Morgunblaðið - 03.05.2003, Side 27
ÁRBORGARSVÆÐIÐ
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. MAÍ 2003 27
„ÞAÐ sem gerir þessa búrkistu merkilega er
ekki bara sagan heldur líka að afi minn, Böðvar
Magnússon á Laugarvatni, lét Ragnar Ásgeirs-
son ráðunaut, listfengan og hagmæltan mann,
skreyta hana. Fyrir bragðið er hún mun fallegri
en hún hefur verið fyrir þann tíma. Hún er
merkileg fyrir þá sök að henni fylgir sú sögn að
aldrei skuli þrjóta mat í kistunni hjá þeim sem er
með hana,“ segir Böðvar Stefánsson, fyrrverandi
skólastjóri, um búrkistuna sem fylgt hefur ætt
hans samkvæmt þeim reglum að hana skyldi
ávallt varðveita elsti ættinginn sem bæri nafnið
Böðvar.
Böðvar fékk kistuna í janúarlok úr búi Böðvars
Guðmundssonar frá Syðra-Seli. Fyrst er vitað
um kistuna í eigu Jóns Jónssonar í Gunn-
arsholtshjáleigu en Jón þessi var uppi 1739–1796.
Búrkistan er áletruð og aftan á henni stendur
þetta: „Aldrei skal björg í búi þrjóta / Böðvars
þess er á búrkistuna.“ Framan á henni er þessi
áletrun: „Elsti Böðvar í ættinni eiga skal þessa
kistu. Enginn veit nú á Íslandi hver átti hana
fyrstur.“
Draumkona fylgdi kistunni
Í tímaritinu Heima er best nr. 12 1954 er frá-
sögn eftir Böðvar Magnússon frá Laugarvatni,
afa Böðvars Stefánssonar, þar sem hann segir frá
kistunni. Hún kom í hans eigu 18. september
1918. Hann segir frá því að draumkona fylgi kist-
unni og að hún hafi birst sér skömmu eftir að
hann fékk kistuna. Var sem henni væri umhugað
um hvar kistan væri og hvernig farið væri með
hana.
Í frásögn Böðvars í Heima er best segir: „Kona
þessi kvaðst heita Guðrún. Fannst mér hún vera
um fimmtugt, í meðallagi stór, holdug, rjóð í
kinnum, með mikið hár, ljósbleikt, sem hún flétt-
aði í fjórar fléttur, og fór henni mjög vel. Var hún
fríð kona og fyrirmannleg. Oft fannst mér hún
ráða mér heilt, ekki sízt vonda veturinn 1920 og
lá við að ég væri farinn að trúa á hana og fara eft-
ir ráðum hennar.“
Nokkru síðar hendir það hjá Böðvari Magn-
ússyni á Laugarvatni að hann geymdi púður í
kistunni og hafði hana uppi á lofti. Eldur komst í
kistuna og sprakk hún með hvelli og eldur kvikn-
aði í loftinu. Hann hafði af að bjarga kistunni við
annan mann en hún hafði látið á sjá svo að hann
fékk Geir Illugason til að gera við hana og síðar
Ragnar Ásgeirsson.
Geir skilaði kistunni úr viðgerð nokkuð seint að
kveldi er allir voru gengnir til náða og setti hana
á dyrahelluna. Þá nótt birtist draumkonan Böðv-
ari og spurði hvort hann vissi um hvar kistan
væri niður komin og virtist ekki líka meðferðin.
Hún hafði nokkru áður, fyrir brunann, birst hon-
um og þótti honum þá að hann sýndi henni hvað
kistan hafði að geyma sem var matur og púður en
svo virtist sem henni hefði ekki líkað það.
Ragnar Ásgeirsson letraði með höfðaletri á
kistulok, handraða og að utan þau munnmæli sem
hafa fylgt henni. Í handraðaloki stendur:
Víða um landið fækka fer
fornum gripum því er ver.
Gott er margt sem gamalt er
góða muni vernda ber.
Kemur hér í kvöld til þín
kistan gamla ný og fín
hafðu í henni heillin mín
hangikjöt og brennivín.
Hún hefur lifað margan mann
og margt hefur komið í handraðann
sá sem ætti auðinn þann
óttast þyrfti ei rukkarann.
Ósk þá síðast upp ég tel
að endist vel þín höfuðskel
kistuna þína þér ég fel
þitt er að geyma hana vel.
„Ég er afskaplega sæll að hafa fengið þessa
kistu. Mér er þessi kista minnisstæð frá því að ég
sem barn sá hana hjá afa og ömmu á Laug-
arvatni. Ég hef gert mér grein fyrir því að svo
gæti farið að ég fengi hana til varðveislu ef mér
entist aldur til. Sú von hefur nú ræst og mér líður
vel að hafa þennan gamla og merka grip hjá mér.
Ég hugsa mér að varðveita hana næstu 20 árin
sem er eftir hefðinni.
Nei, ég hef ekki enn orðið var við draumkon-
una sem afi minn nefnir. Ætli það bendi ekki til
þess að hún hafi ekki undan neinu að kvarta,“
sagði Böðvar sem geymir harðfisk og brennivín í
kistunni og ljóst er að gamla búrkistan er góður
geymslustaður fyrir harðfiskinn því hann bragð-
aðist vel.
Böðvar Stefánsson á Selfossi geymir áletraða búrkistu á heimili sínu
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Böðvar Stefánsson, fyrrverandi skólastjóri, með ættargripinn, áletruðu búrkistuna, á heimili sínu.
„Aldrei skal
björg í búi
þrjóta Böðv-
ars þess er á
búrkistuna“
Selfoss
ÞÓRHALLUR Hróðmarsson
kennslustjóri kenndi síðustu tím-
ana sína í Garðyrkjuskólanum í
aprílbyrjun eftir 32 ára starf en
hann mun síðan hætta formlega
hjá stofnuninni með vorinu. Þór-
hallur hefur á þessu tímabili kennt
margar greinar við skólann en síð-
ustu ár hefur hann kennt jarðvegs-
fræði, rekstur og áætlanagerð
ásamt landmælingum.
Af þessu tilefni var haldin stutt
athöfn í skólanum þar sem Þór-
halli voru færðar gjafir frá starfs-
mönnum og nemendum í tilefni
dagsins en hann verður þó ekki
kvaddur formlega fyrr en í maí
með veislu.
Þórhallur Hróðmarsson með gjaf-
irnar frá starfsmönnum.
Hættir hjá
Garðyrkju-
skólanum eft-
ir 32 ára starf
Hveragerði
Morgunblaðið/Óskar Magnússon
Veturinn kvaddur
Þorlákshöfn
ELDRI borgarar í Þorlákshöfn efndu til vetrarkveðju síð-
asta dag vetrarins, í nýju veitingahúsi sem risið er við ósa
Ölfusár. Buðu þeir eldri borgurum á Eyrarbakka og Stokks-
eyri að taka þátt í að kveðja þennan óvenjulega vetur.
Eigandi staðarins, Hannes Sigurðsson, tók hlýlega á móti
gestum og lýsti byggingu hússins sem er ákaflega skemmti-
lega hannað og stendur á fjörukambinum með útsýn til ár-
innar og hafsins. Á hverju borði er bátsnafn, grafið í lítinn
eikarbút. Boðið var upp á fordrykk og síðan var fram-
reiddur gómsætur fiskréttur úr saltfiski og ýsu. Að lokum
var stiginn dans fram undir miðnætti.
LEIKSKÓLARNIR á Selfossi voru með opið hús á
sumardaginn fyrsta og buðu gestum og gangandi
að kynnast starfseminni.
Fólk kunni vel að meta þessa tilbreytingu og
börnin höfðu greinilega áhrif á foreldra sína að
koma með í leikskólann til að skoða teikningar
og listaverk. Ásamt því að þiggja kaffi og heitar
vöfflur með sultu og rjóma. Svo notuðu börnin
auðvitað tækifærið til að leika sér dálítið og sýna
færni sína með því t.d. að grípa í hljóðfærin á
leikskólanum Álfheimum eða í lita- eða mynda-
kassa á meðan foreldrarnir kíktu í dagbækur sem
sögðu frá vikulegum skógarferðum barnanna.
Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Þessar stúlkur gripu hljóðfærin og sýndu færni sína.
Opið hús á
leikskólum
Selfoss