Fréttablaðið - 30.10.2008, Síða 22
22 30. október 2008 FIMMTUDAGUR
UMRÆÐAN
Pétur Markan skrifar um námslán
Ég gekk með svartan hund út í nóttina fyrir nokkru eftir að hafa hlustað á
fréttir dagsins. Hálfur fréttatíminn fór í
úttekt á því til hvaða lands best væri að
flýja, þegar íslensk freigáta hafði steytt á
skeri og maraði í hálfu kafi í dauðateygjun-
um. Stutt yfirlit var gefið um í hvaða
skandinavísku ríki hæstu barnabæturnar
væru, skjótafgreiddasta nýja kennitalan, öruggasta
velferðarnetið og svo framvegis. Og það sem meira
er og hrelldi mig hvað mest – hvar væri stúdentum
best borgið? Hvar er öflugasta menntakerfið fyrir
liðhlaupa úr gersigruðum útrásarher?
Íslenska ríkið stendur á krossgötum. Um leið og
erlendir lánardrottnar knýja á dyr eins og sulturinn
hjá svöngum manni þurfa forráðamenn landsins að
búa svo um hnútana að æska og framtíð þjóðarinnar
sjái ár sinni best borgið hér á fróni. Ríkisstjórnin
þarf að sannfæra stúdenta um óbrigðula kosti þess
að vera íslenskur þátttakandi í árferði sem þessu um
leið og það þarf að styðja svo við bak þeirra að þeim
gerist það kleift.
Það er morgunljóst að til þess að borga af þeim
erlendu skuldbindingum sem ríkissjóður er að
stofna til þessa dagana þarf að skera á fjármagn
margs konar ríkisstarfsemi. Lánasjóður íslenskra
námsmanna er þar eflaust freistandi biti sem
einhver ráðamanneskja kynni að líta á sem fýsilegan
kost til að hagræða í von um að þar fyndust aurar
fyrir kröfunum. Aurar sem annars væru eyrna-
merktir stúdentum.
LÍN hefur það meginhlutverk samkvæmt 1. grein
laga um sjóðinn að tryggja þeim sem falla undir
lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Með
öðrum orðum gerir sjóðurinn stúdentum kleift að
vera stúdentar og um leið kyndilberar
íslenskrar framtíðar. Í því liggur mergur
málsins og mikilvægi í senn. Það er tómt mál
að tala um ný tækifæri og nýja bjartari tíma
ef stúdentum er ekki boðið um borð. Stúdent-
ar þurfa öflugan fjárhagslegan bakhjarl til
þess að leggja viðreisninni lið með hugviti,
tækifærum og þekkingu sinni. Nú sem aldrei
fyrr þarf LÍN að sýna sig og sanna sem
öfluga stoð stúdenta og styttu, stúdenta sem
sannfæra þarf um að taka þátt í uppbyggingu
nýs þjóðfélags.
Þegar talað er um niðurskurð og samdrátt
ríkisskútunnar væri því heldur skammgóður vermir
að byrja á Lánasjóðnum eða stúdentum þar sem nýtt
vor og ný spretta hefst í huga þeirra. Einhver kynni
að líkja því að pissa í skó sinn og hefur það einmitt
löngum þótt vitgrönn ákvörðun þegar til lengri tíma
er litið og óþægilegt ef hugsað er til langferðar.
Það má með sanni segja að næsta stóra PR-mál
ríkisstjórnarinnar sé að búa þannig um hnútana að
íslensk ungmenni vilji halda áfram að byggja landið
og borga þær skuldir sem systurnar græðgi og
firring hafa borið og fætt inn í íslenskt samfélag.
Sannfæra ungt fólk um að bretta upp ermar, grípa
hrífu og koma íslenska heyinu í hús. Í því PR-máli
gegnir Lánasjóðurinn lykilhlutverki sem og ríkuleg-
ir styrkir til menntamála.
Stúdentar hafa ekki í hyggju að gerast liðhlaupar
og þaðan af síður hyggjast þeir veifa hvítum fána
uppgjafarinnar til þess að flýja sökkvandi freigát-
una. En til þess að stúdentum sé gert mögulegt að
spyrna við, lensa skipið og koma því aftur á flot
þurfa íslensk yfirvöld að hlúa að þeim líkt og þeir
væru þjóðarinnar dýrasta djásn. Þar gegnir
Lánasjóður íslenskra námsmanna lykilhlutverki.
Höfundur er framkvæmdastjóri Stúdentaráðs
Háskóla Íslands.
UMRÆÐAN
Birgir Finnbogason skrifar um
veitingarekstur
Í síðustu viku birtist í Fréttablað-inu frásögn af upplestraröð á
vegum bókaforlaganna, sem fara
mun fram á næstu vikum. Í mynda-
texta við klausuna segir að uppá-
koman verði á „gamla Súfistan-
um“. Þetta kom mér undirrituðum
nokkuð á óvart, þar sem ég hef um
árabil rekið kaffihúsið Súfistann í
Hafnarfirði og kannaðist ekki við
að þar væri nein upplestraröð í
bígerð. Súfistinn í Hafnarfirði er
nefnilega með eldri starfandi
kaffihúsum á Íslandi, hann hefur
verið rekinn á sömu kennitölu frá
árinu 1994. Við lestur greinarinn-
ar kom reyndar í ljós að upplestra-
röð þessi verður hvorki í „gamla
Súfistanum“ við Strand-
götu í Hafnarfirði né
„nýja Súfistanum“ í Iðu-
húsinu við Lækjargötu
heldur virðist sem með
„gamla Súfistanum“ sé átt
við Te & kaffi við Lauga-
veg.
Áður en Penninn keypti
Bókabúð Máls og menn-
ingar rak undirritaður í
11 ár kaffihús undir nafni
Súfistans á annarri hæð þeirrar
bókabúðar við Laugaveg. Fyrir
átti Penninn bókabúðirnar
Eymundsson og komst þannig í
einokunaraðstöðu í bóksölu á
Íslandi. Skömmu síðar keypti
Penninn einnig Te og kaffi og fljót-
lega varð ljóst að eigendum hans
var í mun að losna við Súfistann úr
húsinu til að skapa sínum eigin
veitingarekstri rými þar. Þar sem
samningar Súfistans við
Mál og menningu höfðu
verið með óformlegra
móti og byggt meira á
gagnkvæmu trausti og
drengskap en strangasta
laganna bókstaf, urðu
lyktirnar þær að Súfistinn
varð að víkja, þrátt fyrir
að hafa unnið málaferli
þar að lútandi fyrir Hér-
aðsdómi Reykjavíkur. Í
sumar tók Súfistinn síðan til starfa
í nýju húsnæði við Lækjargötu á
efri hæð bókabúðarinnar Iðu.
Ástæður Pennans fyrir því að
koma þarna á fót sínu eigin kaffi-
húsi voru í upphafi einkum þær
hve innréttingar voru orðnar lúnar
og gamlar, að sögn forráðamanna
fyrirtækisins. En þrátt fyrir að
allt hið gamla hafi verið þeim slíkt
eitur í beinum að því þurfti
skilyrðislaust að farga, var þó eins
og Súfistinn væri þeim einatt afar
ofarlega í huga þegar hið nýja
kaffihús var kynnt. Þá voru setn-
ingar á borð við: „Einnig verður
boðið upp á ljúffengar tertur í
engu minna úrvali en var á Súfist-
anum“ og „Súfistinn var meðal
annars þekktur fyrir öflugt menn-
ingarsamstarf við Mál og menn-
ingu og það heldur áfram af full-
um krafti“ regla fremur en
undantekning. Auðvitað verður að
líta á það sem mikið hól fyrir Súf-
istann þessi blygðunarlausa eftir-
öpun á Súfistanum, sem starfrækt
hefur verið í húsnæðinu síðan
hinum raunverulega Súfista var
hent þaðan út. Hins vegar er að
mínu mati fulllangt gengið þegar
Te og kaffi er beinlínis kallað
„gamli Súfistinn“ í kynningum á
því sem þar fer fram. Ég hlýt að
mega gera þá kröfu að því sé taf-
arlaust hætt.
Að gefnu tilefni vil ég því ítreka
að ekkert er til sem heitir „gamli
Súfistinn“. Súfistinn er við Strand-
götu í Hafnarfirði og hefur auk
þess verið starfræktur í Iðuhús-
inu við Lækjargötu síðan í sumar.
Þar er sem fyrr boðið upp á frá-
bærar tertur og ýmsa smárétti
auk úrvals kaffidrykkja sem unnt
er að njóta við yndislegt útsýni
yfir Torfuna. Þar má einnig glugga
í blöð og tímarit, sem heimilt er að
taka með sér úr bókabúðinni Iðu í
þeim tilgangi. Mig langar að nota
tækifærið til að bjóða alla „gamla“
og nýja viðskiptavini hjartanlega
velkomna þangað, á eina Súfist-
ann í Reykjavík.
Höfundur á og rekur Súfistann.
BIRGIR
FINNBOGASON
„Gamli Súfistinn“ er ekki til
PÉTUR MARKAN
LífLÍNa stúdenta
UMRÆÐAN
Ásdís Káradóttir og Marta
Þorvaldsdóttir skrifa um
krabbameinsleit
Miklar breytingar hafa orðið á leitarsviði Krabbameins-
félagsins nú á haustmánuðum.
Farið var í endurnýjun á brjósta-
myndatækjum og til þess þurfti
að gera breytingar á húsnæði
félagsins. Auk þess að gera upp
og breyta húsnæðinu var bókun-
ar- og tölvukerfi einnig breytt.
Nú eru allar upplýsingar á tölvu-
tæku formi sem stuðla að aukinni
skilvirkni í starfsemi leitarstöðv-
arinnar. Konur sem koma til
okkar verða fljótt varar við þess-
ar breytingar. Mikill metnaður
hefur verið lagður í að gera
umhverfið hlýlegt og aðlaðandi.
Á biðstofunni eru nú snertiskjáir
þar sem konurnar svara sjálfar
heilsufarsspurningum sem varða
skoðunina og aðstoða hjúkrunar-
fræðingar þær sem þess óska.
Heilsufarsspurningarnar berast
rafrænt til skoðunarlæknis. Raf-
rænt samskiptaform er til þæg-
inda fyrir konurnar, stuðlar að
betri þjónustu, aukinni persónu-
vernd og vonandi styttri biðtíma.
Starfsemi leitarsviðs skiptist
annars vegar í skimun eftir leg-
hálskrabbameini og hins vegar í
leit að brjóstakrabbameini. Nú
undanfarið hefur verið mikil
umræða um brjóstakrabbameins-
leitina og mikilvægi hennar.
Skimun eftir leghálskrabbameini
er ekki síður mikilvæg því með
frumustroki frá leghálsi er unnt
að greina leghálskrabbamein á
forstigi eða algjöru byrjunarstigi
(hulinstigi). Þeir sem annast
skoðunina eru vel menntað og
hæft starfsfólk, bæði hjúkrunar-
fræðingar og læknar.
Leghálskrabbameinsleitin
boðar konur á aldrinum 20 til 69
ára í skoðun annað hvert ár.
Konur sem greinast með frumu-
breytingar eru boðaðar í þéttara
eftirlit. Konur eldri en 69 ára eru
velkomnar þótt þær fái ekki boð-
unarbréf. Nýgengi krabbameins
í leghálsi hefur farið lækkandi
hér á landi á síðustu áratugum og
er nú í 10. sæti allra krabbameina
hjá konum en var í 2. sæti á árun-
um 1957-1961. Nú eru tæplega
2,5% allra krabbameina hjá
konum á Íslandi leghálskrabba-
mein og meðalaldur þeirra sem
greinast með krabbameinið er 46
ár. Fyrst og fremst er því að
þakka, að konum á Íslandi hefur
boðist að taka þátt í skipulagðri
leghálskrabbameinsleit. Þegar
litið er á heiminn allan er legháls-
krabbamein þriðja algengasta
krabbamein kvenna.
Vitað er að HPV-vörtuveirur
(human papilloma virus) sem
smitast við samfarir eru forsend-
ur fyrir myndun illkynja æxla á
leghálsi. Langflestar smitast af
þessum veirum án þess að vita af
því eða fá einkenni og losa sig við
sýkinguna. Ekki þarf nema einn
rekkjunaut til að smitast en konur
sem hafa marga rekkjunauta,
reykja og hafa fengið klamydíu-
sýkingu eru þó í aukinni hættu á
að fá sjúkdóminn. Leggja ber
áherslu á að HPV-smit er mjög
algengt og leiðir einungis í und-
antekningartilvikum til legháls-
krabbameins.
Eins og fram hefur komið er
skimun eftir leghálskrabbameini
auðveld og skilar mjög góðum
árangri. Skoðunin kostar 3.000
krónur og í því gjaldi er innifalin
brjóstamyndataka ef konan er
boðuð í slíka rannsókn eða er
talin þurfa á slíkri rannsókn að
halda. Mörg stéttarfélög greiða
skoðunina fyrir starfsmenn sína.
Vitað er að heilsuefling á vinnu-
stöðum er mikilvæg fyrir mann-
auðinn, stuðlar að bættri heilsu
og aukinni starfsánægju sem
skilar sér til allra. Hvetjum því
allar konur til að koma í reglu-
bundna skoðun á Leitarstöð
Krabbameinsfélagsins að Skóg-
arhlíð 8 Reykjavík, það er mikil-
væg heilsuvernd.
Höfundar eru
hjúkrunarfræðingar á
Leitarstöð
Krabbameinsfélagsins.
Forvarnir og fræðsla
eru okkar fag
MARTA
ÞORVALDSDÓTTIR
ÁSDÍS
KÁRADÓTTIR
www.takk. is