Morgunblaðið - 04.02.2005, Blaðsíða 40
40 FÖSTUDAGUR 4. FEBRÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Halldór Steinsenfæddist í Ólafs-
vík 5. nóvember
1931. Hann lést á
Vífilsstöðum 30. jan-
úar síðastliðinn. For-
eldar hans voru
Ragnheiður Lilja
Einarsdóttir frá
Hringsdal, f. 14. des-
ember 1909, d. 12.
september 2001, og
Halldór Steinsson,
læknir og alþingis-
maður, f. 31. ágúst
1873, d. 25. desem-
ber 1961.
Halldór kvæntist 8. desember
1956 eftirlifandi eiginkonu sinni
Steinunni Lárusdóttur, f. 18. maí
1935. Foreldar hennar voru Óskar
Lárus Steinsson, kennari í Hafn-
arfirði, f. 21. maí 1903, d. 12. apríl
1954, og Kristín Kristjánsdóttir, f.
10. apríl 1904, d. 6. júní 1999. Börn
þeirra Halldórs og Steinunnar eru:
1) Kristín Lilja, viðskiptafræðing-
ur, MBA, f. 25. maí 1957, maður
og var við framhaldsnám í Dan-
mörku 1960–1967. Hann starfaði
sem sérfræðingur í lyflækningum
og gigtsjúkdómum á Landakots-
spítala, lyflækningadeild 1968–
1995 (1977–1980 sem yfirlæknir).
Hann starfaði jafnframt sem ráð-
gefandi sérfræðingur í gigtsjúk-
dómum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur
og var ráðinn sérfræðingur á end-
urhæfingardeild frá október 1995
til september 1996. Einnig starfaði
hann sem trúnaðarlæknir Sjúkra-
húss Reykjavíkur frá september
1996 til ársins 2000. Jafnframt rak
Halldór sem sérfræðingur eigin
stofu frá janúar 1968 til ársins
2000.
Halldór var í stjórn Lækna-
félags Reykjavíkur 1969–1971 og
varafulltrúi í borgarstjórn Reykja-
víkur fyrir Alþýðuflokkinn 1970–
1974. Í heilbrigðisráði Reykjavík-
urborgar var Halldór 1970–1974,
ritari Gigtsjúkdómafélags ís-
lenskra lækna 1974–1975, formað-
ur Félags íslenskra lyflækna
1976–1978, varaformaður Gigt-
sjúkdómafélags Íslands 1976–1978
og ritari Sérfræðingafélags lækna
1980–1984.
Útför Halldórs verður gerð frá
Garðakirkju í dag og hefst athöfn-
in klukkan 11.
Helmut Schuehlen
læknir, f. 15. febrúar
1958. 2) Vera Ósk,
kennari, f. 14. október
1961. 3) Halldór
Steinn, verslunarmað-
ur, MBA, f. 16. janúar
1969, sambýliskona
hans er Þóra Brynj-
úlfsdóttir, verslunar-
kona, f. 17. júlí 1959,
sonur þeirra er Steinn
Torfi, f. 5. desember
2000. 4) Rut, við-
skiptafræðingur, f. 14.
maí 1977, maður,
Ingvar Guðmundsson,
MSC verkfræði, f. 3. desember
1968. Sonur þeirra er Alex Orri, f.
25. ágúst 2003.
Halldór átti heima í Ólafsvík
fyrstu fjögur ár ævinnar. Hann
fluttist til Reykjavíkur með for-
eldrum sínum 1935. Hann varð
stúdent frá Verslunarskóla Íslands
1951 og lauk læknanámi frá Há-
skóla Íslands 1959. Halldór var
héraðslæknir í Færeyjum í eitt ár
Elsku pabbi, loksins, loksins
ertu frjáls. Síðastliðin ár máttum
við fylgjast með því hvernig Alz-
heimersjúkdómurinn rændi þig
persónuleika þínum.
Hvar skal byrja, ótal minningar
brjótast fram. Aldursmunur okkar
er nokkur, áratugur skilur okkur
flest að í aldri. Minningar okkar
mótast af því hvar þið mamma vor-
uð stödd á ykkar lífsferli. Þegar
eitt okkar var farið að heiman var
annað á uppvaxtarárum. Þó var
þinn kjarni alltaf óbreyttur.
Skarpgreindur, launfyndinn, ag-
aður, víðlesinn og einstaklega
traustur. Þú settir ákveðið viðmið
sem höfum gert að okkar. Öll eig-
um við það sameiginlegt að álit þitt
var okkur mikils virði. Við reynd-
um að gera þig stoltan af okkur og
þú varst örlátur á hrós þegar vel
tókst til.
Þú varst klettur í hafinu, alltaf
gátum við leitað til þín þegar eitt-
hvað bjátaði á.
Sérstaklega minnisstæðar eru
allar þjóðmálaumræðurnar við
kvöldverðarborðið. Mörg heimsins
vandamál voru leyst eftir matinn á
Tjarnarflötinni. Þú hafðir gaman af
því að þjálfa rökhugsun okkar og
hvattir til sjálfstæðrar hugsunar.
Sjálfsagi þinn varð reyndar að
umtalsefni á Flötunum í Garðabæ.
Í tíðaranda þar sem fáir hreyfðu
sig umfram það sem bráðnauðsyn-
legt var, tókst þú upp á því að
sippa á afgirtri veröndinni heima.
Þetta gerðir þú af trúarlegri ná-
kvæmni fimm sinnum í viku. Marg-
ir sem áttu leið hjá ráku upp stór
augu, þar sem hausinn á virðu-
legum lækninum birtist reglulega
yfir grindverkið. Einhverjir tóku
upp á því að telja og við systkinin
vorum iðulega spurð um þessa iðju.
Ekki var laust við stolt.
Menntun okkar var þér kapps-
mál. Þú studdir okkur með ráðum
og dáð. Óteljandi eru þær ritgerðir
sem fóru í gegnum ritskoðunina á
kontórnum heima. Alltaf tókst þér
að koma með gagnlegar ábending-
ar á uppbyggjandi hátt. Helst
hefðum við viljað, elsku pabbi, að
þessi fáu orð færu í gegnum nál-
arauga þitt.
Elsku pabbi, takk fyrir allan
stuðninginn, umhyggjuna og ást-
ina. Þú lifir áfram í okkur.
Rut, Halldór Steinn,
Vera Ósk og Kristín Lilja.
Jæja, núna er þetta búið og við
sem ætluðum að verða a.m.k. 80
ára. Þessi síðastliðnu ár hafa verið
alveg ómetanleg í lífi mínu og hef
ég kynnst þér mun betur en ég
þekkti þig í raun áður. Hlutirnir
gerðust allt of hratt, vinnan hefur
átt hug þinn lungann af ævi þinni
og þegar þú hættir í vinnunni 2000
eftir sjúkdómsgreininguna þá urð-
um við að finna nýtt líf svo aftur
væri gaman að lifa. Það reyndist
auðvelt því að maður varð alltaf
fyrir ákveðnum hughrifum þegar
maður hugsaði hvað væri hægt að
gera fyrir pabba. Pabbi uppfyllti
alveg mínar hugmyndir um hvern-
ig pabbar eiga að vera. Hann hafði
ætíð lausnir á reiðum höndum,
dýptina til að lækna sálarangist,
breiddina til að gera kröfur til lífs-
ins og forvitni hins hugsandi
manns til að prófa nýjungar. Það
var auðvelt að líta upp til hans því
hann uppfyllti allar gæðakröfur,
vel menntaður, hélt sér ungum
með líkamsrækt og skammaði aldr-
ei. Það var kannski af því að ég var
alltaf svo þæg. Mamma sagði alltaf
að þegar ég fæddist, þá hefði pabbi
fyrst verið tilbúinn að verða pabbi,
kominn í stöðu og búinn með há-
skólalesturinn. Svo að ég fékk upp-
eldi sem var engu líkt, fjögur
prinsessuár í Danmörku, eitt í Sví-
þjóð og þó að ég að engu leyti upp-
fyllti þær kröfur sem gerðar eru til
prinsessu, bæði „ljót og feit“, þá
féll það nú fljótt í skuggann af ný-
móðins uppeldishugsun hans að ala
upp pabbastelpur og að fegurð
kæmi innan frá. Honum blöskraði
ósjálfstæði stúlkna og manni var
kennt frá upphafi að hugsa rökrétt,
ekki láta tilfinningar leiða sig í
gönur og ekkert væri þess virði að
fórna heilsunni fyrir það.
Þegar ég sá Papermoon með
Ryan og Tatum ÓNeal minnti það
mig á þegar ég fékk fyrstu galla-
buxurnar mínar sérsendar frá Am-
eríku aðeins fimm ára gömul og
var alveg eins „cool“ og pabbi:
Hvað hann hneykslaði nunnurnar í
Landakoti með buxnaklæddu dótt-
urinni. En þarna strax í upphafi
beygðist braut mín inn á svið sem
mér finnst spennandi í dag, tískuna
eða hvernig sjálfstæði kvenna end-
urspeglast í fatnaðinum sem þær
klæðast. Hans „mottó“ var að eiga
góðan hvunndag, hvers mikilvægi
ég skildi ekki fyrr en í listanámi
síðar meir í Bandaríkjunum, að
hafa tíma til að njóta dagsins, finna
tíðarandann í kaffihúsunum og
andardráttinn í samfélaginu með
lestri fagtímarita og dagblaða. Að
afköst næsta dags felast í góðu
stundum fyrri dags og hve tíminn
er í raun afstæður. Ófáar voru
stundirnar þar sem hann las fyrir
okkur úr dagblöðum texta sem
hafði misfarist eða komu ekki
hugsun höfundar til skila, gagn-
rýndi og útskýrði fyrir okkur á
kaldhæðinn hátt hvernig myndi
fara fyrir þjóðfélaginu ef allir
hugsuðu svona. Svo að við pöss-
uðum okkar að hugsa aldrei eins
og hinir. Samt vorum við frekar
hefðbundin en frumleg hugsun var
gulls ígildi.
Þegar eldri systir mín og ég
ákváðum að taka sumarvinnu í
fiskvinnu á Vestfjörðum ’76
(heimaslóðir móður hans) gaf hann
okkur langan fyrirlestur um nyt-
semi þess að kynnast undirstöðu-
atvinnuvegi íslenska hagkerfisins
og þegar systir mín hætti við, gátu
tíu villtir hestar ekki haldið aftur
af mér að fara samt eftir þennan
innblásna fyrirlestur.
Svona var pabbi, alltaf fullur
hugmynda og hugsjóna um betra
líf, stjórnaði og stofnaði Lækna-
miðstöð sem komst næst því að
fullnægja hans hugmyndum um
sjálfstæðan rekstur í heilbrigðis-
kerfinu. Alltaf örlátur, þegar mað-
ur bað um 1000 krónur fékk maður
fimm sinnum meira og alltaf reikn-
að ríflega þegar maður fékk pen-
ing fyrir utanlandsferðir enda var
ég líka alltaf sjálfsöruggasta stúlk-
an í hópnum.
Hann var sem kletturinn í haf-
inu, lét aldrei stjórnast af ódýrum
gildismötum samtímans, heldur
hafði sín eigin viðmið sem við í
fjölskyldunni nutum góðs af.
Elsku pabbi minn, ég vona að
þín hugsun dreifist yfir alla jörð og
hvetji alla menn til betra og mann-
úðlegra lífs því að góð hugsun mun
svo sannarlega lifa.
Þín dóttir
Vera.
Allt hefur sinn tíma, upphaf og
endi. Það kom okkur ekki á óvart,
sem til þekktum, að mágur og svili
okkar Halldór hefði kvatt þennan
heim. Hann hafði í nokkur ár átt
við erfiðan sjúkdóm að stríða.
Upphaflega leyndi sjúdómurinn á
sér en með tímanum rændi hann
líkamlegu og andlegu þreki hans.
Halldór hefur um hálfrar aldar
skeið tilheyrt fjölskyldu okkar.
Ung að árum kynntust þau Unna
(Steinunn) og Halldór og gengu í
hjónaband 1956. Þá var Halldór
langt kominn í læknisfræði og
Unna var við nám í lyfjafræði.
Halldór var glæsilegur á velli og
góðum gáfum gæddur. Mikið jafn-
ræði var með þeim hjónum. Allt
frá upphafi kynna okkar fór vel á
með okkur og var mikið og gott
samband milli fjölskyldna okkar.
Við heimsóttum þau til Danmerk-
ur þegar Halldór var í framhalds-
námi og áttum með þeim yndisleg-
ar stundir. Eftir að Halldór lauk
námi kom fjölskyldan heim. Þá lá
leiðin vestur á Þingeyri, en þar
starfaði Halldór tímabundið. Börn-
in okkar rifja oft upp ánægjulega
dvöl sína í læknabústaðnum en
þangað buðu þau þeim að koma og
dvelja.
Fljótlega eftir heimkomuna
reistu þau sér heimili á Tjarnarflöt
í Garðabæ, þar sem börn þeirra
nutu ástríkis og skjóls og síðar
barnabörn og tengdabörn á þeirra
glæsilega heimili.
Halldór var traustur og vand-
aður maður sem átti auðvelt með
að hlusta. Það kom sér einkar vel í
því vandasama starfi sem hann
valdi sér. Við fjölskyldan nutum
þess að hafa lækni í fjölskyldunni.
Það var sama hvort það var á
nóttu eða degi, alltaf var Halldór
til reiðu. Fyrir allt þetta erum við
innilega þakklát.
Í einu vetfangi breyttist allt.
Halldór sem áður hafði verið stoð
og stytta svo margra, þurfti nú á
stuðningi að halda sjálfur. Unna
hætti þá að vinna utan heimilis til
þess að geta verið sem mest með
honum og stutt hann. Hún vissi að
sá tími var naumur sem þau gátu
lifað saman nokkurn veginn eðli-
legu lífi. Þetta gerði hún með svo
glöðu geði til síðustu stundar að
aðdáunarvert er. Aldrei æðruorð.
Nú við fráfall Halldórs verða af-
mælis- og jólaboð svipminni, því
alltaf gat Halldór laumað ein-
hverju skemmtilegu inn í umræð-
urnar. Þar naut hann sín, innan
um fjölskyldu og vini. Við hjónin
og fjölskylda okkar sendum elsku
Unnu, börnum, tengdabörnum og
barnabörnum innilegustu samúð-
arkveðjur okkar. Með þakklæti og
virðingu kveðjum við góðan vin.
Guð blessi minningu hans.
Elín og Trausti.
HALLDÓR
STEINSEN
Morgunblaðið birtir minningar-
greinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgunblaðsins:
mbl.is (smellt á reitinn Morgun-
blaðið í fliparöndinni – þá birtist
valkosturinn „Senda inn minning-
ar/afmæli“ ásamt frekari upplýs-
ingum).
Skilafrestur Ef birta á minning-
argrein á útfarardegi verður hún
að berast fyrir hádegi tveimur
virkum dögum fyrr (á föstudegi ef
útför er á mánudegi eða þriðju-
degi). Ef útför hefur farið fram eða
grein berst ekki innan hins tiltekna
skilafrests er ekki unnt að lofa
ákveðnum birtingardegi. Þar sem
pláss er takmarkað getur birting
dregist, enda þótt grein berist áð-
ur en skilafrestur rennur út.
Myndir Ef mynd hefur birst í til-
kynningu er hún sjálfkrafa notuð
með minningargrein nema beðið sé
um annað. Ef nota á nýja mynd er
ráðlegt að senda hana á mynda-
móttöku: pix@mbl.is og láta um-
sjónarmenn minningargreina vita.
Minningargreinar
✝ Svava Skúladótt-ir fæddist á Ísa-
firði 30. nóvember
1909. Hún lést á
Dvalar- og hjúkrun-
arheimilinu Grund í
Reykjavík 23. janúar
síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
hjónin Sigrún Tóm-
asdóttir húsmóðir, f.
27. júní 1868 á Ísa-
firði, og Skúli Ein-
arsson útgerðarmað-
ur, f. 17. okt. 1874 á
Sandi í Aðaldal. Þau
skildu. Alsystkini
Svövu voru: Amalía, f. 1889, d.
1891, Amalía Hallfríður, f. 1891,
d. 1972, Tómasína, f. 1893, d.
1981, Guðrún, f. 1896, d. 1950,
Einar Geirtryggur, f. 1899, d.
1980, Helgi, f. 1901, d. 1928,
Dómhildur, f. 1903, d. 1992, og
Hulda, f. 1907, d. 1962. Hálf-
systkini Svövu, börn
Skúla Einarssonar
og Helgu Þórodds-
dóttur, eru: Magn-
ús, f. 1930, d. sama
ár, Halla Þórey, f.
1932, Skúli, f. 1934,
og Sigurfljóð, f.
1936.
Svava ólst upp í
foreldrahúsum á
Ísafirði og síðar í
Reykjavík. Eftir lát
móður sinnar, 1937,
bjó hún lengst af hjá
systur sinni, Amal-
íu, og manni hennar
Halli Hallssyni tannlækni í
Reykjavík. Frá 1972 var hún til
heimilis í Hátúni 10a en síðustu
árin á Dvalar- og hjúkrunar-
heimilinu Grund í Reykjavík.
Útför Svövu verður gerð frá
Fossvogskapellu í dag og hefst
athöfnin klukkan 15.
Svava móðursystir mín er látin.
Frá því að ég man eftir mér hefur
hún tilheyrt okkur. Hún fæddist á
Ísafirði en flutti ung til Reykjavík-
ur. Hún bjó í mörg ár hjá systur
sinni Amalíu og manni hennar
Halli Hallssyni tannlækni og
hjálpaði til á heimilinu þar til
Amalía dó.
Hún fékk sína eigin íbúð í Há-
túni 10a hjá Öryrkjabandalaginu
og þar leið henni vel. Hún hafði
alltaf sterkar taugar til Ísafjarðar.
Hún fór þangað á hverju sumri og
bjó hjá Láru og Gunnlaugi. Hún
fór oft inn í skóg að tína ber og
heimsótti einnig skyldfólk sitt
bæði á Ísafirði og á Núpi í Dýra-
firði.
Svava var mjög frændrækin, kát
og létt í lund. Það var alltaf gaman
þegar hún kom í heimsókn á
Sunnuhvol, mikið hlegið og skraf-
að. Hún þurfti alltaf að hafa nóg
að gera og komst hún í tómstunda-
starf aldraðra á Norðurbrún þar
sem hún bjó til styttur úr leir og
tré og málaði einnig vatnslita-
myndir. Þessir hlutir hafa verið á
samsýningum naivista, t.d. í Ný-
listasafninu, í Gerðubergi og norð-
ur á Svalbarðsströnd og hefur
Níels Hafstein haft umsjón með
þessum sýningum. Hún fór inn á
Norðurbrún alla daga sem unnið
var á meðan heilsan leyfði. Síðustu
árin hefur hún verið á Dvalar- og
hjúkrunarheimilinu Grund í
Reykjavík.
Nú hefur Svava fengið hvíldina
og ég og mín fjölskylda eigum góð-
ar minningar um frænku okkar.
Hvíl í friði.
Herdís.
Ömmusystir okkar hún Svava er
nú látin, 95 ára gömul. Svava var
óneitanlega stór hluti af lífi okkar
systra, órjúfanlegur þáttur æsku
okkar, náfrænka. Við munum ætíð
minnast hennar á þönum við að
hjálpa mömmu með heimilið, að
ráðskast með okkur litlar, bakandi
hálfmána með sultu, spjallandi og
hlæjandi með rótsterkt kaffi í
bolla. Hvert haust hlaðin berjum
eftir árlega för vestur á æskuslóð-
irnar; bláber með rjóma og mikl-
um sykri. Svava frænka var góð
við okkur og hjálpsöm, kát og
kvik, skapheit stundum. Hún var
alltaf að, féll ekki verk úr hendi og
við ættingjarnir eigum öll gripi úr
þessum sístarfandi höndum;
hekluð, máluð, úr leir eða útskorin.
Hún var listakona og tók þátt í
samsýningum naívista, það voru
stórar stundir og minningar um
þær eru fjölskyldunni kærar.
Svava var hjá mömmu og okkur
á jólunum. Hvern aðfangadag
mætti hún með bílfarm af gjöfum
til að opna svo við urðum grænar
af öfund; hún átti marga ættingja
og var í góðu sambandi við þá. Það
voru skrítin jól fyrir fáeinum árum
þegar hún hætti að koma, hún var
gömul og þreytt, allt breytist.
Svava var fulltrúi sinnar kyn-
slóðar í lífi okkar systra, ómet-
anleg tenging við fyrri tíma sem
við hefðum annars orðið af. Það er
notalegt að hafa þekkt hana, konu
sem lifði á fyrri hluta síðustu aldar
og talaði með dönskuslettum. Nú
er hún farin og við kveðjum með
söknuði og hlýju.
Hildur og Eyrún.
SVAVA
SKÚLADÓTTIR