Morgunblaðið - 14.02.2004, Qupperneq 50
50 LAUGARDAGUR 14. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Biblíudagurinn 2004
ÁRLEGUR Biblíudagur verður
haldinn næstkomandi sunnudag, 15.
febrúar. Guðsþjónustur í kirkjum
landsins verða þá sérstaklega helg-
aðar Biblíunni og mikilvægi hennar
fyrir kristna kirkju.
Við guðsþjónustu í Lindaskóla
mun Jón Pálsson, framkvæmda-
stjóri Biblíufélagsins, predika.
Prestur er sr. Guðmundur Karl
Brynjarsson. Kirkjukór Lindakirkju
ásamt organistanum Hannesi Bald-
urssyni annast tónlistarflutning.
Guðsþjónustunni verður útvarpað.
Biblíufélagið býður alla hjartanlega
velkomna til guðsþjónustunnar.
Starfs Hins íslenska Biblíufélags
er minnst á Biblíudegi en félagið
hefur staðið að útgáfu Biblíunnar
frá stofnun þess árið 1815. Meg-
inviðfangsefni Biblíufélagsins und-
anfarin 13 ár hefur verið ný þýðing
Gamla testamentisins og sér nú fyrir
endann á því starfi. Endurskoðun á
bréfunum og Opinberunarbók Nýja
testamentisins er jafnframt langt
komin.
Hið íslenska Biblíufélag er virkur
þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi
Sameinuðu Biblíufélaganna og hef-
ur á Biblíudaginn verið safnað til
verkefna á vegum þess.
Að þessu sinni verður safnað til
styrktar þýðingarstarfinu í Konsó
og Bórana. Á meðal tveggja þjóð-
flokka í Eþíópíu er núna unnið að
þýðingu Biblíunnar og koma Íslend-
ingar að því starfi bæði beint og með
fjárstuðningi. Í Bórana stýrir Har-
aldur Ólafsson kristniboði þýðingu
Biblíunnar yfir á Bóranamál og í
Konsó er nú að hefjast þýðing
Gamla testamentisins, en Biblíu-
félagið hefur stutt þýðingu Nýja
testamentisins í Konsó í gegnum tíð-
ina. Áfram er mikilvægt að styðja
við bakið á þýðingarstarfinu í Konsó
og Bórana. Söfnun Biblíudagsins í
ár er helguð þessu verkefni. Til að
starfið geti haldið áfram af fullum
krafti vantar nauðsynlega aðstöðu
eins og tölvur og prentara. Það eitt
er þó ekki nóg því slík tæki eru
gagnslaus án rafmagns. Með sól-
arrafhlöðum má leysa það vanda-
mál. Á tiltölulega einfaldan hátt er
hægt að setja upp aðstöðuna og nýta
sólina, en nóg er af henni í Afríku, til
að knýja þessi tæki.
Styðjum kirkjurnar í Konsó og
Bórana við þýðingu Biblíunnar.
Framlög í söfnun Biblíufélagsins
verða notuð til að koma upp nauð-
synlegri aðstöðu til að svo megi
verða.
Söfnunarreikningur fyrir Konsó
og Bórana er nr. 0101-26-3555.
Hið íslenska Biblíufélag.
Fræðsludagur í Frí-
kirkjunni í Reykjavík
NÆSTKOMANDI sunnudag klukk-
an 11:00 verður almenn guðsþjón-
usta í Fríkirkjunni í Reykjavík
Eftir guðsþjónustuna verður farið
upp í safnaðarheimili á Laufásvegi
13 þar sem við munum borða saman,
allir eru hvattir til að hafa með-
ferðis eitthvað gott á sameiginlegt
hlaðborð. Þegar við höfum matast
(um klukkan 12:30–45) verður
fræðslustund í safnaðarsalnum. Við-
fangsefni þessa fræðsludags er
„Biblían – Orð guðs“.
Meðan á fræðslustund stendur er
sérstök söngstund fyrir þau yngstu í
baðstofunni á þriðju hæð. Allir vel-
komnir.
Safnaðarstarf Fríkirkjunnar í
Reykjavík.
Drottinn er minn hirðir
GUÐSÞJÓNUSTAN í Dómkirkjunni
kl. 11 á biblíudaginn hefur að þema
23. Davíðssálm.
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson segir
frá honum og áhrifum hans á kveð-
skap, aðrar bókmenntir og kvik-
myndir í hugleiðingu dagsins. Sig-
urður Skagfjörð Steingrímsson
syngur sálminn undir lagi Dvoráks
og Dómkórinn og Kjartan Sig-
urjónsson flytja m.a. sálma sem ortir
eru út af honum. Sr. Jakob Ágúst
Hjálmarsson leiðir guðsþjónustuna.
Æðruleysismessa í
Dómkirkjunni
ÆÐRULEYSISMESSA, tileinkuð
fólki sem leitar bata eftir tólf-
sporaleiðinni, verður í Dómkirkj-
unni sunnudaginn 15. febrúar kl. 20.
Einhver mun segja þar af reynslu
sinni úr baráttunni við áfengissýk-
ina. Anna Sigríður Helgadóttir,
Hjörleifur Valsson og Birgir og
Hörður Bragasynir sjá um stemmn-
ingsríka tónlist. Sr. Karl V. Matt-
híasson flytur hugleiðingu. Sr. Jak-
ob Ágúst Hjálmarsson leiðir
samkomuna og sr. Jóna Hrönn
Bolladóttir leiðir fyrirbæn.
Kyrrðardagar fyrir þá sem eru að
styrkja vitundarsamband sitt við
Guð verða undir leiðsögn sr. Jakobs
í Skálholti 26.–28. mars og tekur
skrifstofa skólans við innritunum.
Sjá heimasíðu Dómkirkjunnar,
www.domkirkjan.is.
Kvennakirkjan í Laug-
arneskirkju
KVENNAKIRKJAN heldur guðs-
þjónustu í Laugarneskirkju sunnu-
daginn 15. febrúar kl. 20.30.
Minnst verður 11 ára afmælis
Kvennakirkjunnar undir yfirskrift-
inni: Að verða til, vera og vaxa. Séra
Auður Eir Vilhjálmsdóttir prédikar.
Fermingarstúlkur Kvennakirkj-
unnar lesa ritningarlestra. Kór
Kvennakirkjunnar leiðir sönginn
undir stjórn Aðalheiðar Þorsteins-
dóttur. Á eftir verður kaffi í safn-
aðarheimilinu.
Næsta námskeið Kvennakirkj-
unnar nefnist: Samskipti þín og
hinna. Hvaða áhrif hefur þú á annað
fólk og hvaða áhrif hefur fólk á þig?
Hverju skiptir það þig hvernig er
talað við þig, hvað er sagt og hvað
er ekki sagt, hvernig þú ert snið-
gengin og hvernig er alls ekki tekið
eftir þér? Hvaða áhrif hefur það
hvernig þú umgengst annað fólk?
Námskeiðið verður tvö mánudags-
kvöld, 23. febrúar og 1. mars, frá
klukkan 17.30–19. Nánari upplýs-
ingar eru í síma 551 3934.
Biblíudagurinn í
Fella- og Hólakirkju
Á MORGUN, biblíudaginn, verður
fjölbreytt helgihald í Fella- og Hóla-
kirkju.
Guðsþjónusta dagsins verður kl.
11 að venju. Sr. Svavar Stefánsson
prédikar og þjónar fyrir altari
ásamt Lilju Hallgrímsdóttur djákna.
Organisti er Lenka Mátéová og kór
kirkjunnar syngur. Þorvaldur Hall-
dórsson mun einnig syngja í mess-
unni við eigin undirleik. Í upphafi
guðsþjónustunnar munu prestar
kirkjunnar, sr. Svavar og sr. Guð-
mundur Karl Ágústsson, afhenda
öllum börnum í sóknunum, sem
fædd eru árið 1999, bókargjöf frá
kirkjunni. Það er bókin Kata og Óli
fara í kirkju. Því er öllum börnum í
sóknunum sem fædd eru árið 1999
boðið sérstaklega ásamt fjöl-
skyldum þeirra. Sr. Guðmundur
mun síðan í framhaldinu fylgja
börnunum í sunnudagaskólann með
fræðurunum þar sem sunnudaga-
skólinn verður.
Á undan og eftir guðsþjónustu og
sunnudagaskóla verður sýning á
Biblíum og skýringarbókum í hús-
næði kirkjunnar. Þar gefur að líta
Biblíur á ýmsum tungumálum, sum-
ar myndskreyttar og ætlaðar fólki á
ýmsum aldursskeiðum. Margar
þessara bóka eru í eigu kirkjunnar
en vinir og velunnarar kirkjunnar
hafa góðfúslega lánað Biblíur úr
einkaeign. Sýningin er óvenju fjöl-
breytt en Lilja djákni hefur haft veg
og vanda af uppsetningu hennar.
Kirkjugestum er boðið upp á kaffi
og ávaxtasafa á eftir. Allir velkomn-
ir í Fella- og Hólakirkju á biblíudag-
inn.
Kvöldmessa í
Grensáskirkju
ANNAÐ kvöld, sunnudagskvöldið
15. febr., verður kvöldmessa í
Grensáskirkju og hefst að venju kl.
20.
Í kvöldmessunni er lögð áhersla á
hlýlegt og kyrrlátt andrúmsloft.
Formið er einfalt og sungnir léttir
söngvar við píanóundirleik. Töluðu
máli er stillt í hóf en gefið svigrúm
fyrir lofgjörð og bæn. Altarisganga
fer fram í messunni og tekin verða
samskot til starfs Hins íslenska Bibl-
íufélags enda er Biblíudagurinn á
sunnudaginn.
Siðfræði og geðrækt
í Hallgrímskirkju
Á FRÆÐSLUMORGNI í Hallgríms-
kirkju sem hefst kl. 10 f.h. næstkom-
andi sunnudag mun dr. Sigurjón
Árni Eyjólfsson flytja erindi sem
hann nefnir: Orð Guðs og ábyrgð
mannsins.
Dr. Sigurjón Árni hefur nýlega
gefið út viðamikið verk um kristna
siðfræði í ljósi evangelísk-lúth-
erskrar guðfræði þar sem hann leit-
ast einnig við að staðsetja kristna
siðfræði í almennri siðfræðium-
ræðu. Hann hefur því af miklu að
miðla bæði lærðum og leikum.
Messa hefst síðan kl. 11 með þátt-
töku fermingarbarna þar sem þau
leika á hljóðfæri, lesa texta og flytja
bænir. Að messu lokinni mun Elín
Ebba Ásmundsdóttir iðjuþjálfi flytja
erindi um efnið: Áhrifavaldar á líð-
an fólks í daglegu lífi.
Prestsvígsla í
Dómkirkjunni
PRESTSVÍGSLA verður í Dóm-
kirkjunni sunnudaginn 15. febrúar
kl. 14:00. Biskup Íslands vígir cand
theol Lenu Rós Matthíasdóttur sem
skipuð hefur verið prestur í Graf-
arvogsprestakalli, Reykjavík-
urprófastdæmi eystra.
Séra Vigfús Þór Árnason sókn-
arprestur, lýsir vígslu.Vígsluvottar
eru: séra Anna Sigríður Pálsdóttir,
séra Bjarni Þór Bjarnason, séra Jón
Helgi Þórarinsson og séra Kristján
Valur Ingólfsson. Séra Jakob Ágúst
Hjálmarsson, dómkirkjuprestur
þjónar fyrir altari. Organisti er
Kjartan Sigurjónsson. Dómkórinn
syngur.
Biblíusýning í
Hafnarfjarðarkirkju
NÆSTKOMANDI sunnudagur, 15.
febrúar, er Biblíudagur Þjóðkirkj-
unnar. Af því tilefni fjallar sr. Þór-
hallur Heimisson um Biblíuna við
messu dagsins í Hafnarfjarð-
arkirkju sem hefst kl. 11.00.
Eftir messuna mun hann sýna
Biblíusafn sitt í safnaðarheimili
kirkjunnar, en hann hefur um
margra ára skeið safnað Biblíum frá
fjölmörgum þjóðlöndum. Í Bibl-
íusafninu er m.a. að finna græn-
lenska, rússneska, kínverska og lat-
neska Biblíu svo eitthvað sé nefnt.
Gefst kirkjugestum kostur á að bera
saman ólíkar útgáfur Faðirvorsins á
mörgum tungumálum, en engin bók
hefur verið þýdd á fleiri tungumál
en einmitt Biblían, eins og alkunna
er.
Kirkjustarf
ÍSLANDSMEISTARAMÓT í samkvæmis-
dönsum með frjálsri aðferð fór fram í Laug-
ardalshöllinni um síðastliðna helgi. Sagt var frá
mótinu í Morgunblaðinu í gær en mistök urðu
við vinnslu fréttarinnar og er hún því endurbirt
í heild.
Í samkvæmisdönsum er keppt í tveimur
greinum. Eru það annars vegar s-amerískir
dansar og hins vegar standarddansar og eru
fimm dansar í hvorri grein. Keppt var til Ís-
landsmeistaratitils í öllum aldursflokkum, þ.e.
frá 12 ára og upp úr nema í flokki seniora. Þeirri
keppni var frestað þar sem tvö paranna sem
keppa í þeim flokki voru stödd í Belgíu að taka
þátt í heimsmeistaramóti í standarddönsum.
Samhliða þessu móti var keppni fyrir dans-
pör sem styttra eru komin í dansinum og dansa
með grunnaðferð. Einnig fór fram bikarmót í
línudansi. Keppni í línudönsum hófst kl. 11 að
morgni sunnudags og voru tíu hópar línudans-
ara skráðir í keppnina.
Klukkan 13 var setningarathöfn sem hófst
með innmarsi allra keppenda og fánakveðju. Þá
flutti Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og við-
skiptaráðherra, ávarp og setti mótið. Rúmlega
eitt hundrað pör voru skráð á mótið og af þeim
voru 20 pör sem kepptu í dansi með frjálsri að-
ferð og þ.a.l. til Íslandsmeistaratitils.
Yngsti keppnisflokkurinn í dansi með frjálsri
aðferð er Unglingar I (12–13 ára). Þar keppti
einungis eitt par og kepptu þau í báðum grein-
um. Það voru þau Magnús Arnar Kjartansson
og Ragna Björk Bernburg frá Dansíþrótta-
félagi Kópavogs. Þetta var þeirra fyrsta mót í
dansi með frjálsri aðferð. Þau eru mjög áferð-
arfallegir og sterkir dansarar. Vonandi eigum
við eftir að sjá fleiri pör bætast í þennan hóp á
næstunni. Næsti hópur er hópurinn Unglingar
II (14–15 ára). Þar voru skráð til keppni átta pör
í standarddönsum og níu pör í s-amerískum
dönsum. Íslandsmeistarar í standarddönsum
urðu Haukur Freyr Hafsteinsson og Denise
Margrét Yaghi frá Dansíþróttafélaginu Hvönn.
Þau byrjuðu að dansa saman í haust og er þetta
fyrsta mót þeirra saman. Þau eru bæði frábærir
dansarar en Haukur á það til að missa höfuðið
fram og þarf að laga það.
Í öðru sæti voru þau Eyþór Smári Þórbjörns-
son og Hanna Rún Óladóttir einnig frá Dans-
íþróttafélaginu Hvönn. Þau eru einnig nýlega
farin að dansa saman og er gaman að geta þess
að Hanna Rún dansaði áður við Hauk Frey og
unnu þau marga titla saman. Mér finnst þau
sterkari í standarddönsunum en í þeim s-amer-
ísku. Þau eru með mjúka áferð og ná að lenda
vel niður sem eykur jafnvægið. Mér fannst að
vísu Vínarvalsinn vera þeirra lakasti dans og
þarf Hanna Rún að passa að stíga fram í hæla á
áfram-skrefum.
Í þriðja sætu höfnuðu Björn Ingi Pálsson og
Ásta Björg Magnúsdóttir frá Dansíþróttafélag-
inu Gulltoppi. Þau voru glæsileg á gólfinu og
náðu góðri yfirferð í dönsunum. Ásta þarf
stundum að passa að missa ekki höfuðið niður
og stundum myndar Björn of brotið „sway“ í
stað þess að gera sveigjuna frá toppi til táar.
Í s-amerísku dönsunum stóðu Haukur Freyr
og Denise Margrét einnig uppi sem sigurveg-
arar. Haukur er mjög sterkur á gólfi og með
mikinn rytma í líkamanum. Hann þarf aðeins að
nota táberg og ökkla betur. Denise var ekki eins
örugg á gólfinu og Haukur en hann geislaði af
öryggi og fangaði athygli áhorfenda auðveld-
lega.
Í öðru sæti voru þau Björn Ingi og Ásta. Þau
eru mjög stílhreinir dansarar og er Björn Ingi
með mjög góða notkun á fótum og ökklum. Mér
fannst Ásta ekki ná sér alveg á strik í þessari
keppni. Í þriðja sæti voru Alexander Mateev og
Erla Björg Kristjánsdóttir frá Dansdeild ÍR.
Þau eru mjög létt og lífleg á gólfinu en stundum
finnst mér vanta upp á að þau klári hreyfingar
og rétti úr hnjám.
Næstelsti hópurinn sem keppti á Íslands-
meistaramótinu er hópurinn Ungmenni (16–18
ára). Þar voru skráð til leiks sjö pör í hvorri
grein og er langt síðan þessi aldurshópur hefur
verið svona fjölmennur. Þarna er á ferðinni
frekar jafn og sterkur hópur og var mjög spenn-
andi að horfa á þau keppa. Íslandsmeistarar
ungmenna í standarddönsum urðu þau Þorleif-
ur Einarsson og Ásta Bjarnadóttir frá Dans-
deild ÍR. Þau hafa verið að berjast um sigursæti
í mörg ár. Ég hef ekki séð þau betri og hafa þau
bætt sig frá því að ég sá þau síðast keppa.
Finnst mér danshaldið ekki eins snúið og áður.
Í öðru sæti höfnuðu Jónatan Arnar Örlygs-
son og Hólmfríður Björnsdóttir frá Dans-
íþróttafélaginu Gulltoppi. Þau hafa verið í
fremstu röð um árabil í sínum aldursflokki. Þau
dönsuðu mjög yfirvegaðan og léttan dans.
Stundum vantar upp á að sporin fljóti vel saman
og að þau klári hlutina betur áður en farið er af
stað í næsta spor. Í þriðja sæti voru Arnar
Georgsson og Tinna Rut Pétursdóttir. Þau eru
ávallt glæsileg á gólfinu en mér fannst þau
þyngri í dansinum en áður og ekki ná að sýna
sitt besta. Þorleifur og Ásta sigruðu einnig í s-
amerísku dönsunum. Þetta var greinilega
þeirra dagur því mér fannst þau ná að sýna sín-
ar bestu hliðar í þessari keppni. Þau voru mjög
létt á gólfinu og finnst mér vera kominn meiri
hreyfing í líkamann á Þorleifi. Í öðru sæti voru
Jónatan og Hólmfríður. Þau eru með allt annan
stíl í dansinum, ná að dansa mjög vel saman og
sýna vel hlutverk karls og konu. Það var mjög
spennandi að horfa á þessi tvö pör og tel ég víst
að það hafi verið mjótt á mununum. Í þriðja sæti
höfnuðu Stefán Claessen og María Carrasco frá
Dansdeild ÍR. Þau dönsuðu mjög vel framan af í
úrslitunum en misstu aðeins dampinn í síðasta
dansinum sem er Jive. María er mjög kvenlegur
dansari og mjög áberandi á gólfinu. Stefán þarf
að sýna meiri hreyfingu í mjöðmum og líkaman-
um.
Flokkurinn Fullorðnir (19–35 ára) var elsti
flokkurinn sem keppti til Íslandsmeistaratitils á
þessu móti. Þar keppti eitt par og keppti ein-
ungis í s-amerískum dönsum. Það voru þau
Gunnar Hrafn Gunnarsson og Sigrún Ýr Magn-
úsdóttir frá Dansíþróttafélaginu Gulltoppi. Þau
voru frábær, að vanda mjög kraftmiklir dans-
arar og lífleg. Það var synd að ekki tóku fleiri
pör þátt í þessum flokki en vonandi á það eftir
að breytast í framtíðinni.
Það má segja að keppnin hafi gengið vel fyrir
sig. Tímaplan stóðst nokkuð vel og það komu
ekki fram neinir hnökrar á keppninni. Mér
finnst reyndar að þegar pör þurfa að dansa
beint úrslit eins og gerðist í hópi ungmenna og
hópurinn er 6–7 pör þá er æskilegt að pörin
dansi aukaumferð til þess að gefa dómurum
meiri tíma til þess að bera pörin saman. Fimm
erlendir dómarar dæmdu keppnina. Það voru:
Heinz Riehn frá Þýskalandi, Lars Kromann frá
Danmörku, Elisabeth Sandström frá Svíþjóð,
Johan Eftedal frá Noregi og Vera Randall frá
Englandi.
Mótanefnd tók í haust þá ákvörðun að hafa
tvo íslenska dómara í dómarahópnum og hafa
þá alls sjö dómara. Því miður var ákveðið að
draga þá ákvörðun til baka. Það er mín skoðun
að við þurfum að eiga góða og frambærilega
dómara til þess að dæma danskeppnir hér
heima sem og erlendis. Þeir þurfa að fá meiri
þjálfun við dómgæslu og er fyrir löngu orðið
tímabært að fá það fagfólk sem til er í landinu til
þess að vera í dómnefnd hér heima.
Öll úrslit keppninnar eru birt á heimasíðu
Dansíþróttasambands Íslands, www.danssport-
.is.
Góð þátttaka í Ís-
landsmeistaramótinu
Morgunblaðið/ Jón Svavarsson
Sigurður Már Atlason og Sara Rós Jakobs-
dóttir sigurvegarar í flokki Unglinga I K-riðli.
DANS
Laugardalshöll
SAMKVÆMISDANSAR
Íslandsmeistaramót í 5 og 5 dönsum fór fram sunnu-
daginn 8. febrúar sl.
Kara Arngrímsdóttir