Morgunblaðið - 08.05.2003, Side 34

Morgunblaðið - 08.05.2003, Side 34
LISTIR 34 FIMMTUDAGUR 8. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Í SLENSKI dansflokkurinn var stofnaður 1. maí 1973 og heldur því upp á þrjátíu ára starfsafmæli þessa dagana – og eins og vera ber er blásið til veglegrar afmælisveislu í formi sýningarinnar „Dans fyrir þig“ þar sem sýnd verða brot úr nokkrum af eftirminnilegustu verkum flokksins, auk þess sem frumsýnt verður nýtt verk sem nefnist „FROSTI – Svana- vatnið (lokakafli)“ og er eftir Láru Stefánsdóttur danshöfund. Þau verk sem sýnd verða brot úr eru „Maðurinn er alltaf einn“ eftir Ólöfu Ingólfsdóttur, „La Cabina“ eftir Jochen Ulrich, „Af mönnum“ eftir Hlíf Svavarsdóttur við tónlist eftir Þorkel Sigurbjörnsson, „Thro- ugh Nana’s Eyes“ eftir Itzik Galili, „Afstand“ eftir Ed Wubbe, „NPK“ eftir Katrínu Hall og „Ég dansa við þig“ eftir Jochen Ulrich. Verk Láru Stefánsdóttur er fyrir fjóra dansara og leiðir okkur inn í hugarheim dans-draumamannsins Frosta, þar sem mörk nútíðar, for- tíðar og framtíðar eru óljós. Þar kennir margvíslegs fótabúnaðar, allt frá táskóm til línuskauta. Dansinn streymir og „allt ljómar í þessu bláa“. Þegar Lára er spurð hvort henni finnist vanta eitthvað upp á hið upprunalega Svanavatn með því að bæta lokakafla við það, segir hún svo ekki vera. Dansað til að gleyma „Ég ætlaði bara að láta verkið heita FROSTI en inspíreraðist síðan af ljóði eftir Steinunni Sigurðar- dóttur sem heitir Svanavatnið (loka- kafli). Ljóðið fjallar um fólk sem er að stíga dansinn og það er að gleyma sér í dansinum. Þau vilja gleyma því sem aldrei varð, vera í núinu og deyja glöð í sínum dansi. Eða eins og segir í ljóðinu: Stíga þau sinn dans hnígur stefið og hefst það og stíga þau sinn dans ballettskórnir týndir eða átti ég þá aldrei? og kemst nú hvergi hnígur stefið og hefst það bráðum lýkur því bráðum ballettskórnir – gleymum ó gleymum núna því sem aldrei varð gleymum núna núna núna nú á eigin spýtur deyjum glöð og stíga þau sinn dans ó gleymum núna núna nú Í dansverkinu förum við samt inn í huga dans-draumamannsins, Frosta, sem er bundinn sínum draumi eins og hann vill hafa hlutina. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að heimurinn er meira „kúl“ í dag en áður fyrr og Frosti verður að átta sig á því að draumarn- ir rætast ekki alltaf.“ Nú semur þú verkið bæði fyrir táskó og línuskauta. Eru þá táskórn- ir draumurinn og hjólaskautarnir raunveruleikinn? „Nei, að vísu eru línuskautarnir líka notaðir í draumkenndum til- gangi. Það eru annars konar skór sem koma með „kúlheitunum“. Það má þó segja að Frosti sé meira táskómaður.“ Hringrás lífsins Er verkið einhvers konar fortíð- arþrá? „Það er spurning hvað er fortíð. Er fortíðin ekki framtíð? Þetta er allt ein hringrás. Það er alveg sama hvað gerist, við leitum alltaf aftur í rómantíkina. Manneskjan þráir frið mitt í öllum þessum kúlheitum. Ef miða á við listdansinn, eru táskór aftur að verða gjaldgengir. Ég man eftir að hafa heyrt eldri ballerínu segja að við mættum ekki missa tengslin við klassíkina. Ég er sammála því að vissu leyti en finnst það ekki þýða að við eigum að snúa okkur alfarið að klassískum ballett, heldur nýta okkur það sem við get- um frá honum inn í nútímaballettinn. Við eigum að vera meðvituð um for- tíðina; hvaða áhrif hún hefur haft á okkur og bera virðingu fyrir henni, án þess þó að dvelja í henni. Allt sem við erum í dag er bara fortíð okkar samanlögð og besti kosturinn er að nýta úr henni allt sem við þurfum á að halda hverju sinni.“ Lára semur nýja verkið sitt við tónlist eftir Björk, Pan Sonic, David Hykes og Tsjækofskí. Hún segist hafa hlustað á tónlist Bjarkar í marga mánuði og vera orðin mikill aðdáandi hennar. „Það hefur verið mér innblástur hvað Björk er sönn í sinni list. Hún heldur sig við einfald- leikann. List hennar kemur frá hjartanu. Það fór um mig viss „nos- talgía“ við að hlusta á tónlist hennar. Síðan fór ég af stað til að mála mál- verkið.“ Málverkið? „Já, fyrir mér er dansinn eins og að mála málverk, þar sem stöðugt er hægt að bæta við litum. Í verkinu er óljóst hvar mörkin liggja milli for- tíðar, nútíðar og framtíðar. Í því er blá stemmning sem gerir það dálítið draumkennt – en það er leikmynda- og búningahönnuðurinn Elín Edda sem á mjög stóran þátt í því að stemmningin verður svona blá og ljómandi.“ Tekur tíma að ná markmiðunum Listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins er Katrín Hall og hef- ur hún gegnt þeirri stöðu frá 1996. Sem þýðir þó ekki að hún hafi komið ljóshærð og bláeyg að verkefninu, því líklega eru fáir íslenskir ball- ettdansarar sem þekkja eins vel sögu flokksins frá upphafi og fram á okkar dag – af eigin reynslu. Katrín hóf að dansa með flokknum á barnsaldri þegar hún tók þátt í sýningum hans á Ys og þys út af engu, Hnotubrjótnum og Blindisleik – en í kjölfar þeirrar sýningar var hún ráðin á nemendasamning. Það var árið 1981. Hún tók sér þó frí frá flokknum og Íslandi í átta ár þegar hún starfaði sem ballettdansari í Þýskalandi. En sjö ár í stöðu Listræns stjórn- anda Íslenska dansflokksins eru nú dálítið langur tími, ekki satt? „Þetta hefur liðið alveg ótrúlega hratt,“ segir Katrín. „Mér finnst ég rétt vera að byrja. Kannski vegna þess að það tekur lengri tíma en ég hélt í upphafi að ná markmiðunum – og það verður að segjast eins og er að Ísland er ekki besta umhverfið til þess að reka dansflokk.“ Fullnýttir dansarar En nú er Íslenski dansflokkurinn orðinn mjög vel kynntur – og það að góðu – erlendis. Er ekki komin betri tíð með blóm í haga? „Það sem auðvitað stendur upp úr eftir síðustu sjö árin – og er sorglegt – er að leiðin virðist Íslenska dans- flokknum opnari erlendis en hér heima.“ Hvað veldur? „Þótt flokkurinn sé þrjátíu ára, er listdansinn mjög ungt listform og hefur ekki fest rætur í huga fólks hér. Það er eins og hann sé enn ekki orðinn hluti af listaflórunni. Við mætum mismiklum skilningi hjá ráðamönnum, svo það hjálpar oft ekki til.“ Það kann að hljóma undarlega en Íslenski dansflokkurinn hefur ekk- ert stækkað síðastliðin sjö ár, þrátt fyrir góðan árangur og varla verður sagt að honum sé enn í dag skammt- að nema rétt til hnífs og skeiðar, eins og alltaf hefur verið. Þegar Katrín er spurð hvernig hægt sé að móta stefnu við þessar aðstæður, segir hún að áherslan hafi verið lögð á list- ræna stefnu innan þess ramma sem flokknum var settur. „Starfsemin er orðin samfelldari og metnaðarfyllri og við fullnýtum starfsfólk okkar gersamlega. Þar kemur einnig til aukið samstarf við Leikfélag Reykjavíkur, sem er jákvætt að öllu leyti. Þegar ég dansaði með flokkn- um gátu liðið tveir og þrír mánuðir þar sem við höfðum ekkert að gera. Þetta var eins og togari sem var ekki gerður út. Slíkir dauðir tímar eiga sér ekki lengur stað. Þegar við erum ekki að vinna að sýningum hér, erum við að undirbúa sýningar erlendis og dansa þar. Okkur þætti mjög vænt um að sjá umbun fyrir þann árangur sem við höfum náð, vegna þess að við erum ekki bara þekktur dansflokkur í Evrópu, heldur víðar. Þess er skemmst að minnast að núna í mars sýndum við í Beirút. Stuttu áður í Kanada. En það virðist vera til- hneiging hjá stjórnvöldum að skreyta sig á tyllidögum með menn- ingunni. Þess á milli kemur hún þeim lítið við og þá er það undir okk- ur sem vinnum við listgreinarnar að halda þeim á lífi. Það þýðir hins vegar ekki að reka dansflokk, eða aðra listastarfsemi, á nokkrum einstaklingjum sem vilja leggja sig alla fram. Það endar bara í kólnun. Ef hugsað er til framtíðar og í stærra samhengi, er vonlaust að byggja neitt upp með þeirri aðferð. Ég vil hugsa Íslenska dansflokk- inn í alþjóðlegu samhengi, ekki bara íslensku. Það er kannski þess vegna sem við erum að ná árangri. Á síð- astliðnum sjö árum höfum við stækkað okkar markað og er þeirrar skoðunar að það sé mikils virði fyrir íslenska menningu. Við erum ekki bara einhver dansflokkur. Við erum Íslenski dansflokkurinn, fulltrúar okkar þjóðar, og reynum ávallt að setja það í forgrunn.“ Litrík saga „Íslenski dansflokkurinn á sér lit- ríka sögu, með uppsveiflum og nið- ursveiflum og ólíkum listrænum stjórnendum sem allir hafa lagt sitt besta af mörkum – en það þarf að móta honum framtíðarsýn. Það er ekki hægt að reka hann endalaust frá ári til árs, með engan fókus.“ Hvernig farið þið að því að færa svona út kvíarnar, án þess að döns- urum fjölgi? „Ég ákvað að hafa færri fastráðna dansara við flokkinn á hverju starfs- ári og verkefnisráða frekar fleiri dansara. Það er orðin mun meiri hreyfing á dönsurunum í flokknum en áður var og það er jákvæð þróun að mínu mati. Þegar ég var að dansa með Íslenska dansflokknum, var sagt að það væri engin hreyfing, engin þróun í honum; þar væru alltaf sömu dansararnir. Núna er sagt að það sé of mikil hreyfing, aldrei sömu dansararnir. Það er hins vegar mjög jákvætt a okkar dansarar dvelji er- lendis um tíma til þess að dansa með öðrum flokkum. Þannig hafa þeir miklu að miðla okkur þegar þeir koma til baka og það er gott fyrir okkur að fá nýtt blóð í flokkinn, þeg- ar erlendir dansarar koma til liðs við okkur. Þetta hef ég reynt á eigin skinni vegna þess að sjálf dansaði ég erlendis í nokkur ár. Ég lifði og hrærðist á þessum alþjóðlega vett- vangi og slík reynsla held ég að ég geti fullyrt hefur aðeins gert Ís- lenska dansflokknum gott. Það eru til dæmis allt aðrar kröfur gerðar til flokksins erlendis en hér heima, sem hefur hvatt okkur til dáða og ég held ég megi segja að á þeim vettvangi höfum við staðist hverja raun.“ Þannig að þið hafið miklu að fagna á afmælisárinu, þrátt fyrir allt? „Já, svo sannarlega. Enda ætlum við að fagna með gleðibrag – og hluti af því er að sýna það skemmtilegasta og eftirminnilegasta úr sögu flokks- ins. Við erum líka bjartsýnisfólk og trúum því að sá dagur komi að stjórnvöld geri sér grein fyrir því hvers virði við erum heima og er- lendis.“ Blá stemmning og ljómandi Íslenski dansflokkurinn heldur upp á þrjá- tíu ára starfsafmæli sitt um þessar mundir. Súsanna Svavarsdóttir ræddi við Láru Stefánsdóttur, sem samið hefur nýtt verk fyrir flokkinn í tilefni af afmælinu og Katr- ínu Hall, listrænan stjórnanda flokksins Morgunblaðið/Sverrir Margt úr klassískum ballet fellur vel að nútímaballett. Draumkennda stemmningin bláa í FROSTA eftir Láru Stefánsdóttur. Egill Ólafsson og Jóhanna Linnet sungu upphaflega í „Ég vil dansa við þig“ og eru aftur mætt til leiks á afmælissýningu Dansflokksins.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.