Morgunblaðið - 22.06.2003, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 22.06.2003, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 SUNNUDAGUR 22. JÚNÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ Þ AÐ er ekki farið að rigna. Faðir leiðir dætur sínar niður Ing- ólfsstræti. Mikið er þetta falleg fjölskyldustemmning að morgni þjóðhátíðardagsins. – Við erum að sækja bílinn eftir gærkvöldið, segir hann með timbruðu brosi nýsjálfstæðrar þjóðar. Ung stúlka í St. Louis-peysu kippir sér ekkert upp við að vera að vinna í Máli og menningu. – Það á eftir að rigna hvort eð er. Og viti menn, flóðgáttir himinsins opnast. Það er kominn 17. júní. Rigningin er eins og maður á að venjast frá útlöndum. Ef til vill er það til marks um að lýðveldið Ísland fái ekki varist erlendum áhrifum; ekki einu sinni á 59 ára afmælisdaginn. Það merkilega er að enginn í búðinni kippir sér upp við rigninguna. – Týpískt, segir skeggkarl og flettir tímaritum. – Klikkar ekki, mælir sprund við dagblaðarekkann. Á þessum degi ársins leyfa Íslendingar sér að leggja hvar sem þeim sýnist innan íslenskrar lögsögu, á túnum, gangstéttum, umferðareyjum. Eflaust er það til að undirstrika frelsið og sjálfstæðið. Þeir gefa erlend- um stórþjóðum langt nef, – og stöðumælavörðum. Blaðamaður fer samt gangandi í bæinn og mætir gamalli konu í Grjótagötu. – Það rignir, segir hann. – Já, svarar hún og brosir gegnum regnið eins og skip á úfnum sjó. – Rignir ekki alltaf 17. júní? spyr blaðamaður. – Ekki fyrir norðan, svarar hún óhikað. Það rignir ekki þar. En það snjóar einstaka sinnum. Bærinn er fullur af fólki með orð á vörunum. Orðin mynda fljót í rign- ingunni og streyma niður Arnarhvol í mannhafið á Ingólfstorgi. Oft kvíslast sömu orðin manna í milli. Orð sökkva líka til botns og öðrum skýtur upp. Spurning hvort setningarnar haldi þá merkingu sinni; hvort ekki sé blæbrigðamunur á frásögninni frá einum orðaflaumi til annars? Og Íslendingasagan sem berst með fljótinu breytist í skáldskap. Í rigningu frá Guði syngur látlaus stúlka engilsaxneska kristnisöngva í Austurstræti og blaðamaður fær afhentan „lollaraseðil“ frá United Kingdom of God. Stúlka stendur úti í Reykjavíkurtjörn og hrópar: – Það er skítkalt! Lagið úr Survivor er í græjunum og vinir hennar fljóta á vindsæng- um. Þeir halda á fána með áletruninni Date.is sem þeir sigla á stefnu- mót við álftirnar. Sorphirðumaður á tjarnarbakkanum er með íslenska fánann málaðan á kinnina. Eða kannski er þetta alíslenskt glóðarauga? Og Íslendingar eru orðnir velktir líkt og endurnar. Það rignir eins og alltaf á þjóðhátíðardaginn. Regnhlífarnar orðnar fánar. Í þeim blaktir sjálfstæðið. Ekki er hverjum sem er hleypt undir regnhlífina og teinarnir reknir í nærgöngula. Einlitir fánar, köflóttir, rauðir djöflar og tígrismynstur. Hvað segir hornótt regnhlíf um eigand- ann? Stundum blómstrar ást undir regnhlífunum. Aðrar rúma varla manneskju. Roskin hjón arka hvort með sína regnhlífina. Ef til vill segir það meira um hjónabandið en margt annað. – Mér finnst vanta hátíðarstemmningu, kvartar trúlofuð snót. – Á ég að kaupa handa þér blöðru? spyr unnustinn. Æskuljóminn er fullur af þjóðarstolti með kandífloss og Pókemón- blöðrur. Endrum og eins svífur gasblaðra til himins og engu líkara en það séu augun í barninu sem mænir á eftir. Í Gevalia-kaffibolla hring- snýst móðir með dóttur sinni. Hún er að tala í farsímann og heldur í barnið með lausu hendinni. Þannig er komið fyrir fjallkonunni. Og stytt- an af Jóni Sigurðssyni fellur í skuggann af auglýsingum Og Vodafone. Eins gott að hann er ekki innan þjónustusvæðis. Blaðamaður heyrir óminn af Open Your Heart með Birgittu Haukdal og flýtir sér að svið- inu, en nær aðeins: – Takk fyrir. Á Sólvallagötu röltir gegndrepa fjölskylda heim. Lítill hnokki með ýlu í munninum og flautar viðstöðulaust. Skyndilega er konsertinn rofinn með öskri úr húsalengjunni og ómögulegt að segja til um úr hvaða íbúð það kemur: – Haltu kjafti! Í húsalengju á Sólvallagötu leynist rammíslensk taug. Fjallkonan rumskar. Morgunblaðið/Árni Torfason Ást undir regnhlífum SKISSA Pétur Blöndal var í rigning- unni 17. júní FJÖGUR skip eru með meira en 17.000 tonna loðnukvóta miðað við upphafsúthlutun loðnuheimilda á ver- tíðinni sem mátti hefjast í gær. Nokk- ur skip eru þegar haldin til veiða, en ekkert hafði veiðzt í gærkvöldi. Upphafsúthlutun aflamarks á ver- tíðinni er 362.345 tonn en var 410.422 tonn á síðastliðnu veiðitímabili, 2002/ 2003. Á síðasta ári veiddust alls 988.000 tonn af loðnu. Þar af var hlut- ur Íslendinga 765.000 tonn. Svo lítill hefur loðnuaflinn ekki verið síðan vertíðina 94/95, en þá varð hann 750.000 tonn. Mestur loðnuafli á ver- tíð síðustu árin varð 1.249.000 tonn vertíðina 96/97. Vertíðina 01/02 varð afli okkar 1.051.000 tonn. Hafrann- sóknastofnun telur að á komandi ver- tíð geti heildarafli orðið 835.000 tonn. Þau skip sem nú fá mestan upp- hafskvóta eru eftirfarandi: Antares VE með 18.365 tonn, Víkingur AK með 17.944, Ingunn AK með 17.865 og Hólmaborg SU með 17.396 tonn. Í ráðleggingum Hafrannsókna- stofnunar um hæfilegan loðnuafla á vertíðinni segir svo: „Miðað við 1.420 þús. tonna veiði- stofn í vertíðarbyrjun, venjulegar forsendur um náttúruleg afföll og 400 þús. tonna hrygningu í lok vertíðar ætti loðnuaflinn á vertíðinni 2003/ 2004 að geta orðið 835 þús. tonn alls. Spár um stærð veiði- og hrygningarstofns loðnunnar eru mik- illi óvissu háðar. Þess vegna er lagt til að hámarksafli á vertíðinni 2002/3 verði takmarkaður við 2⁄3 af spáðum hámarksafla eða 555 þús. tonn, þar til stærð veiðistofnsins hefur verið mæld haustið 2003 og/eða veturinn 2004.“ Ísland hefur sagt upp samningi sínum við Grænland og Noreg um sameiginlega nýtingu loðnustofnsins. Samkvæmt fyrri samningi var hlutur Íslands úr heildinni ríflega 80%. Antares VE með mestan loðnukvóta NÝJASTA áfanga hafnarfram- kvæmda á Þórshöfn á Langanesi lauk í vikulokin og var nýja áfang- anum fagnað með athöfn á Þórs- hafnarbryggju og móttöku í fé- lagsheimilinu, þar sem meðal gesta gat að líta Sturlu Böðv- arsson samgönguráðherra og Val- gerði Sverrisdóttur iðnaðarráð- herra. Björn Ingimarsson sveitarstjóri Þórshafnar sagði í samtali við Morgunblaðið að hafnarfram- kvæmdirnar væru lífsspursmál fyrir byggðarlagið. „Við verðum að hafa alvöru höfn eða hverfa af landakortinu,“ sagði Björn. Loðnubátar þurfa ekki lengur að bíða flóðs Um er að ræða dýpkun frá 8 metrum í 8,6 metra og 9 metra fyrir framan nýtt stálþil sem kom- ið verið fyrir. Segir Björn að við þessa breytingu geti öll skip sem erindi eigi til Þórshafnar siglt inn í höfnina, m.a. þurfi loðnubátar ekki að bíða flóðs til að eiga greiða leið með afla sinn til Þórshafnar. Það var Sæþór ehf. sem vann verkið og notaði m.a. vinnuafl á staðnum sem Björn sveitarstjóri sagði mik- ils metið, því leiðinlegt væri þegar verktakar kæmu annars staðar frá, flyttu með sér vinnuaflið og hyrfu svo á brott. Í þessu tilviki hefði verkefnið því styrkt atvinnu- lífið á Þórshöfn. Verkinu er fjarri því lokið, næsta áfanga skal lokið í október, að sögn Björns, og mun þá við- legurými aukast til muna og höfn- in verða „mjög góð smábátahöfn“, eins og Björn komst að orði. Nýr áfangi hafnarinnar á Þórshöfn tekinn í notkun Góð höfn lífsspursmál fyrir byggðarlagið Þórshöfn. Morgunblaðið. Morgunblaðið/Golli Listaverk eftir Kristínu Öldu Kjartansdóttur var afhjúpað um leið og áfanga í hafnarframkvæmdum var fagnað en á verkinu eru siglingaljós. HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness vísaði í gær frá dómi máli sem Sjó- mannafélag Reykjavíkur höfðaði gegn Atlantsskipum. Krafðist sjó- mannafélagið þess m.a. að viður- kennt yrði með dómi að Atlants- skip hefðu brotið í bága við samning um flutninga fyrir varn- arliðið á Keflavíkurflugvelli með því að gera ekki sjálf út skip til sjóflutninga fyrir varnarliðið milli Bandaríkjanna og Íslands heldur leigja erlent skip með áhöfn. Í niðurstöðu dómsins segir að Sjómannafélag Reykjavíkur sé hvorki aðili að milliríkjasamningn- um um sjóflutningana fyrir varn- arliðið né sé hægt að sjá af gögn- um málsins að tilteknir félagsmenn Sjómannafélags Reykjavíkur hafi orðið af störfum á skipum sem Atl- antsskip hafa leigt til sjóflutning- anna fyrir varnarliðið á Íslandi og félagið þannig orðið af greiðslu fé- lagsgjalda. Samkvæmt þessu hafi félagið ekki sýnt fram á að það eigi lögvarða hagsmuni af að fá skorið úr kröfum sínum fyrir dómstólum. „Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að vísa öllum kröfum stefnanda frá dómi,“ segir í dómnum sem Guðmundur L. Jó- hannesson kvað upp. Félagið var dæmt til að greiða skipafélaginu 130.000 krónur í málskostnað. Jónas Haraldsson hdl. flutti mál- ið fyrir sjómannafélagið en Lúðvík Örn Steinarsson hdl. var til varn- ar. Ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni Máli Sjómannafélagsins gegn Atlantsskipum vísað frá
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.