Morgunblaðið - 31.07.2003, Blaðsíða 17
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 31. JÚLÍ 2003 17
TÍMAMÓT urðu í samskiptum Bandaríkja-
manna við Sádi-Arabíu í apríl sl. en þá ákváðu
stjórnvöld í Washington að draga nær allan her-
afla sinn frá Sádi-Arabíu. Þar hafði verið allt að
tíu þúsund manna lið, að mestu í Sultan-flug-
bækistöðinni skammt frá höfuðstað Sádi-Arab-
íu, en nú er búið að flytja það að mestu til Persa-
flóaríkisins Katar. Eftir sem áður er samband
ríkjanna tveggja þó mjög náið. Sádar selja
Bandaríkjamönnum mikið af olíu og stjórnvöld
vestra hafa lengi talið að konungsríkið gegndi
mikilvægu hlutverki sem mótvægi gegn harð-
skeyttum andstæðingum vesturveldanna í Mið-
Austurlöndum.
En 15 af alls 19 hryðjuverkamönnum sem
gerðu árásina 11. september 2001 voru Sádar og
tortryggni jafnt almennings sem margra áhrifa-
mikilla stjórnmálaleiðtoga úr báðum flokkum í
Bandaríkjunum er orðin mikil og fer vaxandi.
Sumir eru farnir að segja fullum hálsi að banda-
maðurinn sé úlfur í sauðargæru.
Vísbendingar um að sumir af aðstoðarmönn-
um hryðjuverkamannanna hafi haft bein tengsl
við stjórnvöld í Sádi-Arabíu komu fram í nær
900 síðna skýrslu sem Bandaríkjaþing lét gera
og birt var í vikunni. Þótt stjórn George W.
Bush forseta léti þurrka út 28 blaðsíður og bæri
við að þar kæmu fram upplýsingar sem gætu
komið hryðjuverkamönnum að gagni eru marg-
ir á því að ástæðan hafi fremur verið tillitssemi
við bandamanninn gamla. „Ef verið er að rann-
saka ákveðna einstaklinga [á laun] er ekkert vit í
því að segja þeim frá því hverja sé um að ræða,“
sagði Bush á fréttamannafundi. En ekki vilja
allir trúa því að hann hafi verið hreinskilinn.
Ráðamenn Sádi-Araba fóru í vikunni fram á
að umræddar 28 síður yrðu birtar og sögðust
ekki geta svarað því sem þeir hefðu ekki séð.
Saud al-Faisal, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu,
sagði hins vegar í fyrradag eftir fund með Bush í
Hvíta húsinu að hann skildi forsendurnar fyrir
leyndinni en hefði kosið að henni væri aflétt.
Gagnrýnendur úr báðum flokkum
Ekki eru það aðeins demókratar sem gagn-
rýna Bush fyrir að hlífa Sádum. Sumir flokks-
menn hans eru meðal hörðustu gagnrýnenda
Sádi-Araba. Öldungadeildarþingmaðurinn
Richard C. Shelby sagðist í sjónvarpsviðtali
telja að birtingin hefði verið bönnuð vegna tillits
til „einhverra atriða í alþjóðasamskiptum“ og
ljóst að hann átti við tengslin við Sádi-Arabíu.
Annar repúblikani, Pat Roberts frá Kansas,
sagði CBS-sjónvarpsstöðinni að hann væri
ósáttur við bannið og sagðist halda að ákvörð-
unin hefði að nokkru verið tekin til að hlífa Sád-
um. Nú er verið að gera nýja og mun ítarlegri
skýrslu um 11. september og þar er sagt að
komi fram áður óþekktar upplýsinga sem skýri
margt sem enn sé á huldu um aðdraganda árás-
anna. Nefndin sem gerir nýju skýrsluna var
skipuð af þinginu og Bush forseta og eru í henni
bæði demókratar og repúblikanar.
Meðal þess sem kemur fram í skýrslu þings-
ins er að eiginkona sendiherra Sádi-Arabíu hafi
lagt fram fé til aðstoðar fátækum en það hafi
verið notað til að hjálpa fólki sem tengdist
hryðjuverkunum 11. september. Öllu alvarlegri
eru ásakanir um að sádi-arabískur námsmaður,
Omar al-Bayoumi, sem þá var búsettur í San
Diego í Kaliforníu, hafi veitt nokkrum flugræn-
ingjanna húsaskjól. Heimildarmenn fullyrða að
al-Bayoumi hafi verið sádi-arabískur leyniþjón-
ustumaður.
„Enginn trúir því í alvöru að ríkisstjórn Sádi-
Arabíu hafi vísvitandi veitt hryðjuverkamönn-
unum 11. september aðstoð,“ sagði í leiðara dag-
blaðsins The Washington Post í gær. „Hlutverk
Sádi-Araba er flóknara en svo. Sádar hafa stutt
með peningum moskur og skóla sem kennt hafa
strangtrúarlega túlkun wahabbíta á íslam. Oft
er erfitt að greina augljós skil milli þessara
trúarbragða, sem eru hin opinbera trú konungs-
ríkisins og róttækari túlkunar sem hryðjuverka-
menn hafa boðað – og tengslin milli umræddra
stofnana sem sádi-arabískir ráðamenn styðja og
einstaklinga sem tengjast hryðjuverkum eru
jafnóljós.“
Blaðið segir að lögregluyfirvöld í Sádi-Arabíu
hafi dregið lappirnar í samstarfi við Bandaríkja-
menn um rannsóknir á aðdraganda sumra
hryðjuverka. Og lengi hafi verið á kreiki grun-
semdir um að al-Qaeda, hryðjusamtök Sádi-
Arabans Osama bin Ladens, hafi komið sínum
mönnum fyrir í stofnunum öryggis- og leyni-
þjónustumála í konungsríkinu. Ganga verði úr
skugga um það hvort stjórnvöld Sáda tryggi nú
að fjárstuðningur við góðgerðarsamtök músl-
íma og moskur í öðrum löndum lendi ekki í
höndum al-Qaeda.
Miðaldastjórnarfar og undiralda
Ekki er alltaf eining um stefnuna gagnvart
Bandaríkjamönnum í höfuðborg Sádi-Arabíu,
Riyadh, enda sýna kannanir í landinu að margir
íbúarnir álíta ráðamenn sína ekki aðeins spillta
heldur séu þeir einnig undirlægjur vestræna
risaveldisins. Heittrúarmenn róa undir óánægju
með versnandi kjör í Sádi-Arabíu vegna lækk-
andi olíuverðs síðustu áratugina og atvinnuleys-
is sem mun vera nær 20%. Eini atvinnuvegurinn
sem eitthvað kveður að er olíuvinnslan, nær all-
ar gjaldeyristekjur koma frá henni. Mannfjölg-
un er meiri í landinu en víðast annars staðar á
byggðu bóli eða um 3% á ári og Sádar eru nú
orðnir um 21 milljón. Hvergi í heimi íslams er
fylgt jafnafturhaldssamri stefnu í félagsmálum,
ekkert bólar á tilraunum með lýðræði og hlut-
skipti kvenna er ömurlegt. Þeim er jafnvel
meinað að aka bíl og réttur þeirra gagnvart
körlum nær enginn. Völd konungsættarinnar
eru ótraust og margir spá því að henni verði
steypt á næstu árum.
Tengslin milli konungsættarinnar og Banda-
ríkjamanna, sem hófu fyrstir olíuvinnslu í Sádi-
Arabíu, eiga sér um 70 ára sögu. En ekki er víst
að þau dugi til að sefa reiðina ef haldbærar
sannanir finnast fyrir því einhverjir af hinum
mörgu gerspilltu ráðamönnum í Riyadh hafi
keypt sér frið með því að styðja íslamska
hryðjuverkamenn til árása á Bandaríkin.
Abdullah prins, sem fer í reynd með völdin í
Sádi-Arabíu vegna veikinda Fahds konungs, og
menn hans eru því milli tveggja elda. Þeir bíða
vafalaust órólegir eftir nýju skýrslunni um að-
draganda árásanna 11. september.
Reuters
Saud al-Faisal prins, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, á blaðamannafundi í Washington á þriðju-
dag. Saud-ættin fer með öll völd í landinu og hefur notað tækifærið til að raka saman olíugróða.
Eru Sádar úlfur
í sauðargæru?
Bandarískir þingmenn vilja opinskárri um-
ræðu um hugsanlegan þátt erlendra ríkja í
árásunum 11. september 2001