Morgunblaðið - 26.02.2003, Qupperneq 6
FRÉTTIR
6 MIÐVIKUDAGUR 26. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
TANNLÆKNAFÉLAG Íslands hefur fengið
fjölda kvartana að undanförnu um að Trygginga-
stofnun ríkisins neiti að greiða út reikninga sem
gefnir voru út fyrir áramót, en þá tók ný gjaldskrá
gildi. Börkur Thoroddsen tannlæknir segir að
fjölda aðgerðalykla, þ.e. hvernig aðgerðir eru
skráðar í sjúkraskrár og reikninga, hafi verið
breytt um áramótin og vandræðin virðist einkum
vera að fá þá reikninga greidda. Tryggingastofn-
un segir aftur á móti að allir reikningar séu
greiddir fjögur ár aftur í tímann og alltaf miðað við
þá gjaldskrá sem þá var í gildi. Séu reikningar
ekki greiddir liggi skýringin í því að þeir hafi verið
rangt fylltir út af tannlæknastofunni.
Bolli Valgarðsson, framkvæmdastjóri Tann-
læknafélags Íslands, segir að 2–3 tannlæknar
hringi á hverjum degi vegna þess að sjúklingar
þeirra hafi lent í vandræðum með að fá aðgerðir
sem gerðar voru samkvæmt gömlu gjaldskránni
greiddar. Hann segir að tannlæknar þurfi að skrá
aðgerðir á vissan hátt á reikninga svo sjúkling-
arnir geti fengið endurgreiðslu frá Trygginga-
stofnun. Um áramótin hafi þessum lyklum verið
breytt og vandræðin hafi komið í ljós þegar fólk
óskaði eftir endurgreiðslu aðgerða sem gerðar
voru samkvæmt gömlu gjaldskránni.
Reynir Jónsson, tryggingatannlæknir hjá TR,
segir að Tryggingastofnun greiði að sjálfsögðu
reikninga aftur í tímann. Það sé alltaf gert sam-
kvæmt þeirri gjaldskrá sem var í gildi á þeim tíma
sem aðgerðin var gerð. Reikningar fyrnist ekki
fyrr en eftir fjögur ár. Þeir reikningar sem TR
neiti að greiða séu einfaldlega rangt útfylltir af
tannlæknastofunum.
Tölvukerfið hafnar reikningunum
„Það voru gerðar sömu kröfur [um útfyllingu
reikninga] fyrir áramót og í dag, en það var ekki
jafnstrangt tekið á því og fólk lét þetta fara í gegn.
Nú neitar tölvukerfið að taka við reikningum
nema þeir séu rétt útfylltir,“ segir Reynir. Hann
segir þetta vera byrjunarörðugleika.
„Við höfum ýmsar leiðir til að leiðrétta reikning-
inn, ef eldra fólk eða öryrkjar eiga í hlut bjóðum
við þeim að senda reikninginn til tannlæknisins til
að fá leiðréttingu. Síðan er þetta lagt inn á reikn-
ing sjúklingsins,“ segir Reynir. Þegar reikning-
arnir séu ekki rétt fylltir út þurfi að fylla þá út aft-
ur. „Það skiptir ekki máli eftir hvaða gjaldskrá
reikningurinn er, ef hann er ekki rétt út fylltur er
ekki hægt að greiða hann hérna,“ segir Reynir.
Börkur Thoroddsen tannlæknir segir að að-
gerðarlyklarnir sem voru notaðir á síðasta ári hafi
verið í gildi frá árinu 1992. „Ef það er sagt að þess-
ir aðgerðarlyklar hafi ekki verið í gildi á síðasta ári
er það rangt,“ segir hann. Tryggingastofnun ætl-
ist til þess að tannlæknarnir leiðrétti reikninga
eftir á.
Skjalafals að útbúa nýjan reikning
„Ég get ekki breytt sjúkraskrá ár aftur í tím-
ann. Ég gerði ákveðna aðgerð í fyrra og færði
mína sjúkraskrá samkvæmt reglum sem þá voru í
gildi. Síðan gefum við út reikninga fyrir öllu sam-
an og ég get ekki farið að breyta þessu árið eftir af
því að tölvukerfi Tryggingastofnunar er ekki kom-
ið í lag,“ segir Börkur. „Ég áliti það skjalafals ef
ég færi að útbúa nýjan reikning fyrir aðgerð sem
ég gerði fyrir ári. Ég tek ekki þátt í svoleiðis, þá
verð ég settur inn fyrir skattsvik og ég vil það
ekki,“ segir Börkur.
Lilja Kjerúlf, starfsmaður hjá Berki, segir þetta
spurningu um hvað sé sanngjarnt. „Það er þeirra
mál að ganga frá þessu. Þetta á ekki að þurfa að
snerta okkur neitt, þetta er komið frá okkur á síð-
asta ári, áður en kerfið breyttist hjá þeim. Ef þeir
væru með gamla kerfið væri ekkert vesen,“ segir
Lilja.
Kvartað yfir því að Tryggingastofnun neiti að endurgreiða tannlæknakostnað
Segja sjúklinga ekki fá
eldri reikninga greidda
TR segir reikningana
rangt út fyllta
af hálfu tannlækna
SAMÞYKKT var í borgarráði í gær
að flýta framkvæmdum á vegum
Reykjavíkurborgar á þessu og
næsta ári.
Þórólfur Árnason borgarstjóri
segir að í ár verði 900 milljónum
króna varið til viðbótar í ýmis verk-
efni og 1.200 milljónum króna árið
2004. Að auki muni Orkuveita
Reykjavíkur flýta framkvæmdum að
jafnvirði 1.200–1.700 milljónir króna
á sama tímabili. Samkvæmt upplýs-
ingum borgarstjóra nema þessar
flýtiframkvæmdir því um 3,5 millj-
örðum króna næstu tvö árin.
Þetta er kynnt jafnhliða því að
þriggja ára áætlun um rekstur,
framkvæmdir og fjármál borg-
arinnar er samþykkt. Borg-
arfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu
hjá þegar þessar framkvæmdir voru
samþykktar í borgarráði og segja
fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar
alfarið á ábyrgð R-listans.
Þórólfur segir að með þessum að-
gerðum sé verið að bregðast við vax-
andi atvinnuleysi á höfuðborg-
arsvæðinu. Sé miðað við að hvert
starf kosti um tvær milljónir króna á
ári geti þetta þýtt átta til níu hundr-
uð ný heilsársstörf. Þá sé einnig tek-
ið tillit til kaupa á aðföngum. Stein-
unn Valdís Óskarsdóttir
borgarfulltrúi segir fjármununum
beint í fjölbreytt verkefni og fjárfest
sé í stoðum borgarinnar sem veiti
konum jafnt sem körlum atvinnu í
framtíðinni. Ekki sé eingöngu ráðist
í gatnaframkvæmdir heldur líka
byggingu skóla, íþróttamannvirkja,
hjúkrunarheimilis fyrir aldraða og
Nýsköpunarsjóður námsmanna
styrktur.
Skuldir greiddar niður
Einnig bendir Þórólfur á að slaki
sé í efnahagslífi þjóðarinnar og því
hagkvæmt að fara út í framkvæmdir
strax þegar nóg framboð sé af fólki
til að vinna verkin. Það eykur líkur á
að hagstæð tilboð berist heldur en ef
farið yrði í þessa vinnu þegar virkj-
unar- og álversframkvæmdir fyrir
austan standa sem hæst. Sé tekið
mið af þessu muni verkáætlun
Reykjavíkurborgar næstu ár stand-
ast þrátt fyrir þenslu. Um leið sé
komið til móts við kröfur borgarbúa
um að brýnum verkefnum á sviði
nærþjónustu sé sinnt.
Þórólfur tekur skýrt fram að ekki
sé verið að auka skuldir borgarsjóðs
með þessum framkvæmdum ef litið
er til næstu þriggja ára. Verið sé að
koma ákveðnum verkefnum fyrr í
verk og um leið að gefa merki til at-
vinnulífsins að flýta framkvæmdum
hjá sér. Heildarskuldir borgarsjóðs
verði hinar sömu í lok árs 2006 og
upphaflega var stefnt að. Núverandi
framkvæmdir verði fjármagnaðar
með lánum en í lok kjörtímabilsins
verði lánastaðan hagstæðari um
milljarð króna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins
segjast í bókun vera fylgjandi að
gripið sé til ráðstafana í því skyni að
auka atvinnu í Reykjavík. Munurinn
á þessum tillögum og ríkisstjórn-
arinnar sé þó sá, að ríkissjóður fjár-
magnar framkvæmdir sínar með
eigin tekjuöflun en hjá Reykjavík-
urborg sé ekkert eigið fé fyrir hendi
heldur einungis um nýjar lántökur
að ræða.
Samþykkt í borgarráði að flýta framkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar
Skapar rúmlega 800 störf
Morgunblaðið/Jim Smart
Þórólfur Árnason, borgarstjóri, kynnir þriggja ára fjárhagsáætlun og flýtiframkvæmdir borgarinnar ásamt borgarfulltrúunum Alfreð Þorsteinssyni,
Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Árna Þór Sigurðssyni á blaðamannafundi í gær.
!
"
#
$#
% & ! #'
! MIKIL sala hefur verið í þráðlausum
nettengingum og er ástæðan fyrst og
fremst sú að hægt er að fá búnað sem
hentar heimilum á hagstæðara verði
en áður, að sögn Andrésar Arnarson-
ar, sölufulltrúa hjá EJS hf.
Andrés segir að innbyggður eld-
veggur sé yfirleitt í þessum búnaði í
þeim tilgangi að koma í veg fyrir að
utanaðkomandi noti búnaðinn á
kostnað eiganda. Hins vegar sé still-
ingin sú sama á öllum eins tækjum frá
framleiðanda og því sé mikilvægt að
breyta stillingunni í hverju tilviki til
að koma í veg fyrir misnotkun og sé
mælt með því í upplýsingabæklingum
sem fylgja búnaðinum.
Gjald fyrir notkunina er misjafnt.
Hjá Símanum er t.d. mánaðargjaldið
fyrir Internet um ISDN Plús 1.320
kr. og er þá 100 MB gagnamat innifal-
ið, en umframnotkun kostar 2,50 kr.
fyrir hvert MB. Hafi stillingu á eld-
veggnum ekki verið breytt getur ut-
anaðkomandi hugsanlega notað teng-
inguna, vísvitandi eða óvísvitandi, og
náð sér t.d. í bíómynd á kostnað eig-
andans, en kostnaður við það getur
verið frá um 3.500 kr. til 5.000 kr.
Mikil sala í þráðlausum
nettengingum
Mikilvægt
að breyta
stillingum
á eldvegg
LÖGÐ verður til á Alþingi breyting
á mörkum Reykjavíkurkjördæmis
suður og Suðvesturkjördæmis í kjöl-
far breytinga á mörkum Reykjavík-
ur og Kópavogs við Blesugróf. Munu
10 manns sem búa á þessu svæði og
tilheyrt hafa Kópavogi tilheyra
Reykjavíkurkjördæmi suður verði af
breytingunni.
Kynnt var í gær lagafrumvarp
dómsmálaráðherra í ríkisstjórn og
fyrir þingflokkum þar sem lagt er til
að kjördæmamörkunum verði
breytt. Reykjavíkurborg og Kópa-
vogsbær sömdu á síðasta ári um
breytingu á mörkum sveitarfélag-
anna í þá veru að nokkrar lóðir fær-
ast frá Kópavogi til Reykjavíkur. Fé-
lagsmálaráðuneytið hefur staðfest
þá breytingu.
Við slíka breytingu á mörkum
sveitarfélaga haldast kjördæma-
mörk óbreytt. Þarf því lagabreyt-
ingu til. Kjördæmamörkum verður
ekki breytt nema með samþykki
tveggja þriðju hluta atkvæða á Al-
þingi og er því ljóst að frumvarpið
þarf slíkan meirihluta til að ná fram
að ganga.
Leggja til
breytingar á
kjördæma-
mörkum
EKKI er marktækur munur á fylgi
Samfylkingarinnar og Sjálfstæðis-
flokksins að því er kemur fram í nið-
urstöðum skoðanakönnunar sem
gerð var fyrir Stöð 2. 39,1% að-
spurðra segist ætla að kjósa Sjálf-
stæðisflokk og 38,1% Samfylk-
inguna. Þá segjast 12,7% ætla að
kjósa Framsóknarflokkinn, 2,2%
Frjálslynda og 7,5% Vinstri græna.
Langflestir vilja sjá óbreytt
stjórnarsamstarf eftir kosningar eða
41,4%. Tæp 8% vilja sjá Samfylk-
inguna eina í stjórn og 3,4% Sjálf-
stæðisflokkinn einan í ríkisstjórn. Þá
sögðust ríflega 15% geta hugsað sér
stjórnarsamstarf Framsóknarflokks
og Samfylkingarinnar og liðlega 5%
Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
41% vill
óbreytt stjórn-
arsamstarf
♦ ♦ ♦