Fréttablaðið - 15.02.2007, Page 24

Fréttablaðið - 15.02.2007, Page 24
greinar@frettabladid.is Um það er ekki deilt úti í heimi, að ójöfnuður í skiptingu auðs og tekna milli manna hefur víða færzt í vöxt undangengin ár. Til þess liggja ýmsar ástæður, sem vert er að skoða. En fyrst þetta: um hvaða ójöfnuð er verið að tala? Milli fólks í hverju landi fyrir sig? Eða milli landa? Skoðum fyrst tekjuskiptinguna milli landa án tillits til mannfjölda. Hún stóð nokkurn veginn í stað frá 1960 til 1980. Hægur vöxtur Afríkulanda eftir 1960 hneigðist til að auka ójöfnuð milli landa á heimsvísu, þar eð Afríka dróst aftur úr öðrum heimshlutum, en á móti kom, að heldur dró saman með iðnríkjunum innbyrðis og Suður- Ameríka sótti í sig veðrið. Síðan 1980 hefur ójöfnuður milli landa aukizt jafnt og þétt, fyrst vegna þess að nokkur Suður-Ameríku- lönd komust í þrot eftir 1980 og reyndust ekki eiga fyrir skuldum og síðan vegna þess að Austur- Evrópa og Sovétríkin sigldu í strand um og eftir 1990. Þrátt fyrir þetta er því stundum haldið fram, að ójöfnuð- ur milli landa hafi ekki aukizt, heldur þvert á móti minnkað síðan 1980. Sú fullyrðing er einnig rétt svo langt sem hún nær, enda er hún reist á sömu tölum um tekjur heimilanna í hverju landi fyrir sig, með þeirri viðbót, að fólksfjöldinn í hverju landi er tekinn með í reikninginn. Af því leiðir, að fjölmenn lönd eins og Indland og Kína hafa þá meira vægi í niðurstöðunni en fámennari lönd. Þessi breyting á mælistikunni dugir til að snúa dæminu við, því að ör vöxtur Indlands og Kína að undanförnu hefur lyft lífskjörum mikils fjölda fólks í nýjar hæðir. Sé Indlandi og Kína sleppt úr úrtakinu, fæst upphaflega niðurstaðan aftur: ójöfnuður í skiptingu tekna milli landa heimsins hefur aukizt verulega, þótt fólksfjöldinn í ólíkum löndum sé tekinn með í dæmið. Hvað ef við lítum á heiminn allan sem eina heild? Þá virðist ójöfnuður í tekjuskiptingu milli manna frekar en milli landa hafa aukizt lítillega á heimsvísu frá 1980, en varla svo, að vert sé að gera veður út af því. Uppgangur- inn í Indlandi og Kína á mestan þátt í því. Mönnum getur eigi að síður mislíkað misskipting milli ríkra og fátækra um heiminn, þótt hún hafi ekki ágerzt nema lítillega frá 1980. En þótt aukning ójafnaðar um heiminn í heild hafi verið óveruleg frá 1980, þegar allt er skoðað, hefur ójöfnuður sums staðar aukizt frá fyrri tíð. Óprúttnir spunameistarar hafa sumir reynt að þræta fyrir þessa þróun; sumir reyndu til dæmis að þræta fyrir aukinn ójöfnuð í Bandaríkjunum og Bretlandi eftir 1980, eftir að Ronald Reagan og Margrét Thatcher tóku við stjórnartaumunum í þessum löndum. En tiltækar staðtölur um þróun tekjuskipt- ingar í þessum tveim löndum taka þó af tvímæli um efnið, eins og lesandinn getur fræðzt nánar um til dæmis á vefsetrinu en. wikipedia.org. Hitt er rétt, að haldbærar upplýsingar um skiptingu auðs og tekna eru ekki á hverju strái. Það stafar meðal annars af því, að hagstofur einstakra landa og alþjóðastofn- anir hafa ekki hirt sem skyldi um að búa til sambærilegar staðtölur um tekjuskiptingu land úr landi. Hagstofur og alþjóðastofnanir hafa einnig hikað við að birta ójafnaðartölur aftur í tímann, svo að hægt sé að átta sig á þróun tekjuskiptingar með tímanum í einstökum löndum. Ný skýrsla Hagstofu Íslands er þessu marki brennd, hún nær yfir aðeins tvö ár, 2003 og 2004, og gerir því ekki nema hálft gagn, og varla það, því að umræðan um málið hér heima nú snýst um þróun tekjuskiptingar frá fyrri tíð. Útreikningar ríkisskattstjóra- embættisins sýna þó svart á hvítu, að ójöfnuður í tekjuskipt- ingu milli manna á Íslandi hefur aukizt mjög verulega frá 1993, eins og ég hef áður greint frá á þessum stað. Hér er átt við allar tekjur eins og vera ber, einnig fjármagnstekjur. Niðurstöður Stefáns Ólafssonar prófessors ber að sama brunni. Aukinn ójöfnuður í einstökum löndum að undanförnu á sér að sumu leyti eðlilegar skýringar. Tæknivæðing eykur eftirspurn eftir vel menntuðu vinnuafli umfram ófaglært verkafólk. Síaukin heimsviðskipti leggjast á sömu sveif. Hér heima hefur ríkið ýtt undir ójöfnuð með ýmsum ráðstöfunum, meðal annars með lækkun fjármagns- tekjuskatts langt niður fyrir tekjuskatt af vinnulaunum. Hátekjumenn þiggja sumir frekar lág laun fyrir vinnu sína og þeim mun ríflegri kaupauka í bréfum og arði til að skjóta sér undan skatti. Tölur ríkisskatt- stjóra sýna, að skatta- og trygg- ingakerfið hefur ýtt undir ójöfnuð á Íslandi þvert á hefð- bundinn tilgang ríkisfjármálanna og velferðarkerfisins. Bað einhver um það? Ójöfnuður um heiminn Síðan 1980 hefur ójöfnuður milli landa aukizt jafnt og þétt. F orstjóri Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, er mjúkmáll þessa dagana. Honum veitir ekki af í andófinu sem er að magnast í kringum hann. Friðrik lítur á mótmæli við frek- ari virkjunum í Þjórsá sem velferðarvandamál og segir mönnum hollast að minnast þess að fyrr eða síðar kreppi á dalnum í þjóðarbúinu. Hann hótar efnahagslegum þrengingum í ófyrirsjáanlegri framtíð sem röksemd fyrir álbræðslum í Helgu- vík, Húsavík, stækkun í Straumi og jafnvel Þorlákshöfn, Skaga- firði eða Eyjafirði. Hann lætur sem viðbótarvirkjanir í Þjórsá séu löngu ákveðið mál og getur þess í leiðinni að vatnsréttindi þar hafi ríkið átt um áratugaskeið, nánast eins og þjóðinni komi ekki við hvernig þau réttindi verði nýtt og hvenær. Hann undrar sig á andófi manna við línulögnum um landið þvert og endilangt, áður hafi það verið stolt manna að rafmagnsstaur stóð í hlaði: himinn Friðriks Sophussonar er rafmagnslínuturn. Hann sér ekki lengur skóginn fyrir þeim trjám, en veit sem gamall stjórnmálamaður að jafnvel hótanir verður að klæða í mjúkan búning. Landsvirkjun er löngu orðin undarlega sambandslaus við nán- asta umhverfi sitt. Talsmenn hennar og starfsmenn halda iðnir áfram látlausri þjónustu við stórkaupendur raforku og líta á áhyggjur almennings sem hvert annað fjas. En Sandgerðingar tóku af skarið: þeir kæra sig ekki um að gegnum sveitarfélagið sitt verði lagðar raflínur til Helguvíkur. Framtíðarmyndin er heldur ekki hugguleg þeim sveitarfélögum á Reykjanesi sem loksins eru laus undan áratuga hersetu: í áætlunum Landsnets verður Reykja- nesið sundurskorið með háspennulínum, um hraunin ganga fram raðir risaturna. Það víðerni sem menn hafa loksins á síðasta ára- tug fundið í næsta nágrenni við borgarþéttbýlið og uppgötvað sem söguríkan og einstakan stað er í hættu. Gestum og heimamönnum verður boðið uppá stórkostlegan gróðareit á Reykjanesi í aðflugi og brottför af landinu: stálturnaskógur Reykjaness er draumsýn Landsvirkjunarmanna. Og línurnar skulu liggja víða um nesið, sem er öruggara opnist jörðin eins og mun gerast og hefur tíðum gerst þar. Sandgerðingar hafa stigið mikilvægt skref í umræðu þjóðarinn- ar um virkjanir og stóriðju. Fólk á Reykjanesi verður næstu vikur að svara einfaldri spurningu: vilt þú búa undir raflínum, viltu hafa þær fyrir augunum hvert sem litið er á landi, hvar sem þú ert á Reykjanesi? „Ekki er hægt að sætta sig við þau umhverfisspjöll sem slík lína veldur auk þess sem hún setur hömlur á framtíðar- uppbyggingu bæjarfélagsins,” segir í samþykkt Sandgerðinga: þau sjá ekki framtíð sína undir háspennulínunum. Síðustu misserin hefur mátt heyra látlausan pirring manna sem fara um Hellisheiði yfir fyrirferð mannvirkja og lagna þar. Menn sjá ofsjónum yfir mannvirkjum í alfaraleið og þeim sem falin eru bak við leiti. Það sem áður var talið framfaramerki og staðfesting á tæknivæðingu samfélagsins er nú að verða kaun í andliti lands- ins, ör sem ekki verður farðað yfir. Það sem Sandgerðingar föttuðu í síðustu viku, skilja Friðrik Sophusson og hans menn ekki enn. Ef almenningur tuðar nóg, kvartar, mótmælir, kann að vera að stjórn- valdsmönnum skiljist á endanum að tímarnir eru að breytast. Ef til vill þarf að skipa stjórnvaldinu að stefnan sé breytt, dugi ekki annað til. Sá tilskipunardagur kann að nálgast. Háspennulínur skera landið Jafnréttismál verða að vera kosningamál í vor. Samfylkingin mun leggja sitt af mörkum til að svo megi verða. Á þessu kjör- tímabili hefur Samfylkingin reglulega tekið jafnréttismál upp á þingi og bent á nauðsyn- legar aðgerðir en einnig gagnrýnt ítrekuð brot ríkisstjórnarflokkanna á jafnréttislög- unum í tengslum við stöðuveitingar. Til að undirstrika mikilvægi málaflokksins vill Samfylking- in að jafnréttismálin verði sett undir forsætisráðu- neytið svo þau verið höfð til hliðsjónar í öllum mála- flokkum. Samfylkingin hefur barist gegn launaleynd sem viðheldur kynbundnum launamun. Undir stjórn Ingi- bjargar Sólrúnar Gísladóttur tókst að minnka kyn- bundinn launamun um helming í Reykjavík. Á sama tíma tókst ríkisstjórninni hins vegar ekki að minnka kynbundinn launamun neitt. Við höfum lagt til breytingar á fæðingarorlofslög- gjöfinni með Katrínu Júlíusdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar. Við mótmæltum har- kalega skerðingu ríkisstjórnarinnar á valfrelsi kvenna varðandi fæðingar þegar MFS-einingunni (með- ganga, fæðing, sængurlega) var lokað í vetur. Þá er fullkominn samhljómur milli Samfylk- ingarinnar og hinna fjölmörgu kvennahreyf- inga í landinu þegar kemur að kynbundnu ofbeldi og höfum við lagt til á þingi að sett verði sérstakt lagaákvæði um heimilisofbeldi. Samfylkingin er eini flokkurinn sem státar af konu sem formanni. Þrír fyrstu þingflokks- formenn Samfylkingarinnar voru konur. Nán- ast helmingur allra kvenna sem var kosinn á þing í síðustu kosningum komu úr einum flokki, Samfylkingunni. Á sama tíma var kynjahlutfall Sjálf- stæðisflokksins 18-4 í síðustu kosningum, körlum í vil. Samfylkingin ætlar að halda áfram að berjast fyrir jafnrétti og í vor ætlum við saman að ná fram þeim sögulega árangri að gera konu að forsætisráðherra í fyrsta skipti. Jafnrétti kynjanna er sameiginlegt úrlausnarefni karla og kvenna. Við þurfum aðgerðir í jafnréttismál- um. Og þær aðgerðir mun Samfylkingin framkvæma. Samfylkingin meinar það sem hún segir þegar kemur að jafnréttismálum. Höfundur er varaformaður Samfylkingarinnar. Konur og Samfylkingin Ekkert blað? 550 5600 Fyrst þú ert að lesa þetta þá hefurðu fengið Fréttablaðið. En til vonar og vara skaltu klippa þetta símanúmer út og hringja ef blaðið berst ekki. - mest lesið

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.