Morgunblaðið - 09.03.2003, Blaðsíða 56

Morgunblaðið - 09.03.2003, Blaðsíða 56
FÓLK Í FRÉTTUM 56 SUNNUDAGUR 9. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ ÞAÐ var orðið tímabært að Íslend- ingar fengju að sjá hvað Aki Kaur- ismäki er að bauka. Einhvers óvenju- legs er jafnan að vænta frá þessum finnska galdramanni, sem hefur glatt íslenska kvikmyndaunnendur með mjög persónulegum og minnisstæð- um verkum frá því að Kvikmyndahá- tíð sýndi Hamlet liikemaailmassa (’87), allt fram til Bóhemalífs. Síðan hefur verið allt of hljótt um þennan meistara fáránleikans. Aðdáendur leikstjórans og hand- ritshöfundarins Kaurismäkis verða ekki fyrir vonbrigðum með Mann án fortíðar. Eins og flestir vita hefur hún sópað að sér verðlaunum víða um heim og Kaurismäki og Kati Outinen hlutu bæði verðlaun á Cannes. Þá er myndin ein af fimm sem tilnefndar eru til Óskarsverðlauna sem besta myndin á annarri tungu en ensku. Hann hefur tæpast gert betur. Kaurismäki fer með okkur á gam- alkunnar slóðir í nýju myndinni sinni, sem hann skreytir að vísu með sterkri litanotkun. Við erum stödd í jaðarsamfélagi á gámageymslusvæði í úthverfi finnskrar borgar. Þar bæt- ist í hóp auðnuleysingja og undir- málsmanna dularfullur náungi (kall- aður M í titlunum, leikinn af Markku Peltola), sem hefur misst minnið eftir hrottalega líkamsárás. Hann dagar uppi í þessum ágæta selskap og unir hag sínum bærilega. M fær inni í gámi, sem þykir talsverð vegtylla í hópnum, og reynir að finna botn í sinni gleymdu fortíð. Jafnframt því leggur hann sig fram um að ná að fóta sig á nýjan leik í þjóðfélaginu, en þar sem annars staðar á maður án nafns og kennitölu fárra kosta völ. Það er ekki fyrr en Hjálpræðisherinn tekur þennan týnda sauð upp á sína arma að lífið fer að brosa aftur við minnisleysingjanum. M verður ást- fanginn af herkonunni Irmu (Out- inen) og í ljós kemur að í honum búa ýmsir hæfileikar þegar fortíðin bank- ar að lokum á dyr þessa utangarðs- manns. Kaurismäki er engum líkur og leið- ir áhorfendur inn í undraveröld fólks sem býr við þröngan kost og hefur af ýmsum ástæðum orðið að láta í minnipokann í henni veröld. Áfengi, lánleysi, slys og sljóleiki; oft er allur pakkinn að hrella sköpunarverkin hans. Eigi að síður er þetta stolt fólk og ber sig vel. Hver á sitt hlutverk á jaðrinum og örlítið andrúm. Einn gætir gámasvæðisins af miklum myndugleik, er lög og regla sam- félagsins: Nieminenhjónin (Juhani Niemela, Kaija Pakarinen) eru hin dæmigerða vísitölufjölskylda gáma- byggðarinnar sem sækir andlegan og líkamlegan styrk til Hjálpræðishers- ins, sem hér kemur í stað félagsmála- stofnunar hins opinbera. Þannig skoðar leikstjórinn og handritshöf- undurinn samtíðina í sinni persónu- legu sýn. Utangarðsfólkinu líður vel í skugga erils stórborgarinnar, það er frjálst og sjálfu sér nægt. Þjóðfélags- hópur sem hefur verið skákað út í horn og unir því ekki illa. Þeirra ver- öld er áhyggjulaus og tímalaus og í henni ríkir athyglisverð sátt og sam- lyndi. Kannski ekki eftirsóknarverð í augum fjöldans en að manni læðist sá grunur að margir „almennir“ borg- arar hafi það skítt í sínu kröfuharða lífskapphlaupi miðað við minnipoka- mennina hans Kaurismäkis. Gamalkunnur, svipbrigðalaus fá- ránleikastíllinn kemst frábærlega til skila í meðförum einstakra leikara eins og Outinen, þessarar mögnuðu prinsessu Kaurismäki-mynda, allt frá því hún gerði Stúlkuna í eld- spýtnaveksmiðjunni með eftirminni- legri persónum tragikómedíunnar. Leikararnir sem manna best hafa túlkað andhetjurnar hans Kaurism- äkis, eins og Matti Pellonpaa, eru horfnir á braut, en maður kemur í manns stað. Peltola er sem skapaður í hlutverk hins fortíðarlausa M og aðrir túlka hárrétt litríka þumbarana hans Kaurismäkis. Til hliðar við fáránlega sögu, per- sónu og sögusvið kryddar Kaurism- äki framvinduna með óteljandi hár- fínum og meinfyndnum smáatriðum og geggjuðum hliðarsögum af banka- ránum, djúkboxi, hljómsveitaræfing- um á hjara tónlistarheimsins … Nefndu það. Hugmyndaflugi Kaurismäkis eru engin takmörk sett innan marka hans persónulegu af- bökunar á mannlífinu. Fortíðarvandi á jaðrinum KVIKMYNDIR Háskólabíó: Norrænir bíódagar Leikstjórn og handrit: Aki Kaurismäki. Kvikmyndatökustjóri: Timo Salminen. Aðalleikendur: Markku Peltola (M), Kati Outinen (Irma), Juhani Niemela (Niem- inen), Kaija Pakarinen (Kaisa Nieminen), Sakari Kuosmanen (Anttila), Annikki Tahti, Marko Haavisto. 95 mín. Sputnik Oy. Finnland 2002. MAÐUR ÁN FORTÍÐAR (Mies vailla menn- eisyyttä/Man Without a Past)  ½ Sæbjörn Valdimarsson MENNIRNIR á bak viðZik Zak, fyrirtækið,sem framleiddi verð-launamyndina Nóa alb- ínóa eftir Dag Kára Pétursson, heita Skúli Malmquist og Þórir Snær Sig- urjónsson. Þeir stofnuðu Zik Zak árið 1995 og hafa síðan þá framleitt þrjár íslenskar bíómyndir auk Nóa en þær eru Villiljós, Gemsar og Fíaskó. Fyrirtækið hefur getið sér orð fyr- ir að gera metnaðarfullar myndir og hefur ekki valhoppað breiðan veg markaðsformúlunnar. „Það er kannski smámisskilningur að ef mynd vinnur til verðlauna sé hún rosalega „artí fartí“ en hún er það ekki,“ segir Skúli og vísar til Nóa. „Fólk heldur að það sé ekki snefill af húmor í myndinni en hún er einmitt mjög húmorísk. Ekki hreinræktuð gamanmynd en mjög fyndin,“ heldur hann áfram. Enda eru nokkur óborg- anleg atriði í myndinni eins og þegar Nói er beðinn að grafa gröf í gadd- freðna jörð og prúttar við prestinn um dýptina. Nói tekur líka upp á því að senda upptökutæki fyrir sig í skól- ann við litla hrifningu kennarans. Fyrrnefndar fjórar myndir Zik Zak eiga það allar sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um ungt fólk og vera fyrstu myndir leikstjóra. „Það er erfitt að kynna nýjan mann til sögunnar, sérstaklega þegar myndin er byggð á efni, sem hefur ekki verið gefið út áður, og er ekki hreinræktuð kómedía,“ segir Skúli. Þeir útskýra að hugmyndin á bak við að vinna með nýjum leikstjórum sé að skapa samstarf sem haldi áfram. „Við erum að vinna með flest- um þessum leikstjórum áfram,“ segir Skúli þannig að hugsað er til fram- tíðar hjá Zik Zak. Nóa boðið á 34 hátíðir Skúli og Þórir Snær greina frá því að búið sé að bjóða Nóa Albínóa á 34 kvikmyndahátíðir. „Allt frá Fær- eyjum til Tókýó,“ segir Þórir Snær. „Með stoppi á Bermúda og Suður- Ameríku,“ bætir Skúli við. „Myndin er að fara í bíó í 16 löndum. Gaman að vita af því að félagsheimilið í Bolung- arvík eigi eftir að sjást svo víða.“ Þrátt fyrir að myndin eigi eftir að fara víða hlakka Skúli og Þórir Snær einna mest til að sýna myndina fyrir vestan og upplýsa að Nói albínói verði frumsýndur á Vestfjörðum á næstu vikum. Myndin var þó heimsfrumsýnd á erlendri grundu en ekki Íslandi. Skúli og Þórir Snær segja að ástæða þess að myndin hafi verið frumsýnd er- lendis sé sú að þeir hafi viljað vekja athygli á henni hérlendis með þeim hætti. „Það að frumsýna Nóa fyrst er- lendis var rétt ákvörðun. Við urðum tiltölulega fljótt sannfærðir um það að myndin færi vel í áhorfendur, hvort sem það væri heima eða úti,“ segir Skúli. „Við ákváðum að keyra á þrjár kvikmyndahátíðir í röð sem við viss- um að myndin væri komin á. Stefnan var tekin á að vinna einhver verðlaun og það gekk heldur betur upp en myndin fékk sex verðlaun á þremur hátíðum,“ segir Skúli en hátíðirnar voru í Angers, Rotterdam og Gauta- borg. Velgengnin hafði það í för með sér að myndin vakti strax athygli og byrjaði að seljast. Enginn æsingur Þórir Snær útskýrir að hér á landi sé oft mikill æsingur að frumsýna strax en sú var ekki raunin með Nóa. „Það hentar mörgum að klára tök- ur 1. júní, klippa myndina á sex vik- um, klára hana 15. júlí og frumsýna 1. ágúst. Það hentar ekki okkur og ekki Degi,“ segir Skúli og útskýra þeir að langt klippiferli hafi komið Nóa mjög til góða. Þeir eru ánægðir með viðbrögðin við Nóa albínóa erlendis en segja að heimamarkaðurinn sé einnig mik- ilvægur. „Það skiptir alltaf mestu máli hvernig fjölskylda manns, vinir og íslenskur almenningur fílar þetta, sem maður hefur eytt tveimur árum af lífi sínu í,“ segir Skúli. Þórir Snær segir að í upphafi sé ekki lagt af stað með þá hugsun að gera mynd sérstaklega fyrir heima- markað eða erlendan markað. „Mað- ur hugsar um áhorfandann fyrst og fremst.“ Alþjóðleg skírskotun „Það er gaman að því að einhver Frakki kunni jafn vel við myndina og mamma,“ bætir Skúli við. „Við- brögðin sem hún hefur fengið á þess- um hátíðum eru alveg frábær, það er bæði hlegið og grátið.“ Skúli útskýrir að samningsstaða Zik Zak sé ekki eins sterk vegna þess að unnið sé með nýjum leikstjórum. „Þegar þú ert með mynd eftir leikstjóra, sem hefur aldrei gert mynd áður, þá er samningsstaðan ekki eins sterk. Við erum að gefa eftir okkar hlut í mynd- inni að einhverju leyti til erlendra meðframleiðenda,“ segir Skúli. „Fórnarkostnaðurinn er þessi en það verður auðveldara að fjármagna næstu myndina hans Dags,“ segir Þórir Snær. Skúli tekur undir þetta og segir að velgengni Nóa þýði að Zik Zak sé búið að koma sér betur inn á kortið. Verður að hafa trú á verkinu „Við ætlum að halda okkar striki. Menn hafa misjafnar skoðanir á hvernig myndir við gerum en svo lengi sem maður er ánægður með það sjálfur er það í lagi. Maður verður að hafa trú á verkinu,“ segir Þórir Snær. „Það er ekki hægt að fá erlenda fjárfesta og sjóði til að setja tugi milljóna í verkefnið ef maður hefur ekki fullkomna trú á því sjálfur,“ seg- ir Skúli. Næsta mynd Zik Zak, Niceland, er fyrsta myndin sem fyrirtækið fram- leiðir eftir leikstjóra, sem hefur gert mynd áður. Leikstjórinn er enginn annar en Friðrik Þór Friðriksson en handritið skrifaði Huldar Breiðfjörð. Önnur mynd eftir Dag Kára Af öðrum verkefnum sem eru á dagskrá hjá Zik Zak en styttra á veg komin má nefna aðra mynd eftir leik- stjórana Dag Kára, Mikael Torfason og Ragnar Bragason. Einnig er á döf- inni mynd í leikstjórn Þorgeirs Guð- mundssonar en hann bætist í hóp þeirra sem þreyta frumraun sína í leikstjórn kvikmyndar í fullri lengd hjá Zik Zak. Þess má geta að Þorgeir gerði stuttmyndirnar BSÍ og Memphis við góðan orðstír. Ætli strákarnir eigi sér einhver draumaverkefni? „Ég held að það sé aðallega fjölbreytnin, sem maður hef- ur áhuga á, eins og sést á myndunum sem við höfum gert hingað til,“ segir Þórir Snær og Skúli tekur við: „Mig langar að gera góða barnamynd.“ Morgunblaðið/Jim Smart Þórir Snær Sigurjónsson og Skúli Malmquist hafa framleitt fjórar myndir, sem allar fjalla um ungt fólk á einn eða annan hátt. Nói albínói eftir Dag Kára Pétursson er nýjasta mynd þeirra. Allt frá Fær- eyjum til Tókýó Þórir Snær Sigurjónsson og Skúli Malm- quist hjá Zik Zak, framleiðanda Nóa albín- óa, útskýrðu fyrir Ingu Rún Sigurðardótt- ur að verðlaunamyndir þurfa alls ekki að vera leiðinlegar og listrænar enda hafa þeir afsannað þá kenningu. ingarun@mbl.is Framsækið fyrirtæki í kvikmyndagerð framleiðir Nóa albínóa
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.