Morgunblaðið - 15.11.2003, Page 48
UMRÆÐAN
48 LAUGARDAGUR 15. NÓVEMBER 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Á
forsíðu Morgun-
blaðsins fyrir
skömmu var sagt frá
könnun sem leiddi í
ljós að laun stjórn-
enda norskra stórfyrirtækja eru
70% hærri ef karlmaður er
stjórnarformaður heldur en ef
kona stendur í brúnni. Ástæða er
til að líta á þessa frétt sem fagn-
aðarefni fyrir hluthafa í íslensk-
um fyrirtækjum.
Reyndar er erfitt að láta á það
reyna hvort niðurstöður úr sams-
konar könnum hérlendis yrðu
þær sömu. Ástæðan er sú að það
er aðeins ein kona sem er stjórn-
arformaður hjá íslensku fyrir-
tæki, svo ég viti til. Það gæfi lík-
lega töluvert skakka mynd að
bera laun
yfirmanna hjá
þessu eina
fyrirtæki
saman við
laun yfir-
manna í öllum
hinum karlstýrðu fyrirtækjunum.
Þótt við stærum okkur kannski
ekki af því dags daglega þá eru
Norðmenn sú þjóð sem við Ís-
lendingar erum hvað skyldastir.
Ef við viljum á annað borð bera
okkur saman við einhverja þjóð,
á hvaða sviði sem það er, þá ætti
það að vera frændþjóðin Norð-
menn.
Hvort sem er í íslensku við-
skiptalífi, norsku, bandarísku eða
hvar það nú er, þá er alltaf verið
að tala um hagræðingu. Fáir
efast um að það er vandi að reka
fyrirtæki, sérstaklega stór fyr-
irtæki, á hagkvæman hátt. Hag-
kvæmur rekstur er jafnan talinn
sómi hvers fyrirtækis.
Þegar illa árar hjá fyrirtækjum
er klassískt að kenna auknum
kostnaði um ófarirnar. Lækkun
kostnaðar er því eilífðarmarkmið
hvers fyrirtækis. Nær undan-
tekningarlaust er launakostnaður
stærstur hluti kostnaðar, í það
minnsta mjög stór hluti þess
kostnaðar sem er fastur hjá
hverju fyrirtæki. Laun og aðrar
greiðslur til yfirmanna geta vegið
þungt. Kostnaðurinn við eitt
stykki yfirmann getur numið
margfaldri þeirri upphæð sem
það kostar að halda úti einum
óbreyttum starfsmanni. Auðvitað
er það eðlilegt að yfirmaður sé á
hærra kaupi en undirmaður þar
sem sá fyrrnefndi ber meiri
ábyrgð. Launamunur milli yf-
irmanna og starfsmanna getur þó
farið út fyrir öll eðlileg mörk.
Laun forstjóra í Bandaríkj-
unum árið 1980 voru að jafnaði 42
sinnum hærri en meðallaun
starfsmanna fyrirtækisins. Árið
2000 hafði þessi munur aukist svo
mikið að laun forstjóra jafngiltu
meðllaunum 531 starfsmanns.
Bandarískir hluthafar hafa
áhyggjur af þessu og eru sam-
mála um að launagreiðslur til
yfirmanna fyrirtækja séu komn-
ar úr böndunum. Skemmst er að
minnast afsagnar yfirmanns
kauphallarinnar í New York,
Richards Grasso. Sá þáði óhóf-
legar launagreiðslur svo ekki sé
meira sagt og var látinn sigla
sinn sjó. Reglur hafa verið hertar
um það hvernig laun forstjóra og
annarra stjórnenda fyrirtækja
skráðra vestra eru ákvörðuð.
Bandaríska leiðin er að setja
fleiri reglur, herða eftirlit og
knýja þannig fyrirtæki til að
halda aftur af þessari oflauna-
stefnu.
Norðmenn virðast hafa fundið
miklu betri lausn, ef marka má
könnunina sem minnst var á í
upphafi. Þeir þurfa enga skrif-
finnsku, reglugerðir, eftirlit eða
önnur leiðindi. Norska leiðin er
auðveld, þar stjórna konur.
Oflaunastefna fyrir yfirmenn
eins og sú sem tíðkast í Banda-
ríkjunum fer ekki saman við þá
kröfu hluthafa að vel sé farið með
það fé sem þeir hafa lagt í fyr-
irtækið. Ekki ætla ég að draga
ályktanir um launagreiðslur til
yfirmanna íslenskra fyrirtækja
út frá gögnum frá Bandaríkj-
unum og Noregi. En það er nokk-
uð ljóst að þetta er eitthvað sem
hluthafar, í hvaða landi sem er,
þurfa að gefa gaum. Rétt eins og
skattgreiðendur þurfa að fylgjast
með því hvernig ríkisvaldið ver
þeirra fé.
Það þarf ekki að vera að ís-
lenskir kvenkyns stjórnarfor-
menn séu betri en þeir af hinu
kyninu. En hvernig getum við
svo sem vitað það? Við höfum
sama og enga reynslu af því að
hafa konur í forsvari fyrir stjórn-
ir fyrirtækja. Eftir því sem ég
best veit eru fyrirtæki sífellt að
leita nýrra leiða til hinnar títt-
nefndu hagræðingar í rekstri.
Gæðastjórnun, niðurskurður,
sameining deilda, yfirvinnubann
og fleira og fleira. Allt er gert til
að spara, til að hagræða svo
reksturinn skili þeim sem lagt
hafa fé inn í fyrirtækið sem mest-
um arði. Ef íslenskar konur eru
eitthvað líkar þeim norsku er lík-
legt að kvenstýrt fyrirtæki búi
við lægri kostnað en þau sem
hafa karl við borðsendann á
stjórnarfundum.
Hver veit nema þarna liggi ein-
mitt hlutfallslegir yfirburðir
kvenna? Konur hafa jú stýrt
heimilum um aldir og fyrirtækja-
rekstur er ekkert annað en
stækkuð mynd af heimilishaldi.
Þótt í huga langflestra sé (því
miður) mynd af miðaldra karl-
manni við borðsenda á stjórn-
arfundi þá er ekki þar með sagt
að sú mynd sé rétt. Það er ekkert
sem segir að íslenskar konur geti
síður gegnt embætti stjórnarfor-
manns. Niðurstöður norsku
rannsóknarinnar benda einmitt
til þess að hluthafar þeirra fyr-
irtækja sem hafa konu í forsvari
fyrir stjórnina fái meira fyrir sitt
pund en hluthafar karlstýrðu
fyrirtækjanna. Þetta eru góðar
fréttir fyrir hluthafa í íslenskum
fyrirtækjum. Einhverjir hafa
sjálfsagt gefið upp alla von um að
hægt sé að hagræða meira,
treysta bara stjórninni fyrir því
að skapa sem mest verðmæti úr
hlutafénu.
Slíkur hugsanaháttur er úrelt-
ur og engin ástæða fyrir hluthafa
að nýta ekki tækifærið. Nú er
komin fram ný leið til að reka
fyrirtækin betur. Einfalt og gott
sparnaðarráð frá frændum okkar
og frænkum í Noregi. Látum
konur um að sitja við borðsend-
ann á stjórnarfundum.
Norðmenn
leysa málið
Þótt í huga langflestra sé mynd af mið-
aldra karlmanni við borðsenda á stjórn-
arfundi þá er ekki þar með sagt að sú
mynd sé rétt. Það er ekkert sem segir að
konur séu síðri stjórnarformenn.
VIÐHORF
Eftir Eyrúnu
Magnúsdóttur
eyrun@mbl.is
Á GEÐHEILBRIGÐISDAGINN 10. október sl. sagði
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra m.a. að skoða
þyrfti hvort jafnræðis gætti í þjónustu við líkamlega
veika annars vegar og geðveika hins
vegar. Að því tilefni leyfi ég mér að
benda á þætti sem hafa þarf í huga þeg-
ar geðheilbrigðskerfi okkar Íslendinga
verður endurskoðað. Skipulag er ekki
með sama móti á geðræna sviðinu og því
vefræna. Meðhöndlun líkamlegra veikra
fer fram innan sérsviða, s.s. barna-,
öldrunar- og endurhæfingarsviðs sem
hvert og eitt er undir sérstakri stjórn. Geðrænum sjúk-
dómum virðist ekki gert eins hátt undir höfði að því
leyti að öll sviðin lúta einni yfirstjórn. Sérþekking innan
geðsviðs er þó ekki síður mikilvæg en þess vefræna. Svo
má líka velta fyrir sér ástæðu sundurgreiningar geð-
sjúkdóma og vefrænna sjúkdóma. Kannski erum við að
viðhalda fordómum með því að einangra geðsjúka frá
öðrum sjúklingahópum. Ekki virðist heldur gæta jafn-
ræðis varðandi endurhæfingarúrræði eftir stofnanavist
því geðsjúkir eiga t.d. ekki kost á iðjuþjálfun sem eflir
þá og styrkir til að takast á við verkefni sem þeirra
bíða, á sama hátt og líkamlega sjúkir eiga kost á sjúkra-
þjálfun til að efla sína færni.
Mér virðist sem skipulag heilbrigðiskerfisins hafi
ekki náð að þróast í takt við aukna þekkingu. Ef marka
má einn af landlæknum Bandaríkjanna sem á áttunda
áratugnum kom fram með að aðeins væri hægt að
lækna um 10% af því sem við erum að fást við í heil-
brigðiskerfinu, að 20% orsakanna væri að leita innan
erfðafræðinnar, að um 20% tilvika krefðist vinnu með
umhverfisþætti og að þau 50% sem eftir stæðu væru
sökum hegðunar/lífsstíls. Ef við gefum okkur að þetta
sé nokkurn veginn rétt og að hið sama eigi við um geð-
sjúkdóma, þá er nú einhvers staðar vitlaust gefið, því
mannafli og stýring fjármagns speglar ekki þessa sýn.
Þverfagleg nálgun á geðsviði skilar bestum árangri og í
endurhæfingu er sérfræðiþekking sjúklingsins og að-
standenda undirstaða varanlegs árangurs. Eigi hug-
myndafræði þessi að skila sér þarf hún að kristallast í
allri ákvarðanatöku en miðað við skipulag geðheil-
brigðisþjónustunnar nú, þar sem hugmyndafræði
læknavísindanna er í fararbroddi, er það ógerningur.
Hjúkrunarfræðingar hafa verið að sækja á hvað varðar
völd, en hugmyndafræði þeirra virðist ekki njóta sín að
sama skapi. Pólítík í dag snýst því miður að mestu um
krónur og aura en ekki hugmyndafræði. Það þarf að
taka afstöðu til alls sem við vitum að hefur áhrif á bata
og heilbrigði. Læknisfræðin hamrar á vísindunum; að
ekkert skuli gert nema að það sé vísindalega sannað og
þess vegna eigi að velja þá til forystu sem einungis fylgi
læknavísindum og sönnunum. Samt uppgötva sjúkling-
ar oft og iðulega að innan læknisfræðinnar, eins og ann-
arra fræðigreina, er þekking takmörkuð og ekki alltaf
vitað hverjar afleiðingar kunna að verða.
Notendarannsóknir hafa verið að sækja í sig veðrið á
síðusta áratug og hefur t.d. breytt sýn manna á áhrifa-
valda á bata geðsjúkra. Í notendarannsóknum er unnið
út frá reynslu sjúklinganna. Slíkar rannsóknir hafa
einnig reynst vel til að meta gæði þjónustunnar. Ástæða
þess að slíkar rannsóknir voru ekki gerðar áður var ein-
faldlega sú að geðsjúkum var ekki treyst, þeir voru ekki
taldir marktækir. Niðurstöður notendarannsókna hafa
orðið til þess að þróaðar hafa verið nýjar leiðir og að-
ferðir sem ýta undir og viðhalda bata geðsjúkra. Víða
erlendis eru notendarannsóknir nú lagðar til jafns við
hefðbundnar rannsóknir varðandi nýsköpun í þjónustu.
Það má velta því fyrir sér af hverju við erum svo fljót að
samþykkja notkun nýrra geðlyfja, en svifasein t.d. að
nýta okkur niðurstöður notendarannsókna. Ég tel að
ólíkir hagsmunir eigi þar hlut að máli.
Ef sömu menn með sömu hugmyndafræði sitja of
lengi bitnar það á nýsköpun og getur leitt til stöðnunar.
Yfirstjórnendur sérgreina á heilbrigðissviði eru oftast
valdir úr hópi lækna. Góður yfirstjórnandi þarf fyrst og
fremst að hafa stjórnunarhæfileika. Ekki er t.d. nauð-
synlegt að hafa læknisfræðilegan bakgrunn til að sjá til
þess að verkefnum sé sinnt, að rétt fólk sé á réttum stað
eða til að hvetja til rannsókna og sinna gæðaeftirliti og
að nýta og halda utan um fjármagn eða styðja og hvetja
undirmenn sína til dáða. Úreltar reglur gilda um val
manna í áhrifamestu embætti heilbrigðiskerfisins og
þurfa þær reglur endurskoðunar við ef nýjar hug-
myndir eiga að hljóta brautargengi. Á undanförnum ár-
um hefur valdatíð fylgt lýðræðisreglunni – 4 ár í senn –
en óljóst er hvernig menn þurfa að standa sig til halda
velli. Til þess að það verði yfirvöldum, almenningi, sjúk-
lingum og undirmönnum ljóst þarf að marka skýrar for-
sendur fyrir þeim kröfum sem gerðar eru til áframhald-
andi setu. Það gæti e.t.v. leitt til nýsköpunar á heil-
brigðissviði ef menn þyrftu að sanna sig og keppa við
annað hæfileikaríkt fólk um völd og áhrif. Pólítíkusar
sem sannarlega vilja jafnræði í heilbrigðismálum þyrftu
þá ekki að grípa til einkavæðingar til að bjarga mál-
unum. Einkavæðing og/eða þjónustusamningar munu
ekki breyta miklu í þjónustunni ef hugmyndafræði kerf-
isins breytist ekki.
Elsku Jón, ég er sammála þér um þörfina fyrir tiltekt
og endurskoðun í geðheilbrigðismálum og víðar í heil-
brigðismálum. Þú ert kosinn af lýðnum og hefur vald til
tiltektar. En það er ekki nóg að hafa vald, það þarf líka
gífurlegan kjark til að breyta valdahlutföllum þar sem
miklir hagsmunir eru í húfi.
Tiltekt í geðheilbrigðismálum
Eftir Elínu Ebbu Ásmundsdóttur
Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LSH og lektor við HA.
ÓTRÚLEGUR fjöldi landsmanna
hefur komið að íþróttum með einum
eða öðrum hætti; sem þátttakandi,
áhorfandi, stuðnings-
aðili eða á annan hátt.
Skipulagt íþróttastarf
hefur ekki síst verið
blómlegt í Reykjavík,
þar sem ótrúlegur
fjöldi íþróttafélaga
hefur starfað um
lengri eða skemmri
tíma. Fæst þessara félaga eiga sér
skráða sögu og hún lifir mest í skjöl-
um þeirra og í minni sem tóku þátt í
störfum þeirra. Því miður er það að
gerast að saga fleiri og fleiri félaga er
að tapast og þar með vitneskja um
hugsjónir þeirra og starf.
Skjalasöfn íþróttafélaganna eru
frumheimildir og vitnisburður um
starfsemi þeirra; hvaða hugsjónir
voru að baki, um baráttuna, þrotlaus-
ar æfingar til að ná árangri, töp og
glæsta sigra, dugnað og elju einstakra
manna við uppbyggingu félaganna, oft
í ólaunuðu sjálfboðastarfi. Mikilvægt
er að skjalasöfn íþróttafélaganna glat-
ist ekki, heldur séu varðveitt tryggi-
lega á einum stað, þar sem fleiri geta
fræðst um hana og rannsakað.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur hef-
ur á undanförnum árum staðið að
skipulagðri söfnun skjalasafna
íþróttafélaga í samvinnu við Íþrótta-
bandalag Reykjavíkur. Öllum starf-
andi íþróttafélögum hefur verið ritað
bréf og þau hvött til að afhenda Borg-
arskjalasafni skjöl sín til varðveislu.
Sömuleiðis hefur verið reynt að hafa
upp á skjölum eldri íþróttafélaga.
Nokkur mjög heillega skjalasöfn hafa
borist og hafa þau verið skráð og
gengið frá þeim í öskjur til tryggilegr-
ar geymslu til framtíðar og þannig að
þau séu aðgengileg til rannsókna á
lesstofu safnsins. Borgarskjalasafn
Reykjavíkur varðveitir heilleg skjala-
söfn eftirfarandi félaga: Íþrótta-
bandalags Reykjavíkur, Tennis- og
badmintonfélags Reykjavíkur, Skíða-
félags Reykjavíkur, Íþróttafélagsins
Aspar, Íþróttafélags kvenna, Íþrótta-
félags heyrnarlausra, Íþróttafélags
fatlaðra í Reykjavík, Golfklúbbs
Reykjavíkur, Knattspyrnufélagsins
Víkings og Íþróttafélagsins Fylkis.
Þrátt fyrir að frábært sé að slík
heilleg skjalasöfn séu komin á skjala-
safn eru það okkur á Borgarskjala-
safni vonbrigði hversu mörg félög
hafa ekki afhent skjöl sín, í mörgum
tilfellum vegna þess að skjölin eru ein-
faldlega töpuð. Við höfum talað við
fornfræg íþróttafélög, þar sem for-
svarsmenn félaganna hafa verið allir
af vilja gerðir af afhenda okkur skjöl,
en þau hafa einfaldlega ekki fundist
og ekki verið vitað um örlög þeirra. Í
sumum tilfellum er hægt að kenna um
bágri aðstöðu félaganna á árum áður.
Oft þurftu stjórnarmenn að varðveita
fundargerðarbækur og önnur skjöl
heima hjá þér. Við höfum heyrt dæmi
þess að skjöl hafi fundist á háaloftum
og í skápum. Í einu tilfelli varðveitti til
dæmis Ellen Sighvatsson heillegt
skjalasafn Skíðafélags Reykjavíkur á
heimili sínu, frá því hún hóf að starfa
með því um 1928 og fram á síðasta
hluta 20. aldar. Samtals voru það 35
öskjur af skjölum skíðafélagsins sem
hún afhenti okkur til varðveislu og eru
þetta ómetanlegar heimildir um skíða-
íþróttina í og við Reykjavík.
Ekki er alltaf tryggt að geyma skjöl
á heimilum stjórnarmanna, því þess
eru dæmi að skjölunum hafi einfald-
lega verið hent, í vorhreingerningum
eða eftir þeirra dag. Það gerir líka
söguriturum erfiðara um vik að skjöl-
in sé að finna „hist og her“. Sömuleiðis
má benda á að skjalasöfn eru með
tryggar geymslur og aðstöðu til að
veita aðgang að skjölunum undir eft-
irliti, þannig að þau varðveitast þar
betur en í misjöfnum geymslum félag-
anna.
Það sem Borgarskjalasafn Reykja-
víkur hefur áhuga á að fá til varðveislu
eru til dæmis fundagerðarbækur fé-
laganna, bréfasöfn, málasöfn, ljós-
myndir, fréttabréf, plaköt og annað
útgefið efni, ársreikningar, fé-
lagaskrár og mótaskrár. Starfsmenn
safnsins geta komið og metið skjöl fé-
laganna. Ekki er tekið gjald fyrir
skráningu og varðveislu skjalanna.
Við viljum hvetja alla sem hafa skjöl í
fórum sínum að hafa samband við
Borgarskjalasafn.
Að lokum er hér dæmi um hvað eitt
lítið skjal getur sagt okkur hinum. Um
er að ræða æfingartöflu þekkts sund-
kappa frá því um 1939. Í byrjun
skjalsins er æfingardagskrá og mál-
tíðir hans tíundaðar alveg frá því hann
fer á fætur kl. 7 á morgnana og þar til
hann á að vera sofnaður kl. 22. Dæmi
um æfingar hans er eftirfarandi: „150-
200 metrar liðkunarsund. Þá 1000
metra með höndum og fótum saman
(synda greitt), síðan 400 metra handa-
tök og 400 metra fótatök (sér), að end-
ingu 200 metra hægt með höndum og
fótum saman.“
Laugardaginn 8. nóvember . tóku
opinber skjalasöfn um land allt þátt í
norrænum skjaladegi og er dagurinn
tileinkaður þemanu: Íþróttir, heilsa og
líkami. Hægt er að fræðast um dag-
skrá dagsins á www.skjaladagur.is.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur
verður með sýningu á frumskjölum í
verslunarmiðstöðinni Kringlunni, þar
sem sýnd verða fjölmörg skjöl og ljós-
myndir tengdum íþróttum í Reykja-
vík og aðgerðum bæjarstjórnar til að
bæta heilsu borgarbúa.
Er íþróttasaga Reykjavíkur
varðveitt á heimili þínu?
Eftir Svanhildi Bogadóttur
Höfundur er borgarskjalavörður
í Reykjavík.