Morgunblaðið - 07.09.2003, Blaðsíða 18
18 SUNNUDAGUR 7. SEPTEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
TRÖLLASKAGI nefnistfjalllendið milli Eyja-fjarðar og Skagafjarðar.Skaginn er sá langhæstiá Íslandi, sundurskorinn
djúpum daladrögum og tröllslegur
eins og nafnið bendir til. Sums stað-
ar ná dalbotnar nær alveg saman og
eru þar fornar leiðir á milli byggða.
Í árbók Ferðafélags Íslands um
Skagafjörð frá árinu 1946 eftir Hall-
grím Jónasson er fjallað um göngu-
fólk og fjallaleiðir. Þar segir að fyrir
þá sem komi í Skagafjörð og vilji
heim til Hóla á hestum postulanna
séu til skemmtilegar gönguleiðir um
Tröllaskaga. Ein þessara leiða liggi
úr Norðurárdal
til Hjaltadals.
Um hana segir
Hallgrímur að
hún sé lengst
þeirra sem
hann hefur lýst
og fáförnust. Er
þá gengið úr
Norðurárdal, fram Seljadal og upp
úr botni hans í 1.000 m hæð og síð-
an niður í botn Suðurárdals og út
dalinn sem gengur niður í Hjalta-
dal. Var þetta um 20 km leið á milli
innstu bæja. Í árbók er getið gam-
alla munnmæla sem herma að eitt
sinn hafi fólk af innstu bæjum
Norðurárdals farið kirkjuferð til
Hóla í Hjaltadal þessa fjallabaks-
leið. Sagt er að konur hafi verið
með í för. Það fylgir og sögunni að
ekki hafi allt kirkjufólkið náð messu
í tæka tíð og einhverjir orðið eftir á
Reykjum, innsta bæ í Hjaltadal.
Á liðnu sumri gekk hópur frá
Ferðafélagi Íslands þessa fornu, fá-
förnu leið. Þetta var þriggja daga
bakpokaferð og átti að nota annan
daginn til að ganga á Reykjanibbu
sem er 1.304 m há og um Afglapa-
skarð á Prestfjall. Um Reykjanibbu
hefur Pétur Þorleifsson, annar höf-
undur bókarinnar Fólk á fjöllum -
Gönguleiðir á 101 tind, ritað í drög-
um: ,,Suðaustur frá Hafrafelli í
Hjaltadal í Skagafirði rís hnjúk-
strýta geysihá og brött. Hnjúkur
þessi er eitt hæsta fjall við byggð í
Skagafirði og heitir Reykjanibba.
Hún er kennd við Reyki, innsta bæ í
Hjaltadal vestan ár.“ Pétur var með
í för en hann ætlaði að rita leið-
arlýsingu á Reykjanibbu.
Ferðir Ferðafélagsins eru
ákveðnar langt fram í tímann og
veður því ávallt óvissuþáttur. Þó er
það svo að sá sem bíður eftir góðu
veðri fer í fáar ferðir. Veður hér eru
svo breytileg að ávallt má búast við
einhverju óvæntu þótt spáð sé rign-
ingu eða þoku. Á snöggu auga-
bragði léttir þoku eða sól gægist
fram úr skýi.
Fram Suðurárdal
Veðurspáin var fremur óhagstæð
þessa helgi og var ákveðið að byrja
gönguna í Hjaltadal og halda niður í
Norðurárdal. Ferðin hófst í Varma-
hlíð föstudagsmorguninn 9. ágúst
en flestir höfðu tjaldað þar um nótt-
ina. Haldið var með rútu að Reykj-
um í Hjaltadal en bærinn dregur
nafn sitt af jarðhita og volgum laug-
um. Við öxluðum misþunga bakpoka
og horfðum til fjalla. Við vorum
fimmtán talsins með fararstjóran-
um, Gesti Kristjánssyni, en flest
okkar höfðum ferðast með honum
um óbyggðir á liðnum árum.
Það var sólskin þegar við gengum
yfir túnið á Reykjum þar sem hvítir
baggar lágu á víð og dreif eins og
snjóboltar. Inni í Hjaltadal blánuðu
fjöll með fönnum, Hafrafell á hægri
hönd. Það er mikið fjall, 1.294 m þar
sem það er hæst. Við áttum eftir að
fylgja fjallinu alla leið upp á hálend-
ið, um fimmtán km leið.
Reykir liggja í 234 m hæð. Leiðin
liggur fram Hjaltadal að mynni
Suðurárdals og síðan eftir dalnum
upp á hálendið í 1.000 m hæð.
Brátt komum við að Grjótá en
hún kemur úr samnefndum dal er
gengur upp í hálendið vestan
Hafrafells. Áin er að öllu jöfnu ekki
vatnsmikil eftir að leysing er af-
staðin en getur vaxið fljótt í rign-
ingu. Við óðum ána sem var vatns-
lítil. Síðan var haldið meðfram
rótum Hafrafells um gróið land og
grösugt. Eftir rösklega sex km
göngu vorum við komin að mynni
Suðurárdals en hann er nokkuð
þröngur og undirlendislaus. Fjallið
austan megin dalsins heitir Tungu-
fjall (1.015 m).
Þoka læddist á móti okkur og
byrgði brátt allt útsýni. Fararstjór-
inn tók þá ákvörðun að best væri að
tjalda á grasbala við læk hinum
megin við ána undir brattri hlíð
Tungufjalls í stað þess að halda inn
í þokuna. Við höfðum aðeins gengið
í fjóra og hálfan tíma og vorum
komin í 800 metra hæð. Litskrúðug
tjöldin risu eitt af öðru, tíu talsins í
eyðilegum dal. Vatn var hitað á
prímusum, matur snæddur og regn-
þrungið fjallaloftið umlukti okkur.
Reykjanibba undir huliðshjálmi
Morguninn eftir lá þoka niður í
hlíðar. Við fylgdum Tungufjalli. Of-
arlega í dalnum rennur áin niður í
gljúfur og fellur í litlum fossum,
göngulandið gróið, mosi og möl.
Bratt er upp úr dalbotninum og
mikill snjóskafl. Upp á hálendið
komum við eftir um eins og hálfs
tíma göngu. Þar var svalt og gróð-
ursnautt, nokkuð stórgrýtt. Hér er
Reykjanibba á hægri hönd en á
vinstri hönd Suðurárdalshnjúkur
(1.236 m), en handan hans liggur
Hjaltadalsjökull, en þar á Hjalta-
dalsá upptök sín. En nú voru þessi
fjöll þoku hulin og ekki til upp-
göngu. Við dvöldumst þarna nokkra
stund og skoðuðum fimm vörður
sem vísa veg í botn Seljadals. En
þokan náði ekki niður í Seljadal sem
blasti við okkur í suðaustri. Í árbók
kallast hann Seljárdalur og mun því
vera einhver ruglingur á örnefnum.
Augað nam eins og þrjú blá fjöll
austan við þröngan dal og vestan
við eitt ávalt fjall nær. Þetta er
Horn (1.139 m) á vinstri hönd en
Landshnjúkur á þá hægri.
Við héldum niður í dalinn undir
Horni og gróðurinn jókst, dýjamosi
við lítinn læk og fífa kinkaði kolli til
vegfarandans. Horná rennur eftir
dalnum sem er um tíu km langur og
sameinast Norðurá við samnefndan
dal. Við tjölduðum á grasbala í 600
metra hæð sunnan ár eftir sex og
hálfs tíma göngu. Kul var í lofti og
um nóttina frysti.
Um morguninn var hrím í risa-
hömrum Horns. Það hafði létt til
uppi á hálendinu og sá í Suður-
árdalshnjúk. „Það er ansi sárt að
við skyldum ekki fá betra veður
þarna uppi. Það er ljóst að þetta er
stórkostlegt svæði,“ sagði Pétur
Þorleifsson sem þarf að gera aðra
atrennu að Reykjanibbu.
Þar sem við tjölduðum lá fjár-
gata. Við vorum í afréttarlandi
Akrahrepps. Hér hafa leiðir
gangnamanna legið á haustin. Við
gengum niður eftir dalnum eða út
dalinn, eins og sagt er hér fyrir
norðan. Fé rann á undan. Hornið
sem fjallið dregur nafn sitt af kom
betur í ljós. Í árbók Ferðafélagsins
er stórbrotin lýsing á því: „Fjallið
heitir Horn og gnæfir við himin,
tröllaukið og gneypt. Úr Öxnadals-
heiðarsporðinum ber mest á því
allra fjalla, þar sem það skýtur fram
suðurhorninu, girtu svörtum risa-
hömrum.“
Framarlega á Horni er gljúfur
sem kallast Gloppugil. Það lokar
lengri leið á hestum sem koma fram
dalinn, segir í árbók. Ekki var það
nein hindrun fyrir okkur. Tíminn
var nægur og ákveðið að ganga á
Landshnjúk neðst í dalnum þar sem
hann er lægri. Ekki kærðu þó allir
sig um fjallgöngu heldur settust
niður, tóku upp nesti og spjölluðu
saman á meðan þeir biðu. Hlíðin er
allbrött en af fjallinu má sjá vítt yfir
fjöll og dali. Bak við Horn liggur
Miðdalur, þá Hörgárdalsheiði og í
suðri Norðurárdalur.
Eftir fjallgönguna héldum við
áfram niður í Norðurárdal þar til
við komum að gömlu brúnni yfir
Norðurá. Hún hefur verið falleg í
eina tíð, bogadregin með riði. Fram-
undan var hestahópur. Skyndilega
kom styggð að stóðinu og það þaut
fram hjá okkur með miklum hófa-
dyn, hestarnir þutu yfir ána, með-
fram hlíðinni og hurfu sjónum okk-
ar. Eins og hendi væri veifað.
Niðri á hringveginum sótti okkur
rúta og fór með okkur aftur í
Varmahlíð. Þar beið sundlaug og
lambakjöt á borðum á hótelinu áður
en kveðjustundin rann upp.
Á slóðum Ferðafélags Íslands
Gengið um Tröllaskaga
Morgunblaðið/Pétur Þorleifsson
Morgunn í Suðurárdal. Fúinhyrna sveipuð þoku.
Morgunblaðið/Gerður
Útsýni af hálendinu út Seljadal. Horn t.v., Landshnjúkur t.h.
!
"#
$
#
% &
!
!
$%
)
!
!
*
$
&
(
"
#
+, #
& #
Tröllaskagi er hæsti skagi á
Íslandi og liggur milli
Eyjafjarðar og Skagafjarðar.
Á liðnu sumri gekk hópur
frá Ferðafélagi Íslands frá
Reykjum í Hjaltadal niður
í Norðurárdal. Gerður
Steinþórsdóttir segir frá
þeirri för.
Höfundur hefur setið í stjórn
Ferðafélags Íslands.