Morgunblaðið - 06.06.2005, Síða 4
4 MÁNUDAGUR 6. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Stökktu til
Costa del Sol
22. júní
frá kr. 39.990
Verð kr. 49.990
Netverð á mann, m.v. 2 í stúdíó/íbúð.
Flug, gisting, skattar og íslensk farar-
stjórn. Stökktu tilboð 22. júní í viku.
Verð kr. 39.990
Netverð á mann, m.v. hjón með 2 börn,
2-11 ára, í íbúð. Flug, gisting, skattar
og íslensk fararstjórn.
Stökktu tilboð 22. júní í viku.
Munið Mastercard
ferðaávísunina
Ótrúlegt tilboð til Costa del Sol
þann 22. júní. Njóttu lífsins á þess-
um vinsælasta áfangastað Íslend-
inga í sólinni. Þú bókar og tryggir
þér síðustu sætin og 4 dögum fyrir
brottför færðu að vita hvar þú
býrð.
Skógarhlíð 18 • sími 595 1000 • Akureyri sími 461 1099 • www.heimsferdir.is
Aukaflug - örfá sæti laus
ÁRNI M. Mathiesen sjávarútvegs-
ráðherra gerði nýliðun þorskstofns-
ins að umtalsefni sínu í ávarpi við há-
tíðahöld sjómannadagsins í
Reykjavík í gær. Ekki hefði tekist að
stækka þorskstofninn eins og stefnt
hefði verið að. Þegar kvótakerfið
hefði verið tekið upp árið 1983 hefði
stofninn verið 803 þúsund tonn en
854 þúsund tonn á síðasta ári. Árið
1973 hefði stofninn talið 839 þúsund
tonn og í kjölfarið hefði Hafrann-
sóknastofnun gefið út „svörtu
skýrsluna“ sem hefði verið upphaf
umræðu um stjórn veiðanna.
„Þá má segja að við séum nú rúm-
um 30 árum síðar ennþá í sama
farinu,“ sagði Árni og benti á að tíu
árin þar á undan, eða 1963, hefði
þorskstofninn verið um 1,3 milljónir
tonna og 1955 um 2,3 milljónir tonna.
Á þessu tímabili hefði skaðinn orðið
mestur og „við höfum því miður ekki
náð okkur á strik síðan“.
Árni sagði að þó að við hefðum náð
árangri í mörgu tilliti með stjórn
fiskveiða þá hefði aldrei tekist að
beita því þannig að sett markmið um
samdrátt í þorskveiðum hefði náðst
og munaði þá stundum talsvert
miklu.
„Hvað er maðurinn að fara?“
„Nú kynni einhver að spyrja, hvað
er maðurinn að fara? Á áttunda og
níunda áratugnum veiddum við
langtum meira en á þeim tíunda og á
þeim árum sem nú er liðinn af fyrsta
áratug 21. aldarinnar. Ástæðan er sú
að á þessu tímabili á áttunda og
framan af níunda áratugnum til árs-
ins 1984 var nýliðunin miklu betri en
hún hefur verið undanfarið, en á ár-
unum 1985–1996 var hún mjög léleg.
Með hugtakinu nýliðun er átt við
fjölda þeirra fiska sem fæðast tiltek-
ið ár sem skilar sér sem 3 ára nýliðar
inn í veiðistofninn, en á þeim aldri
hefur lang stærsti hluti náttúrulegra
affalla átt sér stað. Við fengum síðan
fjögur þokkaleg ár frá 1997–2000
hvað nýliðun varðar og það er und-
irstaða tiltölulega góðrar veiði nú um
stundir en því miður benda niður-
stöður togararallsins í ár eindregið
til þess að árgangar 2001–2004 séu
mun lélegri. Staðan er þó ekki sú að
stofninn sé að hrynja. Líklegra er að
næstu árin verðum við í svipuðu fari
og þau ár sem liðin eru af þessari
öld,“ sagði Árni ennfremur.
Meiri nýliðun ýsunnar
Sjávarútvegsráðherra sagði það
ljóst að í 30 ár hefði veiðin og stofn-
stærðin algerlega ráðist af nýliðun
einstakra ára. Stóra spurningin væri
hvaða líffræðilegu þættir réðu nýlið-
uninni og hvernig mætti bæta hana.
„Hvernig stendur á því að nýliðun
í ýsu er orðin meiri en nýliðun í
þorski? Hvernig stendur á því að
hrygningarstofn ýsu slagar í stærð
hrygningarstofns þorsksins? Er það
stærð hrygningarstofnsins sem
skiptir máli eða skiptir samsetning
hrygningarstofnsins enn meira máli?
Skipta auknar veiðar loðnu á þessu
tímabili einhverju máli?“ spurði Árni
og taldi að við þessum spurningum
þyrfti að fá svör. Boðaði hann ráð-
stefnu í haust um þorskstofninn á
vegum sjávarútvegráðuneytisins og
Hafrannsóknastofnunar.
Í HUGUM flestra er sumarið kom-
ið, enda hefur sólin skinið glatt á
landsmenn undanfarið. Grunn-
skólabörn eru þó fæst komin í frí,
þar sem skólastarfið teygir sig inn
í sumarið. Eftir að skólaárið var
lengt í kjölfar kjarasamninga kenn-
ara, hefur víða skapast hefð fyrir
því að brjóta upp skólastarfið síð-
ustu dagana eða vikurnar. Morg-
unblaðið hafði samband við nokkra
skólastjóra og spurði þá út í vor-
starfið og skoðanir þeirra á núver-
andi fyrirkomulagi.
Skiptar skoðanir
Þemadagar, vettvangsferðir,
námskeið og önnur óhefðbundin
kennsla er viðhöfð í flestum skólum
eftir að prófum lýkur á vorin. Víða
eru svokallaðir skertir dagar líka
nýttir þessa síðustu daga skólaárs-
ins, þ.e. börnin eru aðeins hluta úr
degi í skólanum. Þetta á að
minnsta kosti við um marga skóla í
Reykjavík.
Skiptar skoðanir eru um ágæti
þessa fyrirkomulags. Margir for-
eldrar vilja að skólanum ljúki fyrr
og börnin geti hlaupið frjáls út í
sólina, aðrir eru óánægðir með
skerta daga og enn öðrum líkar vel
að skólastarfið sé brotið upp með
þessum hætti. Ýmsar hugmyndir
hafa heyrst um hvernig mætti
breyta fyrirkomulaginu. Sumum
finnst eðlilegra að dreifa tilbreyt-
ingunni betur yfir skólaárið í stað
þess að margir hinna óhefðbundnu
skóladaga séu rétt fyrir skólaslit.
Þá hafa sumir skólar sleppt því að
gefa nemendum vetrarfrí og í stað-
inn slitið skólanum fyrr á vorin.
Þetta á ekki síst við á landsbyggð-
inni, til dæmis þar sem vinna í
sjávarútvegi fer á fullt um miðjan
maí.
Fólk misopið fyrir
óhefðbundnu skólastarfi
Karl Erlendsson, skólastjóri
Brekkuskóla á Akureyri, telur
þetta jákvæða þróun og vill ekki að
skólanum verði slitið fyrr á vorin.
„Skólarnir eiga að geta lagað sig að
þessu. Það fer gott starf fram á
þessum aukadögum. Þetta eykur
sveigjanleika og möguleika til fjöl-
breytni í skólastarfinu.“ Karl getur
hins vegar hugsað sér að á skóla-
árinu, til dæmis í október, yrðu
gefin lengri frí eins og gert er víða
erlendis, en í staðinn kennt lengur
fram á sumar. „Það er engin
ástæða til að skólinn kappkosti að
stytta og þjappa saman starfi sínu,
það er frekar ástæða til að dreifa
því.“ Hann segir einnig að fólk sé
misopið fyrir óhefðbundnu skóla-
starfi, en kannski hafi skólarnir
ekki kynnt þetta nógu vel. Sá hugs-
unarháttur að skólastarf eins og
hér um ræðir sé lausara í reip-
unum en annað og að skólinn sé
jafnvel hugsaður sem „geymsla“
fyrir a.m.k. yngri börnin, segir
hann vera frá gamalli tíð. „Skólinn
þarf að taka á þessu og breyta
svona skoðunum. Það er sjálfsagt
að brydda upp á ýmsu og tengja
skólastarf meira vettvangi.“
Með hækkandi sól leitar
hugurinn út
Leifur S. Garðarsson stýrir Ás-
landsskóla í Hafnarfirði. Hann tek-
ur undir að þessir óhefðbundnu
dagar séu mikilvægir og segir að
þá læri börnin margt gagnlegt.
Hann nefnir sem dæmi fjármála-
námskeið sem haldið var fyrir elstu
nemendur skólans og að einn ár-
gangurinn hafi tekið skólalóðina í
gegn. Leifur telur hins vegar að al-
ger óþarfi hafi verið að lengja
skólaárið. „Ég sé ekki alveg til-
ganginn með því. Það er allt í lagi
að börnin hætti aðeins fyrr í skól-
anum, enda er líka lærdómsríkt að
vera á leikjanámskeiðum, í fót-
boltaskóla og í sveit svo dæmi séu
tekin. Með hækkandi sól leitar
hugurinn annað en í skólastofuna.“
Mikilvægt að hafa góða
dagskrá fyrir nemendur
Bent hefur verið á að nemendur
hafi fengið frí úr skólum á þessum
tíma vegna vinnu og þykir sumum
það óeðlilegt. Skólaganga barna er
þó samkvæmt grunnskólalögum al-
gerlega á ábyrgð foreldra. Sigþór
Magnússon, skólastjóri Breiðholts-
skóla í Reykjavík, segir að verið sé
að samræma reglur um leyfisveit-
ingar í skólum höfuðborgarinnar.
Hann segir jafnframt að leitað hafi
verið í að nýta skerta skóladaga á
vordögum, þar sem skólastarf inn-
andyra verði erfiðara þessar sól-
ríku vikur. Hann telur óeðlilegt að
halda börnunum í skólanum nema
almennileg dagskrá sé í boði fyrir
þau og varðandi vetrarfrí segir
hann eiga sér stað nokkra tog-
streitu. „Ákveðinn hópur foreldra
óskar eftir vetrarfríum en aðrir eru
mjög ósáttir við þau, enda er að-
staða mjög mismunandi hjá for-
eldrum með að útvega pössun fyrir
börnin og fleira.“ Aðspurður um
hvað hann haldi að krakkarnir vilji
segist hann ekki viss. „En þegar
það er bjart og fallegt veður langar
alla út.“
Óhefðbundnara skólastarf með vorinu
Eftir Hrund Þórsdóttur
hrund@mbl.is
Morgunblaðið/Ásdís
Undir lok skólaárs færist kennsla grunnskólanna að miklu leyti út fyrir kennslustofurnar og tekið upp á ýmsu.
Skiptar skoðanir skólastjórnenda og foreldra um lengingu skólaársins
ÉG HEF í sjálfu sér ekkert á móti
því að leitað sé fjölbreyttra leiða í
kennslu og að gott veður eins og er
þessa dagana sé til dæmis nýtt í
náttúrufræðikennslu,“, segir Har-
aldur Ólafsson, veðurfræðingur.
Hann er þekktur fyrir að hafa
áhuga og skoðanir á skólamálum og
rak meðal annars skóla fyrir hóp
grunnskólabarna á heimili sínu í
kennaraverkfallinu í haust.
„Það er hins vegar mjög mikil-
vægt að óhefðbundin kennsla verði
markviss og að börnin séu að leysa
verkefni sem þau læra eitthvað af.
Það er alltaf hætta á að svona lagað
leysist upp í leikaraskap. Bæði börn
og kennarar þurfa að geta litið aft-
ur og séð að árangur hafi náðst í
þeim skilningi að nemendur hafi
fengið einhverja áþreifanlega
þekkingu eða færni út úr náminu.“
Aðspurður um hvað honum finn-
ist um þá hugmynd að loka frekar
skólunum fyrr á vorin og hleypa
börnunum út í sólina segir hann það
vera sjónarmið sem hann skilji vel.
„Ég hefði örugglega aðhyllst það
þegar ég var í skóla sjálfur. Því er
hins vegar ekki að neita að vel
heppnuð kennsla utan skólans, til
dæmis úti í náttúrunni, getur skilað
mjög miklu.“
Einhver brögð eru að því að börn
hafi viljað fá frí í skólanum á þess-
um tíma af því þeim finnist þau ekki
vera að gera neitt hvort sem er.
Haraldur bendir í því sambandi á
að börn séu mjög misjöfn. „Sum
þurfa á þessu að halda, en önnur
eru á bólakafi í verkefnum sem
gefa jafnvel meira af sér en mark-
laus útivera.“
Haraldur segir að tilhneigingin
hafi áður verið að lengja skólaárið
en að þær raddir séu sífellt að verða
háværari sem segi að ekki megi
stytta sumarfríið meira en orðið er.
„Ég held að ekki verði gengið mikið
lengra í að stytta sumarfríið en nú
þegar hefur verið gert.“
Mikilvægt að óhefðbundin kennsla sé markviss
Morgunblaðið/Golli
Haraldur Ólafsson efndi til kennslu
fyrir krakka í kennaraverkfallinu.
Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra fjallaði í
sjómannadagsræðu um nýliðun þorskstofnsins
Stofninn ekki eins
stór og að var stefnt
Morgunblaðið/Golli
Árni M. Mathiesen sjávarútvegs-
ráðherra flytur ávarp sitt í gær.