Morgunblaðið - 06.06.2005, Side 14
14 MÁNUDAGUR 6. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
INDVERSKUR skóladrengur í
borginni Kalkútta ber grímu með
mynd af tígrisdýri til að vekja at-
hygli mikilævgi þess að huga að
verndun þeirra á alþjóðlega um-
hverfisdeginum í gær. Deginum
var fagnað víða um heim en Sam-
einuðu þjóðirnar komu honum á
fót árið 1972. Dagurinn var að
þessu sinni haldinn undir yfir-
skriftinni Grænar borgir. Með því
var ætlunin að beina sjónum
manna að vaxandi umhverfis-
vandamálum í borgum.
Í gær var hugað að leiðum til að
gera borgir umhverfisvænni og
„grænni“. m.a. með gróðursetn-
ingu trjáa og með því að vekja fólk
til umhugsunar um allan þann úr-
gang sem það losar sig við.
Reuters
Alþjóðlega umhverfisdeginum fagnað í gær
FLEST sýnist benda til þess að ólgan og óvissan
muni enn aukast innan Evrópusambandsins
(ESB) í vikunni. Upp kann að blossa deila um
hvernig bregðast beri við þeirri ákvörðun kjós-
enda í Hollandi og Frakklandi að hafna nýrri
stjórnarskrá sambandsins. Fyrstu merki þessa
ágreinings gætu orðið greinanleg í dag þar sem
gengið er að því sem vísu að bresk stjórnvöld lýsi
yfir því að staðfestingarferli vegna stjórnarskrár-
innar þar í landi hafi verið frestað um ótiltekinn
tíma.
Fyrir liggur að Jack Straw, utanríkisráðherra
Bretlands, hyggst í dag á þingi tjá sig um hvernig
stjórnvöld ráðgera að bregðast við þeirri nýju
stöðu sem skapast hefur eftir þjóðaratkvæða-
greiðslurnar í Hollandi og Frakklandi. Ólíklegt
má telja að Straw lýsi beinlínis yfir því að hætt
hafi verið við þjóðaratkvæði í Bretlandi. Hins veg-
ar er trúlegt að hann skýri frá því að ákveðið hafi
verið að fresta staðfestingarferlinu vegna stjórn-
arskrárinnar. Og tímamörk verða tæpast nefnd.
„Við teljum rétt að stöðva ferlið og íhuga málið,“
sagði Douglas Alexander, Evrópuráðherra
bresku ríkisstjórnarinnar, í liðinni viku. Tals-
maður Tony Blair forsætisráðherra lét samhljóða
ummæli falla í gær.
Þessi afstaða bresku ríkisstjórnarinnar gagn-
vart stjórnarskránni og staðfestingarferlinu er
greinilega í engu samræmi við yfirlýsingar Evr-
ópuleiðtoga á undanliðnum dögum.
Staðfesting í nafni lýðræðis
Heittrúarmenn á sviði Evrópusamrunans á
borð við Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra
Lúxemborgar, Jose Manuel Barroso, forseta
framkvæmdastjórnar ESB, og Josep Borrell, for-
seta Evrópuþingsins, hafa lagt áherslu á að
stjórnarskráin heyri ekki sögunni til og halda beri
staðfestingarferlinu áfram í ríkjum Evrópusam-
bandsins þrátt fyrir niðurstöðuna í Frakklandi og
Hollandi.
Stjórnarskrársáttmálinn þarf að hljóta stað-
festingu í öllum 25 ríkjum ESB og því liggur fyrir
að hann mun að óbreyttu ekki öðlast gildi. Margir
telja því að stjórnarskráin nýja sé í raun „dauður
bókstafur“. Því sé með öllu óþarft og í raun frá-
leitt að halda þessu ferli áfram.
Leiðtogarnir sem nefndir voru hér að ofan og
aðrir ákafir Evróputrúarmenn telja hins vegar
beinlínis ólýðræðislegt að hætta nú staðfesting-
arferlinu. Þeir benda á að sáttmálinn hafi verið
staðfestur í níu ríkjum. Aðeins tvær þjóðir hafi
sagt nei og því sé beinlínis ólýðræðislegt að af-
staða þeirra vegi í senn þyngra en afstaða níu
ríkja og komi í veg fyrir að 14 ríki fari í gegnum
staðfestingarferlið.
Þessi afstaða var ítrekuð á fundi þeirra Ger-
hards Schröders, kanslara Þýskalands, og Jacq-
ues Chiracs, forseta Frakklands, í Berlín á laug-
ardag. Talsmaður kanslarans lýsti niðurstöðunni
á þann veg að sérhverju ríki ESB bæri að taka af-
stöðu til stjórnarskrárinnar. Þetta væri í senn
réttur og skylda.
Jean-Claude Juncker hefur á undanliðnum dög-
um haldið dauðahaldi í yfirlýsingu sem bætt var
við stjórnarskrána er hún var samþykkt á leið-
togafundi í Rómarborg í október. Þar segir að hafi
80% landa ESB samþykkt stjórnarskrána tveim-
ur árum frá undirritun hennar og hafi einhver
ríkjanna „átt í erfiðleikum“ með að fá hana stað-
festa skuli efna til leiðtogafundar og ræða þá
stöðu. Þetta kýs Juncker að túlka á þann veg að
gert sé ráð fyrir því að staðfestingarferlinu verði
haldið áfram þó svo allt að fimm ríki kunni að
leggjast gegn stjórnarskránni
Þessi sýn til plaggsins og staðfestingarferlisins
fer sýnilega á engan veg saman við afstöðu stjórn-
valda í Bretlandi. Því er líklegt að Straw velji orð
sýn af varfærni þegar hann kveður sér hljóðs í
þinginu í dag. Ljóst er að í Bretlandi telja menn
að stjórnarskráin heyri í raun sögunni til og ein-
ungis eigi eftir að bera hana til grafar. Líklegt er
þó að Bretar forðist að taka afstöðu sem á ein-
hvern veg vísi til þess að þeir telji að hætta beri
við ferlið í þeim ríkjum ESB sem ekki hafa af-
greitt stjórnlagasáttmálann. En stuðningur við af-
stöðu þeirra yrði vel þeginn.
Frumkvæði Breta fagnað?
En hver verða viðbrögðin við yfirlýsingu Breta
þess efnis að staðfestingarferlinu hafi verið frest-
að? Líklegt er að nokkrar þjóðir telji frumkvæði
þeirra veita kærkomið tækifæri til að hætta við
staðfestingu. Fyrstu viðbrögðin berast að lík-
indum frá Danmörku og Portúgal. Írar gætu og
bæst í þennan hóp og jafnvel Tékkar og Pólverjar.
Dermot Ahern, utanríkisráðherra Írlands, kvaðst
fyrir helgi ekki geta tjáð sig um það hvort Írar
myndu halda sig við áætlun sína sem kvað á um
þjóðaratkvæðagreiðslu á seinni helmingi þessa
árs.
Víst þykir að varfærni einkenni yfirlýsingar
Evrópuleiðtoga fram að fundi þeirra 16. og 17.
þessa mánaðar. Haldi Jean-Claude Juncker,
Barroso og fleiri dugmestu talsmenn Evrópusam-
runans til streitu þeirri kröfu sinni að staðfesting-
arferlinu verði haldið áfram mega þeir búast við
því að fleiri þjóðir bætist í hóp Hollendinga og
Frakka og felli stjórnlagasáttmálann. Niðurstaða
í þá veru gæti í raun reynst banabiti hugsjónar-
innar um „sífellt nánara samband Evrópuþjóða“.
Þar með gæti sjálf heimsmynd þessara manna
hrunið.
Fyrir leiðtogafundinum liggur því að leggja
fram áætlun um hvernig bjarga megi hugsjóninni
á sama tíma og brugðist verði við efasemdum um
gildi hennar.
Það hlýtur að teljast umtalsvert verkefni.
Fer skriðan af stað innan ESB?
Fleiri ríki kunna að fara að dæmi Breta og fresta staðfestingu stjórnarskrár
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
Reuters
Þeir Gerhard Schröder Þýskalandskanslari og
Jacques Chirac Frakklandsforseti standa þétt
saman í þeirri ólgu sem nú ríkir innan ESB.
Staða þeirra er um margt lík enda báðir í vörn
eftir að hafa beðið niðurlægjandi ósigur.
Mondane. AFP. | Öll umferð hefur
verið stöðvuð um Frejus-jarð-
göngin, sem liggja gegnum Alpana
milli Frakklands og Ítalíu, og útlit
er fyrir að þau verði lokuð næstu
mánuði eftir að tveir slóvenskir
vörubílstjórar dóu þar í eldsvoða
um helgina.
Gilbert Santel, forstjóri fyrirtæk-
isins sem rekur göngin, segir að
hreinsa þurfi og gera við á tíu kíló-
metra löngum kafla í göngunum.
Pietro Lunardi, samgöngu-
málaráðherra Ítalíu, segir að farið
verði yfir öryggismál í göngunum
og að þau verði opnuð að nýju eftir
að gengið hafi verið úr skugga um
að öryggi vegfarenda þar verði
tryggt. Eldsvoðinn vekur upp
minningar um eldsvoðann í Mont
Blanc-göngunum í nágrenni Frejus-
ganganna árið 1999. Þá létu 39
manns lífið.
Á laugardag kviknaði í vörubíl
sem flutti dekkjafarm þegar hann
var kominn hálfa leið í gegnum
göngin, en þau eru um 13 kílómetra
löng. Bensínleki er talinn líklegasta
orsökin. Að sögn sjónarvotta
breiddist eldurinn hratt út og fljót-
lega logaði í fjölda bifreiða. Það tók
slökkvilið sex klukkustundir að ná
tökum á eldinum.
Frejus-göngin
lokuð vegna
eldsvoða
Genf. AFP. | Svissneskir kjósendur
samþykktu í gær að landið verði að-
ili að Schengen og Dyflinnar-
samningum Evrópusambandsins
um frjálsa för yfir landamæri. 55%
kjósenda studdu aðild í þjóðar-
atkvæðagreiðslu í landinu.
Umræddir samningar kveða á
um sameiginlegt landamæraeftirlit
aðildarríkjanna og hindrunarlausa
för yfir landamæri þeirra, aðgang
að upplýsingabanka Evrópusam-
bandsins um glæpastarfsemi og
samræmi í umfjöllun um mál ein-
stakra flóttamanna.
Svisslendingar standa utan Evr-
ópusambandsins en hafa bundist
aðildarríkjunum með sérstökum
sáttmálum og samningum.
Í gær samþykktu Svisslendingar
einnig að auka réttindi samkyn-
hneigðra í landinu. Nú öðlast sam-
kynhneigð pör sem skráð eru í sam-
búð sama rétt og gagnkynhneigð
hjón í lífeyris- og skattamálum. Þau
mega þó ekki enn ættleiða börn eða
gangast undir tæknifrjóvgunar-
aðgerðir. Þjóðaratkvæðagreiðslan í
Sviss í gær var sú fyrsta sem haldin
hefur verið í Evrópu um málefni
samkynhneigðra.
Schengen-aðild
samþykkt í Sviss
ANDERS Fogh Rasmussen, for-
sætisráðherra Danmerkur, vill
leggja fram frumvarp um breyt-
ingar á lögum um ríkiserfðir strax
að loknu sumarleyfi danska þings-
ins. Tilgangur fyrirhugaðra laga-
breytinga er að tryggja konum inn-
an konungsfjölskyldunnar jafnan
rétt á við karla til ríkiserfða. Dansk-
ir fjölmiðlar greindu frá þessu í gær.
Stefnt er að því að lögin taki gildi
áður en frumburður Friðriks krón-
prins og Mary krónprinsessu kemur
í heiminn í haust.
Lögin sem nú eru í gildi um erfðir
krúnunnar voru sett árið 1953. Þau
kveða á um ákveðinn forgang karla
þannig að eigi ríkisarfi son, gengur
krúna til hans. Elsta dóttir ríkisarfa
erfir því aðeins krúnuna eigi hún
enga bræður.
Fogh Rasmussen segir mikilvægt
að frumburður Friðriks og Mary erfi
krúnuna, hvort sem krónprinsessan
ber undir belti dreng eða stúlku.
Von sé á barninu í október og því
verði að bregðast fljótt við. Hefur
hann jafnvel viðrað hugmyndir um
að kalla þing saman í sumar til að af-
greiða málið.
Vill breyta
dönskum lögum
um ríkiserfðir