Morgunblaðið - 15.11.2003, Qupperneq 13
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. NÓVEMBER 2003 13
DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra
sagði á Málstofu um alþjóðlegar
fjárfestingar, sem haldin var í Gerð-
arsafni í gær á vegum Landsbanka
Íslands, að allt benti til að Lands-
sími Íslands yrði seldur á næstu
mánuðum. „Nú er hafinn undirbún-
ingur að því að selja Landssíma Ís-
lands. Markaðsaðstæður hafa breyst
á undanförnum misserum og því er
það mat ríkisstjórnarinnar að nú sé
lag til að færa þetta mikla fyrirtæki
úr höndum ríkisins og til einkaaðila.
Að ýmsu er að hyggja við sölu þessa
fyrirtækis og nauðsynlegt að vanda
mjög allan undirbúning. En allt
bendir til að af sölunni geti orðið á
næstu mánuðum og hefur þá verið
stigið mjög stórt skref í einkavæð-
ingarferlinu sem staðið hefur nú í
rúman áratug,“ sagði Davíð.
Forsætisráðherra fór vítt og
breitt um íslensk efnahagsmál í
ræðu sinni og ræddi meðal annars
komandi kjarasamninga. Sagði hann
að stöðugleiki í efnahagsmálum
byggðist mjög á því að kjarasamn-
ingar væru skynsamlegir og miðuð-
ust að því að tryggja viðvarandi
kaupmáttaraukningu launafólks.
„Framundan er nú ný lota kjara-
samninga. Það mun reyna á laun-
þegasamtök og vinnuveitendur að
ná skynsamlegum kjarasamningum
sem tryggja vinnufrið og skila laun-
þegum raunverulegum kjarabótum
sem fá haldið. Skynsamlegir kjara-
samningar eru forsenda þess að
okkur Íslendingum takist að nýta
okkur ávinninginn af hagvexti kom-
andi ára og því hvílir mikil ábyrgð á
viðsemjendum. Það gefur ástæðu til
bjartsýni að forystumenn launþega
hafa lýst því yfir að þeir muni leggja
áherslu á stöðugleika í efnahagsmál-
um og lága verðbólgu. Þannig geta
þeir aukið kaupmáttinn. Ég vil sér-
staklega vekja athygli á ummælum
formanns Starfsgreinasambandsins
sem sagði nýverið að í ljósi reynslu
undanfarinna kjarasamninga væri
skynsamlegt að semja til lengri
tíma, því lengri samningar gæfu
launafólki færi á að semja um meiri
kaupmátt en gerlegt er í styttri
samningum. Slíkir samningar væru
líklegir til að tryggja meiri stöðug-
leika. Ég tel að þessi yfirlýsing gefi
fyrirheit um að þótt fast verði tekist
á í kjarasamningum á næstu miss-
erum muni sú hugsun ráða för að
markmiðið er aukinn kaupmáttur,
stöðugleiki og öflugt íslenskt at-
vinnulíf.“
Evran gerði
hagstjórn erfiðari
Þá ræddi Davíð um hagstjórnina á
Íslandi og sagði að takmörk væru
fyrir því hversu langt væri hægt að
ganga í því að beita aðgerðum í rík-
isfjármálum til að jafna hagsveiflur.
„Stjórntæki Seðlabankans eru öflug
og gjaldeyrisforði bankans dregur
úr líkum á því að snöggar breyt-
ingar verði á gengi gjaldmiðilsins.
Rétt er að hafa það í huga þegar
rætt er um þessi hagstjórnartæki
hins opinbera að það eru takmörk
fyrir því hversu langt er hægt að
ganga í því að beita aðgerðum í rík-
isfjármálum til að jafna hagsveiflur.
Mjög stór hluti opinberra útgjalda
felst í að veita borgurunum mikil-
væga þjónustu, svo sem menntun og
heilsugæslu. Óráðlegt er að þessi
þjónusta rísi og hnígi um of með
hagsveiflunni. Frá þessu sjónar-
horni er í rauninni auðveldara og
sársaukaminna að mæta skamm-
tímasveiflum með ráðstöfunum í
peningamálum. Þessi staðreynd
breytir engu um mikilvægi þess að
ríkissjóður taki fullan þátt í því að
hamla gegn þenslu en hún hlýtur að
vekja menn til umhugsunar um
hversu erfið öll hagstjórnin yrði ef
Ísland gerðist aðili að hinni sameig-
inlegu mynt ESB. Þar með flyttist
allur þunginn af hagstjórninni yfir á
ríkisfjármálin og erfitt að gera sér í
hugarlund að sú skipan mála yrði
heilladrjúg fyrir Ísland. Rannsóknir
benda til þess að íslenska hagkerfið
fylgi ekki hagsveiflu helstu evruríkj-
anna. Þau verkefni sem bíða ís-
lenskra stjórnvalda á næstu miss-
erum og árum yrðu margfalt þyngri
og flóknari ef stýrivextir hér mið-
uðust við að rífa af stað hagvöxt
ríkja á borð við Þýskaland og
Frakkland en ekki að því að halda
aftur af þenslu eins og hér er raun-
in.“
Hafþór Hafsteinsson, forstjóri
flugfélagsins Atlanta, sagði í ræðu
sinni í málstofunni að vöxtur Atlanta
væri mestur í fraktflugi og á næstu
árum sæi hann fram á viðvarandi
vöxt á því sviði. Á næsta ári yrði
vöxtur í fraktflugi 6,8%.
Hafþór fór einnig yfir helstu
ástæður þess af hverju alþjóðlegt fé-
lag eins og Atlanta væri með höf-
uðstöðvar á Íslandi. Hann sagði að
þar kæmi til lágur skattur á fyr-
irtæki, hér væri bankakerfið skil-
virkt og samkeppnishæft, samskipti
við hið opinbera væru jafnframt
skilvirk og sveigjanleg og hér á landi
væri menntunarstig hátt og því væri
aðgangur að vel menntuðu fólki í
stjórnunarstöður góður. Þá væri
landið hátæknivætt sem væri ein af
ástæðum þess að hér væri gott að
vera.
Í máli Hafþórs kom einnig fram
að Atlanta er orðið tíunda stærsta
félag á Íslandi með 250 milljónir
dollara í ársveltu, 18,9 milljarða
króna, og yrði um 300 milljónir á því
næsta, eða um 22,7 milljarðar króna.
Þá kom fram í ræðu hans að eig-
infjárhlutfall félagsins er um 30%.
Þá tók til máls einn af æðstu yf-
irmönnum álfyrirtækisins Alcoa
Inc., sem meðal annars ber ábyrgð á
öllum álbræðslum félagsins í heim-
inum, Bent Reitan.
Reitan fjallaði um framkvæmdir
Alcoa á Austurlandi og væntanlega
álverksmiðju sem stefnt er að að
hefji álframleiðslu árið 2007.
Sagði Reitan að miðað við heildar-
fjárfestingu félagsins á Austurlandi
eyddi Alcoa þar að meðaltali um 1,5
milljónum Bandaríkjadala, eða 113,3
milljónum króna, á hverjum einasta
degi fram að gangsetningu verk-
smiðjunnar árið 2007.
Þurfa að auka álneyslu
Reitan sagði að verksmiðjan á Ís-
landi væri mjög mikilvæg Alcoa-fyr-
irtækinu þar sem Evrópubúar væru
miklir eftirbátar Bandaríkjamanna í
álneyslu. Auka þyrfti álneyslu í ríkj-
um álfunnar og þar léki Fjarðaál
stórt hlutverk. Reitan hvatti einnig
Íslendinga, líklega meira í gamni en
alvöru, til að setja aukinn kraft í
neyslu sína á áli, en hann sagði að að
meðaltali væri álneysla á hvern Ís-
lending 17 kíló á ári en álneysla á
hvern Evrópumann væri 22,2 kíló.
Reitan talaði lofsamlega um allt
er snerti samskipti fyrirtækisins við
Íslendinga og Austfirðinga og sagði
að hér á landi væri allt fyrir hendi til
að verkefnið heppnaðist vel. „Þegar
við komum erum við að koma til að
vera, eins og sést á því að við gerum
orkusamning til 40 ára. Í Bandaríkj-
unum eru starfandi verksmiðjur
sem settar voru á stofn í upphafi síð-
ustu aldar. Af því má sjá að við tjöld-
um til meira en einnar nætur.“
Reitan sagði að koma Alcoa til
Reyðarfjarðar myndi verða byggð-
arlaginu mikil lyftistöng, eins og
þegar sæi stað í mikilli uppbyggingu
sem hafin væri á staðnum.
Morgunblaðið/Þorkell
Á fundinn var boðið viðskiptavinum Landsbankans og erlendum bankamönnum.
Morgunblaðið/Þorkell
Davíð Oddsson ræddi um framfarir og horfur í íslensku efnahagslífi.
Allt bendir til sölu
Landssíma Íslands
á næstu mánuðum
Alcoa eyðir 113 milljónum á dag á Austurlandi til 2007
VERIÐ er að ganga frá samn-
ingum um kaup Baugs Group á
meirihluta í tískuvörukeðjunni
Oasis Stores í Bretlandi. Verð
hlutarins sem Baugur kaupir er
um 20 milljarðar króna. Stjórn-
endur Oasis Stores, sem komu
að verslanakeðjunni fyrir fáein-
um árum, munu eiga hlut í
henni með Baugi. Oasis Stores
er með um 350 sölustaði í Bret-
landi og fyrirtækið rekur einn-
ig fjölda verslana í öðrum lönd-
um. Ein Oasis-verslun er á
Íslandi og er hún í Kringlunni.
Oasis Stores er í eigu PPM
Ventures, sem er hluti af fjár-
málafyrirtækinu Prudential.
PPM Ventures tók í júlí árið
2001 þátt í yfirtöku stjórnenda
á Oasis Stores. Þá var fyrirtæk-
ið skráð á markað og verðið var
55 milljónir punda, eða um 7
milljarðar króna.
Baugur
kaupir
Oasis
Stores
SAMKEPPNISRÁÐ telur ekki ástæðu til aðgerða
vegna kvörtunar Sparisjóðs Reykjavíkur (SPRON)
yfir viðskiptaháttum Búnaðarbanka Íslands í
tengslum við notkun bankans á skrá yfir stofnfjár-
eigendur. SPRON taldi að Búnaðarbankinn hefði
brotið gegn 20. grein samkeppnislaga með því að
rita niður upplýsingar um stofnfjáreigendur upp úr
skrá sem geymd er hjá SPRON. Í 20. grein laganna
kemur fram að óheimilt sé að hafast nokkuð það að
sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti eða eitt-
hvað það sem er óhæfilegt gagnvart hagsmunum
neytenda.
Í kvörtuninni kemur einnig fram að SPRON telji
Búnaðarbankann hafa brotið gegn 21. grein sam-
keppnislaga með auglýsingum sem birtar voru 1.
og 2. ágúst og sýndu samanburð á tilboðum fimm
stofnfjárfesta annars vegar og hins vegar tilboðum
starfsmannasjóðs SPRON í stofnféð. Samkeppn-
isráð vísar þeim lið kvörtunarinnar frá þar sem
ekki er talið sýnt að Búnaðarbankinn hafi komið að
þessum auglýsingum.
Atvik málsins eru þau að í bréfi dagsettu 3. júlí
2002 óskaði Kristján Þorbergsson hrl. eftir því fyr-
ir hönd SPRON að Samkeppnisstofnun stöðvaði
vinnslu Búnaðarbankans með skrá yfir stofnfjár-
eigendur í SPRON. Áður hafði stjórn SPRON neit-
að fimm stofnfjáreigendum í SPRON um aðgang
að skránni, sem þeir eiga rétt á að fá samkvæmt
lögum sparisjóðsins. Í kvörtun SPRON til sam-
keppnisyfirvalda kemur fram að Búnaðarbankinn
hafi fengið aðgang að skránni með óheiðarlegum
hætti. Því er lýst að bankastjórar Búnaðarbankans
hafi ritað starfsmönnum SPRON bréf og reynt að
snúa þeim gegn stjórnendum sparisjóðsins, eins og
það er orðað í ákvörðun Samkeppnisráðs. Taldi
SPRON að með þessu athæfi hefði Búnaðarbank-
inn, vegna samvinnu sinnar við stofnfjáreigend-
urna fimm, brotið gegn 20. grein samkeppnislaga.
Aðgangur að skrá átti að vera heimil
Í umsögn Búnaðarbanka Íslands um fyrrnefnt
bréf, dagsettri 4. júlí 2002, er þessu mótmælt. Þar
er gerð grein fyrir óánægju fimm stofnfjáreigenda
SPRON með fyrirhugaða hlutafjárvæðingu spari-
sjóðsins. Segir að stjórn SPRON hafi ekki veitt
stofnfjáreigendum nægilegar upplýsingar um um
það á hvaða gengi hlutum þeirra í SPRON yrði
skipt út fyrir hlutafé í SPRON við hlutafjárvæð-
ingu en fimmmenningarnir hafi viljað gera stofn-
fjáreigendum grein fyrir því. Ástæða þess að nálg-
ast hafi þurft umrædda skrá með þeim hætti sem
gert var, að lesa hana inn á segulband og skrifa upp
eftir því, hafi verið sú að stjórn SPRON hafi ekki
viljað afhenda hana í lögmætu formi. Í umsögn
Búnaðarbankans segir ennfremur að það sé fráleitt
að halda því fram að bankinn hafi brotið gegn 20.
grein samkeppnislaga. Nær sé að SPRON hafi
framið slíkt brot með framferði sínu. Bankinn hafi
ekki geymt skrána yfir stofnfjáreigendur í sínu
tölvukerfi og ekki komið að vinnslu hennar að öðru
leyti en því að aðstoða við að finna símanúmer og ná
í stofnfjáreigendur.
Í ákvörðun Samkeppnisráðs segir að fyrir liggi
að SPRON hafi verið óheimilt að meina fimmmenn-
ingunum og Búnaðarbanka aðgang að skránni.
Jafnframt hafi Búnaðarbanki ekki brotið gegn lög-
um um persónuvernd með notkun á skránni yfir
stofnfjáreigendur. Þykir því sýnt að Búnaðarbank-
inn hafi ekki brotið gegn samkeppnislögum í þessu
máli. „Ekki er ástæða til aðgerða af hálfu sam-
keppnisráðs í máli þessu,“ eru ákvörðunarorð Sam-
keppnisráðs í málinu.
Samkeppnisráð aðhefst ekki í
máli Sparisjóðs Reykjavíkur
Búnaðarbankinn og fimmmenningarnir máttu afrita skrá yfir stofnfjáreigendur