Fréttablaðið - 21.01.2005, Qupperneq 18
18 21. janúar 2005 FÖSTUDAGUR
Scott David Rigler, framkvæmda-
stjóri Kárahnjúkadeildar Sodhexo
Universal, virðist taka nærri sér þá
gagnrýni sem hefur verið á kost
starfsmanna Impregilo. Hann hefur
starfað víða um heim fyrir hönd fyr-
irtækisins og segist aldrei hafa lent
í eins mikilli orrahríð og hér. Honum
er því mikið í mun að leiðrétta þá
mynd sem gefin hefur verið.
Sodhexo Universal er alþjóðleg-
ur undirverktaki sem sér um inn-
kaup á mat og öðrum nauðsynjum,
stýrir mötuneytinu og matvöru-
versluninni og sér um þrif í vinnu-
búðunum á Kárahnjúkum. Gagn-
rýnin á Sodhexo hefur einkum ver-
ið á þá lund að maturinn sé ónægur
og það segir Rigler að sé rangt. Það
sé fyrirtækinu í hag að gera vel.
Þegar mennirnir séu mettir og
ánægðir vinni þeir vel.
Hann segir að gott og ferskt
hráefni sé keypt af íslenskum
birgjum og flutt að Kárahnjúkum
einu sinni í viku. Sodhexo fram-
reiðir heitar máltíðir tvisvar á dag,
í hádeginu og á kvöldin, og allir fái
eitthvað frá sínum heimahögum
tvisvar í viku.
Í hverri máltíð er gert ráð fyrir
800 grömmum af kjöti eða fiski á
mann og Rigler segir að alltaf sé
nóg af meðlæti auk grænmetis og
ávaxta. Matarkostnaðurinn segir
hann að sé 30-35 prósent af því sem
gerist í öðrum löndum Evrópu.
Rigler segir viðskipti Sodhexo
við íslenska birgja skipta máli. Það
sé gott fyrir samkeppnina að fá
svona stóran aðila inn á markaðinn
og íslenskir birgjar séu smám sam-
an farnir að sjá að þeir geti lifað af
viðskiptunum við Sodhexo. Þá veiti
samkeppnin aðhald á markaðnum.
Rigler telur heppilegra fyrir Ís-
lendinga að draga úr gagnrýninni
og horfa á starf Impregilo og Sod-
hexo með jákvæðari hætti; reyna
að gera eins gott úr þessu og hægt
er. - ghs
Greinilegt er að æðstu stjórnend-
ur Impregilo á Íslandi telja að sér
og sínu fyrirtæki vegið í umræð-
unni síðustu mánuði og misseri,
ekki síst af hálfu verkalýðshreyf-
ingarinnar. Þeir mæta fjórir á
fund með blaðamanni og ljós-
myndara Fréttablaðsins á Kára-
hnjúkum til að ræða deiluna við
verkalýðshreyfinguna og þörfina
á erlendu vinnuafli.
Þeir telja forystu verkalýðs-
hreyfingarinnar hafa verið með
óþarfa upphlaup og rangindi í
yfirlýsingum sínum en taka samt
fram að þeir hafi átt gott samstarf
við Odd Friðriksson yfirtrúnaðar-
mann. Þeir benda á að margt hafi
breyst og þetta sé allt að þokast í
rétta átt, aðbúnaður verkamann-
anna hafi batnað og enn sé unnið í
því máli. Þeir hafi lagt sig fram og
skilji því ekki hvers vegna átök
eigi sér stað.
Fyrirtækið hafi undirritað
rammasamkomulag við ítölsku
verkalýðsfélögin og Alþjóða
byggingasambandið í haust.
Heimsókn fulltrúa verkalýðs-
hreyfingarinnar hingað til lands
þessa dagana sé liður í þessu sam-
komulagi og þyki sýna vilja
Impregilo til að eiga gott samstarf
við verkalýðsfélögin. Þá hafi
náðst samkomulag við Íslending-
ana fyrir rúmu ári og við það sé
staðið í hvívetna. Þeir kalla því
eftir nákvæmum útlistunum frá
verkalýðshreyfingunni um það
með hvaða hætti fyrirtækið hafi
ekki staðið við lög, reglur og gefin
loforð.
Ef ég bara vissi...
Athygli vakti að Impregilo neitaði
að ræða við félagsmálanefnd Al-
þingis að viðstöddum fulltrúum
verkalýðshreyfingarinnar og
segja stjórnendurnir ástæðuna
meðal annars þá að virðing Al-
þingis skipti meira máli en að
tveir aðilar deili á nefndafundi.
„Þegar við hittum félagsmála-
nefnd í þinginu kom það okkur á
óvart að fá nánast stöðu glæpa-
manna fyrir að hafa virt reglur og
lög og samkomulagið við verka-
lýðshreyfinguna sem er hluti af
okkar samningi. Það er mjög mik-
ilvægt fyrir okkur að fylgja því
samkomulagi sem gert var í upp-
hafi og það erum við að gera en
það virðist ekki vera nóg,“ segir
Gianni Porta, verkefnisstjóri
Impregilo.
„Ef ég vissi ástæðuna fyrir
þessum misskilningi íslensku
verkalýðshreyfingarinnar myndi
ég líka hafa lausnina,“ segir hann.
Þeir telja engan menningar-
mun að ráði fyrir hendi, hvað þá
að hann sé fyrirstaða eða áhrifa-
valdur í átökum alþjóðlega stór-
fyrirtækisins og innlendu verka-
lýðshreyfingarinnar. Aðeins þurfi
sveigjanleika og hann sé fyrir
hendi hjá Impregilo. Ekkert
hindri Impregilo í því að reyna að
skilja stöðu og málflutning Íslend-
inganna.
Erfiðleikarnir hafa verið leystir
Impregilo hefur sóst eftir því að
fá erlenda verkamenn til landsins,
fyrst Portúgala og nú Kínverja, og
það hefur staðið í verkalýðshreyf-
ingunni, sem telur skorta vilja til
að ráða Íslendinga og aðra Evr-
ópubúa og ekki nóg gert til að aug-
lýsa störfin innan Evrópska efna-
hagssvæðisins.
Porta bendir á að Kárahnjúkar
séu fjarri næstu borg og engir íbú-
ar hafi verið fyrir á svæðinu.
Á örfáum mánuðum hafi fyrir-
tækið verið komið á gott skrið með
upphafsframkvæmdirnar um leið
og það var að koma upp fjórum
vinnubúðum. Annars staðar í
heiminum komi farandverkamenn
á staðinn, búi í vögnum sínum og
sjái sér sjálfir fyrir mat. Hér hafi
þurft samtímis að hefja fram-
kvæmdir og koma upp þjónustu og
húsnæði sem þyldi harðan vetur.
„Við höfum starfað við erfiðari
veðurskilyrði, ekki jafn vindasöm
en mun kaldari skilyrði, svo að
meginatriði málsins er að erfið-
leikarnir hafa verið leystir,“ segir
hann.
Þola einangrun Kárahnjúka
Starfsmannaveltan er gríðarlega
mikil og Portúgalarnir þola ekki
kuldann á Íslandi. Þeir hafa því
stoppað stutt í starfi.
Porta minnir á að lífsskilyrði á
Vesturlöndum séu mjög há og alls
staðar sé erfitt að fá fólk til starfa
þar sem skilyrði eru erfið.
Vesturlandabúar hreinlega fáist
ekki til svona starfa en fólk frá öðr-
um heimshlutum sé tilbúið að
leggja það á sig. Þá vilji Impregilo
ráða starfsmenn sem fyrirtækið
hefur sjálft þjálfað, sérstaklega frá
Kína, því að fyrirtækið þekki þá
starfsmenn, viti að þeir hafi góða
þekkingu og standi sig vel auk þess
sem þeir þoli erfið veðurskilyrði og
einangrun Kárahnjúka.
Þegar stjórnendur Impregilo
eru spurðir um framgöngu ís-
lenskra stjórnvalda í málinu síð-
ustu vikur láta þeir ekki illa af
henni þó að á ýmsu hafi gengið og
misskilningur til dæmis verið á
milli stofnana hvað varðar atvinnu-
leyfi. Þeir telja sig þó alls ekki hafa
ráðherra eða stofnanir landsins í
vasanum, eins og hörðustu gagn-
rýnendur vilji ef til vill meina.
ghs@frettabladid.is
FANNEY MAGNÚSDÓTTIR
Luciano Brunetti sér um fjármálin og
starfsmannamálin á Kárahnjúkum og
Fanney Magnúsdóttir er ritari hans. Hún
sinnir meðal annars þýðingum og al-
mennri skrifstofuvinnu.
FR
ÉT
TA
B
LA
Ð
IÐ
/G
VA
Þær eru ekki margar konurnar á
Kárahnjúkum en þó nokkrar og
sinna ýmsum störfum, aðallega
skrifstofuvinnu. Fanney Magnúsdóttir
er ein þessara kjarnakvenna. Hún er
ritari Luciano Brunetti en hann er
einn af toppstjórnendum Impregilo
á Íslandi og sér um fjármál og
starfsmannamál.
Fanney kom til starfa hjá Impregilo í
lok júní í fyrra en hún var leiðbein-
andi við grunnskólann í Brúarási.
Hún missti vinnuna þegar réttinda-
kennari var ráðinn til starfa. Hún
hafði áður starfað sem ritari og var
því kjörin til starfans. Hún sinnir
einkum skjalavörslu, símsvörun og
almennri skrifstofuvinnu.
Stór hluti af starfinu er líka þýðingar
af ensku á íslensku og öfugt. Aðrir
starfsmenn eru síðan fengnir til að
grípa í þýðingar eftir því hvert móð-
urmál þeirra er og svo er leitað til
löggilts skjalaþýðanda þegar þörf
krefur.
Fanney er búsett í Fellabæ en hefur
herbergi á Kárahnjúkum. Hún
stundar fjarnám við Kennaraháskól-
ann og eyðir því frítíma sínum yfir-
leitt í námið. Eftir að vinnudegi lýkur
klukkan sex sest hún við tölvuna
inni í herbergi til að læra. Um helgar
fer hún alltaf heim og stundum
skreppur hún heim á kvöldin eftir
að vinnudegi lýkur ef veður leyfir.
Hún hefur því ekki sótt mikið félags-
lífið á staðnum en Impregilo rekur
klúbb í félagsmiðstöðinni og þar er
hægt að gera ýmislegt sér til afþrey-
ingar; horfa á fréttir eða vídeó og
tefla eða spila. Á laugardagskvöldum
er pitsa og þá er hægt að dansa eða
fara í karaókí.
Fanneyju finnst gott að vinna á
Kárahnjúkum. „Fólkið er gott og það
er sérstakt og gaman að vera í
svona alþjóðlegu umhverfi,“ segir
hún.
Karlarnir á Kárahnjúkum eru nota-
legir við konurnar á staðnum, jafn-
vel þeir íslensku eru farnir að opna
dyr og sýna háttvísi og kurteisi í um-
gengni. - ghs
SCOTT DAVID RIGLER
Framkvæmdastjóri Sodhexo Universal,
undirverktakans sem sér um matinn og
þrifin í vinnubúðunum á Kárahnjúkum.
Scott David Rigler hefur stýrt veitingaþjónustu og þrifum víða um heim:
800 grömm af kjöti eða fiski á mann
YFIRSTJÓRNIN
Fanney
er ritari
Brunetti
ÆÐSTU STJÓRNENDUR IMPREGILO
Gianni Porta, verkefnisstjóri Impregilo á Íslandi, Filippo
Milazzo, mannauðsstjórnandi frá Milano, Luciano Brunetti,
skrifstofustjóri á Íslandi, Edgardo Fogli, fulltrúi verktakans,
og Ómar R. Valdimarsson, talsmaður Impregilo.
Vilja nákvæmar útlistanir
frá verkalýðshreyfingunni
FYRSTI HLUTI
IMPREGLIO
Á ÍSLANDI
FR
ÉT
TA
B
LA
Ð
IÐ
/G
VA
FR
ÉT
TA
B
LA
Ð
IÐ
/G
VA
LÓ
G
Ó
/
K
AR
L
PE
TE
R
SE
N
,G
VA
,B
S
Fréttablaðið sat fund með yfirstjórnendum Impregilo á Kárahnjúkum og var þungt hljóð í mönnum.
Þeim finnst óþolandi að vera „nánast í stöðu glæpamanna“ fyrir það eitt að virða reglur og samkomulag.
Starfsmannaveltan er gríðarleg á svæðinu enda þola Portúgalarnir ekki kuldann á Íslandi.