Morgunblaðið - 01.06.2003, Side 28

Morgunblaðið - 01.06.2003, Side 28
LISTIR 28 SUNNUDAGUR 1. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ N Ú ER Evróvisjónkeppnin búin, og ekki tókst okkur að hreppa vinninginn að þessu sini, þrátt fyrir góðar vonir. Birgitta Haukdal, söngdísin okkar ástsæla, var þó sjálfri sér, landi og þjóð til sóma eins og við var að búast. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað þorri laganna í þessari keppni er beinlínis vondur. Lélegar og lágkúru- legar tónsmíðar sem vart standa undir nafni sem tónsmíðar; – klisja ofan á klisju og textarn- ir eftir því. Auðvitað eru undantekningar þar á, en þær eru fáar. Í keppninni um síðustu helgi voru tæpast nema fimm lög sem stóðu undir nafni sem þokkaleg dægurlög, smíðuð af kunnáttusemi og höfðuðu jafnframt til þeirra skiln- ingarvita sem segja manni að þetta sé músík. Þó er engan veginn hægt að segja að þetta hafi verið framúrskarandi tónsmíðar. Enn furðulegra er að ár eftir ár skuli upp til hópa hæfileikasnautt fólk standa þarna fremst á sviði og blása frá sér allt vit í einhverju sem á að heita „performans“. Músíkalskur er hann alltént ekki, nema í örfá- um tilfellum. Það nægir að nefna rússneska dú- óið t.A.T.u. sem spáð var sigri í keppninni í ár. Á hvaða grunni skyldu þeir spádómar hafa verið byggðir? Lagið var beinlínis vont og flutningur stúlknanna fádæma lélegur. Gæti verið að fjöl- miðlafár kringum hegðun dúósins og marg- umrædda kynhneigð þeirra hefði haft áhrif á þær spár, – eða kannski sú uppákoma sem þær sjálfar voru búnar að „hæpa upp“ að þær myndu hafa í frammi í keppninni sjálfri. Mér er ekki grunlaust um að Evró-visjónkeppninni hafi hrakað um-talsvert frá því að hún hófst ummiðjan sjötta áratuginn. Svo virð- ist sem fleiri lög frá fyrstu árum keppninnar hafi lifað það að verða klassísk, meðan fá lög frá síðari árum hafa heyrst lengur á alþjóðavett- vangi en mánuðinn eftir keppnina. Oft hefur það líka gerst að lagið sem sigrar er ekki það lag sem lifir, heldur næsta lag eða þarnæsta. Man til dæmis einhver eftir laginu Dors, mon amour með André Claveau? Það efast ég stór- lega um. Það er sigurlagið frá 1958, – en það ár var líka með í keppninni framúrskarandi ítalskt lag sem enn hljómar og er löngu orðið klassískt, Nel blu dipinto di blu, öðru nafni Volare. Svo virðist sem Ítalir hafi verið nokkuð seinheppnir hvað þetta snertir. Eitt besta lag keppninnar fyrr og síðar, Gente di mare eftir Umberto Tozzi, varð að lúta í lægra haldi fyrir einni af of- urvæmnu ballöðunum frá hinum írska Johnny Logan árið 1987. Illu heilli rataði þetta frábæra lag svo inn í íslenska dægurlagaflóru nokkrum árum síðar sem íslenskað jóladægurlag, – átti þau örlög engan veginn skilið. Lag Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of luck, sem Selma Björnsdóttir söng, var líka umtalsvert meira spennandi tónsmíð en „Abba“-lagið sem Charlotte Nilsson söng til sigurs 1999. Árið eft- ir unnu Olsen-bræðurnir dönsku, en þó var þar í keppninni lag sem að mínu mati var betra, og reyndar framúrskarandi gott dægurlag, My Star með lettnesku hljómsveitinni Brainstorm. Keppnin setti ótvírætt niður við þá ákvörðun að innleiða símakosningu, þannig að almenn- ingur fengi einn að ráða valinu á sigurlaginu. Áður fyrr réð dómnefnd valinu, gamlir jálkar í faginu og fólk sem þekkti þennan bransa inn og út. Með þessari ákvörðun hefur það æ oftar gerst að verri lög bera sigur úr býtum meðan betri lög liggja óbætt hjá garði. Best væri að dómnefnd fagfólks hefði líka sitt að segja um úrslitin, og þá að minnsta kosti til jafns á við al- menning. Keppnin heldur áfram að rýrna að áliti og virðingu, og dæmi eru um að vegna þess veigri fólk sér við því að viðurkenna að það horfi á herlegheitin, – það verður undirleitt og vand- ræðalegt, og segist hafa gert það vegna þess að börnin vildu horfa. Ofvaxinn glamúrumbúnaður keppninnar utan um þetta litla ekki neitt sting- ur í augun eins og gylling á hlandkoppi. Um- búðirnar eru stórfenglegar en innihaldið rýrt. Hvers vegna ekki að gera Evróvisjón að úti- tónleikum? Það er ekki bara að lögin í Evró-visjónkeppninni séu á hraðri niðurleið,það er líka orðið algengara eins og áðursagði að fólk með takmarkaða mús- íkhæfileika komist þar að. Áður fyrr voru í það minnsta fleiri framúrskarandi flytjendur í keppninni, söngvarar sem nutu mikilla og al- mennra vinsælda langt út fyrir heimalönd sín. Meðal þessara stjarna má nefna norrænu stjörnurnar Alice Babs, Monicu Zetterlund, Katy Bødtger og Noru Brockstedt; – Freddy Quinn, Domenico Modugno, Françoise Hardy, Nönu Mouskouri, Sandy Shaw, Lulu, Cliff Richard og Julio Iglesias. Síðustu árin man ég varla eftir neinu svo stóru nafni í keppninni öðr- um en Céline Dion sem söng og sigraði fyrir hönd Sviss 1988 og rússnesku dívunnar og pönkdrottningarinnar Öllu Púgatsjevu sem var með bráðgott lag í keppninni 1997, en komst ekki á toppinn frekar en Páll Óskar. Í stað þess að vera vettvangur þess besta í evrópskri dægurtónlist hefur Evróvisjón- keppnin hægt og bítandi sokkið niður í með- almennsku sem höfðar ekki lengur til þeirra sem hafa gaman af góðri dægurtónlist. Þetta sést best á því að bestu dægurtónlistarmenn álfunnar taka ekki þátt í keppninni. Ef við lítum bara á framlag okkar Íslendinga, þá verður að segjast eins og er að lög okkar, að undanskildu fyrrnefndu lagi Þorvaldar Bjarna, hafa varla getað talist nema þokkaleg, og sum tæplega það. Ekki ætla ég að fullyrða að menntun í faginu ráði úrslitum um það hvernig til tekst, en engu að síður verður ekki framhjá því horft að Þorvaldur Bjarni er hámenntaður tónsmiður með mikla reynslu. Það hlýtur að hafa haft sitt að segja. En þótt lítið menntað tónlistarfólk geti vissulega haft mikla hæfileika hafa þau lög sem við höfum sent í keppnina ekki verið til marks um neina sérstaka sköp- unargáfu eða yfirþyrmandi frumlegheit. Það vekur óneitanlega spurningar hvað sé með þær íslensku hljómsveitir og tónlistarfólk sem er að skapa sér nafn og vinna stóra sigra út um allar jarðir með frábærri músík. Hvað með Sigur Rós, Múm, Ske, Leaves, Quarashi, Emiliönu Torrini og fleiri og fleiri; – hvar er okkar besta fólk? Mig grunar að ýmsum í hópi þessara tónlistarmanna þætti það varla sam- boðið sér að taka þátt í Evróvisjónkeppninni, þvílík er gengisfelling keppninnar orðin. Ég held hins vegar að eigi keppnin að lifa verði ein- hver af þeim 26 þjóðum sem taka þátt í henni hverju sinni að taka af skarið með því að bera fram eitthvað mun bitastæðara en þá með- almennsku sem nú ræður ríkjum. Það urðu þáttaskil í Evróvisjónkeppninni þegar Abba sló í gegn árið 1974 með laginu Waterloo. Þannig lag hafði ekki heyrst í keppn- inni áður; staðfast rokklag, hratt og fjörugt. Sigurinn fékkst ekki bara fyrir enn eitt ágætt lag, heldur fyrir lag sem var öðruvísi, fram- sæknara en annað sem þar hafði heyrst til þess tíma, lag þar sem saman fór góð tónsmíð, fínn texti og eftirminnilegur flutningur. Það er löngu kominn tími á önnur slík hvörf í keppn- inni. Ég tel að við Íslendingar gætum sem hæg- ast tekið að okkur að hefja nýjan kafla í sögu keppninnar með því að hætta að senda í hana lítið spennandi miðjumoð. Við ættum að taka af skarið og senda það fólk sem hefur sannað sig að því að vera skapandi og skemmtilegt, fólk sem jafnframt hefur sýnt að það á erindi við umheiminn með góðri tónlist sem hefur eitt- hvað að segja. Það er alltaf verið að reyna að velja eitthvað sem er „líklegt til að sigra“, á meðan horft er framhjá því að stór hópur ís- lenskra tónlistarmanna er einmitt í raun og veru að „sigra“ á sínum prívat vettvangi úti um allan heim. Þetta hlýtur líka að vera spurning um metnað Útvarpsins. Varla getur það verið dýrara að senda fyrrnefnda tónlistarmann en þá sem á undan hafa farið. Hvers vegna þá ekki að senda þá sem betri eru? Að því er ég best veit er Útvarpið ekki skyldað til að hafa for- keppni, og auglýsa eftir lögum. Það eru for- dæmi fyrir því að Útvarpið hafi einmitt bent á ákveðinn listamann og sagt: Við viljum senda þig. En hvers vegna er ég nú að brydda upp áþessu? Mér mætti svo sem í léttu rúmiliggja hvort Evróvisjón-keppnin lifireða deyr. Hins vegar væri það óneit- anlega spennandi að sjá hana þróast í takt við tímann og verða að metnaðarfullum tónlistar- viðburði þar sem Evrópuþjóðir gætu sýnt sig og séð hver aðra á þessu sviði. Eigum við að hafa metnað til að gera betur en að vera okkur bara til sóma, – eða eigum við að láta okkur duga að vera bara við það? Nei, við ættum að hafa þann metnað að tefla fram því besta sem við eigum, ögra með því öðrum þjóðum og brýna þær til að gera slíkt hið sama. Þá fyrst verður kostnaðarsöm þátttaka Ríkisútvarpsins í Evróvisjónkeppninni réttlætanleg. Þá fyrst verður skammlaust hægt að horfa á hana og njóta hennar um leið. Gengisfelling Evróvisjónkeppninnar Reuters Eigum við að láta okkur duga að vera okkur til sóma, eða viljum við gera betur? Hvar er þá okkar besta tónlistarfólk sem er í raun og veru að „sigra“ á sínum prívat vettvangi úti um allan heim? AF LISTUM Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is TRÚARLEGIR ljóðatónleikar“ er yfir-skrift tónleika sem hinn heimsþekktibaritonsöngvari Andreas Schmidtheldur ásamt píanóleikaranum Helmut Deutsch í Salnum í Kópavogi annað kvöld, sunnudaginn 1. júní. Tónleikarnir, sem eru liður í Kirkjulistahátíð, hefjast klukkan 20. Á efnisskránni eru Gellert-ljóð eftir Beethoven, Vier ernste Gesänge eftir Brahms, Biblíuljóð eftir Dvorák og Michelangelo-ljóð eftir Wolf. Beethoven og Dvorák Andreas segist einu sinni áður hafa flutt efnis- skránna, en það var í Austurríki, á kirkjutónlist- arhátíð skammt frá Vín. „Tónleikarnir voru haldnir í sjálfri kirkjunni og því ákváðum við að vera aðeins með kirkju- lega söngva. Flest þessara verka eru þó oft flutt á almennum tónleikum. Til dæmis verk Brahms, Vier ernste Gesänge (Fjórir alvarlegir söngvar) op. 121. Þótt textarnir séu trúarlegir, eru þetta talin meðal bestu verka hans, ekki síðri en Sálu- messan.Textar Beethovens eru frá Gellert-ljóð- um skáldsins Christians Fürchtgott Gellert. Gellert var prestur í Þýskalandi á 18. öld, en þá var mjög algengt að prestar væru líka ljóð- skáld,“ segir Andreas. Beethoven samdi lögin sín sex, sem flutt verða á tónleikunum á árunum 1801–1802 og voru þau gefin út í Vín ári síðar. Á þessum tíma átti Beethoven sívaxandi vinsæld- um að fagna sem píanóleikari og tónskáld og út- gefendur slógust um hvert nýtt verk sem frá honum kom. Davíðssálmar og Michelangelo-ljóðin Lögin sem Andreas syngur eftir Dvorák eru Tíu Biblíusöngvar op. 99. Biblíusöngvarnir tíu urðu til í New York, þar sem Dvorák starfaði sem tónsmíðaprófessor og listrænn stjórnandi tónlistarskóla um nokkurt skeið. Þegar hann frétti að náinn vinur hans, hljóm- sveitarstjórinn Hans von Bülow, væri látinn og faðir hans lægi fyrir dauðanum heima í Bæ- heimi, sótti hann huggun í Davíðssálmana. Hann valdi vers úr nokkrum sálmanna í hinni þekktu tékknesku Kralicebiblíu frá sextándu öld og samdi við þau síð- asta ljóðaflokk sinn og jafnframt hinn merkasta. „Þegar ég vissi að tónleikarnir að þessu sinni yrðu ekki fluttir í kirkju,“ segir Andreas, „áttaði ég mig á því að efnisskráin var of stutt. Hún var upphaflega sett saman fyrir tónleika í kirkju þar sem ekki var hlé. Þess vegna bætti ég við ljóðaflokknum Þrjú Mich- elangelo-ljóð eftir Hugo Wolf. Í ár er þess minnstvíða um Evrópu að hundrað ár eru liðin frá dauða hans. Þegar ég, til dæmis, sný aft- ur til Þýskalands tek ég þátt í kons- ertuppfærslu á óperu eftir hann sem er sjaldan flutt. En textarnir í Michelang- elo-ljóðunum fjalla um líf og dauða og falla því vel að þema hinna verkanna sem ég flyt. Mér fannst góð hugmynd að bæta þeim við hér til að minnast hans.“ Wolf fékk þýska þýðingu Ro- bert-Tornows á ljóðum ítalska endurreisnar- meistarans Michelangelos í jólagjöf árið 1896. Í mars 1897 samdi hann lög við fjögur ljóðanna en dæmdi fjórða lagið ónothæft og fargaði því. Misskilið tónskáld „Wolf er í dag virtur sem eitt besta ljóðatónskáld heims, í sama flokki og Brahms, Schumann og fleiri,“ segir Andreas, en þótt hundrað ár séu liðin frá dauða hans, hefur hann þá ímynd að vera nútímatónskáld. Áheyrendur hafa því ekki flykkst á tónleika þegar verið er að flytja verk eftir hann, að minnsta kosti ekki af sama ákafa og þegar sungin eru ljóð eftir Brahms, Schubert, Mozart og Beethoven. Ljóðasöngvarar um allan heim berjast við að koma áhorfendum í skilning um að hann sé með- al bestu ljóðatónskálda sögunnar. Enda er það svo að þegar tekst að ná fólki á tónleika þar sem verk hans eru flutt, verður það alltaf heillað.“ Hefur þú gert mikið af því að syngja verk Wolfs? „Já, ég hef sungið mikið af ljóðum hans á tón- leikum, auk þess að hljóðrita talsvert af þeim. Áður en ég kom til Íslands lauk ég við að hljóð- rita Brahms söngva og þegar ég kem aftur til Þýskalands tek ég til við hljóðritun á öllum söngvum Wolfs. Þetta eru um 350 söngvar og það verkefni kemur til með að spanna fjögur til fimm ár. Margir söngvanna hafa aldrei verið hljóðritaðir áður. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að kynna mér tónskáld til hlítar. Það er ekki hægt nema kynna sér líf þeirra; safna upplýsingum, lesa ævisögur og læra söngvana. Og þá er ég ekki að tala um fimmtán þekktustu söngvana, heldur alla hina tvö hundruð eða þrjú hundruð líka. Þá fyrst er hægt að segja með sanni að maður þekki tónskáldið. Ég er stöðugt að kynna mér óþekkt verk eftir þekkt tónskáld og óþekkt verk eftir óþekkt tónskáld og get fullyrt að sönglög Wolfs eru ekki síðri að gæðum en sönglög Brahms.“ Hatrömm samkeppni „Þessi tvö tónskáld tengjast á mjög sérstæð- an hátt. Þótt 27 ára aldursmunur hafi verið á þeim, áttu þeir í hatrammri samkeppni. Brahms var mjög virtur og hátt skrifaður sem tónskáld í Vínarborg og fékk alltaf góðar viðtökur. Það má segja að Vínarbúar hafi borið hann á höndum sér. Hins vegar varð Wolf að vinna fyrir sér sem tónlistargagnrýnandi til þess að framfleyta sér. Og í sem stystu máli, þá skrifaði hann alltaf skelfilega gagnrýni um verk Brahms. Hann var svo afbrýðisamur vegna þess að honum gekk sjálfum ekki vel að koma verkum sínum á fram- færi. Ástæðan fyrir þessum árásum á Brahms var sú að þegar Wolf var ungur maður, nýbyrjaður að semja tónlist, fór hann til Brahms og bað hann um álit á verkunum. Brahms sagði: „Þér þurfið að vinna þetta betur, kynna yður kontra- punkt og verk Bachs og þá verðið þér kannski einhvern tímann góðir.“ Wolf líkaði þessi umsögn ekki og borgaði seinna fyrir sig með gagnrýni. Auðvitað. Sjálf- sagt hefði hvorugur sætt sig við að verk þeirra væru flutt saman á tónleikum.“ Vil kynna mér tónskáld til hlítar Andreas Schmidt Andreas Schmidt og Helmut Deutsch flytja trúarlega ljóðatónleika í Salnum á sunnudagskvöld. Súsanna Svavarsdóttir ræddi við Andreas um efnisskrána og tónskáldin en tónleikarnir eru liður í Kirkjulistahátíð.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.