Morgunblaðið - 03.05.2003, Qupperneq 46
46 LAUGARDAGUR 3. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
HEYRT hef ég fólkið mæla
margt, en meina ekki neitt.
Velfægðir vindhanar hafa nú
snúist í hringi, hringinn í kringum
landið og hringavit-
leysunni virðist
aldrei ætla að linna.
Það væri ekki í frá-
sögur færandi
nema fyrir það eitt
að þessir vindhanar
eru mennskir.
Ístöðuleysi og órói virðast ein-
kenna þá fremur en stefnufesta og
öryggi. Nú hafa þeir kveðið öf-
ugmælavísur hver í kapp við ann-
an, nær stanslaust síðastliðið ár.
Þeir hafa kosið að setja Evrópu-
sambandsaðild ofarlega á stefnu-
skrána hjá sér en vilja þegar á
hólminn er komið varla tala mikið
um það. Þeir vaða elginn er þeir
básúna eigin umhyggju fyrir lýð-
ræðinu en láta sinn kjörna for-
mann lönd og leið þegar þeir tefla
fram forystumanni sínum. For-
manninum var um áramót falið að
hugsa um innra starf hópsins en
er nú farinn að úttala sig á op-
inberum vettvangi um hin ýmsu
mál. Forystumaðurinn þvertók
fyrir þingframboð, fór í þing-
framboð fyrir Reykjavík en er nú
sagður í framboði fyrir alla lands-
menn. Í menntamálum láta þeir
sem þeir vilji breytingar t.a.m. á
lögum um framhaldsskóla sem
þeir hafa ekki svo mikið sem ýjað
að á undanförnum árum. Jafn-
lausgeðja eru þeir í sjávarútvegs-
málum, þar sem færa átti þjóðinni
auðlindina aftur með álögum á út-
gerðaraðila, svo komust þeir að
því að megnið af útgerðaraðilum
hefði varið allnokkru fé til kvóta-
kaupa, þá á að taka kvótann af út-
gerðinni, bjóða hann upp til sölu
sem útgerðaraðilar geta keypt en
svo á að endurgreiða útgerð-
armönnunum fyrir það að kvótinn
var hafður af þeim. Þá mun vera
óljóst til hvers var farið í svona
snúninga eða hvernig eigi að skil-
greina kvótakaup og þátttöku
hluthafa í útgerðarfélögum.
Í einu orði er látið að því liggja
að þeir vilji uppbyggingu á lands-
byggðinni, en gefa í skyn að hún
megi ekki vera meiri en á höf-
uðborgarsvæðinu, sbr. viðbrögð
við flýtiframkvæmdum í vegagerð
nýverið, og finna svo að því að
markmið byggðaáætlana hafi ekki
náðst. Þeir eru með glysmælgi er
þeir tala um siðferði en skortir allt
þrek í þeim efnum eins og sjá má.
Berist talið að skattamálum reyna
þeir hvað þeir geta að loka aug-
unum fyrir því að þeir hugsa slíkt
ekki til enda frekar en önnur mál,
krefjast þess að endurskoðuð
gylliboð þeirra verði reiknuð þeim
í hag. Komi í ljós að séð frá ein-
hverju sjónarhorni séu tillögur
þeirra lakari en annarra, þá er
fólk hvatt til að líta undan meðan
þeir keppast við að umorða stefnu
sína. Þeir hurfu frá hugmyndum
sínum um fjölþrepa skattkerfi,
sennilega þegar þeir sáu fram á
það að ef fólk myndi auka tekjur
sínar þannig að það myndi færast
upp um skattþrep þá þýddi það
meiri en ekki minni jaðarskatta.
Álit manna á óaðgengilegum skil-
yrðum þeirra fyrir stjórn-
armyndun eru sögð vera yfirlýsing
um að þeir séu útilokaðir frá
stjórnarmyndun, þó útiloka þeir
aðra með þeim skilyrðum sem sett
eru fram.
Við Íslendingar höfum flokk
manna sem hefur ekki lagt í vana
sinn að lofa miklu en Sjálfstæð-
isflokkurinn hefur tamið sér að
standa við það litla sem hann lofar
og gera betur en það. Þar hefur
þjóðin vin í raun sem Sjálfstæð-
isflokkurinn er, enda hefur Sjálf-
stæðisflokkurinn skýra og tæra
stefnu í öllum málum.
Hjá vindhönunum virðist til-
gangurinn helga meðalið, allt skal
reynt og öllu skal beitt til þess að
komast í tæri við völd, ekki skoð-
ana eða stefnunnar vegna hvað þá
vegna fólksins í landinu. Vindhan-
arnir vilja völd valdanna vegna.
Rétt eins og þeir krefjast breyt-
inga breytinganna vegna en ekki
vegna þess að eitthvað sé að, eða
það sé eitthvað sem megi betur
fara. Sumir þeirra hafa sumstaðar
lofað að hækka ekki skatta en hafa
svo hækkað skatta, og halda þeir
nú áfram að lofa, lofa og lofa og
við getum vel ímyndað okkur hve
lítill vilji er fyrir efndum af þeirra
hálfu.
Þótt þetta hafi staðið lengi, svo
lengi að sumir eru komnir með
leið á þessari hringavitleysu, þá
tel ég að við höfum einungis fengið
að kynnast smjörþefnum af þeim
ruglingi sem þjóðfélagið gæti end-
að í, kveði þessir öfugmæltu vind-
hanar sig inn í ríkisstjórn. Fari
svo tel ég morgunljóst að Ísland
þurfi á allri þeirri blessun að halda
sem Eggert Ólafsson bað fyrir í
Íslands minni sínu.
„Vertu blessað, blessi þig“.
Örvæntingarfullar
öfugmælavísur
Eftir Arnljót Bjarka Bergsson
Höfundur er
sjávarútvegsfræðingur.
Á PÁSKADAG ryðst fyrrverandi formaður Knattspyrnufélagsins Vík-
ings, Hallur Hallsson, enn og aftur fram á síður Morgunblaðsins með
óhróður og dylgjur í garð fyrrverandi borgarstjóra og borgaryfirvalda
varðandi samskipti Reykjavíkurborgar og Víkings.
Og ekki nóg með það, því nú telur formaðurinn fyrrver-
andi að hann hafi orðið fórnarlamb þessara samskipta og
orðið að láta af formennsku hjá félaginu „svo félagið væri
ekki látið gjalda starfa fréttamannsins“. En Hallur heldur
því fram í grein sinni að störf hans sem fréttamanns á Stöð
2 hafi komið í veg fyrir fundi í Ráðhúsinu um málefni Vík-
ings og að í Ráðhúsinu hafi dyrum verið lokað á Víking og
allt frosið fast. Þess vegna hafi verið ráð fyrir hann að láta af störfum sem
formaður Víkings.
Hallur veit vel að það voru allt aðrar ástæður fyrir því að hann hætti
sem formaður Víkings og það er alls ekki rétt að lítið hafi gerst í málefnum
Víkings í tæpan áratug. Með árásum sínum er fyrrverandi formaður Vík-
ings ekki eingöngu að ráðast á fyrrverandi borgarstjóra, heldur einnig nú-
verandi, á Íþrótta- og tómstundaráð og framkvæmdastjóra þess. Það er
ekki falleg saga því þessir aðilar eiga síst skilið slíkar árásir varðandi sam-
skipti þeirra við íþróttahreyfinguna í höfuðborginni.
Mikilvæg og góð samskipti hafa verið á milli núverandi forystumanna
Víkings og borgaryfirvalda eins og þau voru í raun einnig áður. Þannig
var Víkingur fyrsta félagið í Reykjavík þar sem gerður var samningur um
uppbyggingu á íþróttahúsi á svæði félaga í borginni og síðan hafa komið
fjölmargir slíkir samningar í kjölfarið við önnur félög.
Hvað varðar samskipti milli Víkings og borgaryfirvalda á síðustu árum
nægir að nefna þar nokkur dæmi til sögunnar.
Árið 2000 var samþykkt að stækka svæði félagsins við Stjörnugróf og tók-
ust um það samningar milli borgaryfirvalda, Kópavogs og Víkings. Borg-
aryfirvöld styrktu Víking til þessara framkvæmda með 55 m.kr. styrk.
Árið 2001 fékk Víkingur 10 m.kr. styrk til framkvæmda við nýja glæsi-
lega stúku við nýjan aðalvöll félagsins. Þá lokaði borgarstjóri engum dyr-
um í Ráðhúsinu.
Árið 2002 var gerður samningur milli Víkings og borgaryfirvalda um 20 m.
kr. styrk til framkvæmda við lokafrágang félagsheimilis Víkings. Þá var eng-
um dyrum Ráðhússins lokað.
Árið 2001 var gerður þjónustusamningur milli Víkings og borgaryf-
irvalda m.a. um starf íþróttafulltrúa á vegum Víkings með stuðningi ÍTR.
Hér var um tímamótasamning að ræða sem var endurnýjaður í lok síðasta
árs. Hér var engum dyrum í Ráðhúsinu lokað.
Um árabil hefur verið í gildi þjónustusamningur á milli skíðadeilda Vík-
ings og ÍTR um rekstur skíðasvæðis Víkings í Sleggjubeinsskarði og hefur
verið mikið og gott samstarf á milli aðila vegna þessa verkefnis og nú ligg-
ur fyrir að gera nýjan samstarfssamning á milli aðila. Hér hefur ekkert
frosið fast.
Nær væri að segja að þíða og gott samstarf hefðu ríkt í öllum sam-
skiptum á milli forráðamanna Víkings og borgaryfirvalda síðasta áratug.
Þannig hafa á vegum framkvæmdastjóra ÍTR m.a. verið lagðar fram til-
lögur um styrkveitingu til Víkings vegna sumarnámskeiða, afrekssjóðs og
stúkubyggingar. Og nú nýverið var samþykkt í Íþrótta- og tómstundaráði
tillaga þar sem gert er ráð fyrir að gengið verði til samninga við Knatt-
spyrnufélagið Víking um styrkveitingar á næstu árum vegna loka-
framkvæmda við stúkubyggingu og fleira á svæði félagsins. Vegna þessara
tillagna hefur engum dyrum verið lokað í Ráðhúsinu og ekkert frosið fast.
Og í raun væri gaman að fá að heyra frá núverandi formanni Víkings um
hvort hann telji að lokað hafi verið á dyr í samskiptum borgaryfirvalda og
Víkings og hvort þau mál sem Víkingur hefur komið með til borgaryfirvalda
séu þar í einhverju frosti.
Ef fyrrverandi formaður Víkings þarf að ráðast á pólitíska andstæðinga
sína með dylgjum og óhróðri fer ég þess vinsamlegast á leit við hann að
mínu gamla og góða íþróttafélagi, Knattspyrnufélaginu Víkingi, sé haldið
utan við þá orrahríð. Þannig að núverandi forystumenn félagsins geti, með
fullri reisn, haldið uppi eðlilegum og málefnalegum samskiptum við
íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Því þar á bæ, frekar en í Ráðhús-
inu, hefur engum dyrum verið lokað né hlutirnir frosið fastir varðandi
samskipti við Knattspyrnufélagið Víking. Það er nú svo.
Með fullri reisn
Eftir Ingvar Sverrisson
Höfundur er varaformaður ÍTR og Víkingur.
BARÁTTAN um þingsætin á að
vera hinn lýðræðislegi farvegur átak-
anna um áhrif á stefnumörkun land-
stjórnarinnar. Mál-
svarar stjórnmála-
flokkanna, fram-
bjóðendurnir, kynna
þá fyrir kjósendum
málin, sem flokkar
þeirra hafa sett á
oddinn. Kjósendum
er þannig gert kleift að taka mál-
efnalega afstöðu. Andstæðan við
þessar leikreglur lýðræðisins er per-
sónudýrkun og málefnafælni. Beiti
flokkar slíku verður frambjóðendum
þeirra í lófa lagið að sigla undir fölsku
flaggi fyrir kosningar. Kann þá um
síðir að renna upp fyrir ýmsum að
hafa keypt köttinn í sekknum. Í þess-
ari kosningabaráttu hefur það borið
til tíðinda, að prinsessa Samfylking-
arinnar, „forsætisráðherraefni“ án
skýrs umboðs frá flokki sínum, nema
til framboðs í 5. sæti í Reykjavík, hef-
ur gerzt hælbítur sitjandi forsætis-
ráðherra. Þannig sakar hún ráð-
herrann um að misfara með vald sitt
og að tjá sig um of um ýmsa kaup-
sýslumenn, þjóna þjóðkirkjunnar og
forseta lýðveldisins, svo að sitthvað
sé nefnt. Hér gerir téður frambjóð-
andi tilraun til að setja býsna loðnar
leikreglur, sem standast ekki. Alþing-
ismenn og þar á meðal ráðherrar
njóta skýlauss tjáningarfrelsis. Ef
t.d. ráðherrar telja þörf á að gera
grein fyrir afstöðu sinni til atburða
eiga þeir óheftan rétt á því. Mála-
tilbúnaður málpípu Samfylking-
arinnar reynist vera stormur í vatns-
glasi. Ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar
hafa staðið að mestu lagabótum í
sögu lýðveldisins til að tryggja rétt-
arstöðu fyrirtækja og hins almenna
borgara í landinu gagnvart stjórn-
völdum, eins og rakið er í yfirlitsgrein
Davíðs Þórs Björgvinssonar lagapró-
fessors í Morgunblaðinu 20. apríl sl.,
„Ríki og þegnar“. Þá hafa rík-
isstjórnir Davíðs Oddssonar stórlega
dregið úr ítökum ríkisins og af-
skiptum stjórnmálamanna af at-
vinnulífinu. Þetta er þáttur í stefnu
Sjálfstæðisflokksins til að bæta
stjórnun atvinnulífsins og til að auka
framleiðni fjármagns og vinnuafls,
öllum þegnum landsins til hagsbóta.
Í fyrrgreindu tölublaði Morg-
unblaðsins er að finna grein eftir Hall
Hallsson, fyrrverandi formann Vík-
ings og fréttamann, „Með fulla vasa
af grjóti“. Þar segir af viðskiptum
hans og fyrrverandi borgarstjóra. Af
þeirri frásögn að dæma eru engla-
vængir „forsætisráðherraefnisins“
býsna sviðnir. Ályktunin, sem hægt
er að draga af þessu öllu saman, er,
að „forsætisráðherraefnið“ sé úlfur í
sauðargæru.
Þjóðnýtingaráformin
Seint verður sagt með réttu, að
stjórnarandstaðan geisli af frumleika
eða hugmyndaauðgi. Hún hefur t.d.
lagt fyrir kjósendur tillögur um
stjórnun fiskveiða, sem gætu verið
ættaðar úr vopnabúri aðalhugmynda-
fræðings sameignarsinna á 19. öld,
Karls Marx. Á Íslandi eru atvinnu-
tæki útgerðanna veðsett með kvóta-
eigninni, hvort sem mönnum líkar
betur eða verr. Þjóðnýting fiskveiði-
heimilda („fyrningin“) um 5–20% á
ári mundi þess vegna jafngilda eign-
arnámi atvinnutækjanna. Vinstri-
flokkarnir á Íslandi birtast kjós-
endum í þessu máli sem öðrum sem
gamalt vín á nýjum belgjum; þeir
hafa ekkert lært og engu gleymt.
Kvótakerfið er barn síns tíma og
var innleitt, þegar sjávarútvegur var
hér á heljarþröminni. Síðar var heim-
ilað frjálst framsal aflaheimilda til að
flýta fyrir hagræðingu í greininni.
Öflugar útgerðir hafa síðan myndazt,
og í sumum tilvikum hefur kvótaeign
náð leyfilegu hámarki, 1⁄8 af heild-
arkvóta. Þess vegna er ekki úr vegi
nú að líta svo á, að tímabært sé að
breyta hinum umdeildu framsals-
ákvæðum. Það mætti t.d. gera með
því að stofna aflasjóð, og renni ónýtt-
ar veiðiheimildir hvers fiskveiðiárs til
hans á ákveðnum hundraðshluta
markaðsverðs. Sjóðurinn fái auk þess
leyfi til að ganga inn í viðskipti með
kvóta; njóti með öðrum orðum for-
kaupsréttar með svipuðum hætti og
hreppar, þegar um jarðasölu er að
ræða. Sjávarútvegsráðuneytið flokki
þessar keyptu veiðiheimildir að nýju
eftir leyfilegum veiðarfærum sam-
kvæmt ástandi lífríkisins í sjónum og
almennri stefnu sinni um veiðar og
bjóði síðan upp hvern flokk fyrir sig
til afnota í nokkur ár. Verði einhver
hagnaður af þessum viðskiptum afla-
sjóðs skuli nýta hann innan sjáv-
arútvegsins. Jafnframt þessu verði
hætt við veiðileyfagjaldið, enda er
það skattlagning á sjávarútveginn,
sem skekkir samkeppnisstöðu hans.
Hagstjórnun
Á næstu árum mun reyna mjög á
hagstjórnun á Íslandi. Ástæðan er sú,
að í hönd fer mikið þenslutímabil,
eins og kunnugt er. Til að stöðugleik-
inn haldist má enginn hlekkur bresta.
Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og
verkalýðshreyfingin verða öll að
leggjast á eitt, ef takast á að sigla
fleyinu á milli skers og báru. Til að
sporna við verðbólgu verður Seðla-
bankinn að hækka stýrivexti. Háir
vextir og miklar erlendar fjárfest-
ingar í samanburði við viðskiptalönd-
in munu valda hækkun íslenzku krón-
unnar. Þessi staða veldur
útflutningsatvinnuvegunum tíma-
bundnum erfiðleikum. Á meðan geta
þeir ekki staðið undir launahækk-
unum. Hér mun ríkisstjórnin verða
að koma til skjalanna með jöfnum
hlutfallslegum skattalækkunum í
anda Sjálfstæðisflokksins. Að stjórna
þessari atburðarás verður ekki heigl-
um hent.
Prinsessan á
bauninni
Eftir Bjarna Jónsson
Höfundur er verkfræðingur.
STJÓRNMÁLAMENN, fjöl-
miðlar, álitsgjafar og aðrir þeir sem
til eru kallaðir að meta stöðuna tala
um að loksins sé
þrjátíu ára bið Aust-
firðinga eftir stór-
iðju lokið. Það sé
rétt að gleðjast með
þeim og láta af öllu
nöldri. Að vísu hefur
Morgunblaðið
minnsta kosti einu sinni skrifað í
leiðara um að málstaður andstæð-
inganna sé nokkuð sem taka þurfti
tillit til og ekki eigi að gera lítið úr.
Nánari útfærsla á þeirri sáttargjörð
hefur þó ekki litið dagsins ljós.
Virkjunar- og stóriðjumálið er þó
ekki ástæða þess að ég sé mig knúna
til að stinga niður penna heldur
notkunin á hugtakinu bið.
Saga byggðar á Íslandi spannar
samkvæmt rituðum heimildum um
það bil ellefu hundruð og þrjátíu ár.
Það er í hæsta máta líklegt að konur
hafi búið hér nánast jafnlengi og
karlar, í það minnsta hafa ekki liðið
margir áratugir sem karlar hafa ver-
ið hér einir. Allan þennan tíma hafa
konur búið við lakari kjör en karlar
og mátt sæta því að samfélagið hafi
verið mótað út frá sjónarmiðum og
þörfum karla. Það er fyrst í byrjun
síðustu aldar sem kvenfrelsisbarátta
hefst af fullum krafti á Íslandi. Með
fyrstu bylgju kvenfrelsis náðist
kosningaréttur og jafn réttur til
embætta og náms. Það tók síðan alla
öldina að koma á þeirri skipan að
sjálfsagt væri að konur væru í
stjórnmálum, sæktust eftir emb-
ættum og stunduðu nám til jafns við
karla.
Á þeim þrjátíu árum sem Aust-
firðingar hafa beðið eftir stóriðju
hafa konur flykkst í nám og eru nú
orðnar fleiri en karlar í skólum.
Konur eru í meirihluta nemenda Há-
skóla Íslands og þar hafa þær aflað
sér menntunar á sviði kynjafræði og
í mörgum deildum skólans eru nám-
skeið sem skoða viðkomandi fræði-
grein út frá kynjuðu sjónarhorni.
Þessi þróun er afsprengi annarrar
bylgju kvenfrelsis sem hófst með
stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar
og síðan Kvennalistans. Í þessu
tvennu, formlegri menntun og
reynslu af starfi í þessum tveimur
hreyfingum, felst gífurlegur auður í
formi þekkingar á stöðu kvenna á Ís-
landi árið 2003.
Eitt hefur þó ekki breyst sem
nokkru nemur og á ég þar við launa-
mun kynjanna. Kynbundinn launa-
munur er staðreynd og skiptir þar
ekki öllu hvort hann er 24% eða 37%
eða jafnvel enn meiri, heldur hvað er
hægt að gera til að útrýma honum.
Það er nefnilega hægt því hér er um
mannasetningu að ræða, en ekki
náttúrulögmál. Það hefur sýnt sig í
fordæmi Reykjavíkurborgar undir
forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísla-
dóttur og Verzlunarmannafélags
Reykjavíkur í að styðja konur til að
gera kröfur í launamálum. Því miður
eru fáir sem fetað hafa í fótspor
þeirra og flestum virðist standa á
sama um bið kvenna eftir jöfnum
launum á við karla.
Í komandi kosningum er því mik-
ilvægt að konur skoði vel hvað flokk-
arnir ætla að gera í launa- og at-
vinnumálum kvenna. Við höfum
beðið í þrjátíu ár líkt og Austfirð-
ingar og vel það og ættum því að fá
sömu skjótu lausnirnar og þeir
fengu eftir sína bið. Það eru fá ár
síðan Jafnréttisstofa komst að þeirri
niðurstöðu að það tæki 114 ár að
jafna launamuninn. Aðgerðir
Reykjavíkurborgar hafa að vísu orð-
ið til að stytta þessa bið, en samt
tæki biðin næstum því meðalmanns-
aldur þegar á heildina er litið. Og
það er nokkuð sem við femínistar
ætlum ekki að sætta okkur við.
Stjórnmálaflokkarnir verða því að
svara af hverju þeir setja konur ekki
á sama bekk hvað mikilvægi varðar
og þá sem vilja eindregið stóriðju, og
sýna um leið fram á hvernig afleidd
störf vegna framkvæmdanna, sem
koma að líkindum í hlut kvenna,
verða metin til launa.
Biðin
Eftir Sigurbjörgu Ásgeirsdóttur
Höfundur er afgreiðslukona.