Fréttablaðið - 20.07.2005, Side 59
„Ég fékk þá hugmynd að þær ís-
lensku hljómsveitir sem útgáfufyr-
irtækið mitt gefur út á Bretlandi
kæmu saman á Gauknum til að Ís-
lendingar fái að kynnast okkur
líka,“ segir tónlistarmaðurinn Staf-
rænn Hákon (Ólafur Jósepsson) en
hann kemur fram á Gauknum í
kvöld ásamt hljómsveitunum
SK/UM, Plat, Blindfold og Ölvis.
Það er breska útgáfufyrirtækið
Resonant sem hefur haft veg og
vanda að útgáfu íslensku tónlistar-
innar. „Þetta er óháð útgáfufyrir-
tæki sem gefur út grasrótartónlist
ef svo má að orði komast. Resonant
er vel tengt inn í stóru fyrirtækin,
meðal annars Southern Records,
þannig að útgáfan fær mjög góða
dreifingu og ratar í réttar hillur
víðs vegar um heim.“
Áhugi Resonant á Íslandi kvikn-
aði eftir að þeir hlýddu á Múm. Í
kjölfarið hafa þeir síðan árið 2000
gefið út efni með fimm íslenskum
böndum. Stafrænn Hákon kynntist
fyrirtækinu þó ekki í gegnum Ís-
land. „Ég komst í kynni við þá
þegar ég bjó í Skotlandi og frétti
ekki af þeim í gegnum Íslending
heldur Litháa. Ég sendi þeim tvo
diska sem þeir vildu endurútgefa
og svo fengu þeir mig til að semja
nýja plötu.“ Sú plata Ventill/Poki er
uppseld enda var hljómsveitinni
afar vel tekið á tónleikaferðalagi
um Bretlandseyjar.
Tónleikarnir á Gauknum í kvöld
gætu enn fremur greitt fyrir út-
gáfu íslenskrar tónlistar. „Það er
mikil gróska í tónlistarlífinu hér
heima og áhugavert fyrir tónlistar-
menn sem eru að hefja feril sinn að
vita af útgáfufyrirtæki í Bretlandi
sem hefur verið hliðhollt þeirri ís-
lensku tónlist sem fellur að þeirra
smekk.“
Tónleikarnir á Gauknum hefjast
klukkan níu í kvöld og miðaverð er
500 krónur. ■
STAFRÆNN HÁKON Samúel White og Ólafur Jósepsson eru meðal hljómsveitarmeðlima.
Glæsilegt framtak!
Mikill metnaður
Það hefur færst í vöxt á undanförn-
um árum að leiksýningar séu settar
upp fyrir einstaklingsframtak, þ.e.
án þess að opinberir styrkir séu
veittir til að standa straum af hluta
framleiðslukostnaðar. Hann er auð-
vitað misjafn eftir umfangi hverr-
ar sýningar, en það er vitað að það
kostar mikið fé að færa upp mann-
margar og metnaðarfullar sýning-
ar og oft vonlítið að fá inn fyrir
framleiðslukostnaði með miðasölu
einni saman.
Hér er ekki tjaldað til einnar
nætur og mikill metnaður af hálfu
aðstandenda lagður í stórt sem
smátt. Gamla Austurbæjarbíó sem
togast hefur verið á um hvort eigi
að hafa hlutverk við hæfi í íslensku
menningarlífi eða verða jafnað við
jörðu hefur hýst margar leiksýn-
ingar í gegnum tíðina og ég fékk
ekki betur séð á frumsýningu á
Annie en að húsið hentaði þeirri
sýningu prýðilega.
Fagmennskan í fyrirrúmi
Annie er dæmigerður Broadway-
söngleikur sem hefur auk þess ver-
ið kvikmyndaður og eftir því sem
mér skilst þá er það fyrir framtak
ungrar konu að þessi sýning er nú á
fjölunum í Reykjavík. Hún ræðst
ekki á garðinn þar sem hann er
lægstur og hefur erindi sem erfiði.
Það er fagmannlega staðið að öllum
þáttum sýningarinnar og allt yfir-
bragð hennar ber vott um fágun og
smekkvísi. Gamla góða sveiflan í
fullum gangi og andi fjórða áratug-
arins fangaður í búningum, leik-
mynd og ekki síst tónlistinni sem
svífur yfir vötnum í hreint frá-
bærri stjórn Óskars Einarssonar.
Hvergi feilnóta slegin og hljóð-
stjórnin hreint til fyrirmyndar.
Söguþráðurinn auðvitað marg-
þvældur upp á amerískan máta og
eins konar stúlknatilbrigði við Oli-
ver Twist og einmitt vísað beint í
Dickens í texta verksins. En það er
önnur saga.
Texti Gísla Rúnars rennur vel
hvort sem um er að ræða laust eða
bundið mál og greinilegt að mikil
áhersla verið lögð á að leikararnir
skiluðu vel frá sér söngtextanum.
Mér til óblandinnar ánægju þá
skildi ég hvert einasta orð og það
er ekki síst því að þakka hve hag-
anlega er ort. Þótt textarnir séu
einfaldir í sniðum þá er merking
hans skýr og hnitmiðuð. Mikil alúð
hefur verið lögð í raddþjálfun leik-
ara og hinna ungu stúlkna sem
standa á sviðinu. Það var góður
samhljómur í söng og framsögn
hinna yngri yfirleitt skýr og áferð-
arfalleg.
Leikstjóri og leikarar gera vel
Allur stúlknahópurinn stóð sig með
afbrigðum vel. Ólíkar innbyrðis en
allar geislaðu þær af leikgleði sem
skilaði sér beint inn í hjörtu áhorf-
enda. Leikstíllinn tvískiptur þar
sem heimurinn er svartur og hvít-
ur. Fyrirfólkið fínt og strokið leikið
á yfirveguðum nótum en hyskið
allt ýkt í botn og leikararnir fengu
leyfi til að sprella að hjartans lyst.
Þetta gengur fullkomlega upp í
svona söngleik og uppskeran verð-
ur eins og sáð var til. Það voru svo
margir á sviðinu að það væri til að
æra óstöðugan að tíunda frammi-
stöðu hvers og eins. Allir leggjast á
eitt um að gera sitt besta. Kraftur-
inn er góður í sýningunni, sviðs-
hreyfingar glæsilegar og söngur-
inn almennt eins og efni standa til.
Leikstjórinn hefur unnið vinnuna
sína vel enda orðinn sjóaður á löng-
um ferli í íslensku leikhúsi.
Solveig Óskarsdóttir sem lék
Annie á frumsýningunni var al-
veg hreint yndisleg í hlutverkinu
og söng þar að auki af mikilli til-
finningu. Mótleikarar hennar
voru gjöfulir á sviðinu og allt
hjálpaðist að við að gera Annie
litlu að skemmtilegri, sætri og
tápmikilli munaðarlausri stúlku
sem á sér þá ósk heitasta að hitta
foreldra sína.
Brynja Valdís Gísladóttir leikur
Frú Karítas, drykkfellda gæs sem
stjórnar munaðarleysingjahælinu
af mikilli hörku og ferst það vel úr
hendi. Hún gaf sig alla í hlutverkið
og leysti söngnúmerin af hendi
með sóma. Þetta er auðvitað óska-
hlutverk fyrir góða leikkonu og
Brynju fataðist hvergi. Hinn hlut-
inn af hyskinu, bróðir hennar og
kærastan hans leikin af Guðmundi
Inga og Ingibjörgu Stefáns voru
kostulegt par og söngnúmerið
þeirra þriggja eitt af þeim betri í
sýningunni. Þau virkilega nutu
þess að vera illa innrætt með ljót
áform á prjónunum.
Gísli Pétur Hinriksson lék
Ólíver Daniel, forríkan kaupsýslu-
mann í New York sem túlkaður var
af þekktum breskum leikara í hinni
frægu kvikmynd og mörgum er í
fersku minni. Til að byrja með
þótti mér Gísli Pétur full ungur til
að passa í hlutverkið en eftir því
sem leið á var ég farinn að venjast
þeirri hugmynd að þarna væri mið-
aldra maður á ferð. Auk þess hefur
Gísli Pétur alveg ágæta söngrödd.
Prýðileg vinna hjá þessum unga
leikara.
Bryndís Petra hefur verið að
fóta sig á leiksviðinu aftur eftir
nokkra fjarveru og skilaði Gógó
einkaritara með fallegum og hátt-
vísum leik. Fyrir vikið verkaði hún
trúverðug og stóð sig ekki síður í
söng og dansi. Smáhlutverkin voru
einkar snyrtilega unnin og virkuðu
eins eðalkrydd fyrir forfallna sæl-
kera í sýninguna. Húmor, töfrar,
söngur, dans, gleði og sorgir og
meira að segja hundur á sviðinu í
Austurbæ. Fjölskylduskemmtun af
bestu gerð. ■
LEIKLIST
VALGEIR SKAGFJÖRÐ
Annie
Sýnt í Austurbæ
Höfundar: Thomas Meehan, Charles Strou-
se og Martin Charnin Íslensk þýðing: Gísli
Rúnar Jónsson Leikstjóri: Viðar Eggertsson
Leikmynd: Þorvaldur Böðvar Jónsson Lýs-
ing: Hörður Ágústsson Tónlistarstjórn:
Óskar Einarsson Söngstjórn: Sverrir Guð-
jónsson Búningar: Elín Edda Árnadóttir
Dansar: Ástrós Gunnarsdóttir Leikstjóri:
Viðar Eggertsson Framkvæmdastjóri: Rakel
Kristinsdóttir Leikarar: Solveig Óskarsdóttir
(Annie) Brynja Valdís Gísladóttir, Gísli Örn
Hinriksson, Bryndís Petra Bragadóttir, Er-
lendur Eiríksson, Guðmundur Ingi Þorvalds-
son, Ingibjörg Stefánsdóttir, Höskuldur Sæ-
mundsson, Bjartmar Þórðarson, Bjarni
(töframaður ) Baldvinsson og m. fleiri.
Niðurstaða: Húmor, töfrar, söngur, dans,
gleði og sorgir og meira að segja hundur á
sviðinu í Austurbæ. Fjölskylduskemmtun af
bestu gerð.
SÖNGLEIKURINN ANNIE Valgeir Skagfjörð fer fögrum orðum um sýninguna Annie og
segir alla leikarana leggjast á eitt að gera sitt besta.
Ekkert toppar
Stjörnustrí›
Aðsókn í íslensk kvikmyndahús hef-
ur verið með besta móti í sumar og
það þunglyndi sem hefur einkennt
miðasöluna í Bandaríkjunum er
víðs fjarri Íslandsströndum.
Stjörnustríðsmyndin Revenge of
the Sith fór sérstaklega vel af stað
og skilaði tæpum 12 milljónum
króna í miðasölunni fyrstu fimm
sýningardagana og það sem gerir
þessa byrjun svo enn glæsilegri er
sú staðreynd að hún var frumsýnd á
Eurovison-helginni þegar fólk er
með hugann við flest annað en bíó.
Í Fréttablaðinu í gær var rangt
farið með miðasölutölfræðina og
Madagaskar var sögð hafa dregið
flesta í bíó fyrst fimm sýningar-
dagana. Hún gerði það vissulega
gott í síðustu viku og seldi bíómiða
fyrir 10.419.250 krónur fyrstu fimm
dagana sem er öllu minna en Spiel-
berg-myndin War of the Worlds sem
skilaði 10.986.550 krónum fyrstu
fimm sýningardagana. Þannig að
það sem af er sumri stendur opnun-
armet Star Wars óhaggað og War of
the Worlds fylgir í kjölfarið. ■
STJÖRNUSTRÍÐ Þrátt fyrir glæsilegt úrval
stórmynda í sumar ógnar enn enginn veldi
Star Wars sem var frumsýnd með miklum
látum í maí.
Stemming á Gauknum
58-59 (26-27) BÍÓ-HÚSIN 19.7.2005 20:36 Page 3