Morgunblaðið - 05.03.2005, Side 58

Morgunblaðið - 05.03.2005, Side 58
58|Morgunblaðið Hafliði Ragnarsson í Mosfellsbakaríi seg- ist vera orðinn algjör súkkulaðidrengur og lítið í því að baka. Hann fékk því yfirbak- arann, Davíð Frey Jóhannsson, til að hjálpa sér við smábrauðbakstur fyrir Fermingarblaðið. Engin lögmál – bara leikur Hafliði segir engin lögmál gilda þegar bera á fram brauð, hvorki hvað varðar baksturinn né meðlætið. Það sé um að gera að nýta það sem til er í ísskápnum og þess vegna henda afgangi af pestói út í deigið, hálfri fetakrukku ofan á, lauk, tómötum eða öðru grænmeti, nota það krydd sem til er í kryddhillunni og leika sér þannig. Alls kyns pylsur og ostar eru góð með brauðinu – og hvers vegna ekki að bera fram sardínur? Svo er það auðvitað maukið sem er svo vinsælt núna, eins og pestó, tapenade, papriku- og þistilhjartamauk. Hafliði segir að tilvalið sé að kaupa slíkt mauk, en jafnvel bragðbæta það eftir smekk. Hann segir gott að hafa sítrónuolíu á borðinu, hún sé bæði góð út á salöt og á brauðið. Þá blandar maður góðri ólífuolíu saman við hreinan sítrónusafa. Reyndar notar hann líka vínberjasteinaolíu, hún tekur betur við sítrónunni en ólífuolían. Þá klikka góðar ólífur auðvitað aldrei og svo eru ýmiskonar góð salöt og einföld tilvalin með, og Hafliði laumaði að okkur uppskrift að einu slíku ásamt þessum girnilegu ítölsku brauðuppskriftum. Focaccia-brauð 250 g vatn 500 g hveiti 50 g ólífuolía 1 tsk salt 15 g pressuger Smávegis ferskt eða þurrkað rósmarín (má að sjálfsögðu nota annað krydd). Hnoðið deigið saman eins og venjulegt brauðdeig, leyfið að standa í skál 30 mín. og hnoðið upp aftur og látið standa í 15 mín. í viðbót. Skiptið deiginu í þrjú jöfn stykki þrýstið út á plötu eða í form og látið hefast. Penslið svo brauðið með ólífuolíu og setjið á það krydd eða grænmeti og ost eft- ir smekk. Bakið brauðið við 230°C í 10–15 mín. Gott ráð við hefingu: Sjóðið vatn í potti og setjið brauðið á plötunni inn í kaldan ofninn, setjið pottinn með heitu vatninu neðst í ofninn og lokið, þá myndast hiti og raki sem flýtir fyrir hefun og heldur raka í deiginu. En taka þarf mið af tíma sem tek- ur svo að hita upp ofninn. Þetta er tilfinn- ing sem eingöngu kemur með æfingunni. Grissini-brauðstangir 250 g vatn 520 g hveiti 65 g ólífuolía 1 tsk salt 10 g þurrger Hnoðið deigið eins og venjulegt brauð- deig, leyfið því að standa í skál 30 mín., hnoðið upp aftur og leyfið að standa í 15 mín. í viðbót. Skiptið deiginu í 30–40 bita eftir því hvað þið viljið hafa stangirnar stórar. Rúllið út og veltið upp úr kryddi eða osti eftir smekk. Þurrhefið í eldhúsinu með röku stykki yfir. Forhitið ofninn í 210 C°, lækkið síðan niður í 180 C° og bakið í 10–15 mín eða þar til fallegum lit er náð. Brauðstangirnar geymast vel ef þær eru settar í box. Flott er að binda þær nokkrar saman með basti til að skreyta borð með. Jógúrtsalat 150 g hrein jógúrt 1 tsk tómatkraftur 1 tsk eplaedik salt og pipar púrrulaukur rauðlaukur 100 g nýrnabaunir baunaspírur Hrærið saman jógúrt, tómatkrafti og eplaediki, kryddið með salti og pipar. Blandið nýrnabaunum, rauðlauk, púrru- lauk og baunaspírum saman við. Morgunblaðið/Golli Gott brauð og flott Framandi brauð er flott á fermingarborðið. Öllum finnst það gott, það passar við allt og getur þess vegna verið uppistaðan í réttunum. Og svo auðvitað fínasta borðskreyting.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.