Morgunblaðið - 02.05.2004, Page 47

Morgunblaðið - 02.05.2004, Page 47
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2. MAÍ 2004 47 ensku og sögu frá Háskóla Íslands 1970 og vann eftir það við útgáfur bóka og ritstörf. Einar var margfróð- ur og skemmtilegur, léttur í lund og sá oft broslegu hliðarnar á tilverunni, þó að hann væri skapmaður. Hann hafði ríka réttlætiskennd og var mannvinur. Þegar Einar tók að sér ritun Sögu Stýrimannaskólans hafði hann orðið umtalsverða reynslu sem rithöfundur. Hann var ritstjóri bóka- flokksins „Reykjavík – Sögustaður við Sund“ í samvinnu við Pál Líndal, sem ritaði að mestu þrjú fyrstu bind- in. Einar ritaði fjórða og síðasta bind- ið, sem var Lykilbók og Annáll Reykjavíkur: forsaga frá landnámstíð og síðan annáll hvert ár frá 1786 til 1986. Bókin kom út árið 1989. Einnig ritaði Einar um Reykjavíkurflugvöll í III. bindi. Samstarfsmenn Einars í þessu mikla og merka ritverki voru, auk Páls Líndals, Ásgeir S. Björnsson og Örlygur Hálfdánarson. Einar rit- stýrði einnig „Akureyri, höfuðborg hins bjarta norðurs“ og starfaði hjá Bókaútgáfunni Erni & Örlygi við „Ensk-íslensku orðabókina“ og „Ís- lensku alfræðiorðabókina“, og var annar af myndaritstjórum þess mikla ritverks, en myndirnar eru að mörgu leyti sterkasta hlið alfræðiorðabókar- innar. Einar var vandvirkur höfund- ur, sem lagði sig fram. Hann sýndi mikla elju við heimildasöfnun, þegar hann ritaði Sögu Stýrimannaskólans og kryddaði vandaða frásögn af skóla- lífinu hvert ár með skemmtilegum frásögnum úr lífi nemenda og starfi þeirra á sjónum. Var þar fléttað sam- an atvinnu- og skólasögu, en samtals varð bókin nærri 600 blaðsíður. Þegar þessu verki var lokið árið 1993 ritaði hann bókina „Mannslíf í húfi“, sögu Slysavarnafélags Íslands, sem Mál og mynd gaf út 2001. Þegar hann féll frá hafði hann að mestu ritað sögu björg- unarsveita og félagsdeilda Slysa- varnafélags Íslands og Landsbjargar úti um landið. Þegar því yrði lokið hafði hann enn frekari landvinninga í huga. Fráfall Einars S Arnalds er því mikill mannskaði. Auk þeirra ritverka sem hér eru nefnd sá hann ásamt Ei- ríki Jónssyni um Lykilbók eða nafna- skrá annála frá 1400 til 1800 og Hið ís- lenska bókmenntafélag gaf út á árunum 1998 – 2002. Af þessu sést hvað Einar var afkastamikill og vinnusamur og varð hann þó að ganga í gegnum mikil veikindi. Einar Arnalds haslaði sér völl í túni Braga og fetaði þar í fótspor forfeðra sinna, Einars H. Kvarans skálds og Ara Arnalds sýslumanns, sem á sinni tíð voru, hvor á sínu sviði, þekktir rit- höfundar. Að loknu miklu stríði við þann sama sjúkdóm sem að lokum dró Einar til dauða, en gaf honum nokkurra ára stundarfrið, kom út eft- ir hann, haustið 2001, ljóðabók sem hann nefndi „Lífsvilja“. Þar lýsti hann „Úr álögum á Eyjahafi“ og brá upp skáldlegum lýsingum. Þar segir hann m.a.: „Erfiðleikar! Hverfa á milli deyjandi depla á festingunni.“ Og síðar: „Rökkurskuggar flýja sólarsæinn.“ Það var því miður aðeins í tvö ár, sem þeir rökkurskuggar voru fjarri Einari. Frá því Einar hóf vinnu við ritun Sögu Stýrimannaskólans haustið 1989 og til vors 2003, hafði hann vinnuaðstöðu í Sjómannaskólanum. Hann varð sem einn af kennara- og starfsliði Stýrimannaskólans í Reykjavík. Í fjöldamörg ár var hann ritari á öllum skólanefndarfundum Stýrimannaskólans, nákvæmur og gagnorður í ritun fundargerða, og hin síðari ár var hann einnig ritari skóla- nefndarfunda Vélskóla Íslands. Okk- ar á milli hét Einar því „Scriba schol- aris“ – Skólaritari“ og lét sér vel líka. Vera Einars í Sjómannaskólanum var okkur öllum sem kynntust honum sérstakt ánægjuefni, en glaðlegt við- mót hans og áhugi smituðu út frá sér. Einar Arnalds hafði jákvæð og hvetj- andi áhrif á umhverfi sitt. Oft leit hann við á skrifstofunni hjá mér, en báðir höfðum við áhuga á sögu og fornmenntum. Við göntuðumst þá og ræddum í gamni og alvöru um að fara einhvern tíma saman í spor þeirra gömlu til Rómar. Sú ferð verður því miður aldrei farin með Einari S. Arn- alds. Við gleymdum þá eins og oftast, að einn hinna gömlu orðskviða hljóð- ar: „Memento mori“ – „minnstu dauð- ans“. Hann sótti vin minn, Einar, vægðarlaus og allt of fljótt. Við sem kynntumst Einari S. Arn- alds eigum minningar um góðan og eftirminnilegan samferðamann, sem var drengur góður og hvers manns hugljúfi. Hann unni fjölskyldu sinni, eigin- konu og börnum og saman áttu þau áhugamál í sönglist og öðru menning- arstarfi. Við Anika vottum eftirlifandi eig- inkonu Einars, Sigrúnu Jóhannsdótt- ur og dætrum þeirra, svo og aldraðri móður, Ásdísi Arnalds, og allri fjöl- skyldu og venslafólki, innilega samúð vegna andláts Einars S. Arnalds. Blessuð sé minning hans. Guðjón Ármann Eyjólfsson. Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi, því táradöggvar falla stundum skjótt, og vinir berast burt á tímans straumi, og blómin fölna á einni hélunótt. – Því er oss best að forðast raup og reiði og rjúfa hvorki tryggð né vinarkoss, en ef við sjáum sólskinsblett í heiði að setjast allir þar og gleðja oss. (J. Hall.) Oft sungum við bekkjarbræður „Hvað er svo glatt“ eftir Jónas og þá oftast fyrsta erindi kvæðisins. „Tára- döggvar“ og „fölnandi blóm“ voru fjarri hugum okkar þó erindið væri prentað í söngbók menntaskólanema. Í dag, er við kveðjum kæran bekkj- arbróður, Einar Arnalds, hinstu kveðju, leita þessar gömlu ljóðlínur á hugann 34 árum eftir að við settum upp hvítu kollana og kvöddum gamla skólann okkar. Margs er að minnast úr Mennta- skólanum. Bekkjarandinn var góður og bræðraböndin traust, grunnur að ævilangri vináttu. Þar var Einar allt í öllu, glaður og góður félagi. Hann lifði fyrir bekkinn og í bekknum. En við vorum í skóla til að læra. Einar var bókhneigður eins og hann átti ættir til, í fjórða lið kominn af Ein- ari H. Kvaran og ekki laust við að Einar væri stoltur af nafna sínum og langafa; kom enda snemma í ljós að Einar var vel ritfær og með bestu mönnum í íslenskum stíl. Hafði hann yndi af að segja frá og sneri þá gjarn- an háfleygum orðskviðum, sem kenn- arinn lagði fyrir sem ritgerðarefni, í vel samda skemmtisögu. Einar var húmanisti að upplagi, góður mála- maður og áhugasamur um listir og sagnfræði, greinar sem hann lagði fyrir sig í háskóla og gerði að ævi- starfi. Eftir að hafa snarað „mens sana in corpore sano“ hjá Þórði Erni í latínu var hlaupið út í skólaportið í löngu frí- mínútunum og sparkað bolta til þess að orðið mætti rætast. Þar var Einar framarlega í flokki, kvikur og grann- ur, traustur leikmaður í vörn og sókn. Hringt var inn og hófst nú tími í sögu hjá Skúla Þórðarsyni magister sem hlýddi Einari og okkur hinum yfir um ferðir Alexanders mikla austur fyrir Indus og um Búrgúndarríkið. Kímni- gáfu Einars var við brugðið. Við erum í dönsku hjá Bodil Sahn. Einar kemur upp í „Kammerad Knud“. Þar segir af Knud Rasmussen og félögum á hjara veraldar í Thule. Knud hélt lífi í mannskapnum með skemmtilegheit- um, „satte kulør på livet“ eða „litaði á sér mittið“ eins og Einar snaraði þessu svo eftirminnilega. Utan skólans var Einar „primus inter pares“. Fínt þótti að fá sér neðan í því á laugardagskvöldum. Var þá stundum knúið dyra á Stýrimanna- stíg 3, æskuheimili Einars, og jafnvel heilum menntaskólabekk hleypt inn og upp á háaloft þar sem Einar réð ríkjum. Flestir höfðu söngolíu með- ferðis í pyttlu innan klæða og brátt ómaði Gaudeamus, O alte Burschen- herrlichkeit og Hvað er svo glatt um gömlu götuna þar sem Einar fæddist og sleit barnsskónum forðum daga. En „vinir berast burt á tímans straumi“ – Fyrir tæpum fjórum árum fylgdum við kærum bekkjarbróður, Sigurði Einarssyni, til grafar. Í annað sinn heggur dauðinn skarð í okkar raðir. Einar Arnalds er allur, langt um aldur fram. Hann var drengur góður. Við flytjum fjölskyldu Einars, eftirlifandi móður, eiginkonu, dætrum og bræðrum, okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Vale amice – Bekkjarbræður 6. B, MR 1970. Það var í október síðastliðnum að ég heyrði fyrst af Einari í gegnum manninn minn, Þorvald. Þeir kynnt- ust á 11-G á Landspítalanum. Í fyrstu veitti ég þessum kunningsskap litla eftirtekt þar til að maðurinn minn sagðist hafa lesið ljóð Einars Lífsvilja og sagði þau lýsa sinni sjúkdóms- reynslu líka. Ég varð mjög hissa því það hlaut að vera einstök manneskja sem fékk manninn minn til að lesa ljóð. Það leið ekki á löngu þar til við Einar vorum kynnt. Hann var alltaf léttur í lund, ræddi glettnislega um lífið og tilveruna þegar við hittumst. Á sinn ljúfa hátt reyndi Einar að miðla okkur hjónum af reynslu sinni og hjálpa okkur í gegnum baráttuna við þennan illvíga sjúkdóm. Hann sá oft spaugilegar hliðar á annars grátleg- um örlögum eins og þegar þeir fé- lagar stóðu báðir frammi fyrir að fá lyfjabrunn í höfuðið. Einar fór á und- an í aðgerðina og um leið og hann komst á fætur kom hann til Þorvalds, lét hann vita að þetta hefði ekki verið nokkurt mál og stofnaði klúbbinn Einhyrningafélagið. Hann væri eini meðlimurinn en Þorvaldur væri vel- kominn í félagsskapinn um leið og hann væri búinn í aðgerð. Þá skírði Einar lyfjabrunninn Mímisbrunn og þar með var það orðið gott að fá í viskubrunninn. Ég og drengirnir mínir þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast Einari, hörmum hversu stuttur sá tími var en erum þess fullviss að nú sé búið að setja fund í Einhyrningafélaginu á himnum. Einar kynnti okkur fyrir konu sinni, henni Sigrúnu, sem hefur barist með manninum sínum á sinn hógværa og ljúfa hátt. Baráttunni er ekki lokið, hún og dætur þeirra, Dagný, Ólöf og Klara, þurfa að finna veginn til fram- tíðarinnar sem verður ekki auðvelt án Einars. Megið þið finna styrk og þrek í bar- áttunni framundan. Guðfinna Emma, Ágúst og Emil. Það var í upphafi níunda áratugar síðustu aldar að fyrirtæki mitt, Örn og Örlygur, réðst í útgáfu hinnar miklu Ensk-íslensku orðabókar. Verkefnið var erfitt og umfangsmikið og gerði kröfur til annarra og agaðri vinnubragða en áður höfðu þekkst í íslenskri bókaútgáfu. Það var gæfa fyrirtækisins að fá til starfans fólk sem gerði sér grein fyrir mikilvægi verksins og þeirri ábyrgð sem á herð- um þess hvíldi. Fólk sem hafði hæfi- leika og metnað til að gera bókina þannig úr garði að hún yrði hlífi- skjöldur til varnar íslenskri tungu, einn þáttur í því að ástkæra, ylhýra málið héldi áfram að hljóma, héldi áfram að vera lifandi og sækti styrk í uppruna sinn og lagaði sig með eðli- legum hætti að breyttum tímum. Það var á þessum tímamótum sem Einar S. Arnalds kom til starfa hjá fyrirtæk- inu og átti sinn þátt í verkinu. Hann vann þar við prófarkalestur og sam- ræmingu og lestur flettiorða. Brátt kom í ljós að Einar var einstaklega vandvirkur og athugull og lét ekkert frá sér fara fyrr en hvert atriði hafði verið skoðað og kannað til hlítar. Þegar ég vann að útgáfu ritverks- ins Landið þitt – Ísland hafði ég feng- ið þann sjóðfróða mann, Pál Líndal, til að taka saman ítarlegan kafla um Reykjavík, þar sem efninu var skipað með nýstárlegum hætti í stafrófsröð. Uppsláttarorðin voru götu- og húsa- heiti og örnefni innan borgarlandsins. Þetta mæltist vel fyrir og ég varð fljótlega ákveðinn í að gefa út ítarleg- an bókaflokk um sögu og sérkenni Reykjavíkur, þar sem efninu væri skipað með svipuðum hætti. Páll tók efnið saman en óskaði þess að fenginn yrði sérstakur ritstjóri sem vekti yfir kerfisbindingunni og öllu innra sam- ræmi. Einar var ráðinn ritstjóri og gerði hann fljótlega tillögur að enn fullkomnari kerfisbindingu þar sem götunöfn og húsnúmer yrðu aðallyk- illinn að niðurröðun efnis. Bindin urðu fjögur, þar af þrjú frá hendi Páls Lín- dals, en fjórða og síðasta bindið, Lyk- ilbókina, tók Einar saman. Reykjavík- urbækurnar eru til vitnis um þann mikla fróðleik um sögu og sérkenni Reykjavíkur, sem Páll Líndal bjó yfir og einstæða ritstjórnar- og rithöfund- arhæfileika Einars S. Arnalds sem lyftu verkinu í hæðir. Þegar vinnu við Reykjavíkurbæk- urnar lauk tóku við störf við útgáfu Ís- lensku alfræðiorðabókarinnar. Þar var Einar ritstjóri myndefnis ásamt Sigmundi Einarssyni. Í bókinni eru um 4.500 ljósmyndir, kort og töflur, efni sem sækja þurfti vítt og breitt um heiminn og krafðist oft mikillar leitar og eftirgrennslunar. Reynsla Einars af ritstjórn Reykjavíkurbókanna gerði hann sjálfkjörinn til að ritstýra hinu ein- stæða verki Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, Akureyri – höfuðborg hins bjarta norðurs. Steindór gat sök- um sjúkleika ekki unnið að verkinu með Einari og Ívari Gissurarsyni, myndaritstjóra þess, en lýsti ánægju sinni með þá félaga sem hann hafði kynnst áður hjá fyrirtækinu. Hæfileikar Einars voru farnir að vekja athygli og því var það, að þegar Guðjón Ármann Eyjólfsson skóla- meistari ákvað að láta skrifa sögu Stýrimannaskólans í Reykjavík, þá falaðist hann eftir Einari til starfans. Það var mikið verk sem Einar leysti snilldarlega af hendi, honum og skól- anum til mikils sóma. Á þessum árum átti ég sæti í stjórn Slysavarnafélags Íslands. Þá var farið að ræða um nauðsyn þess að skrifa sögu félagsins, deilda þess og björg- unarsveita. Þegar hér var komið sögu var Einar búinn að afla sér slíkrar við- urkenningar á ritvellinum að hann þótti sjálfsagður til starfans. Eftir nokkurra ára rannsóknir og skrif kom svo út saga félagsins sjálfs og hlaut Einar verðskuldað lof fyrir. Sneri hann sér þá að því að skrifa sögu slysavarnadeildanna og björgunar- sveitanna um allt land. Um svipað leyti veiktist Einar af þeim banvæna sjúkdómi sem að lokum varð honum að aldurtila. Einar S. Arnalds var vænn og vammlaus maður. Hlýr, aðgætinn og tillitssamur við samferðamenn sína. Hógværð var honum samgróin, sam- hliða undirliggjandi mildri kímni sem hann fór vel með en braust fram eins og sólargeisli þegar minnst varði. Fjölskylda Einars og aðstandendur eiga mikils að sakna. Megi minningin um þennan góða dreng vera þeim sól- argeisli á erfiðum stundum. Örlygur Hálfdanarson. Með nokkrum fátæklegum orðum kveð ég fyrrum starfsmann minn og vin Einar Arnalds. Það er erfitt að sætta sig við það, að maður á besta aldri sé kallaður héðan burt frá ólokn- um ætlunarverkum sínum og yndis- legri fjölskyldu. En stundum verður lífið öðruvísi en fyrirhugað er og lítt við ráðið. Ég hitti Einar fyrst, þegar hann kom á skrifstofu mína hjá Slysavarna- félaginu til að ræða hvort hann tæki að sér að skrifa sögu félagsins. Samn- ingar tókust og hann kom til starfa. Það var ekki létt verk að fara í gegn- um öll þau skjöl, myndir og aðra muni sem til voru í skjalageymslu og á háa- lofti höfuðstöðvanna við Grandagarð. Ýmislegt var til sem hafði verið geymt allt frá stofnun félagsins árið 1928. Þá kom sér vel að vera rólegur, yfirveg- aður og þolinmóður eins og Einar var alla tíð. Af mikilli natni fór hann í gegnum hvern skjalakassann á fætur öðrum og reyndi að gera sér grein fyrir því hvort bréfið eða skýrslan hefði sögulegt gildi. Hann nýtti líka hvert tækifæri á landsþingum og öðr- um samkomum félagsins til að hitta menn og ræða við þá almennt um fé- lagið eða einhverja sérstaka atburði í sögu þess. Mjög fljótlega kom í ljós, hversu umfangsmikið verkið var, því var ákveðið að gefa fyrst út sögu heildarsamtakanna. Mannslíf í húfi, saga Slysavarnafélags Íslands, kom út á afmælisdegi félagsins 27. janúar 2001. Einar vann að því að skrifa sögu slysavarnadeilda og björgunarsveita um allt land þegar hann veikist og entist ekki aldur til að ljúka því verki. Það var ómetanlegt að hafa Einar á skrifstofunni, hann var liðtækur á mörgum sviðum. Þær voru ófáar skýrslurnar sem hann las yfir, leið- rétti og betrumbætti. Hann aðstoðaði við útgáfu á árbókum félagsins og samdi alla texta við þá muni sem kom- ið var fyrir á sögusafni félagsins í Garðinum og opnað var í tengslum við 70 ára afmælið 1998. Það var líka gott að setjast niður með honum og fá álit hans á einhverju málefni, sem var í umræðunni. Hann sá oft aðra hlið á málinu sem reyndist hið besta innlegg við lausn mála. Einar leit á veikindi sín sem verk- efni sem þyrfti að vinna vel að og leysa. Það tókst honum í fyrra skiptið þegar hann glímdi við krabbameinið, en því miður ekki núna, þrátt fyrir einlæga trú hans á því að hann yrði orðinn fullfrískur vorið 2005. Þá ætl- aði hann að halda útgáfuhátíð og fagna útkomu bókar með örsögum þeim sem hann hafði skrifað í veik- indum sínum í vetur. En kallið kom og hann lauk ekki ætlunarverki sínu. Að leiðarlokum þakka ég Einari samfylgdina, samstarfið og vináttuna á síðustu árum. Ég sendi Sigrúnu og dætrum mínar innilegustu samúðar- kveðjur og bið góðan guð að styðja þær og styrkja. Esther Guðmundsdóttir. Við máttum kallast ungir menn, við átta sem stofnuðum bókafélagið árið 1986. Stofnunin var samkvæmt áætl- un okkar um fullorðinsfræðslu, menntun og skemmtun til langframa. Og við höfum hist nær mánaðarlega til að skrafa um bækurnar sem við lesum og um lífsins gang. Eftir rúm- lega átján ár og nær tvö hundruð fundi þykjumst við ýmsu vanir. Við erum orðnir svo kirfilega miðaldra að við vitum að það er ekki bara lífið sem hefur sinn gang, heldur dauðinn líka. En óneitanlega sitjum við hnípnir og slegnir við fráfall vinar okkar, Einars Arnalds. Einar setti sterkan svip á hópinn, ekki með yfirlýsingum, stóryrðum eða hlátrasköllum, heldur með því að tvinna rólynda en dálítið strákslega glettni saman við tilfinningu fyrir verðmætum sem mölur og ryð granda ekki. Hann beindi hug okkar farsæl- lega að menntun sem er skemmtileg og skemmtun sem er menntandi. Sér- grein hans í samræðu var meðal ann- ars græskulausar en óborganlegar at- vikasögur af fólki sem hann á einhvern óútskýrðan hátt kannaðist við. En hann var illa heima í dægurs- lúðri og fjasi. Einar var vinur í raun, gaf ráð og aðstoðaði hvarvetna sem hann kom því við. Þeir eru margir, innan og utan okk- ar hóps, sem eiga honum skuld að gjalda fyrir margháttaða hvatningu og gjafmildi á eigin tíma. Honum þótti sælla að gefa en að þiggja. Hann tókst á við sjúkdóm sinn af æðrulausum lífsvilja. Okkur finnst óréttlátt að glæstur sigur hans í þeirri glímu fyrir nokkrum árum hafi ekki skilað honum áratugum af góðu lífi. En Einar sýndi okkur að gleðin yfir því að vera til hverfur ekki þó að grimmilega blási á móti. Hann mætti örlögum sínum aðdáunarlega hug- hraustur. Einar var vinmargur. En okkur var alltaf ljóst að grunnþáttur í tilveru hans var kærleikur hans til fjölskyldu sinnar. Um leið og við þökkum Einari Arnalds samfylgdina sendum við fjöl- skyldunni hjartanlegustu samúðar- kveðjur okkar. Blessuð sé minning hans. Bókafélagsmenn, Einar, Guðmundur, Haukur, Ísleifur, Sigurður, Sigurjón og Valgarður.  Fleiri minningargreinar um Einar S. Arnalds bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.