Morgunblaðið - 23.07.2003, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 23.07.2003, Blaðsíða 30
MINNINGAR 30 MIÐVIKUDAGUR 23. JÚLÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ É g hef ekkert á móti Samkeppnisstofnun, ég tel hana bara óþarfa,“ sagði einn vinur minn strax og ég hafði svarað í farsímann sem hringdi látlaust í gær. „Sko, þeir sem áður unnu hjá ríkisstofnun sem hét Verðlagsráð skilja ekki hvað samkeppni er og ættu bara að halda áfram að fylgjast með verð- merkingum í gluggum verslana á Laugaveginum,“ hélt hann áfram, dálítið æstur. Ég reyndi af litlum mætti að skjóta setningum inn í. „Líttu bara í kringum þig, mað- ur! Telur þú rétt sem Gylfi Magnússon, hagfræðingur í Háskóla Ís- lands, sagði í fréttum nýver- ið, að stöðnun einkenndi markað þar sem verðsamráð væri viðhaft? Það á þá ekki við olíumarkaðinn. Ég hef ekki séð neina stöðnun þessum bensínstöðvum. Þær líkj- ast orðið geimskipum – tilbúnar til flugtaks, fullhlaðnar olíu og mat. Ég bíð alltaf eftir því að verða skotið á loft þegar ég labba inn.“ Svo fylgdi löng og ítarleg út- skýring á því að samkeppni gæti ríkt þótt olíufélögin hafi elt hvert annað í verðlagningu undanfarin ár. Benti hann á að ríkið væri rétt búið að losa krumluna af þessum viðskiptum en tæki þó enn 60% af hverjum bensínlítra í skatt. Fyrir tveimur árum hafi þetta hlutfall verið 70%. Það sé því lítið svigrúm fyrir olíufélögin til að keppa um verð, varan sé einsleit og þau lúti öll heimsmarkaðsverði í inn- kaupum. Eitt einkenni fákeppni sé einmitt – og á fákeppnismarkaði geti ríkt samkeppni – að fyrir- tækin bregðist við hegðun keppi- nautarins og elti þá sem lægst bjóða í verðlagningu. Af og til brjótist út verðstríð sem linni þeg- ar nýju jafnvægi sé náð. Þegar svo háttar sagði hann að samkeppnin birtist á öðrum svið- um þar sem auðveldara er að keppa án mikilla ríkisafskipta. Það væri meðal annars í fjölda af- greiðslustöðva, opnunartíma, þjón- ustustigi og augljósasta dæmið, sem sneri að almennum notendum, væri verslanir út um allt; nú væri hægt að næla sér í mjólk og brauð á næstu bensínstöð allan sólar- hringinn um leið og einni slöngu með öllu nema hráum sé sporð- rennt. „Ef það væri svona fagmannlegt samráð hjá þessum forstjórum hvers vegna eru þeir þá að fjár- festa svona mikið í Borgarnesi? Ol- ís gat bara ekki látið Shell og Esso um þetta og þurfti að troða sér þarna líka með sína Uppgrips- verslun hinum megin við veginn. Var skiptingin á milli markaða kannski ósanngjörn?“ spyr hann mig án þess að ég fái svigrúm til að svara. „Svona samráð heldur aldrei til lengri tíma og félögin hafa hag af því að svíkja keppinautana og ná inn meiri hagnaði eða keppa meira á öðrum sviðum. Svo er hægt að planta einum olíutanki einhvers staðar og panta eitt stykki olíu- flutningaskip á klakann ef menn eru ekki ánægðir. Þá fer allt upp í loft, öll samráð eru úti og verðstríð skellur á. Það er því fagnaðarefni að framkvæmdamenn ætla að hefja hér olíusölu með stofnun Atl- antsolíu. Sú ógn, að aðrir komi inn á markaðinn séu fyrirtækin að hagnast verulega á viðskiptunum, er líka áhrifarík. Hver man ekki eftir því að útgerðarmenn hótuðu að senda hingað erlent olíuskip á miðin? Það varð til þess að fyr- irtækjasamningar voru gerðir í auknum mæli sem fólu í sér veru- legan afslátt af listaverði.“ Loksins fæ ég svigrúm til að skjóta inn setningu og segi að Kristinn H. Gunnarsson, einn mik- ilmetnasti þingmaður þjóðarinnar, hafi sagt að það verði að auka fjár- veitingar til Samkeppnisstofnunar í ljósi frumskýrslu um samráð olíu- félaganna og auka vald hennar. Hann hafi meðal annars gagnrýnt sjálfstæðismenn fyrir að vega að stofnuninni. „Kristinn má ekkert aumt sjá, þá sparkar hann í það,“ hélt þá vin- ur minn áfram enn æstari. „Einu skiptin sem Halldór Blöndal steig úr forsetastólnum á síðasta þingi var þegar hann gagnrýndi Sam- keppnisstofnun fyrir getuleysi. Hann hélt því meira að segja einu sinni fram að Guðmundur Sigurðs- son, forstöðumaður samkeppn- issviðs, hefði brugðist starfs- skyldum sínum! Það er vonandi að þessir nýju þingmenn Sjálfstæð- isflokksins hafi dug í sér til að tak- marka völd þessarar stofnunar og láti ekki talið í Kristni H. Gunn- arssyni villa sér sýn. Það er ekki hægt að ein ríkisstofnun rannsaki, ákæri og dæmi í sama málinu.“ Þessu fylgdi síðan útskýring á því að skaðinn af því að hafa Sam- keppnisstofnun sé meiri en að leggja hana niður. „Svona svipuð rök og þeir færa gegn lyfjaeftirlits- stofnun Bandaríkjanna. Þótt markmiðið sé göfugt hefur starf- semi þeirrar stofnunar fleiri mannslát á samviskunni en nokkur önnur stofnun þar í landi. Hún hef- ur tafið innkomu fjölda nýrra lyfja á markaðinn á meðan fólk var að deyja. Auðvitað hefur hún líka forðað því að skaðleg lyf fari á markað en það vegur engan veginn upp á móti skaðanum af töfinni að ný lyf komi fram.“ Svolítil þögn kom í símann og ég íhugaði orð hans. „Sérðu ekki sam- líkinguna? Þó upp um þetta sam- ráð olíufélaganna komist núna, sem ég tel að myndi aldrei þrífast til lengdar, þá veldur Samkeppn- isstofnun meiri skaða til lengra tíma litið. Starfsmennirnir telja það sína heilaga skyldu að vera of- an í hvers manns koppi. Það leiðir af sér ómældan kostnað fyrir fyr- irtæki, tefur eðlilegar hagræð- ingar, kemur í veg fyrir viðskipti, setur hömlur á samkeppni og meinar jafnvel fyrirtækjum að lækka verð. Á meðan er miðstýrt verðsamráð landbúnaðarins látið óátalið.“ Ég þagði og skellti síðan á. Símtal um Samkeppn- isstofnun „Þeir sem áður unnu hjá ríkisstofnun sem hét Verðlagsráð skilja ekki hvað samkeppni er og ættu bara að halda áfram að fylgjast með verðmerkingum í gluggum verslana á Laugaveginum.“ VIÐHORF Eftir Björgvin Guðmundsson bjorgvin@mbl.is Páll Agnar Pálsson, „nestor“ okkar ís- lenskra dýralækna um langt árabil, er látinn. Páll Agnar var yfir- dýralæknir frá árinu 1955 til 1989 eða um 34 ára skeið. Páll Agnar nam dýralækn- ingar við Landbúnaðar- og dýra- læknaháskólann í Kaupmannahöfn og þar kynntist hann eftirlifandi konu sinni, frú Kirsten Henriksen, sem einnig lærði dýralækningar. Að námi loknu fluttu þau heim og sinnti Kirsten smádýralækningum í Reykjavík og aðstoðaði einnig Pál Agnar á margvíslegan hátt í hans starfi. Auk yfirdýralæknisembættis- ins gegndi hann fjölda annarra trún- aðarstarfa, þar á meðal starfi for- stöðumanns og helsta meinafræðings Tilraunastöðvarinnar á Keldum um árabil. Þetta var óvenjulangur og yf- irgripsmikill ferill embættismanns, enda naut hann trúnaðartrausts jafnt yfirmanna sinna sem undir- manna. Páll þótti ákveðinn embætt- ismaður, ákvörðunum hans varð ekki auðveldlega haggað og fyrirmæli hans höfðu nánast reglugerðarígildi á þeim árum. Einnig var hann þekkt- ur fyrir að fara vel með þá fjármuni sem honum var trúað fyrir og lagði ekkert upp úr því að hafa eigin skrif- stofu með málverkum og leðursófa- settum. Eitt af minnisverðustu atriðunum varðandi Pál Agnar var hversu gott og skemmtilegt málfar hann hafði í ræðu og riti. Þetta kom skýrt fram í þeim fjölmörgu greinum sem hann skrifaði og enn eru í gildi reglugerðir sem greinilegt er að Páll Agnar hefur sett sitt stílbragð á. Páll Agnar var feikilega fróður maður, bæði um sjúkdóma og heilsufar íslensks bú- penings, en ekki síður um ýmislegt er varðaði íslenska staðhætti og sögu. Þau hjónin ferðuðust mikið á hestum á sumrin um hálendið og eftir hann liggja lýsingar á ýmsum hestaleiðum. Páll Agnar var heimsþekktur vís- indamaður á sviði búfjársjúkdóma og oft er til hans vitnað í erlendum vís- indagreinum. Í starfi mínu sem yf- irdýralæknir hef ég orðið var við þá miklu virðingu sem hann naut og þetta hefur komið greinilega fram á alþjóðlegum fundum yfirdýralækna. Ég starfaði sem héraðsdýralæknir í embættistíð Páls Agnars og gott var að leita í þekkingarbrunn Páls, bæði meðan hann starfaði sem yfirdýra- læknir og ekki síður eftir að hann lét af störfum, og það gerðu fjölmargir auk mín. Mikill fengur er að öllu því sem eftir hann liggur í prentuðu máli, en það er einnig ljóst að ekki verður lengur aðgangur að þeim ómælda fróðleik og þeirri miklu reynslu sem hann bjó yfir. Missir okkar dýralækna er mikill en enn meiri er þó missir hans nán- ustu og þeim sendum við okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Halldór Runólfsson yfirdýralæknir. Grundir himnaríkis hafa án efa sungið söngva undir léttu fótataki fararskjóta Páls A. Pálssonar þegar hann tók hlaðsprettinn og vinir verið í varpa sem fögnuðu Páli og buðu hann velkominn. Ég þykist þess full- viss að í vinahópnum hafi verið tengdafaðir minn, Þorgeir í Gufu- nesi. Hann hefur heyrt hófadyninn álengdar og strax borið kennsl á manninn, hestinn og reiðlagið. Hann hefur faðmað Pál og þakkað honum fyrir vinfestu, drengskap og hjarta- hlýju í öllum þeirrra samskiptum svo áratugum skipti. Síðan hefur Þor- geir, sem var lágur vexti, herðabreið- ur og öllum mönnum sterkari, gripið PÁLL AGNAR PÁLSSON ✝ Páll Agnar Páls-son fæddist að Kletti í Reykholtsdal 9. maí 1919. Hann lést í Reykjavík 10. júlí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni 22. júlí. Pál glímutökum og lyft yfir höfuð sér. Trúað gæti ég að hann hafi þessu næst brugðið þessum stóra manni í bóndabeygju og dansað með hann um hlaðvarp- ann. Í landi Gufuness var Knútskot, lítið timbur- hús sem Bjarni læknir Bjarnason og eiginkona hans, Regína Þórðar- dóttir leikkona, fengu að nota sem sumarbú- stað. Seinna byggðu þau svo íbúðarhús yst á Gufuneshöfðanum, við voginn sem nú er löngu horfinn af mannavöldum. Með Þorgeiri og þeim hjónum, Reg- ínu og Bjarna, ríkti mikil vinátta og þá sjaldan Þorgeir þurfti að leita læknis á þessum árum kom enginn til greina nema Bjarni. Þau hjón hurfu svo af sjónarsviðinu og að þeim var mikill missir. Þá voru máttarvöldin svo hugulsöm að leiða þau saman Þorgeir og Pál og konu hans Kirsten. Ekki veit ég gjörla hvernig þau kynni hófust, en heyrt hef ég þá sögu að Þorgeir hafi einhvern tíma, eftir að Bjarni var fallinn frá, þurft að leita til læknis. Þá fannst honum eðlilegast að fara heim að Keldum. Þar voru læknar bæði manna og dýra þótt ég efist um að hann hafi talið ástæðu til að gera nokkurn greinarmun þar á. Betra gat það ekki verið og þangað leitaði hann til Páls sem trúlega hef- ur fengið annan hvorn þeirra Guð- mundanna, Georgsson eða Péturs- son, til að líta á Þorgeir. Páll og Þorgeir höfðu þekkst áður en nú urðu kynni þeirra nánari og Páll lét sér síðan annt um þetta einstæða náttúrubarn sem bjó yfir óbeislaðri snilli á ýmsum sviðum. Sú var tíð að Gufunes var ekki í al- faraleið en alltaf var þar gestkvæmt og öllum tók bóndinn fagnandi. Gat jafnvel átt það til á miðjum slætti, bæri góða gesti að garði, að henda frá sér amboðunum og halda ríðandi til heiða, á vit ósnortinnar náttúru. Heyið gat beðið. Segja má að Páll og Kirsten hafi komið í stað Bjarna og Regínu. Páll kom alltaf á jólum og fór með Þor- geiri til messu á Lágafelli og er þá fátt eitt nefnt sem hann og kona hans gerðu fyrir vin sinn. Þau vöktu yfir velferð hans án þess að mikið bæri á og yrði á nokkurn hátt þvingandi. Margir voru útreiðartúrarnir sem þau fóru með Þorgeiri og fleirum um fjöll og firnindi. Páll var hægur mað- ur í fasi, traustur og yfirvegaður, með einstaklega hlýtt, skilningsríkt og dulítið glettið bros í augum sem oft ljómuðu þegar vinur hans fór á mestum kostum. Vinfengi er stórt orð og það getur verið erfitt að skýra í hverju það er í rauninni fólgið. Okkur hjónunum og sonum okkar finnst við hafa öðlast talsverðan skilning á þessu hugtaki með því að fylgjast með samskiptum Páls og Kirsten við Þorgeir. Þau ein- kenndust af þeim ómetanlegu eigin- leikum sem nefndir voru hér í upp- hafi og lagðir voru í munn Þorgeirs: vinfestu, drengskap og hjartahlýju. Fyrir það færum við þeim hjónum einlægar þakkir. Örlygur Hálfdanarson. Íslenskir bændur áttu öflugan liðs- mann, þar sem Páll Agnar Pálsson var, og því er hann kvaddur með söknuði, þótt hvíldin hafi örugglega verið honum kærkomin. Páll átti djúpar rætur í bændasamfélaginu, var alinn upp á hugsjónaheimili, þar sem hagur landbúnaðarins og sveit- anna skipaði ávallt æðsta sess, og sjálfur helgaði hann líf sitt framfara- baráttu og varðstöðu fyrir landbún- aðinn. Páll Agnar var í fremstu röð ís- lenskra vísindamanna á sinni tíð. Hann var skarpur í hugsun, frjór og opinn fyrir nýjum viðfangsefnum og aðferðum til að nálgast þau; hann var m.ö.o. vísindalega sinnaður. Rann- sóknir þeirra Keldnamanna á hæg- gengum veirusjúkdómum, riðuveiki og ýmsum öðrum búfjársjúkdómum hafa borið hróður þeirrar stofnunar vítt um heim, og er þáttur Páls þar í ekki lítill. Auk þess var hann óþreyt- andi að fræða íslenska bændur með greinaskrifum um smitsjúkdóma og næringartengda sjúkdóma og hvern- ig bregðast skyldi við þeim. Það sem e.t.v. ber þó hæst hvað landbúnað okkar varðar er sú eld- harða og árangursríka barátta, sem Páll háði alla sína tíð til að verja land- ið fyrir illvígum búfjársjúkdómum. Enginn vafi er á, að reynslan af karakúlpestunum hefur mótað af- stöðu hans eftir að hann tók við starfi yfirdýralæknis, en þar fylgdi hann þeirri skýru og afdráttarlausu stefnu að banna frekar en bjóða minnstu hættu heim og láta stundarhagsmuni eða tískusveiflur aldrei sveigja sig af leið. Hann skildi og skýrði fyrir öðr- um hvað búfé okkar er viðkvæmt fyr- ir framandi smiti vegna aldalangrar einangrunar. Páll þótti oft stífur og jafnvel óbil- gjarn í afstöðu sinni, og sennilega kæmist eftirmaður hans í dag ekki upp með sama stjórnarstíl vegna jafnræðisákvæða, andmælaréttar og hvað nú allt þetta skrifræði heitir. En Páll stóð einn, þurfti lítið að sækja undir aðra, hafði lítið umleikis á skrifstofu en sterkt bein í nefi, og orð hans voru lög. Við getum t.d. þakkað Páli Agnari það hversu snemma var bannað hér að nota kjötmjöl í fóður jórturdýra, löngu áður en menn veltu fyrir sér hættu af slíku í nálægum löndum. Sú ákvörðun ein og sér sýnir framsýni hans og er okkur dýrmæt í dag. Bændasamtök Íslands kveðja Pál Agnar Pálsson með virðingu og þökk og votta fjölskyldu hans samúð. Sigurgeir Þorgeirsson. Nú er Páll allur og á sækja minn- ingar um langt og farsælt samstarf. Ég kynntist Páli í septembermánuði árið 1968 er ég hóf störf á Tilrauna- stöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Mér er enn í minni að nafni minn Pétursson, forstöðumaður, kynnti mig fyrir vörpulegum manni sem við mættum á ganginum sem tengir Efstabæ og Miðhús á Til- raunastöðinni. Þar var kominn Páll Agnar Pálsson. Hann heilsaði mér af kurteislegri hógværð. Þótt ég hefði ekki hitt manninn fyrr þekkti ég vel til verka hans og frumkvöðlanna á Keldum sem höfðu skapað stofnun- inni nafn á alþjóðavettvangi, en hann var einn af þremur sérfræðingum sem hófu störf þegar starfsemin hófst þar árið 1948. Það voru einmitt kynnin af hinu merka starfi braut- ryðjendanna sem ollu því að ég sótt- ist eftir starfi á Tilraunastöðinni að loknu sérnámi ytra. Mér þótti hann í fyrstu nokkuð fálátur. En að nokkr- um vikum liðnum settist ég að honum til að ræða við hann og leita ráða um viðfangsefni og þá var ísinn brotinn og við tók áratuga langt samstarf sem aldrei bar skugga á. Það var ekki einungis að ætíð væri hann tilbúinn að ræða fagleg viðfangsefni heldur lét hann sér mjög annt um velferð mína og fjölskyldu minnar. Síðar átt- aði ég mig á því að hann tók nýliðum með nokkurri varúð og hafði skömm á sjálfbirgingshætti enda einkennd- ist framganga hans af hógværð og lít- illæti yfir eigin verkum. Hann var sjóður af fróðleik, ekki aðeins um fagleg efni, enda víðlesinn og minn- ugur. Hann var mjög fjölhæfur og náði þekking hans yfir mörg fagsvið sem skipta miklu í líf- og læknisvís- indum, m.a. sýklafræði, líffæra- meinafræði og ónæmisfræði enda hafði hann sótt sér víðtæka menntun ytra á þeim tíma sem sérhæfingin var ekki eins langt gengin og síðar varð. Það kom sér vel í fámenninu við upphaf starfseminnar á Tilrauna- stöðinni. Ég sótti óspart í fróðleiks- sjóð hans og ekki aðeins meðan hann var í fullu starfi á Keldum. Hann hélt áfram að starfa á Keldum í um það bil áratug eftir að hann sjötugur lét formlega af störfum, jafnvel eftir að hann varð fyrir áfalli, sem olli því að hann gat ekki ekið til vinnu. Hann notaði tímann til að skrifa greinar um margvísleg fagleg efni en hafði alltaf tíma til viðræðu þegar ég leitaði til hans og því lauk ekki þegar hann

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.