gera en að ganga hana
til enda. Ég tel mig hins vegar ekki geta tekið
pólitíska ábyrgð á þessu máli og vil því lýsa því
yfir að ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um
það. Ég vil hins vegar ítreka að ég hef alltaf
verið þeirrar skoðunar að við ættum að taka
þátt í myndun hins Evrópska efnahagssvæðis.“
Þingflokkur Kvennalistans greiddi atkvæði
gegn samningnum með einni undantekningu;
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sat hjá. Hún hafði
þá m.a. lýst því yfir að samþykktu Íslendingar
ekki EES-samninginn blasti við þeim einangr-
un á alþjóðavettvangi. „Það eru margir gallar á
EES-samningnum en þeir vega ekki eins
þungt og að standa utan við samrunaþróunina í
Evrópu,“ sagði Ingibjörg Sólrún í blaðaviðtali.
Í framhaldi af þessum yfirlýsingum Ingi-
bjargar Sólrúnar var rætt í þingflokki Kvenna-
listans hvort víkja ætti henni úr sæti fulltrúa
flokksins í utanríkismálanefnd Alþingis. Krist-
ín Ástgeirsdóttir þingflokksformaður sagði
fyrir landsfund Kvennalistans haustið 1992:
„Það er augljóst að það gengur ekki upp að
talsmaður okkar í utanríkismálanefnd túlki
ekki viðhorf meirihlutans.“ Ingibjörg Sólrún
benti á móti á að Alþingi hefði kosið sig í nefnd-
ina og hún færi ekki þaðan nema samþykkja
það sjálf. Niðurstaðan varð sú að hún sat áfram
í utanríkismálanefnd og túlkaði sjónarmið
meirihluta Kvennalistans í nefndaráliti sínu,
auk þess sem hún lýsti eigin sjónarmiðum á Al-
þingi.
Stuðningsmennirnir lífseigari á þingi
Athyglisvert er, að af þeim 33 þingmönnum
sem guldu jáyrði við EES-samningnum, sitja
19 enn á þingi, en af þeim 23 sem voru á móti
eru aðeins sex eftir. Það eru ráðherrar Fram-
sóknarflokksins, þeir Guðni Ágústsson og Páll
Pétursson, og fjórir þingmenn, sem þá voru all-
ir í Alþýðubandalaginu en eru nú í þremur
flokkum, þ.e. Kristinn H. Gunnarsson (Fram-
sóknarflokki), Margrét Frímannsdóttir og Jó-
hann Ársælsson (Samfylkingu) og Steingrímur
J. Sigfússon (Vinstri grænum). Sumir þessara
þingmanna hafa skipt um skoðun; þannig hefur
Margrét Frímannsdóttir lýst yfir áhyggjum
sínum á þingi yfir því að EES-samningurinn sé
að veikjast. Guðni Ágústsson lýsti sömuleiðis
yfir í viðtali hér í blaðinu að styrkja bæri EES-
samninginn. Steingrímur J. Sigfússon og
flokkur hans, Vinstri grænir, hafa hins vegar
tekið gamla stefnu Alþýðubandalagsins í arf,
þ.e. að þróa skuli tengslin við ESB í átt til tví-
hliða samninga.
Lengsta umræða þingsögunnar
Umræðan um EES-samninginn var sú
lengsta í sögu Alþingis, tók samtals 102
klukkustundir og 18 mínútur og stóð með
hléum frá 20. ágúst 1992 og fram til 12. janúar
1993. Þetta á eingöngu við um umræðuna um
staðfestingarfrumvarpið sjálft, en auk þess
voru ýmis hliðarfrumvörp rædd í tugi klukku-
stunda.
Hin langa umræða varpar annars vegar ljósi
á það hversu umdeilt málið var og hins vegar
vinnubrögðin á Alþingi Íslendinga. Þannig var
samningurinn ræddur í alls átta klukkustundir
á austurríska þinginu og fjórtán og hálfan
klukkutíma á því sænska. Umræður stóðu í tvo
daga á norska þinginu og svissneska þingið af-
greiddi samninginn á þremur vikum. Í finnska
þinginu tók afgreiðsla málsins alls þrjá daga.
Höfundur þessarar greinar lagði það einu sinni
á sig að lesa alla umræðuna í Alþingistíðindum
og mun sízt ofmælt, að þar hefði mátt komast
af með færri orð til að tjá sama boðskap.
Fiskur og formælingar
Við lestur þessa orðaflaums vekur hins veg-
ar tvennt athygli. Í fyrsta lagi hrollvekjandi
dómsdagsspár ýmissa andstæðinga samnings-
ins um afleiðingar þess að veita útlendingum
sambærilegan rétt á Íslandi og Íslendingum
sjálfum, en flestir geta víst verið sammála um
að þær hafi ekki gengið eftir. Í öðru lagi ofur-
áherzla margra stuðningsmanna samningsins
(og margra sem sátu hjá) á þýðingu hans fyrir
viðskiptakjör sjávarafurða.
Þegar horft er á þróunina á þeim níu árum,
sem liðin eru frá því EES-samningurinn tók
gildi 1. janúar 1994, má hins vegar fullyrða að
mestu breytingarnar hafi ekki orðið í viðskipt-
um með sjávarafurðir eða í samskiptum Íslend-
inga við útlendinga, heldur í ýmsum innan-
landsmálum, þar sem EES-samningurinn og
sú löggjöf Evrópusambandsins, sem honum
fylgir, hefur flýtt þróuninni um mörg ár. Nefna
má löggjöf um fjármálamarkað, neytendamál,
samkeppnismál, fjarskiptamál, samgöngur,
umhverfismál, hollustuvernd og vinnumarkað.
Bæði efnahagslíf og stjórnsýsla á Íslandi eru
gerbreytt vegna áhrifa EES, áhrifa sem fæstir
sáu fyrir til fulls hinn 12. janúar 1993.
Afmæli sögulegrar atkvæðagreiðslu
Í dag eru tíu ár liðin frá því Al-
þingi samþykkti samninginn
um Evrópskt efnahagssvæði.
Ólafur Þ. Stephensen var á
þingpöllum 12. janúar 1993
og rifjar upp þennan enda-
punkt lengstu umræðu þing-
sögunnar.
Þannig fóru leikar: 33 sögðu já, 23 nei, 7 sátu hjá.
Morgunblaðið/Sverrir
Salóme Þorkelsdóttir, forseti Alþingis, gerir grein fyrir úrslitum atkvæðagreiðslunnar um EES-samninginn á Alþingi 12. janúar 1993.
olafur@mbl.is
Heimildir: 1) Alþingistíðindi. 2) Ólafur Þ. Stephensen:
Áfangi á Evrópuför: Evrópskt efnahagssvæði og ís-
lenzk stjórnmál. Alþjóðamálastofnun HÍ 1996.