Fréttablaðið - 22.03.2003, Blaðsíða 22

Fréttablaðið - 22.03.2003, Blaðsíða 22
22 22. mars 2003 LAUGARDAGUR Allt frægasta og flottasta fólkið í kvikmyndabransanum kemur saman í Kodak-höllinni annað kvöld og verð- launa þá sem það telur fremst meðal jafningja. Þetta er alla jafna stærsti dagur ársins í heimi Hollywood en í ár varpa átökin í Írak skugga á gleðina og við fáum ekki að fylgjast með stjörnunum á rauða dreglinum. Óskarsverðlaun í skugga átaka Óskarsverðlaunakvöldið eróumdeilanleg árshátíð kvik- myndabransans. Goðumlíkar stjörnurnar mæta skælbrosandi, í sínu fínasta pússi, og svífa eftir rauða dreglinum á meðan þær veifa til dauðlegra aðdáendanna sem safnast saman fyrir framan Kodak-höllina til þess eins að fá að berja fræga og fallega fólkið augum. Spennan í kringum verðlaunin fer að láta á sér kræla upp úr ára- mótum þegar framleiðendur eiga það til að drífa helstu vonarpen- inga sína í bíó svo myndirnar verði gjaldgengar í baráttunni um gylltu styttuna í byrjun næsta árs. Í febrúar æsist svo leikurinn til muna þegar Akademían kynnir tilnefningar sínar og hápunktin- um er svo náð í mars þegar það kemur í ljós hverjum styttan eft- irsótta fellur í skaut það árið. Spennan og eftirvæntingin í ár eru þó í algeru lágmarki og allt út- lit er fyrir að verðlaunin árið 2003 verði helst í minnum höfð fyrir að vera þau fábrotnustu og látlaus- ustu í 75 ára skrautlegri sögu verðlaunanna. Það er vitaskuld fyrst og fremst stríðið í Írak sem skyggir á gleðina en þar fyrir utan er almennt gert ráð fyrir frekar óspennandi verðlaunaaf- hendingu þar sem flestir eru sam- mála um að dans- og söngvamynd- in Chicago muni sópa til sín öllum helstu verðlaununum. Ekkert stöðvar Óskar Það þarf eitthvað mikið að ganga á til þess að Óskarsverð- launaafhendingunni sé slegið á frest og hingað til hefur það að- eins gerst þrisvar, fyrst í flóðun- um miklu 1938, næst þegar Mart- in Luther King var myrtur 1968 og síðast þegar Ronald Reagan, þáverandi forseta Bandaríkjanna, var sýnt banatilræði árið 1981. Menn óttuðust það á tímabili að yfirvofandi stríð í Írak myndi verða til þess að athöfninni yrði frestað eitthvað, en árið 2001 var Emmy-verðlaununum frestað daginn sem sprengjuárásirnar á Afganistan hófust og á tímabili leit út fyrir að verðlaunin yrðu slegin af það árið. Ímyndarspek- ingunum og markaðsmógúlunum í Hollywood finnst nefnilega svolít- ið vandræðalegt að blanda saman fréttum af þjóð í stríði og þessum miklu glanshátíðum skemmtana- bransans enda er vissulega eitt- hvað bogið við það að þeir sem vinna allan ársins hring við að búa til draumaveröld berji sér á brjóst og baði sig í sviðsljósinu á meðan sprengjum rignir í raunveruleik- anum. Gil Cates, sem stjórnar útsend- ingunni, hefur lagt ofuráherslu á að verðlaunaafhendingin fari fram á sunnudaginn og hefur ekki viljað láta átökin slá sig út af lag- inu. „Við viljum öll að það verði af þessu. Almenningur vill þetta og stjörnurnar vilja það líka. Við erum hins vegar öll góðir Amerík- anar og munum því reyna að gera þetta að sýningu sem við getum verið stolt af.“ Rauða dreglinum rúllað upp Það eru einnig miklir hags- munir í húfi, ekki síst fjárhagsleg- ir, þegar Óskarsverðlaunin eru annars vegar enda er þeim sjón- varpað út um allan heim og alla jafna horfir um einn milljarður manns á útsendinguna. Það var því ákveðið að láta slag standa en draga verulega úr íburðinum og prjálinu. Við fáum því ekki að fylgjast með gyðjunum og goðun- um ganga eftir rauða dreglinum á sunnudaginn en í hugum margra er sú stund hápunktur kvöldsins. Þeir sem fylla þann flokk munu því ekki þurfa að vaka fram eftir annað kvöld. Gil Cates segir að það hafi verið hætt við rauða dregilinn vegna óska kvikmynda- stjarnanna sjálfra, sem kunnu margar hverjar illa við það að ræða kvikmyndir og fatatísku á meðan bandarískir hermenn væru að stofna lífi sínu í hættu. Því má segja að flottasta tísku- sýning ársins hafi verið blásin af en þekktustu fatahönnuðum heims er það ætíð mikið kappsmál að fá að sýna heimsbyggðinni hvað í þeim býr með því að fá þekktustu leikkonur heims til að spóka sig í afurðum þeirra. Kvöld- ið missir því heilmikið aðdráttar- afl bara fyrir þessar sakir og þannig hafa Giorgio Armani, Donatella Versace og Ellie Saab, sem hannaði kjól Halle Berry í fyrra, afboðað sig. Þá hefur fjöldi frétta- og myndatökumanna verið takmarkaður en venjulega eru um 500 manns frá 300 fjölmiðlum að sniglast í kringum hátíðina. Að- eins nokkrir útvaldir fá að vera með að þessu sinni auk þess sem engum óbreyttum borgurum verður hleypt nálægt inngangi Kodak-hallarinnar. Tvær grímur renna á leikarana Hollywood-stjörnurnar sjálfar eru sumar einnig á báðum áttum. Will Smith tilkynnti það til dæmis strax í miðri viku að hann myndi ekki láta sjá sig og talsmaður hans sagði einfaldlega að leikaranum þætti tilhugsunin um að mæta óþægileg og hann ætlaði því að sitja heima. Þá komst sá orðrómur á kreik að Cate Blanchett yrði ekki á meðal kynna en fulltrúar Akademí- unnar hafa þvertekið fyrir það og segja að ekkert annað en tafir á kvikmyndatökum í Nýju Mexíkó geti komið í veg fyrir að hún láti sjá sig. Sjónvarpskonan Barbara Walt- ers hefur einnig dregið sig til baka en hún átti að vera með sérstakan þátt fyrir ABC, með viðtölum við til- nefnda leikara á borð við Nicolas Cage, Julianne Moore og Renee Zellweger, í tengslum við beinu út- sendinguna. „Þegar jafn alvarlegir hlutir blasa við þjóðinni tel ég rétt að fresta útsendingu þáttarins,“ sagði Walters í yfirlýsingu sem gef- in var út í vikunni. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær þætt- inum verður sjónvarpað. Harðjaxlinn og repúblikaninn Arnold Schwarzenegger telur Aka- demíuna hafa tekið réttar ákvarðan- ir. „Ég held að það sé hið besta mál að sleppa rauða dreglinum og reyna líka að koma í veg fyrir allar póli- tískar ræður.“ Hér á Schwarz- enegger væntanlega við þá ákvörð- un að banna gestgjafanum, Steve Martin, og öðrum kynnum að minn- ast einu orði á stríðið í Írak. Verð- launahafarnir fá sínar 45 sekúndur til að þakka fyrir sig og geta í raun sagt allt sem þeim sýnist á þeim tíma en stemningin er þannig að væntanlega munu fáir kjósa að draga átökin inn í þakkarræður sín- ar. Samviskuspurningar og ótti um eigið öryggi Það er ekki fullljóst hvort allar kvikmyndastjörnurnar muni yfir- leitt mæta til leiks enda hafa marg- ar þeirra talað mjög opinskátt og ákveðið gegn stríðinu síðustu vik- urnar. Daniel-Day Lewis, sem þykir líklegur til að hreppa verðlaunin fyrir leik sinn í Gangs of New York, lýsti því yfir í síðustu viku að sér fyndist það með öllu ótækt „að við séum að spóka okkur á rauða dregl- inum með bros á vör á meðan fólk er að deyja. Það verður mjög erfitt að finna leið til þess að gera þetta.“ Þá hefur Nicole Kidman, sem marg- ir telja geta gengið að verðlaunun- um sem besta leikkonan, fyrir The Hours, vísum sagt að hún sé mjög tvístígandi um hvort hún eigi að mæta á athöfnina á stríðstímum. Það er þó ekki einungis pólitísk rétthugsun sem vefst fyrir stjörn- unum og margar þeirra óttast um eigið öryggi og hrýs hugur við því að fljúga til Los Angeles hvort sem það er í þeim tilgangi að kynna, troða upp, taka við verðlaunum eða einfaldlega að sýna sig og sjá aðra. Öryggisráðstafanirnar á athöfninni verða miklu harðari í ár en í fyrra. Einhverjum götum í grennd við Kodak-höllina var lokað strax á fimmtudaginn og stjörnurnar og gestir þeirra þurfa að fara í gegnum málmleitartæki við innganginn, leitað verður að sprengjum í öku- tækjum og yfirvöld hafa farið þess á leit að flugumferð yfir Hollywood verði bönnuð síðdegis á sunnudag- inn. Lögreglan í Los Angeles mun verða með fleiri á vakt en á síðasta ári, auk þess sem þeim berst liðs- auki frá alríkislögreglunni og sjálf- stætt starfandi öryggisvörðum. thorarinn@frettabladid.is BESTA MYNDIN Chicago Gangs of New York The Hours The Lord of the Rings: The Two Towers The Pianist BESTA ERLENDA MYNDIN Crimen del padre Amaro Hero The Man Without a Past Nowhere in Africa Zus & Zo BESTI LEIKSTJÓRINN Rob Marshall - Chicago Martin Scorsese - Gangs of New York Stephen Daldry - The Hours Roman Polanski - The Pianist Pedro Almodóvar - Talk To Her BESTI KARLLEIKARINN Í AÐALHLUTVERKI Adrien Brody Nicolas Cage Michael Caine Daniel Day-Lewis Jack Nicholson BESTA LEIKKONAN Í AÐALHLUTVERKI Salma Hayek Nicole Kidman Diane Lane Julianne Moore Renée Zellweger BESTI KARLLEIKARINN Í AUKAHLUTVERKI Chris Cooper Ed Harris Paul Newman John C. Reilly Christopher Walken BESTA LEIKKONAN Í AUKAHLUTVERKI Kathy Bates Julianne Moore Queen Latifah Meryl Streep Catherine Zeta-Jones RAUÐI DREGILLINN Er kominn á staðinn og stjörnurnar munu ganga á honum til veislunnar en að þessu sinni fáum við ekki að fylgjast með þeim enda finnst þeim fæstum viðeigandi að tala um vonir sínar og væntingar á meðan verið er að sprengja í Írak.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.