Morgunblaðið - 07.09.2003, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7. SEPTEMBER 2003 13
stúdenta til mín og eins hjálpaði ég
fáeinum fiðlunemum. En það er liðin
tíð.“
Ræktar garðinn sinn
Snjólaug ræktar garðinn sinn í
orðsins fyllstu merkingu og á heit-
um sumrum þarf hún að vökva og
snyrta á hverjum degi. „Ég hef allt-
af haft fáein blóm en garðurinn
stækkar stöðugt og það þarf að
sinna honum. En maður má til með
að hafa eitthvað að gera úti því það
er ekkert við að vera hérna inni
nema hafa til matinn fyrir mig,
prjóna og spila á píanóið. Kristjana,
móðursystir mín, keypti þetta
Heintzman-píanó fyrir mig 1918 og
ég nota það enn enda eru þessi
þýsku píanó þau allra bestu.“
Mikill lífskraftur einkennir Snjó-
laugu og hún leggur áherslu á
björtu hliðarnar. „Ég hef yfirleitt
verið heilsuhraust nema hvað sjónin
er farin að gefa sig. Ég er býsna
sterk og ætli það sé ekki genunum
að þakka. Kannski að það sé fisk-
urinn en ég borðaði sérstaklega
mikið af honum þegar ég var ung-
lingur.“
Erfitt líf
Hún hefur aldrei farið til Íslands
en er mjög íslensk í sér. „Ég giftist
ung og hafði alltaf heimili til að
hugsa um og þegar ég hafði nógan
tíma til að fara til Íslands var ég
orðin of gömul til þess. Maður þarf
að vera ungur til að fara til Íslands
ætli maður að ganga upp hæðirnar
sem amma sagði mér frá. Hún sagði
mér að allt væri svo indælt á Íslandi.
Bjart á sumarnóttum þegar setið
var yfir kindunum. Amma var tvígift
en fyrri maður hennar var Þorlákur
Jónsson og eftir giftinguna gengu
þau þaðan sem athöfnin fór fram
heim yfir fjall. Ég er hrædd um að
unga fólkið léki það ekki eftir nú. En
amma sagði mér ekki bara sögur frá
Íslandi heldur líka frá fyrstu árun-
um hérna. Hún var nýkomin hingað
þegar bóluveikin braust út og sagði
að lífið hefði verið fjarskalega erfitt.
Peningarnir hefðu ekki vaxið á
trjánum eins og fólkinu hafi verið
talin trú um. Þetta var hræðilegt líf
og fólkið þekkti ekki aðstæður. Hér
geta verið miklar vetrarhörkur og
Íslendingarnir voru hvorki vanir
skógarhöggi né byggingu kofa, en
enginn lifði án þess að kunna skóg-
arhögg og að byggja kofa. Indján-
arnir kenndu þeim ýmislegt og Ís-
lendingarnir voru fljótir að læra.
Þeir komu strax á þingi og skipu-
lögðu hlutina, byggðu skóla og
fengu kennara, stofnuðu lestrar-
félög og svo framvegis, en bókasafn-
ið í Árnesi var fyrst hjá afa. Þegar
afi og amma féllu frá tóku Guðrún
og Sigurjón Johnson í Odda við því.
Þegar ég fæddist var allt orðið
býsna gott og húsið hjá afa og ömmu
niður við vatnið var ósköp fallegt.
Allt var nefnt eins og á Íslandi og
þar sem húsið þeirra var á nesi við
ána var það kallað Árnes.“
Lengi býr að fyrstu gerð og ljóst
er að móðurforeldrar Snjólaugar
höfðu mikil áhrif á hana. Hún segist
hafa verið byrjuð að prenta þriggja
ára og eftirfarandi bréf, sem afi
hennar skrifaði 8. október 1910 og
sendi henni frá Árnesi til Gimli sýnir
umhyggjuna fyrir litlu stúlkunni:
„Elsku Lóa mín.
Þökk fyrir síðast. Ég gleymdi
alveg að gefa þér cent fyrir candy
um daginn, svo ég sendi þér hér
með 25 cents sem þú átt að kaupa
þér candy fyrir.
Með ynnilegustu óskum og
kærri kveðju frá afa.
S. Sigurbjörnsson.“
„Þegar ég hugsa til ömmu og afa
minnist ég þeirra alltaf með mikilli
gleði. Það var svo gaman að vera hjá
þeim. Hann átti búð og pósthús og
þetta var dásamlegur heimur. Hann
var mikill hagleiksmaður og smíðaði
skápa og stóla. Hann skar út skraut-
lista framan á þakskegginu á húsinu
í Árnesi en þeir bogra ekki við slíkt
nú á dögum. Hann var líka greindur
maður hann afi. Pabbi smíðaði einn-
ig allt sem þurfti að smíða.“
Þrisvar út fyrir fylkið
Það er ekki langt frá Árnesi suður
til Gimli og þaðan er heldur lengra
til Winnipeg eða um 100 km, en
Snjólaug hefur að mestu haldið sig á
þessum þremur stöðum í nær 95 ár.
„Ég fór einu sinni til Ottawa til að
heimsækja dótturdóttur mína, sem
vinnur þar fyrir stjórnina. Þetta var
fyrir um 10 árum og var fjarska
skemmtilegt. Þegar eldri dóttir mín
bjó í Kenóra fór ég þangað og einu
sinni hef ég farið til Norður-Dakóta
en annað hef ég ekki farið utan
Manitoba. Ég hef einu sinni farið til
Heclu, fór þangað til að spila við út-
för fyrir um þremur árum, og einu
sinni fór ég í dálitla ferð norður til
Thompson til að heimsækja son
minn, sem var þar að vinna fyrir
stjórnina, en að öðru leyti hef ég að
mestu haldið mig heima. Ég hef allt-
af verið bundin við eitthvað eða hélt
að ég væri það en ég held að ég hafi
ekki misst af neinu og er mjög
ánægð með lífið. Einstaka sinnum
langaði mig til að fara og sjá eitt-
hvað einhvers staðar og einu sinni
var mér boðið að koma til New York
til að hlusta á frændkonu mína,
Helgu Sigurdson, spila á píanó en ég
fór ekki. Ég hafði mig ekki upp í að
fara, en þetta var áður en ég flutti
hingað. Ég átti líka pennavinkonu í
Boston sem kom að heimsækja mig
en ég fór aldrei til hennar. Ég hef
ósköp gaman af því að heyra hvað
gengur á í heiminum í kringum mig
og ég hef ævinlega verið mjög
ánægð með að heyra frá Íslandi, því
þaðan er ég ættuð, en hér var í raun
eins og Ísland, aðeins annað hverfi.
Það var allt íslenskt hjá mömmu og
pabba og ég og maðurinn minn höfð-
um íslenskt heimili en börnin breyta
öllu. Stúlkurnar mínar giftust báðar
pólskum drengjum og maður verður
að fylgja straumnum en ekki standa
gegn honum. Þetta er eins og með
litina – það er enginn einn litur ráð-
andi heldur verða þeir að vera í
ákveðnu sambandi hver við annan til
að skapa jafnvægi. En guð hefur
verið góður við mig og tryggt mér
góða heilsu, góða fjölskyldu og góða
vini. Ég hef bara kynnst góðu fólki
og mér þykir ósköp vænt um alla
sem bjuggu í Árnesi. Það er ósköp
gott að búa hérna.“
steg@mbl.is
Heimilisfólk á elliheimilinu Betel, þar sem Snjólaug starfaði lengi við hjúkrun, syngur og dansar á föstudagskvöldum og
þá spilar Snjólaug undir á píanóið. Fyrir aftan f.v. eru Lorna Tergesen, George Anderson, Chris Harder og Brian Oleson.
Fyrir framan eru Sigurlaug og Andy Yablonski, sem er af úkraínskum ættum og býr í Fraserwood en hann er blindur.