Morgunblaðið - 02.05.2004, Blaðsíða 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2. MAÍ 2004 45
Afi í Eyvindartungu
er látinn. Heilsu hans
hafði farið ört hrakandi
síðustu árin og það er
sárt til þess að hugsa
að yngri bræður okkar kynntust
ekki á sama hátt elsku hans og hlýju.
Stutt er frá Austurey til Eyvindar-
tungu og oft lá leiðin upp í Tungu.
Við fengum ávallt góðar móttökur.
Afi bjó til heimsins besta grjóna-
graut og oft átti hann til einhver sæt-
indi handa okkur. Eftir að við höfð-
um gætt okkur á kræsingunum hafði
hann jafnan á lofti: ,,Viltu ekki fá þér
aðeins meira, væni minn?“
Afi var lengst með fjárbúskap og
við munum mörg sumur við heyskap
eða heiðasmölun að hausti. Afi vann
sitt verk á jöfnum hraða, og það staf-
aði af honum ró sem færðist yfir
mann. Aldrei nein læti, og hann gaf
sér alltaf tími til að vera með okkur
bræðrunum. Segja sögur eða vara
okkur við hættum og hér kemur lýs-
ing eins okkar á löngu liðnum vor-
degi í Eyvindartungu:
Ungur drengur gengur smá spor
með afa sínum um bæjarhlaðið.
Framhjá stóra reyniviðinum, við
hliðina á rólunni, sem afi hafði svo oft
bannað honum að klifra í. Framhjá
Land-Rovernum, þar sem oft var að
finna brjóstsykurspoka í hanskahólf-
inu. Framhjá fjósinu, þar sem kýrn-
ar hans afa lágu áður jórtrandi við
sterklegar trébeislurnar er voru þá
nýlega horfnar á braut, í átt að fjár-
húsunum þar sem allt iðaði af lífi. Þá,
rétt eins og nú voru lömbin orðin
nokkur. Afi sýndi mér lambadrottn-
inguna og ég fékk að halda á henni
en missti hana fljótlega. Hún var lík-
lega ekki jafn hrifin af mér og ég var
af henni. Afi spurði mig hvort ég
væri nokkuð hræddur við hrútana,
þeir væru nú yfirleitt í góðu skapi
hrútarnir hans afa en best væri að
láta þá í friði. Einn þeirra var með af-
sagað horn, það er svo hann sjái bet-
ur sagði afi og gaf mér hornið. Degi
er tekið að halla þegar við göngum
heimleiðis, tunglið komið upp.
„Þekkir þú þessi ljós,“ spyr afi og
bendir út í myrkrið. „Þetta eru
Syðri-Reykir og Böðmóðsstaðir
þarna aðeins nær. Veist þú hver býr
þar? Spyr hann mig. Eða þekkir þú
eyktamörkin? Þetta er Nónhóll
þarna.“
Þú munt lifa í hugum þeirra sem
þig þekktu og unnu þér. Farvel afi
minn.
Bræðurnir Austurey.
Nú er komið að kveðjustund. Fyr-
ir tæpum 44 árum tengdist Jón
Teitsson fjölskyldu okkar. Ingunn
systir fór ung ekkja til sumardvalar
austur að Hlíð í Grafningi með tvö
eldri börn sín. Þetta sumar kynntist
hún Jóni og um haustið flutti hún til
hans í Eyvindartungu og tók jafn-
framt að sér kennslu við Héraðsskól-
ann á Laugarvatni. Í Eyvindartungu
var henni tekið með hlýju og velvild
af Sigríði móður Jóns sem hafði rek-
ið heimilið með honum eftir að önnur
börn hennar höfðu hleypt heimdrag-
anum.
Þarna áttu þau Ingunn og Jón
saman góðan vetur og um vorið, um
leið og skóla lauk, sóttu þau yngsta
barn Ingunnar, Helgu, sem hafði
verið í fóstri hjá foreldrum okkar frá
vorinu áður. Þau voru full bjartsýni
um framtíðina og 8. maí 1961 giftu
þau sig Jón og Ingunn. Ekki var ein
báran stök í lífi systur minnar. Fáum
JÓN
TEITSSON
✝ Jón Teitssonfæddist á Böð-
móðsstöðum í Laug-
ardal 26. apríl 1923.
Hann lést á Dvalar-
heimilinu Lundi á
skírdagskvöld 8.
apríl síðastliðinn og
var útför hans gerð
frá Skálholtskirkju
20. apríl.
vikum síðar lést hún úr
hvítblæði. Hún hafði
misst fyrri mann sinn
af slysförum í ágúst
1958. Þá átti hún tvö
ung börn og gekk með
það þriðja. Við þessar
aðstæður og síðar kom
glöggt í ljós hvern
mann Jón hafði að
geyma. Honum fannst
ekkert annað koma til
greina en axla þá
ábyrgð að taka að sér
og ala upp eldri börnin
tvö, Sigurð og Lauf-
eyju. Þarna nutu börn-
in ástríkis og alúðar Jóns og Sigríðar
öll æskuárin. Einnig reyndist Ása
systir Jóns systkinunum afar vel og
þau eignuðust heila stórfjölskyldu.
Helga sem áður hafði verið hjá
ömmu sinni og afa, Helgu Kristjáns-
dóttur og Arnóri Sigurjónssyni, fór
til þeirra aftur og ólst upp hjá þeim
til unglingsára, en fór þá til stjúpa
síns. Aldrei er hægt að fullþakka allt
sem Jón gerði fyrir systkinin öll. Allt
hans líf var raunar miðað við þessi
börn sem hann eignaðist svo óvænt.
Hann vann af natni við bú sitt, sem
hann hafði tekið við af foreldrum sín-
um og sinnti fjölskyldunni í hvívetna,
studdi börnin til að afla sér mennt-
unar og koma sér fyrir í lífinu.
Jón var lengst af heilsugóður. Allt-
af var gott til hans að koma. Síðustu
árin eftir að heilsan brast voru hon-
um erfið. Þá naut hann umhyggju og
hlýju stjúpbarna sinna sem sinntu
honum vel.
Blessuð sé minning góðs manns.
Arnþrúður Arnórsdóttir.
Í dag er lagður til hinstu hvílu,
móðurbróður minn, Jón Teitsson
bóndi í Eyvindartungu. Undanfarna
daga hefur hugurinn leitað aftur til
bernskunnar og þeirra daga sem
alltaf verða bjartir í minningunni.
Nonni frændi minn var mér kær og
nákominn, sérstaklega fyrstu ár ævi
minnar þegar ég dvaldi langdvölum
hjá honum og ömmu í Eyvindar-
tungu. Það var gaman að fá að fara
með honum til gegninganna og þótt
trúlega hafi félagsskapur minn tafið
störf hans verulega var viðmótið allt-
af hlýtt og þolinmæði hans jafnmikil.
Hann var sérstaklega barngóður og
öll börn hændust að honum.
Lífshlaup Jóns í Eyvindartungu
var að mörgu leyti sérstakt. Hann
tók við búi föður síns og hélt fyrst í
stað heimili með móður sinni, Sigríði.
Hann var natinn bóndi og annaðist
jörð og búpening með virðingu. Bú-
skapur var í hans augum hugsjón og
meira en vinna fyrir daglegu brauði
og bar vott um smekkvísi og snyrti-
mennsku. Hann fór með varfærni í
nýjungar og taldi það best fullnýtt
sem fyrir hendi var.
Árið 1961 kvænist Jón ungri konu,
Ingunni Arnórsdóttur. Hún var
ekkja með þrjú ung börn sem Jón
gekk í föðurstað. Ingunn lést eftir
skammvinn veikindi nokkrum mán-
uðum síðar. Það er skemmst frá því
að segja að þó sorgin hafi gengið
nærri Nonna frænda mínum, þá
lagði hann ótrauður í það hlutverk að
ala börnunum önn og gott atlæti.
Hann naut að einhverju leyti aðstoð-
ar móður sinnar fyrstu árin meðan
heilsa hennar leyfði, en eftir það ól
hann þau einn upp af sömu ást og
umhyggju og um hans eigin börn
væri að ræða. Hann leit á það sem
skyldu sína í upphafi og börnunum
kom hann öllum til manns og ég held
að sú hamingja sem yfirgaf hann
þegar Ingunn lést, hafi átt aftur-
kvæmt í hjarta hans í uppeldi
barnanna.
Það var alltaf gott fyrir lítinn
dreng að fara bæjarleið og heilsa
upp á ömmu, Nonna, Sigga, Lauf-
eyju og Helgu. Oft var farið snemma
morguns og ekki komið fyrr en seint
að kveldi, stundum flesta daga vik-
unnar. Uppátektarsemi okkar Sigga
og framkvæmdargleði gekk stund-
um fram af Nonna og fyrir kom að
okkur sinnaðist. Að morgni næsta
dags var allt eins og áður og nærvera
frænda míns eins góð og ævinlega.
Í Eyvindartungu var oft gest-
kvæmt og Jón var vinsæll af sam-
ferðamönnum sínum. Hann sagði
oftast ekki mikið, lét aðra um orða-
gjálfur, en gat verið hnyttinn í til-
svörum. Flestir báru hlýjan hug til
hans, ekki síst systkini hans og börn
þeirra.
Ég hitti Nonna frænda minn fyrir
ári síðan í veislu sem haldin var í Ey-
vindartungu í tilefni af áttræðisaf-
mæli hans. Hann var ekki samur og
áður og hugur hans fjarri og ekki
víst að hann hafi áttað sig á stað og
stund. En nærveran var sú sama og
þegar hann leiddi lítinn dreng um
fjós og fjárhús fyrir meira en fjöru-
tíu árum.
Hinsta hvíla hans verður hjá kon-
unni sem hann unni, en missti í
blóma lífsins. Hvíldin er honum ef til
vill kærkomin.
Ég votta Sigga, Laufeyju, Helgu
og fjölskyldum þeirra samúð mína.
Eyvindur Eiríksson.
Í dag er kvaddur öðlingur aldar-
innar, Jón í Eyvindartungu. Við ná-
grannarnir áttum sameiginlegt að
eignast góð heimili í sveitinni okkar
að Eyvindartungu og Laugarvatni,
varla þornaðir. Þar átti Jón heima til
æviloka og ég geymi með mér sömu
örlög.
Jón var af öndvegis fólki kominn.
Faðir hans Teitur Eyjólfsson, Reyk-
víkingur, var dugmikill og einkar
vandvirkur bóndi, ræktunarmaður
og byggði myndarlega upp á jörð
sinni. Í þessu umhverfi ólst Jón upp
með mörgum efnilegum systkinum
og miklu hjartarými móður sinnar,
Sigríðar Jónsdóttur, sem að mestu
var alin upp í Efstadal. Sigríður í Ey-
vindartungu var fríð kona og virðu-
leg, friður og festa í svipnum, átti í
sálu sinni mannkosti æðruleysis og
hjálpsemi og skipti vart skapi. Sí-
felld hlýja hennar var fágæt af dugn-
aðarforki að vera. Minnist ég gest-
risni Sigríðar og hlýs vinfengis,
þegar við strákapjakkarnir á Laug-
arvatni komum niðureftir að leika
okkur við jafnaldra okkar, bræðurna
í Eyvindartungu. Að aldarhætti voru
við allir „bændur“, það var næstum
eina fyrirmyndin í uppvexti okkar.
Þá var trítlað vestur á Stöðul að leika
sér „í búinu“ hjá bræðrunum, kofum
og eigulegum búpeningi. Myndarleg
hrútshorn þóttu gersemar og vel
brennimerkt og rámar í horn af van-
inhyrndum sauðum. Alltaf vorum við
grallararnir kvaddir við heimför með
glóðvolgum pönnukökum, ef ekki
mjólkursopa líka. Já, bara veisla í
lokin, en Sigríði gleymum við seint.
Jón lærði ungur sund hér heima á
Laugarvatni og er hann kom í hér-
aðsskólann var hann manna fremst-
ur í íþróttinni, en átti sér þó skóla-
bróður, sem veitti harða keppni,
Kára Steinsson frá Efra-Ási í
Hjaltadal. Man ég vel hve hart var
barist, þar skildu sekúndubrot, eða
hnífjafnir. En ólíkt var sundlagið,
Kári var harður og snöggur, ham-
aðist sem óður væri en Jón synti af
mýkt, löng, föst tök, þungum skriði.
Jón var formaður Ungmenna-
félags Laugdæla um árabil og síðar
heiðursfélagi til hins síðasta. Á þeim
árum stofnuðu ungmennafélögin í
nærsveitum til fagnaða og héldu
saman íþróttamót. Við Laugdælir
vorum, minnir mig, alltaf undir í
frjálsum en áttum um árabil ósigr-
andi sundmenn af báðum kynjum á
sundmótum Skarphéðins. Þar stóðu
stúlkurnar sig best.
En við reyndum með aukamönn-
um að styrkja frjálsíþróttir okkar,
sem við gátum, jafnvel með Íþrótta-
skólastrákum, en dugði skammt.
Eitt sinn var íþróttamót á Borg, sem
gekk nokkuð vel. Við vorum með
„gamlan“ Þróttara sem bjó í Grinda-
vík. Þetta var sunnudagsmót og
kappanum varð að skila heim, um
kvöldið. Við Jón leystum það, ég
fékk til fararinnar jeppann föður
míns og Jón taldi ekki eftir sér að
fara suður, við ókum til skiptis. Það
var handleggur að fara úr Grímsnes-
inu og suður í Grindavík í þá daga,
hvergi malbikaður spotti. Víst var
rauðamalarbrautin talin góð, niður
að Sogi, þó hlykkjótt væri. Síðan
bara holur og skrölt, sem hristi
marga „rennireiðina“ í sundur. Það
var komið fram á miðja nótt er við
náðum heim. Svona var nú fé-
lagsstarfið í þá daga, það gat tekið
tíma. Oftar en einu sinni var farið
ríðandi á íþróttamót að Þjórsártúni,
þess tíma háttur.
Þá er það bóndinn Jón, sem bjó
með kýr og kindur og grái klárinn
hans var fallegur og ganggóður. Allt
í röð og reglu, snyrtilegt og vel við
haldið. Maðurinn var svo lagtækur
og þurfti ekki hjálpar við, sem á líka
við um þá bræður. Síðast bjó Jón við
kindurnar, sitt helgasta vé. Var lengi
æfinnar einyrki og sá um allt, innan-
bæjar sem utan. Fór sér ekki óðs-
lega en sívinnandi, með harðdugleg-
ustu mönnum þó aðrir hafi oftar
verið tíundaðir. Lengi var Jón for-
maður Búnaðarfélags Laugdæla og
hreppsnefndarmaður um tíma. Til
þess var hann kvaddur að þótta sam-
félagsins en ekki eftir sætaröð. Mér
verður hugsað til natninnar og verk-
lagsins við alla tæknina, sem smátt
og smátt birtist. Að vísu býst ég við
að enginn trúi því, að snúningsvél frá
véladeild S.Í.S., árgerð um 1950,
gæti enn verið í fullu „fjöri“, ef á
reyndi. Það segir okkur sögu um að-
ferð Jóns við vélarnar, alltaf var far-
ið með gætni og hægt. Þykir mér
trúlegt að víða á bæjum hafi ekki
færri en fjórar til sex gerðir slíkra
heyskaparvéla (kallast nú fjölfætlur)
farið í gegn á liðinni hálfri öld, en
einkasonurinn Sigurður fékk að vísu
rýrar æfingar á það tæki. Jón var
svo hógvær í kraðaki mannfélagsins
að honum hlotnaðist seint kvenkost-
ur, þó úr rættist svo um munaði á
miðri æfinni. Hann kynntist fallegri
og spengilegri sér yngri konu, Ing-
unni Arnórsdóttur, sem misst hafði
mann sinn, og áttu 3 ung börn. Þau
nutust aðeins í tæpt ár, þá lést Ing-
unn. Sú mikla sorg var Jóni og börn-
unum erfið. Sýndi hann þá stillingu
slíka, sem einkenndi allt hans líf og
bar harm sinn í hljóði. Þetta var öll-
um kunnugum afar þungt. Ekki má
ég teygja lopann við að minnast vin-
ar míns og nágranna en að síðustu
þetta: Jón var með hærri mönnum,
vel beinn í baki og þreklegur, þó
heldur væri holdskarpur. Hann var
fríður maður og hárprúður, grann-
leitur, sem þau systkini mörg, er
meira líkjast móður sinni. Þá var
hann heljarmenni að burðum, hand-
leggir þykkir sem á jötni. Jón var
enginn veifiskati, bjó yfir góðri
greind og glöggum skoðunum og
varð lítt afvegaleiddur á þeirri braut.
Gerði kurteislegar athugasemdir en
lét engan hrófla við skapi sínu, þó
deilt væri. Alltaf vel hittur, spaugið á
hraðbergi, fullur af glaðværð enda
vel metinn.
Við erfiðan heilasjúkdóm, þegar
minnið var mjög þorrið, gat Fjóla í
Skarði, starfandi á Lundi, helst
hróflað við vitund Jóns, með því að
bæði fóru saman að telja kindur. Það
er sjónarsviptir að drengnum góða,
sveitungarnir sakna vinar í stað. Við
Ester færum fjölskyldunni hluttekn-
ingu.
Þorkell Bjarnason.
…með allt fyrir bragðlaukana
Helluhrauni 10, 220 Hfj.
Sími 565 2566
Englasteinar
Legsteinar
Kársnesbraut 98 • Kópavogi
564 4566 • www.solsteinar.is
Þökkum innilega öllum þeim, sem sýndu
okkur samúð og hlýhug við andlát og jarðarför
ástkærrar móður okkar, tengdamóður, ömmu
og langömmu,
HJÖRDÍSAR STEFÁNSDÓTTUR,
Víðilundi 24,
Akureyri.
Stefán Jónsson, Heiðrún Björgvinsdóttir,
Eiríkur Jónsson, Sigríður Jóhannesdóttir,
Teitur Jónsson, Valgerður Magnúsdóttir,
barnabörn og langömmubörn.
Minningargreinum þarf að
fylgja formáli með upplýsing-
um um hvar og hvenær sá sem
fjallað er um er fæddur, hvar
og hvenær dáinn, um foreldra
hans, systkini, maka og börn og
loks hvaðan útförin verður gerð
og klukkan hvað. Ætlast er til
að þetta komi aðeins fram í for-
málanum, sem er feitletraður,
en ekki í greinunum sjálfum.
Formáli
minning-
argreina