Morgunblaðið - 30.11.2004, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. NÓVEMBER 2004 15
ERLENT
STJÓRN Alþjóðakjarnorku-
málastofnunarinnar (IAEA) sam-
þykkti í gær ályktun þar sem hún
fagnar því að Íranar hafi hætt að
auðga úran. Mohamed ElBaradei,
yfirmaður IAEA, hafði sagt stjórn-
inni að stofnunin staðfesti að Íranar
hefðu hætt allri auðgun úrans. Áð-
ur hafði stjórn Írans samþykkt að
falla frá þeirri kröfu sinni að 20
skilvindur yrðu undanskildar banni
við auðgun úrans.
Með ályktuninni lauk vikulöng-
um viðræðum sem óttast var að
færu út um þúfur vegna deilu um
hvort skilvindurnar ættu að vera
undir eftirliti IAEA. Í ályktuninni
er ekki lagt til að öryggisráð Sam-
einuðu þjóðanna taki málið fyrir og
ræði refsiaðgerðir gegn Íran eins
og Bandaríkjastjórn hafði viljað.
Íranar neita ásökunum Banda-
ríkjastjórnar um að þeir séu að
reyna að framleiða kjarnavopn og
segjast aðeins ætla að hagnýta
kjarnorkuna í friðsamlegum til-
gangi. Talsmenn Bandaríkja-
stjórnar sögðu í gær að enn væri
ekki hægt að útiloka að mál Írana
yrði lagt fyrir öryggisráðið, öllum
möguleikum væri haldið opnum.
Staðfest að
Íranar hafi hætt
auðgun úrans
Björgunarmenn freistuðu þess í gær
að bjarga tugum hvala sem syntu
upp í fjöru á Tasmaníu í fyrrinótt.
Þar drápust 97 hvalir og höfrungar
sem syntu upp í fjöru um helgina.
Í ljós kom í gærmorgun nýr, 17
dýra flokkur, sem synt hafði á land á
King-eyju í Bass-sundi milli Tasman-
íu og Ástralíu og drepist þar. Áður
var vitað um 80 grindhvali og höfr-
unga sem synt höfðu í dauðann. Dýr-
in 53 sem reynt var að koma á haf út
aftur fundust á Maríueyju sem er um
500 km frá King-eyju. Hér sjást
Alison Joyce og sonur hennar virða
fyrir sér hræin á King-eyju í gær.
Reuters
Reynt að bjarga hvölum
VÍKTOR Jústsjenkó, leiðtogi stjórn-
arandstöðunnar í Úkraínu, hefur
undanfarna mánuði þjáðst af ein-
hverjum ókennilegum veikindum,
sem hafa markað hann mjög og
raunar gerbreytt útliti hans á
skömmum tíma. Sjálfur telur hann,
að úkraínsk yfirvöld hafi eitrað fyrir
honum en læknar jafnt utanlands
sem innan hafa enn enga skýringu
fundið á sjúkleikanum.
Fyrir aðeins nokkrum mánuðum
minnti Jústsjenkó mest á kvik-
myndastjörnu, svo myndarlegur
þótti hann, en nú er andlit hans al-
sett bólum og á því einhver grænn
fölvi. Hann er í senn tekinn og bólg-
inn og vinstri helmingur andlitsins
hálflamaður. Renna oft tár úr
vinstra auga án þess hann fái við það
ráðið.
Frá því í september hefur Jústsj-
enkó tvisvar verið til rannsóknar á
Rudolfinerhaus-einkasjúkrahúsinu í
Vín í Austurríki en læknar þar segj-
ast hvorki geta sannað né afsannað,
að hann hafi orðið fyrir eitrun. Hitt
er aftur vitað, að þeir hafa farið fram
á aðstoð erlendra sérfræðinga við að
kanna hvort sjúkdómseinkennin
megi rekja til eiturs, sem notað er í
lífefnavopnum. Dr. Mark K. Siegel,
aðstoðarprófessor við læknadeild
New York-háskóla, sem hefur kynnt
sér þetta mál, segir það vera hið
furðulegasta. Útilokar hann til dæm-
is, að um matareitrun sé að ræða
enda bendi einkennin til annars auk
þess sem slíkur sjúkleiki gangi yfir á
skemmri tíma. Læknar Jústsjenkós
í Úkraínu eru sammála um það og
segja, að „einhver efni, önnur en
matvæli“ valdi veikindunum.
Læknirinn fékk morðhótanir
Austurrískir fjölmiðlar segja, að
Michael Zimpfer, forstöðumaður
sjúkrahússins í Vín, og dr. Lothar
Wicke, yfirlæknir þess, hafi látið
austurríska saksóknara fá skýrsl-
urnar um Jústsjenkó en ekki er vit-
að hvort það er undanfari einhverrar
rannsóknar eða hvort þær verða síð-
an afhentar úkraínskum yfirvöldum.
Þess má raunar geta, að Wicke fór
fram á lögregluvernd er hann ann-
aðist Jústsjenkó vegna nafnlausra
morðhótana.
John Henry, eiturefnafræðingur
við Imperial College og Lundúnahá-
skóla, segir, að myndir af Jústsjenkó
bendi til, að hann hafi orðið fyrir ein-
hvers konar eitrun.
„Það er í raun ekki um margar
skýringar að ræða. Maður á miðjum
aldri verður ekki svona skelfilega út-
steyptur í bólum bara upp úr þurru,“
sagði Henry.
Dularfull veikindi hrjá Jústsjenkó
Margt bendir til að hann hafi orðið
fyrir torkennilegri eitrun
Reuters
Myndin t.v. af Jústsjenkó var tekin í júlí en myndin t.h. í byrjun nóvember.
Ekki hefur tekist að greina sjúkdóminn eða eitrið sem olli breytingunum.
Vín. AP.
ADRIAN Nastase, forsætis-
ráðherra Rúmeníu, fékk flest
atkvæði í fyrri umferð for-
setakosninga sem fram fór á
sunnudag. Líkt og í grannrík-
inu Úkraínu sakaði stjórnar-
andstaðan stuðningsmenn
forsætisráðherrans um stór-
felld kosningasvik.
Rúmenska dagblaðið
Evenimentul Zilei sagði að
flokkur Nastase forsætisráðherra,
Jafnaðarmannaflokkurinn, hefði beitt
ýmsum brögðum til að hafa áhrif á úr-
slit kosninganna. Pro Democratia,
óháð hreyfing sem sendi þúsundir eft-
irlitsmanna á kjörstaði út um allt
landið, kvaðst hafa ákveðið að hafa
ekki eftirlit með síðari umferð for-
setakosninganna vegna stórfelldra
kosningasvika í fyrri umferðinni. Til
að mynda hefðu margir stuðnings-
menn forsætisráðherrans verið fluttir
með rútum á milli kjörstaða til að þeir
gætu kosið oftar en einu sinni. Þá
sagði hreyfingin að hundruð
kjörseðla hefðu horfið.
Þegar tæpur helmingur
atkvæðanna hafði verið tal-
inn var Nastase með 39%
fylgi og helsti keppinautur
hans, Traian Basescu, með
35%. Kosið verður á milli
þeirra tveggja í síðari um-
ferð kosninganna 12. des-
ember.
Basescu er borgarstjóri Búkarest
og forsetaefni hægri- og miðjumanna
í bandalaginu „Réttlæti og sannleik-
ur“. Bandalagið kvaðst hafa kvartað
yfir kosningasvikum við yfirkjör-
stjórn landsins.
Basescu hét því að uppræta spill-
ingu í stjórnkerfi landsins og bæta
lífskjörin. Ion Iliescu, fráfarandi for-
seti, sem gat ekki sóst eftir endur-
kjöri, kvaðst vera vongóður um að
Nastase færi með sigur af hólmi í síð-
ari umferð kosninganna.
Kjörsóknin var aðeins 44%.
Kosningasvik
í Rúmeníu?
Búkarest. AFP.
Adrian Nastase
DAVID Blunkett, innanríkisráð-
herra Bretlands, hefur fyrirskipað
óháða rannsókn á ásökunum um að
hann hafi misnotað stöðu sína sem
ráðherra til að aðstoða fyrrverandi
ástkonu sína. Blunkett hefur vísað
þessum ásökunum á bug og Tony
Blair forsætisráðherra kvaðst í gær
bera fullt traust til hans.
Ásakanirnar snúast um þriggja
ára ástarsamband Blunketts og
Kimberly Fortier, útgefanda tíma-
ritsins Spectator. Sunday Telegraph
sagði að í tölvupósti frá Fortier væri
því haldið fram að Blunkett hefði
misnotað stöðu sína með því að beita
sér fyrir því í fyrra að filippeysk
barnfóstra hennar fengi vegabréfs-
áritun í Bretlandi. Blunkett kvaðst
hafa falið æðsta embættismanni inn-
anríkisráðuneytisins að velja rann-
sóknarmann sem væri „óháður ráðu-
neytinu og innanríkisráðherranum“.
Rannsóknin á að beinast að því hvort
Blunkett hafi haft afskipti af umsókn
barnfóstrunnar um vegabréfsáritun
og varanlegt dvalarleyfi en breski
Íhaldsflokkurinn hvatti til þess að
aðrar ásakanir á hendur ráðherran-
um yrðu einnig rannsakaðar. Hefur
hann meðal annars verið sakaður um
að hafa leyft Fortier að ferðast með
sér til Spánar í fylgd lífvarða á
kostnað skattgreiðenda.
„Ásakanirnar snúast um misnotk-
un valds, fjármuna og upplýsinga og
rannsóknin ætti að ná til allra þess-
ara þátta,“ sagði David Davis, tals-
maður Íhaldsflokksins. Leiði rann-
sóknin í ljós að Blunkett, sem hefur
verið blindur frá fæðingu, hafi mis-
notað stöðu sína sem ráðherra er tal-
ið að hann þurfi að segja af sér.
Sagður vilja DNA-rannsókn
Þriggja ára ástarsambandi Blunk-
etts og Frontier lauk í sumar, að
sögn breskra fjölmiðla.
Frontier er gift öðrum útgefanda,
á tveggja ára son og er nú að því
komin að ala annað barn. Bresk dag-
blöð segja að ráðherrann hafi óskað
eftir DNA-rannsókn til að ganga úr
skugga um hvort hann sé faðir ann-
ars eða beggja barnanna.
London. AFP.
AP
David Blunkett
Sakaður um að hafa
misnotað stöðu sína
Blair kveðst bera
fullt traust til
Blunketts innan-
ríkisráðherra
RÍKISSTJÓRN Chile hefur ákveðið
að greiða um 28.000 manns bætur
vegna pyntinga í stjórnartíð Aug-
ustos Pinochets hershöfðingja sem
tók völdin í sínar hendur 1973 og
stjórnaði landinu til ársins 1990.
Bæturnar eiga að nema 112.000
pesóum, sem samsvarar 15.000
krónum, á mánuði, eða um 93% af
lágmarkslaunum í landinu.
Ricardo Lagos, forseti Chile,
skýrði frá þessu í fyrrakvöld eftir
að stjórnin birti skýrslu nefndar
sem rannsakaði pyntingarnar. Í
skýrslunni er fjallað um vitnisburð
35.000 manna sem voru fangelsaðir
í stjórnartíð Pinochets. Nefndin
komst að þeirri niðurstöðu að vitn-
isburður 28.000 þeirra væri trú-
verðugur. 94% þeirra sögðust hafa
sætt pyntingum í fangelsi og 3.400
konur sögðust hafa orðið fyrir kyn-
ferðislegri misnotkun.
Í skýrslunni kemur fram að átján
mismunandi aðferðum var beitt við
pyntingar, þar á meðal kæfingu,
raflosti og ítrekuðum barsmíðum.
Aðallega sáu her- og lögreglumenn
um pyntingarnar.
Allt að 3.000 andstæðingar
Pinochets létu lífið eftir valdarán
hersins, þar af 1.198 manns sem
hurfu sporlaust.
Fá bætur vegna
pyntinga í Chile