Morgunblaðið - 19.10.2005, Page 22
22 MIÐVIKUDAGUR 19. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Ljósið kemur, langt ogmjótt …“ Tær sópr-anröddin berst út í salinn.Gestirnir, barítonsöngv-
arinn kunni Vladimir Chernov, með-
limir Terem-kvartettsins, og fylgd-
arlið þeirra, líta í kringum sig. Það er
enginn á sviðinu. Þá birtist hún,
Diddú, og yfirtekur rýmið í sömu
andrá með nærveru sinni. Gefa á hin-
um góðu gestum sýnishorn af ís-
lenska sönglaginu. Að söng loknum
leiðir Diddú þá í sannleikann um það
úr hvaða jarðvegi þessi tónlist er
sprottin. Blásnauð bændaþjóðin
þurfti að þreyja veturinn við kröpp
kjör, kulda, trekk og umfram allt –
myrkrið. Þá var ljóstíran frá olíu-
lampanum eina glætan. Glætan sem
hélt lífi í þessari þjóð og gaf henni
von um að veturinn tæki um síðir
endi.
Og Diddú er hvergi nærri hætt.
Jónas Ingimundarson er sestur við
flygilinn og saman renna þau í hverja
perluna af annarri, Á Sprengisandi,
Sofðu unga ástin mín og Svanasöng á
heiði. Allt er þetta flutt með miklum
ágætum – eins og við var að búast.
Það er ekki amalegt að eiga slíka full-
trúa, þegar gefa þarf útlenskum au-
fúsugestum innsýn í þjóðararfinn. Og
viðbrögðin láta ekki á sér standa.
„Braví,“ hrópar Chernov hátt og
snjallt að flutningi loknum. Diddú og
Jónasi er klappað lof í lófa. „Maestro,
þetta var yndislegt,“ segir Rússinn
þegar hann heilsar Jónasi með virkt-
um. Og Diddú. Á hana dugar ekkert
minna en hlýtt faðmlag og koss, einn
á hvorn vanga. Hún er þeirrar gerð-
ar, íslenska dívan. „Þú ert alveg frá-
bær,“ segir hann. „Þetta var dásam-
legur söngur. Og það er greinilegt að
þú ert góð leikkona. Ertu heima í óp-
erubókmenntunum líka?“ Diddú
staðfestir að hún hafi komið víða við á
ferlinum. Samt syngi hún ekki á rúss-
nesku. „Það gerir ekkert til,“ segir
Chernov, „ég get heldur ekki sungið
á íslensku.“ Þau hlæja að þessu og
kveðjast.
Framúrskarandi gestrisni
Að því búnu komum við Vladimir
Chernov okkur fyrir á kaffistofu Sal-
arins. Hann býður mér kaffi sem ég
neyðist til að afþakka. Nýbúinn að
drekka bolla og treysti mér ekki í
annan strax. Hann er líka vel haldinn.
Chernov er viðmótsþýður maður.
Bersýnilega sigldur en samt alþýð-
legur. Berst ekki á.
Diddú er honum enn þá efst í huga.
„Ljómandi góð og elskuleg söng-
kona,“ segir hann og bætir við að það
komi sér svo sem ekki á óvart. „Það
eru allir svo hlýir og vingjarnlegir
hérna á þessum framandi stað, meira
að segja veðrið er prýðilegt. Ég hafði
ákveðnar áhyggjur af því. Vissi ekki
hvernig föt og skó ég átti að hafa
meðferðis en svo er bara alls ekkert
kalt, mesta hæglætisveður. Og gest-
risni ykkar Íslendinga er fram-
úrskarandi.“
Chernov líst vel á aðstæður í Saln-
um. „Hljómburðurinn í þessum litla
og vinalega sal er mjög góður og það
er greinilegt að mikið hefur verið í
þessa byggingu lagt. Hönnuðirnir
eiga lof skilið. Við eigum reyndar enn
eftir að prófa salinn með áheyr-
endum en vonandi breytir það engu.“
Rússnesk tónlist verður, svo sem
gefur að skilja, áberandi á tónleik-
unum í kvöld, þar sem Chernov kem-
ur fram ásamt hinum rómaða Terem-
kvartett. „Tónleikarnir eru liður í
Rússneskri menningarhátíð sem nú
stendur hér yfir og stjórnendur
hennar báðu okkur að hafa rúss-
neskar áherslur, sem hentar okkur
auðvitað vel.“
Á fyrri hluta tónleikanna verður
einkum rússnesk tónlist samin á ár-
unum eftir seinna stríð. „Þetta er vin-
sælt tímabil í rússneskri tónlist-
arsögu sem gat af sér ógrynni
fallegra laga. Það ríkti mikil gleði í
Sovétríkjunum eftir sigurinn á Þjóð-
verjum, fólk hafði snúið aftur til eðli-
legs lífs eftir hörmungar stríðsins og
bjartsýni var ríkjandi. Þennan anda
var tónskáldunum í lófa lagið að
fanga. Það er úr hundruðum laga að
velja frá þessum tíma en því miður
getum við aðeins flutt brot af þeim á
þessum tónleikum.“
Á síðari hluta tónleikanna verður
áherslan ítölsk. „Ástæðan er sú að
ítölsk tónlist hæfir þessari óvenju-
legu samsetningu okkar Terem-
manna vel. Þar að auki hef ég um
langt árabil verið heillaður af ítalskri
tónlist. Hún er engu lík.“
Hiti og ástríða
Terem-kvartettinn, sem stofnaður
var í Pétursborg 1986, hefur frá upp-
hafi fetað ótroðnar slóðir í tónlist-
arflutningi sínum. Segja má að með-
limir hans, þeir Andrey Konstantinov
(sópran-domra), Alexey Barshchev
(alt-domra), Andrey Smirnov (bayan-
harmónika) og Mikhail Dzyudze
(balalaika), hafi fundið upp nýjar að-
ferðir við að laða fram hvers kyns
tónlist úr rússneskum alþýðu-
hljóðfærum. Kvartettinn hefur nú í
tuttugu ár fært hlustendum um allan
heim hitann og ástríðuna sem sprott-
in er úr rússneskri þjóðarsál.
Margt hefur stuðlað að langlífi
Terem-kvartettsins. Sköpunargleðin
er eitt, sambland alþýðlegra hefða og
akademísks aga annað, ásamt kímni
hópsins, kæti hans og leikrænum til-
þrifum.
Chernov lýkur lofsorði á Terem-
kvartettinn. Hann sé skipaður af-
burða tónlistarmönnum og efnisskrá
hans spanni ótrúlega vítt svið. „Við
höfum þekkst síðan 1988 og komum
víða við í samstarfi okkar sem við er-
um sammála um að sé sérstakt. Til-
gangurinn er að laða fram það besta í
okkur öllum. Það er gefandi að vinna
með þessum hópi en því miður höfum
við ekki haft tök á því að koma nægi-
lega oft saman hin síðari ár. Aðallega
vegna anna hjá mér en ég vonast til
að vinna meira með hópnum á kom-
andi misserum.“
Gjöf frá Guði
Þó Chernov sé enginn nýgræð-
ingur á sviði ljóðatónlistar er hann
fyrst og fremst þekktur sem óp-
erusöngvari. Söngvari sem um árabil
hefur staðið á sviðum helstu óp-
eruhúsa heims, Metropolitan, La
Scala, Covent Garden og svo mætti
lengi telja. „Ég hef verið svo heppinn
að stóru óperuhúsin hafa viljað nýta
krafta mína. Það er samt ekkert lyk-
ilatriði í mínum huga. Ég get sungið
hvar sem er ef fólk vill hlusta á mig,
gildir þá einu hvort húsið heitir Sal-
urinn eða La Scala.“
Chernov hóf söngnám seint, 21 árs
að aldri. „Ég kem frá litlu þorpi í Suð-
ur-Rússlandi sem heitir Krasnodar
og foreldrar mínir hvöttu mig alltaf
til að læra tónlist. En hvert átti ég að
fara? Krasnodar er fjarri öllum stór-
borgum og það blasti hreint ekki við
að hleypa heimdraganum til að læra
söng. Samt sem áður varð mér
snemma ljóst að Guð hafði gefið mér
gjöf og ég gæti ekki látið hjá líða að
reyna á getu mína. Sumt fólk er fætt
til að syngja og verður að hlýða sinni
köllun. Og ég sé ekki eftir neinu. Ef
ég fengi annað tækifæri myndi ég
engu breyta.“
Chernov hóf nám sitt í Stavropol
en þaðan lá leið hans í Tsjajkovskíj-
tónlistarháskólann í Moskvu, þar
sem Gyorgi Selesnev og Gugo Tiz
voru hans helstu kennarar. Í fyrstu
hafði hann lítinn áhuga á óperu. „Ég
hafði engin áform um að verða óp-
erusöngvari. Ég skyldi það listform
hreinlega ekki. Í mínum huga var
leikur eitt og söngur annað. Í tónlist-
arháskólanum fór þetta hægt og bít-
andi að breytast og þegar Kirov-
óperan í Pétursborg bauð mér samn-
ing 1981 sló ég til. Þá var sú tilfinning
byrjuð að brjótast um í mér að ég
hefði eitthvað til brunns að bera enda
vann ég um þær mundir hverja
keppnina á fætur annarri. Ég var
hins vegar orðinn fertugur þegar
mér varð endanlega ljóst að ég hefði
afburða hæfileika sem söngvari. Það
var auðvitað ákveðinn léttir, staðfest-
ing, en breytti svo sem ekki miklu.
Ég vissi að ég yrði áfram að vinna
hörðum höndum, bæta í seglin frekar
en hitt. Miklum hæfileikum fylgir
nefnilega mikil ábyrgð.“
Heppinn, jafnvel ofdekraður
Fyrst um sinn söng Chernov eink-
um í Sovétríkjunum og helstu ná-
grannalöndum þeirra. Árið 1987 sló
hann hins vegar í gegn með Kirov-
óperunni í Covent Garden og fékk
upp frá því fleiri tækifæri á Vest-
urlöndum. „Samt lít ég á uppfærslu
Söruh Caldwell á La bohème í óp-
erunni í Boston tveimur árum síðar
sem mitt eiginlega „debút“ á Vest-
urlöndum. Þar með opnuðust dyrnar
inn í helstu óperuhús heims. Ég hef
verið mjög heppinn, jafnvel ofdekr-
aður.“
En líf óperusöngvarans er enginn
dans á rósum. „Líf okkar virðist
kannski átakalaust og ljúft en það er
öðru nær. Það er vinna á vinnu ofan.
Sonur minn hefur sagt að hann vilji
ekki verða söngvari því það sé tómt
streð. Þar talar hann af reynslu eftir
að hafa fylgst með mér. En svo kem-
ur hann á tónleika hjá mér og verður
ógurlega stoltur af pabba sínum. Sér
mig uppskera laun erfiðisins. En
þetta starf er sannarlega ekki fyrir
alla enda þótt hæfileikarnir séu til
staðar.“
Chernov hefur unnið með flestum
helstu óperustjörnum samtímans en
segir aðspurður ógerlegt að taka ein-
hverja út úr þeim hópi. „Ég hef lært
af öllum söngvurum sem ég hef unnið
með um dagana, stórum og smáum.
Ég lít enn þá á mig sem nemanda
enda þótt ég hafi staðið á óperusviði í
þrjá áratugi og kenni sjálfur ungum
söngvurum, sem bráðnauðsynlega
þurfa á aðstoð að halda, ekki bara
hvað varðar tækni, heldur líka fram-
komu, túlkun, allt. Maður verður
aldrei fullnuma. Til þess er lífið of
stutt.“
Chernov hefur hljóðritað fjölda
geislaplatna gegnum tíðina en gerir
samt ekki mikið úr því framlagi sínu.
„Upptökur veita mér ekki nægilega
mikla ánægju. Plötur koma aldrei í
staðinn fyrir tónleika. Það er raunar
óhætt að hljóðrita sinfóníska tónlist
en öðru máli gegnir um sönginn. Þú
verður að njóta hans á staðnum. Allt
annað er plat.“
Ég bendi honum á að það sé eigi að
síður fengur í geislaplötum söngvara
á hans mælikvarða fyrir afskekkta
eyjarskeggja eins og Íslendinga, sem
detti ekki daglega inn úr dyrum
helstu óperuhúsa. „Það er vissulega
rétt,“ segir hann brosandi. „Í þessu
samhengi eiga söngupptökur rétt á
sér – í eins konar fræðsluskyni. Ég
fellst á það.“
Óperusöng hefur hrakað
Chernov er þeirrar skoðunar að
óperusöngvurum hafi farið aftur und-
anfarna öld eða svo. Skýringin er ein-
föld. „Tæknin er ekki nægilega góð.
Auðvitað má að hluta til skella skuld-
inni á hljóðnemann en aðalástæðan
er samt sú að nútímamanninum ligg-
ur svo mikið á. Hann er stöðugt á
ferðinni, þarf helst að gera allt í einu
og má fyrir vikið ekki vera að því að
nostra við hæfileika sína. Fyrir
hundrað árum gáfu menn sér meiri
tíma til að þróa tæknina og náðu fyrir
vikið fullkomnu valdi á röddinni. Það
þekkist varla í dag. Söngvari getur
ekki skilið hversdagslífið eftir þegar
hann stígur á svið og þess vegna skín
allt í gegn. Óperusöngvarar eru
gegnumsneitt yngri í dag en áður
hefur þekkst, sem er að mörgu leyti
ágætt, en staðfestir það sem ég er að
segja. Alltof margir söngvarar verða
aldrei annað en efnilegir. Þegar kem-
ur að því að stíga skrefið til fulls
bregst tæknin þeim og þeir hverfa af
sjónarsviðinu. Þetta er synd.“
Á þessu eru þó undantekningar.
„Minn ágæti vinur Placido Domingo.
Hann er enn í toppformi, kominn fast
að sjötugu. Hvers vegna? Hann æfir
sig daglega af kappi og nostrar við
tæknina. Domingo er lifandi dæmi
um það hvernig söngvari á að vera.
Má ég leyfa mér að segja hinn full-
komni söngvari. Og það er svo sann-
arlega ekki allt meðfæddum hæfi-
leika að þakka, Domingo er ótrúlegur
dugnaðarforkur og agaður listamað-
ur.“
Chernov tekur ekki svo djúpt í ár-
inni að óperan sé í kreppu en vissu-
lega beri mönnum að staldra við og
velta þessum hlutum fyrir sér. „Við
verðum að læra af reynslunni. Færa
okkur í nyt það sem sagan hefur
kennt okkur. Ef við erum skynsöm
og gerum það mun óperan lifa um
ókomna tíð. Það er líka eins gott:
Hvar værum við án hennar?“
Miklum hæfileikum fylgir mikil ábyrgð
Einn helsti barítonsöngvari samtímans, Rússinn Vladimir Chernov, kemur
fram á tónleikum í Salnum í kvöld ásamt Terem-kvartettinum rómaða. Í
samtali við Orra Pál Ormarsson kveðst hann enn þá líta á sig sem nemanda
í sönglistinni. „Maður verður aldrei fullnuma. Til þess er lífið of stutt.“
Chernov í Rakaranum í Sevilla í Los Angeles.
Morgunblaðið/Þorkell
Vladimir Chernov og Terem-kvartettinn á æfingu í Salnum í gær.
Tónleikarnir í Salnum í kvöld hefj-
ast kl. 20 og verða endurteknir á
föstudag á sama tíma. Annað
kvöld verður Terem-kvartett einn
á ferð í Salnum kl. 20.
orri@mbl.is