Morgunblaðið - 23.07.2003, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 23.07.2003, Blaðsíða 31
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. JÚLÍ 2003 31 varð fyrir öðru áfalli fyrir nokkrum árum sem gerði það að verkum að hann treysti sér ekki lengur til að koma til vinnu. Því hann var boðinn og búinn að ræða það sem efst var á baugi í faginu þegar ég sótti hann og lífsförunaut hans, Kirsten, heim, og ekki stóð þá á kaffi og góðgæti hjá Kirsten á því menningarlega heimili sem þau höfðu búið sér á Sóleyjar- götunni. Það er athyglisvert hversu umfangsmikilli rannsóknarvinnu hann kom í verk þrátt fyrir erilsamt starf sem yfirdýralæknir og fjölþætt- ar skyldur á Tilraunastöðinni. Hann hélt allt til loka opnum og leitandi hug vísindamannsins og fylgdist vel með nýjungum á fagsviðum sínum. Ég minnist með þakklæti vinar og samstarfsmanns sem nú kveður eftir hálfrar aldar starf á Tilrauna- stöðinni. Enn fremur minnumst við Örbrún með þakklæti gestrisni sem við nutum á heimili þeirra hjóna, Kirsten og Páls Agnars, og vottum Kirsten og skylduliði innilega samúð vegna fráfalls hans. Guðmundur Georgsson. Þegar starfsemi Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hófst árið 1948 hafði hún ekki fjölmennu starfsliði á að skipa en mannval var þeim mun betra. Auk fyrsta forstöðumanns stofnunarinn- ar, Björns Sigurðssonar læknis, komu þar til starfa tveir vel mennt- aðir og hæfir sérfræðingar, þeir Halldór Grímsson efnafræðingur og Páll Agnar Pálsson dýralæknir. Enn- fremur hafði Rannsóknadeild sauð- fjárveikivarna á vegum landbúnaðar- ráðuneytisins þar aðsetur og aðstöðu undir forystu Guðmundar Gíslasonar læknis. Á fáum árum tókst að byggja upp á Keldum rannsóknir á dýra- sjúkdómum að ógleymdum veiru- sjúkdómum manna sem voru fylli- lega sambærilegar því besta sem gerðist erlendis á þeim tíma. Til- raunastöðin á Keldum varð starfs- vettvangur Páls Agnars og hygg ég, að ekki sé ofmælt að hann hafi verið kjölfesta stofnunarinnar á sviði dýra- læknisfræði, þar til er hann lét af störfum sjötugur að aldri árið 1989. Páll lagði stund á dýralæknisfræði við Dýralæknaháskólann í Kaup- mannahöfn á stríðsárunum og lauk þaðan prófi 1944 en hlaut síðan fram- haldsmenntun í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi í sýkla- og meinafræði húsdýra. Hann starfaði sem sérfræð- ingur í fullu starfi á Tilraunastöðinni til ársins 1956 er hann var skipaður yfirdýralæknir en eftir það jafnframt í hlutastarfi á stofnuninni. Þegar Björn Sigurðsson féll frá fyrir aldur fram árið 1959 tók Páll jafnframt við stöðu forstöðumanns Tilraunastöðv- arinnar og gegndi því starfi til ársins 1967 þegar undirritaður var skipaður í það starf. Mér var þá vissulega vandi á höndum, ungum og óreynd- um, að taka við þessu ábyrgðarstarfi. Skipun í stöðuna var umdeild og mig skorti sérþekkingu á dýrasjúkdóm- um og margvíslegum verkefnum, sem Tilraunastöðinni var ætlað að vinna að. Þá í upphafi og löngum síð- an sótti ég góð ráð og stuðning til Páls og var samstarf okkar alltaf náið og hnökralaust. Vísindastörf Páls eru umfangs- meiri og fjölþættari en svo, að þeim verði gerð skil hér. Af meginvið- fangsefnum hans má nefna karakúl- pestirnar svonefndu sem hingað bár- ust með innfluttu sauðfé árið 1933, garnaveiki, votamæði, þurramæði og visnu auk riðuveiki, sem hefur verið hér landlæg a.m.k. frá því fyrir alda- mót. Í samvinnu við Björn Sigurðs- son, Guðmund Gíslason og Halldór Grímsson vann Páll að grundvallar- athugunum á eðli hinna svokölluðu hæggengu veirusjúkdóma á fyrstu árum Tilraunastöðvarinnar. Þeim rannsóknum er enn haldið áfram á Keldum og reyndar víða um heim, og margir fleiri hafa þar lagt hönd á plóg, en Páll var þar virkur allt frá upphafi og meðan honum entist starfsþrek. Fyrir þessar rannsóknir og fleiri er Páll þekktur meðal vís- indamanna víða um heim. Ég hef oft orðið þess áþreifanlega var, að Páll naut sérstakrar virðingar og álits meðal erlendra starfsbræðra og er þeim eftirminnilegur persónuleiki. Meðal annarra viðfangsefna Páls á löngum ferli má nefna rannsóknir á Hvanneyrarveiki í sauðfé, kregðu í lömbum, tannlosi í sauðfé, flúoreitr- un í búfé af völdum eldgosa, fjöru- skjögri í lömbum og margvíslegar at- huganir á efnaskorti, eitrunum og fjölmörgum smitsjúkdómum í sauðfé, nautgripum, svínum og hænsnum, að ógleymdum rannsókn- um á heila- og mænusiggi í mönnum. Einnig stjórnaði hann framleiðslu bóluefna við sauðfjársjúkdómum á Keldum. Hann kom við sögu og átti oft meginþátt í útrýmingu ýmissa sjúkdóma í húsdýrum og upprætti marga hvimleiða og hættulega kvilla, sem til landsins bárust. Sem yfir- dýralæknir stóð hann vörð um heil- brigði íslensks búfjár og sýndi ýtr- ustu varúð í innflutningi dýra, stundum við litla hrifningu ýmissa aðila. Vissulega má deila um við- brögð í vandasömum málum, en ég þekki nógu vel til starfa Páls til að geta fullyrt, að afstaða hans byggðist ávallt á einlægri sannfæringu og holl- ustu góðs embættismanns við al- menning í landinu. Ritstörf Páls eru orðin mikil að vöxtum. Auk fjölmargra vísinda- greina í alþjóðlegum tímaritum var hann óþreytandi að skrifa fræðslu- greinar fyrir bændur, dýralækna og aðra í innlend tímarit og handbækur. Fyrir vísindastörf var hann sæmdur nafnbót heiðursdoktors við Dýra- læknaháskólana í Kaupmannahöfn og Osló og læknadeild Háskóla Ís- lands, auk annarra viðurkenninga. Þó að Páll hafi verð mikilvirkur við embættisstörf og vísindastörf var hann vel að sér í sögu og bókmennt- um og smekkmaður á fagrar listir. Engan þekkti ég, sem betur kunni að umgangast höfðingja jafnt sem al- menning. Hann hafði yndi af góðum hestum og þá fáu daga, sem hann tók sér frí frá önnum, notaði hann oftast til ferðalaga á hestum um öræfi landsins í hópi góðra félaga. Eftirlifandi kona Páls er Kirsten Henriksen dýralæknir, en þau munu hafa kynnst á námsárunum í Kaup- mannahöfn. Kirsten er einstök myndar- og sómakona. Heimsókn á heimili þeirra hjóna varð hverjum manni ógleymanleg vegna höfðings- skapar þeirra og þess einstæða and- rúmslofts gestrisni, rausnar og hlýju sem þau kunnu manna best að skapa. Ég votta Kirsten og fjölskyldu þeirra hjóna innilega samúð. Guðmundur Pétursson. Íslenskir dýralæknar kveðja nú hinstu kveðju „nestor“ sinn, Pál Agn- ar Pálsson, fyrrverandi yfirdýra- lækni. Páll Agnar var félagi í dýra- læknafélagi Íslands frá því hann kom heim frá námi og störfum í Dan- mörku og allt til dauðadags. Hann bar hag félagsins jafnan fyrir brjósti og átti stóran þátt í endurreisn þess, en það hafði legið í láginni á stríðs- árunum. Var hann ritari félagsins í rúm 10 ár. Páll Agnar var mikilvirkur og mik- ilsmetinn dýralæknir, jafnt innan- lands sem utan. Hann var fræðimað- ur góður og bera ritsmíðar hans um fræðileg efni þess merki, en þær eru á sjötta hundrað talsins. Páli var mjög annt um hag íslensks landbúnaðar og beitti sér ötullega í baráttunni við búfjársjúkdóma. Hann stóð vörð um búféð og beitti sér gegn óþarfa innflutningi á dýr- um. Landsmenn mega þakka honum þá góðu staðfestu hans og má með nokkrum rétti þakka henni gott heil- brigði íslensks búfjár í dag. Páll Agnar var mikill Íslendingur, hafsjór af fróðleik um sögu lands og þjóðar. Á félagsfundum í Dýra- læknafélaginu var hann jafnan til- lögugóður og mannasættir, tengdi saman eldri og yngri dýralækna með þekkingu sinni og frásagnarhæfni. Hann var hrókur alls fagnaðar á samkomum dýralækna, hafði þrótt- mikla söngrödd og hélt hnyttnar ræður. Hann vann mikið og gott starf fyrir dýralæknafélagið og var kosinn heiðursfélagi þess, í viðurkenningar- skyni. Fyrir hönd Dýralæknafélags Íslands vil ég votta Kirsten og fjöl- skyldu samúð okkar við fráfall Páls Agnars. Dýralæknar horfa á bak merkum kollega sem hefur borið hróður íslenskra búfjársjúkdóma- rannsókna heimshorna á milli og þakka honum störf í þágu dýra- læknastéttarinnar í meira en hálfa öld. Ólafur Valsson, formaður DÍ. Pál Agnar Pálsson hitti ég í fyrsta sinn í byrjun júlí 1955 en þá gegndi hann tímabundið störfum yfirdýra- læknis. Mér hafði boðist starf við að leysa héraðsdýralækninn í Borgar- nesi af í sumarleyfi hans. Ég fór því upp að Keldum til að hitta yfirdýra- lækninn og afla mér upplýsinga um starfið en þetta var frumraun mín við dýralæknastörf hér heima. Málið var fljótt afgreitt því eftir að hafa spurst fyrir um aðra dýralæknanema í Nor- egi sagði hann að mér væri ekkert að vanbúnaði og ég skyldi taka rútuna upp í Borgarnes daginn eftir. Hér- aðsdýralæknirinn í Borgarnesi, Ás- geir Þ. Ólafsson, myndi setja mig inn í starfið, það yrði affarasælast sem og gekk eftir. Mér fannst þetta satt að segja heldur snubbótt viðtal þar sem mun lengra var upp að Keldum þá en er í dag og maður þurfti að gera sérstak- ar ráðstafanir til að komast uppeftir. Einnig hafði ég vonast eftir að fá upplýsingar um atvinnuhorfur fyrir dýralækna í landinu og eitthvað fleira í þeim dúr. Páll gat verið nokk- uð snöggur upp á lagið, sérstaklega við nýgræðinga meðan hann var að meta þá eins og þetta dæmi sýnir. Hann var þó jafnan ljúfur og við- ræðugóður og vildi leysa vanda þeirra sem til hans leituðu kynni hann ráð við þeim eins og ég átti eftir að sannreyna síðar meir. Eftir að Páll kom heim gekk hann til liðs við þann hóp vísindamanna sem áður höfðu starfað á Rannsókna- stofu háskólans og lagt grunn að rannsóknum á búfjárrannsóknum hér á landi. Með fullkomnari tækja- búnaði og aðstöðu sem skapaðist þegar Tilraunastöðin á Keldum tók til starfa urðu vatnaskil í baráttunni við búfjársjúkdóma hér á landi, og njótum við þess árangurs enn þann dag í dag. Tel ég að honum hafi þótt vænst um þetta starf þótt honum hafi verið falin mörg önnur ábyrgðarmik- il störf og sinnt þeim með þeirri ábyrgð og prýði sem honum var lag- in. Fáir menn í íslensku þjóðfélagi hafa haft eins mikil áhrif á gang mála á sérsviði sínu og Páll því ég held ég megi segja að í öllum tilvikum í starfstíð hans þar sem var fjallað um búfjársjúkdóma, varnir gegn þeim, aðbúnað dýra, innflutning dýra og dýraafurða og mál þessu tengd í stjórnkerfinu eða hjá samtökum bænda hafi álits hans verið leitað og tillögur hans vógu þungt á metaskál- unum þegar upp var staðið. Í þessu sambandi þykir mér fara vel á að að koma fram með vísu eftir Grím Thomsen sem ort var fyrir rúmri öld í minningu langafa Páls og hæfir vel lífsviðhorfum Páls. Farinn er hann til feðra sinna fagna þeir tryggum syni vel; fyrir minning framliðinna fróðum hal var ljúft að vinna hafði ’ann íslenzkt hugarþel. Eftir heimkomuna stundaði Páll almennar dýralækningar eftir því sem tími vannst til og þótti hann sér- staklega natinn við lækningar hrossa. Hann hafði fengið fjölbreytta reynslu í lækningum hrossa meðan hann starfaði við dýralækningar í Danmörku á stríðsárunum en hrossaeign var þar þá mikil og hest- urinn dönskum bændum þarfur þjónn. Hann unni íslenska hestinum og notaði hvert tækifæri til að fara á hestbak í lengri og skemmri ferðir og þar fékk hann hvíld frá daglegu arga- þrasi embættisins. Þegar ég fluttist hingað suður til Reykjavíkur til starfa hafði Páll dregið sig mikið út úr dýralækning- um en áfram var stöðugt til hans leit- að um ráð og umsögn, bæði frá bændum og hestamönnum víðsvegar af landinu. Litla reynslu hafði ég fengið í hestalækningum eftir að ég kom úr skóla og kom þekking Páls mér sérstaklega vel þegar ég steig mín fyrstu spor í nýju starfsum- hverfi. Leitaði ég því æði oft til Páls um hjálp og leiðbeiningar. Þolinmæði hans við þessu kvabbi mínu þótti mér alltaf undraverð og fræðslu hans og ráð gat ég aldrei fullþakkað né end- urgoldið. Eftir nær hálfrar aldar viðkynn- ingu, og þar af var hann húsbóndi minn um þriggja áratuga skeið, koma margar minningar um Pál upp í hugann. Skýrust er mynd eftir sýni- kennslu og upplífgandi spjall úti á krufningsstofu, þar sem hann stend- ur á hlaðinu á Keldum klæddur hvíta sloppnum, með sixpensarann, í skó- hlífunum og með sýnabakkann undir handleggnum. Við kveðjumst en um leið og ég legg af stað segir hann að nú verði ég að fara að aka varlegar því að umferðin á Vesturlandsvegin- um sé alltaf að þyngjast og slysunum að fjölga. Þannig var umhyggja hans ætíð söm og jöfn, bæði fyrir mönnum og dýrum. Páll var snillingur samræðulistar- innar og gleðinnar maður í góðum hópi. Þekking hans var víðáttumikil og minni hans sem gangandi alfræði- orðabók sem samstarfsmenn og aðrir nýttu sér óspart. Við Agnes, konan mín, þökkum Kirsten og Páli margar ógleymanleg- ar gleði- og samverustundir, bæði á heimili þeirra hjóna og á mannamót- um. Við hjónin vottum aðstandend- um okkar dýpstu samúð og megi ylur minninganna taka sárasta broddinn úr sorginni. Brynjólfur Sandholt. Tilraunastöð háskólans í meina- fræði að Keldum var vettvangur vís- indastarfa Páls A. Pálssonar. Þessi stutti þáttur er um störf Páls þar. Björn Sigurðsson var fyrsti for- stöðumaður tilraunastöðvarinnar. Hún var stofnuð í ársbyrjun 1947. Flutt var í nýbyggt hús hennar haustið 1948. Björn var yfirburða duglegur maður og afrek hans í vísindum heimsþekkt og unnu hann og sam- starfsmenn hans á Keldum alþjóða viðurkenningu svo að má heita að Keldur séu einn af merkustu stöðum þjóðarinnar og væri það glapræði að leggja niður frægustu vísindastöð landsins eins og komið hefur til orða. Björn hafði gott lag á að velja sér samstarfsmenn. Hann réði strax til sín þá Pál A. Pálsson dýralækni og Halldór Grímsson efnafræðing sem báðir voru miklir námsmenn og lík- legir til afreka á sviði vísinda og brugðust þeir ekki vonum hans. Björn kom því til leiðar að þeir fóru báðir í framhaldsnám, Páll til Eng- lands og Halldór til Ameríku. Þeir mynduðu starfshóp sem vann saman sem einn maður og fljótlega kom til liðs við þá Guðmundur læknir Gísla- son. Aðalviðfangsefni þeirra var bar- áttan við fjárpestirnar sem komu með karakúlhrútunum. Árið 1954 birti Björn Sigurðsson niðurstöður þeirra um að mæðiveiki orsakaðist af veirum sem höguðu sér öðruvísi en aðrar veirur sem áður þekktust, hægfara veirum. Skepnan gengur með sjúkdóminn árum saman áður en hún veikist. Garnaveiki í sauðfé var annar skæður sjúkdómur sem barst með karakúlfénu. Björn þróaði bóluefni gegn henni og þeir Keldna- menn fóru að gera tilraunir með það. Ein stærsta tilraun á því sviði sem gerð hefur verið á Íslandi var gerð í 5 hreppum á Austurlandi og stóð hún frá 1951 til 1962. Þar að auki rann- sökuðu þeir marga aðra sjúkdóma dýra og manna. Páll fékkst við júg- urbólgu í kúm, bráðadauða, riðu og snefilefnaskort auk sjúkdóma í öðru búfé en sauðfé og kúm. Björn Sigurðsson lést árið 1959 eftir erfið veikindi og þá tók Páll við stjórn stöðvarinnar. Það er ekki að orðlengja að stöðin hélt fullri reisn undir stjórn hans enda var hann heppinn með samstarfsmenn. Bólu- setningartilraunina miklu leiddi hann til lykta með glæsibrag. Björn hafði þegar hann lést barist fyrir því að bæta við húsi fyrir tilraunastarf- semina og var það byggt undir stjórn Páls og varð það ekki síðra en eldra húsið. Páll lét af forstöðumannsstarfinu árið 1967 en vann við tilraunastöðina meðan honum entist heilsa. Hann birti tæplega 200 greinar um vísindi sín, margar á erlendum tungum. Er- lendis og hérlendis flutti hann erindi og var sýndur margvíslegur sómi. Páll var ekki mikið fyrir vegtyllur. Hann hafnaði þeim stundum ef hon- um fannst þær vera hégómi. Hann lét ekki fara mikið fyrir sér sem hús- bóndi á Keldum. Hann var lítið fyrir að rekast í fólki en öllum var kunnugt um að hann vissi nákvæmlega hvað hver var að gera. Hann talaði eins og af tilviljun við sérfræðingana ef hann vildi koma fram verkefnum og allir störfuðu án afláts að rannsóknum sem komið gætu að notum eða væru til heilla, en Páll vann þó ef til vill mest allra. Skrifborðið hans var fjöl undir bókahillunum og smásjáin var á aðra hönd en glugginn á hina. Fyrir vísindunum bar hann mikla virðingu en vissi þó vel um annmarka þeirra. Mesta virðingu bar hann þó fyrir líf- inu, dýrunum sem hann hafði helgað starf sitt og mönnunum sem hann starfaði með. Páll var góður hús- bóndi og einn mesti vísindamaður þjóðarinnar en sökum lítillætis hans vita fæstir enn hve miklu hann áork- aði. Aðstandendum eru færðar samúð- arkveðjur. Þorsteinn Þorsteinsson. Kær sonur, bróðir, mágur og frændi, PÉTUR SIGURÐUR VIÐARSSON frá Hellissandi, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi sunnudaginn 20. júlí. Viðar Breiðfjörð, Kristín Viðarsdóttir, Jónas Rútsson, Sigríður Viðarsdóttir, Oddur S. Jakobsson, Harpa Björk Viðarsdóttir, Kolbrún Gestsdóttir, Guðmundur F. Jónsson og frændsystkini. Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, tengda- móðir, amma og langamma, MARÍA GUÐMUNDSDÓTTIR, Árskógum 8, Reykjavík, andaðist á Landspítalanum við Hringbraut mánudaginn 21. júlí. Jarðarförin auglýst síðar. Haraldur Jónsson, Jón Haraldsson, Þóra Björgvinsdóttir, Gunnar Haraldsson, Stella Benediktsdóttir, Stefán Haraldsson, Fanney Ólafsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.